Tæknispá ársins 2017
Hver verða aðalatriðin í tæknigeiranum árið 2017? Hjálmar Gíslason birtir nú árlega tæknispá sína og þar eru aðgerðir vegna falskra frétta, sjálkeyrandi bílar og Quiz-up áhrifin öll ofarlega á blaði.
Rithöfundurinn William Gibson sagði eitt sinn að framtíðin væri komin, henni væri bara ekki jafnt dreift. Við fyrstu sýn virðist þetta auðvitað fáránlegt, en hvað tækniþróun varðar er þetta dagsatt: Það sem er þegar orðið hversdagslegt sums staðar í heiminum er enn ár eða áratugi frá því að raungerast annars staðar, og það sem hægt er að sjá á tilraunastofum leiðandi rannsóknastofnana, í rannsóknarsetrum stórfyrirtækja og bílskúrum sprotafyrirtækja eru stundum hlutir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á líf okkar allra. Framtíðin er komin þar, hún á bara eftir að komast til okkar hinna.
Hér eru fimm angar framtíðarinnar sem ég held að eigi eftir að verða áberandi árið 2017:
Sjálfkeyrandi bílar
Það eru enn 5 ár í að alsjálfvirkir bílar verði í umtalsverðri og almennri notkun á tilteknum svæðum í heiminum og 10 ár þangað til sá veruleiki nær hingað til lands. En það þýðir ekki að tæknin sem þeir byggja á skili sér ekki til okkar hraðar. Hún er raunar þegar farin að gera það. Bílar koma með sífellt fleiri skynjurum og myndavélum sem aðstoða ökumanninn með hljóðmerkjum og betri yfirsýn. Næsta skref eru bein inngrip í aksturinn: „Cruise control" sem tekur mið af hraða umferðarinnar í kringum sig, leiðrétting akstursstefnu ef bíllinn rásar ómarkvisst yfir á næstu akgrein og bein inngrip ef bíll lenti í blinda blettinum, eða það stefnir í árekstur. Þetta magnaða myndband hér að neðan sýnir t.d. hvernig Tesla-bíll á sjálfstýringu sér fyrir hættu og grípur til öryggisráðstafana áður en ökumaðurinn hafði nokkra möguleika á að átta sig á því að einhver hætta væri á ferðum. Tækni af þessu tagi eigum við eftir að sjá í jafnvel ódýrari bílum frá og með komandi ári.
Fyrsta verulega útbreiðsla bíla án ökumanna verður líklega í vöruflutningabílum. Vöruflutningar eru að mörgu leyti auðveldara úrlausnarefni en hin fjölbreyttu not einkabílsins. Annað sem gæti flýtt fyrir þessari þróun eru öryggismál. Í kjölfar hryðjuverkanna í Nice og Berlín er vel hugsanlegt að þess verði krafist fyrr en síðar að hægt sé miðlægt að grípa inn í akstur - eða að minnsta kosti drepa á - flutningabílum við tilteknar kringumstæður, s.s. þjófnað eða hreinlega ef bílinn reynir að aka nálægt skilgreindum öryggissvæðum.
Tekist á við falsaðar fréttir
Dreifing á villandi og hreinlega fölsuðum fréttum og upplýsingum komst í hámæli á árinu 2016, sérstaklega í tenglsum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og Brexit kosninguna í Bretlandi. Við Íslendingar eigum okkar fulltrúa á þessu sviði eins og öðrum, en það er önnur saga.
Það eru margvíslegar áhugaverðar siðferðisspurningar í þessum efnum sem ekki verða leystar með tækninni, en flestum ber þó saman um að það sé eðlilegt að vekja athygli á því ef efni sem sett er fram í fréttaformi er beinlínis uppskáldað eða rangt farið með mál í grundvallaratriðum. Að mörgu leyti minnir þetta vandamál á ruslpóst sem fór langleiðina með að eyðileggja tölvupóst sem samskiptaleið í lok síðustu aldar (meira en 90% allra póstsendinga voru ruslpóstur) og „falskar“ leitarniðurstöður sem gerðu bestu leitarvélar vefsins, s.s. AltaVista, Hotbot og Yahoo ónothæfar um svipað leyti. Í báðum tilfellum var lausnin svipuð: Samtvinnun „mannlegra“ upplýsinga og sjálfvirkra algríma. Google á tilvist sýna hreinlega að þakka yfirburðum í að takast á við síðarnefnda vandamálið.
Lausnin á dreifingu villandi upplýsinga verður líklega með svipuðum hætti. Efni sem er augljóslega bull verður síað í burtu alfarið (nema etv. fyrir þá sem kjósa að sjá það sérstaklega) og grunsamlegt efni merkt sérstaklega eða sett í sérstakt „hólf“, ekki ólíkt því sem við þekkjum flest með ruslpóst úr tölvupóstinum okkar. Facebook er þegar farið að gera tilraunir með þetta sem lofa góðu.
Tæknirisarnir sífellt líkari
Munurinn á stærstu tæknirisum samtímans fer sífellt minnkandi. Þó Amazon, Google, Microsoft og Apple eigi uppruna sinn í afar ólíkum geirum og meginstarfsemi þeirra sé enn nokkuð ólík er sífellt meiri skörun á milli þeirra. Amazon var upphaflega bókabúð, en er nú heimsins stærsti sölu- og rekstraraðili gagnavera. Apple byrjaði sem tölvuframleiðandi, en leggur nú ekki síst áherslu á endursölu hugbúnaðar í gegnum App store. Google var leitarvél (og auglýsingasali), en hefur hellt sér á fullt í símaframleiðslu. Og staðnaði hugbúnaðarrisinn Microsoft er að verða „kúl“ aftur með verkefnum eins og HoloLens, kaupum á LinkedIn og ótrúlega vel heppnaðri yfirfærslu á mjólkurkúnni Office yfir í skýjaþjónustuna Office 365. (a.m.k. viðskiptalega).
Allir þessir aðilar framleiða nú farsíma, allir bjóða upp á „cloud computing“ þjónustu, a.m.k. 3 þeirra eru að gera tilraunir með sjálfkeyrandi bíla og allir bjóðast til að geyma myndir og önnur persónuleg gögn í misgóðum vefþjónustum. Facebook nálgast svo þennan hóp úr enn einni áttinni.
Þessi þróun mun halda áfram og pressan er að mörgu leyti á Apple, sem er nú stærsta fyrirtæki heims, en svolítið að „missa kúlið“. Undir stjórn Steve Jobs gerði Apple ekki bara kúl hluti, Apple gerði hluti kúl. Tim Cook hefur ekki - frekar en aðrir - sömu hæfileika og Jobs í því og nýlegar vörur á borð við úrið Apple Watch og nýjustu útgáfur af iPhone hafa ekki staðið almennilega undir væntingum. Apple mun líklega leggja mikið upp úr 10 ára afmælisútgáfu iPhone sem væntanleg er á árinu. Ef þeir finna ekki kanínu í þeim hatti spái ég því að Google sigli hægt og rólega fram úr þeim á næstu 1-2 árum í bæði markaðsvirði og áhrifum.
Viðbættur veruleiki og sýndar-
Í tæknispánni í fyrra talaði ég um sýndarveruleikann og ekki síst hlut íslenskra fyrirtækja í framvarðarsveit þar. Útbreiðsla sýndarveruleikatækja hefur ekki verið jafn hröð og bjartsýnustu spár sögðu til um, en allir helstu framleiðendur á þessum markaði stigu stór skref á árinu og hvert skref sýnir betur möguleika tækninnar. Allir framleiðendurnir eiga þó eftir 2-3 ítranir í viðbót þangað til þessi tæki eiga möguleika á almennum markaði. Gefum þessu 3-4 ár.
Microsoft kom líka nokkuð á óvart með HoloLens-tækninni sinni sem er á sviði „viðbætts veruleika“ (e. augmented reality) sem blandar saman þrívíðum hlutum og stafrænum heimi tölvunnar við raunveruleikann og þannig „birtast“ hlutir í umhverfinu sem eru alls ekki þar. HoloLens er ekki enn komið á almennan markað og Microsoft hefur ekki gefið út hvenær svo verður, en tæknin er lygilega góð. Sýndarveruleikatæknin er umfram allt leiktæki, en viðbættur veruleiki á talsvert fleiri og augljósari praktísk not, allt frá heilbrigðisgeiranum til hermennsku (sem er auðvitað ekki praktík, en þið skiljið hvað ég á við) og skrifstofuvinnu til iðnaðarsmíða. Það er ekki ólíklegt að það eigi eftir að flýta þessari þróun eitthvað.
Í þessum geira er líka sprotafyrirtækið Magic Leap sem mikið „hæp“ hefur verið í kringum. Fyrirtækið hefur fengið stjarnfræðilegar upphæðir í fjármögnun og lofsamlegar umsagnir frá sumum af virtustu tæknifrömuðum heimsins, en einhvernveginn finnst mér fyrirtækið líklegt til að verða fórnarlamb ofurvæntinga sem ekki verður vinnandi vegur að standa undir. Eða ég hef rangt fyrir mér og það er alger bylting í afþreyingu og samskiptum á næsta leyti. Umfjöllun Wired um fyrirtækið er í öllu falli þess virði að lesa og láta sig dreyma.
Á Íslandi: Quiz-up áhrifin og fleira
Á Íslandi ætti að verða bæði uppskera og sáning í sprotageiranum. Við ættum að fara að sjá talsvert meira til þeirra fyrirtækja sem stóru sjóðirnir þrír: Frumtak II, SA Framtak og Eyrir Sprotar hafa verið að fjárfesta í, og einhver fyrirtæki úr fyrri sjóði Frumtaks eru líkleg til að fá einhvers konar „exit“ fljótlega. Það er að sumu leyti óheppilegt að þessir sjóðir hafi allir farið af stað á nákvæmlega sama tíma. Hefðu mátt vera 1-2 ár á milli þeirra til að sjá betri dreifingu í svona fjárfestingum. En sannarlega betra að hafa þá en ekki! Svo er að fara af stað nýr sjóður - Crowberry Capital - með örlítið aðrar áherslur sem mun hjálpa til við frumfjármögnun fyrirtækja. Það sama gildir um hinn nýja styrkjaflokk Tækniþróunarsjóðs - Vöxt - en hvort tveggja mun hjálpa til við að brúa gat sem hefur verið í íslenska fjármögnunarumhverfinu. Aflétting hafta á líka að hjálpa, þannig að heilt yfir hefur fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja aldrei verið betra hér á landi.
Það gætir þó svolítilla „ruðningsáhrifa“ frá ferðageiranum um þessar mundir, bæði í því að hann dregur til sín fólk úr tæknigeiranum eins og öðrum, en ekki síður í gengi krónunnar sem hefur fært Ísland í mjög dýran flokk þegar kemur að hugbúnaðarstörfum. Þetta hefur allt áhrif, og ekki síst eru þessar sífelldu hag- og gengissveiflur til trafala við uppbyggingu í geiranum. Mikill kostnaður, sem útleggst í raun sem há laun á alþjóðlegan mælikvarða, er ekki endilega vandamál. Að mörgu leyti ættum við að líta á það sem kost - en sveiflur endanna á milli á kostnaðarskalanum á örfáum árum gerir alla áætlanagerð erfiða og uppbygginguna ómarkvissa.
Við eigum við eftir að sjá nokkur ný sprotafyrirtæki spretta úr þeim jarðvegi sem endalok starfsemi Plain Vanilla á Íslandi skilur eftir sig. Þar er fólk sem hefur öðlast mikilvæga reynslu af alþjóðlegri sprotastarfsemi, myndað tengsl og skilning á því hvað þarf til að byggja upp og reka lausnir af skala sem fá ef nokkur íslensk fyrirtæki hafa áður gert. Þrátt fyrir endalokin, þá mun QuizUp áhrifanna gæta lengir, rétt eins og OZ-áhrifanna gætir enn frá því 15 árum fyrr.
-- -- --
Það stefnir með öðrum orðum í spennandi tækniár að venju og með vísun í orð Gibsons hér í upphafi get ég ekki beðið eftir að framtíðin dreifi betur úr sér.
Gleðilegt tækniár.
Höfundur er stjórnarformaður Kjarnans.