Gistináttaskattur var þrefaldaður af Alþingi fyrir jól, en breytingin tekur gildi þann 1. september næstkomandi. Meirihluti skattsins fer lögum samkvæmt í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, en sveitarfélög vilja breytingar og að þau fái meirihluta skattsins til sín.
Gera ráð fyrir 1,2 milljarða tekjuaukningu
Frá og með 1. september verður gistináttaskatturinn 300 krónur á hverja selda gistináttaeiningu í stað 100 króna nú. Samkvæmt frumvarpi um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir því að tekjur ríkisins aukist um 300 milljónir króna á þessu ári vegna breytingarinnar en um 1,2 milljarða króna á því næsta, að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.
Samkvæmt núgildandi lögum er það þannig að 3/5 hlutar þeirra tekna sem ríkið fær af gistináttaskatti fara í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Sá sjóður mun því að óbreyttu fá talsvert hærri framlög á komandi árum með hækkun skattsins. Það kemur til viðbótar þess að meira hefur innheimst af gistináttaskatti með mikilli fjölgun ferðamanna til landsins, og til að mynda fær sjóðurinn auka 45 milljónir króna af fjáraukalögum síðasta árs vegna þess að meira innheimtist af skattinum en gert var ráð fyrir.
Sveitarfélögin vilja hluta en ferðaþjónustan ekki
Samband íslenskra sveitarfélaga vill að sveitarfélög fái helming eða mögulega tvo þriðju hluta af gistináttaskatti vegna þeirra ferðamanna sem gista innan þeirra marka, og að þær tekjur renni til þess að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar í því sveitarfélagi. Þetta kom meðal annars fram í umsögn sambandsins um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins.
Samtök ferðaþjónustunnar eru á annarri skoðun, og fóru fram á það í sinni umsögn um sama mál að skatturinn yrði látinn renna óskiptur inn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. „Fyrirtæki, einstaklingar, stofnanir eða sveitafélög geta svo sótt um í sjóðinn til verkefna til uppbyggingar enda eru fjármunirnir ætlaðir til uppbyggingar ferðamannastaða. Með þessu er stjórnsýslan gagnsæ og skilvirk,“ sögðu samtökin í sinni umsögn.
Hvorug umsögnin var tekin til greina þegar málið var afgreitt frá Alþingi fyrir jólin.
Gengur hægt að úthluta
Ákveðið var að lækka framlagið til framkvæmdasjóðsins um 600 milljónir króna milli umræðna um fjárlagafrumvarpið á Alþingi fyrir jól. Ástæðan er sú að það hefur tekið mun lengri tíma að ráðstafa fé sjóðsins en gert hafði verið ráð fyrir. Kjarninn hefur áður greint frá því að miklir fjármunir hafi legið óhreyfðir í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Í fjárlögum síðasta árs var ákveðið að auka framlögin um 517 milljónir króna þrátt fyrir að þá hefðu 1,2 milljarður króna legið óhreyfður í sjóðnum um langt skeið. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið greindi frá því í september árið 2015 að við undirbúning fjárlaga fyrir 2016 hefði komið í ljós að „umtalsverðir fjármunir“ eða 1,2 milljarðar króna, lægju enn óhreyfðir í sjóðnum. Þessum fjármunum hafði ekki enn verið ráðstafað í þau verkefni sem þeim hafði verið úthlutað til. Ýmsar ástæður væru fyrir því en ljóst væri að bæta þyrfti úr skipulagi og framkvæmd.
Samkvæmt vef Ferðamálastofu, sem hefur umsjón með Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, hefur tæplega þremur milljörðum króna verið úthlutað út sjóðnum frá fyrstu úthlutuninni árið 2012. Þá er ekki tekið tillit til nýjustu úthlutunarinnar, en umsóknarfrestur rann út í lok október síðastliðins. Rúmlega 500 verkefni hafa verið styrkt á þessum tíma, en líkt og fram hefur komið hefur það iðulega gerst undanfarin ár að tafir hafa orðið á verkefnum sem hafa fengið úthlutað úr sjóðnum. Kjarninn hefur sent fyrirspurn til Ferðamálastofu um stöðuna á sjóðnum núna.