Hverjir eru ráðherrarnir í nýrri ríkisstjórn?
Fyrsta ráðuneyti Bjarna Benediktssonar tók formlega við á miðvikudag. Í því sitja ellefu ráðherrar. Kjarninn kannaði hvaða fólk þetta er.
Ellefu ráðherrar sitja í nýrri ríkisstjórn Íslands sem starfar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Ráðherrarnir funduðu í fyrsta sinn með Guðna Th. Jóhannessyni á ríkisráðsfundi á Bessastöðum miðvikudaginn 11. janúar. Tveir ráðherranna sátu í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar sem var veitt lausn fyrr þennan dag. Það eru Bjarni Benediktsson og Kristján Þór Júlíusson sem báðir taka að sér ný ráðuneyti.
Þrír flokkar mynda meirihlutann á Alþingi sem veitir stjórninni umboð sitt. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð. Sjálfstæðisflokkurinn skipar sex ráðherra, Viðreisn skipar þrjá og Björt framtíð tvo. Fjórar konur og sjö karlar hljóta ráðherradóm í ríkisstjórninni, þar á meðal yngsta konan til að gegna ráðherraembætti í sögu lýðveldisins. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fær þann heiður því hún er aðeins 29 ára gömul. Aðeins einn ráðherra hefur verið yngri en hún, en Eysteinn Jónsson var 27 ára gamall þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra 1934.
Sjö ráðherranna hafa aldrei gengt ráðherraembætti áður. Það eru Þórdís Kolbrún, Sigríður Andersen, Jón Gunnarsson, Óttarr Proppé, Benedikt Jóhannesson, Björt Ólafsdóttir og Þorsteinn Víglundsson. Þau Þórdís Kolbrún, Benedikt og Þorsteinn tóku sæti á Alþingi í fyrsta sinn eftir kosningarnar í haust.
Öll þau sem taka sæti í ríkisstjórn eru að taka við nýjum málaflokkum sem þau hafa ekki verið ráðherrar yfir áður. Bjarni fer úr fjármálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið, Kristján Þór tekur við menntamálum eftir að hafa verið heilbrigðisráðherra í síðustu ríkisstjórn og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en hún var menntamálaráðherra frá 2003-2009.
Þetta er jafnframt fyrsta ríkisstjórnin sem Guðni Th. Jóhannesson skipar sem forseti Íslands en hann tók við búinu á Bessastöðum 1. ágúst í fyrra. Þá hafði Sigurður Ingi Jóhannsson stýrt ráðuneyti sínu frá í apríl.
Nánar má lesa um ríkisstjórnir Íslands á vef Stjórnarráðsins. Hér að neðan er stutt umfjöllun um hvern ráðherra fyrir sig, unnin upp úr æviágripum þeirra á vef Alþingis. Myndina að ofan tók Gunnar Vigfússon, en hann hefur myndað allar ríkisstjórnir síðan 1973.
Bjarni er fæddur í Reykjavík 26. janúar 1970. Bjarni tók fyrst sæti á Alþingi árið 2003 fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi. Hann var fjármála- og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og svo ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar árin 2013-2017. Hann var formaður allsherjarnefndar Alþingis árin 2003-2007. Bjarni hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins síðan 2009.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1989 og lauk lögfræðifprófi í Háskóla Íslands árið 1995. Hann hlaut LL.M.-gráðu í lögfræði frá University of Miami School of Law í Bandaríkjunum árið 1997. Héraðsdómslögmannsréttindi árið 1998.
Benedikt er fæddur í Reykjavík 4. maí 1955. Benedikt var fyrst kjörinn á Alþingi eftir kosningarnar haustið 2016 fyrir nýtt framboð Viðreisnar. Hann situr sem þingmaður Norðausturkjördæmis. Þegar þing kom saman í vetur sat hann sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Áður en Benedikt tók sæti á Alþingi hefur hann setið í og gengt formennsku í stjórnum allmargra fyrirtækja. Hann er framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Heims síðan árið 2000 og hefur stýrt ráðgjafafyrirtækinu Talnakönnun sem hann stofnaði sjálfur árið 1984. Benedikt varð fyrsti formaður Viðreisnar árið 2016.
Benedikt lauk stúdentsprófi frá MR árið 1975 og B.Sc.-prófi í stærðfræði og hagfræði frá University of Wisconsin árið 1977. Hann hlaut meistarapróf í tölfræði frá Florida State University árið 1979 og doktorsprófi í tölfræði sem aðalgrein og stærðfræði sem aukagrein frá sama skóla árið 1981.
Óttarr er fæddur í Reykjavík 7. nóvember 1968. Hann var fyrst kjörinn á þing úr Reykjavíkurkjördæmi suður árið 2013 fyrir Bjarta framtíð en er nú oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi og er formaður Bjartrar framtíðar síðan 2015. Óttarr var kjörinn borgarfulltrúi fyrir Besta flokkinn árið 2010 og sat í borgarstjórn þar til hann settist á Alþingi. Óttarr er einnig þekktur sem tónlistarmaður með hljómsveitunum HAM, Dr. Spock, Rass og fleiri frá 1988. Hann hefur einnig fengist við fleiri listgreinar.
Óttarr lauk prófi frá Pennridge High School í Pennsilvaníu í Bandaríkjunum árið 1986.
Þorgerður Katrín er fædd í Reykjavík 4. október árið 1965. Hún var fyrst kjörin á þing sem þingmaður Reyknesinga árið 1999 og síðar sem þingmaður Suðvesturkjördæmis frá 2003 til 2013 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún gaf ekki kost á sér í kosningunum árið 2013 og gekk til liðs við Viðreisn árið 2016 og situr nú aftur sem þingmaður Suðvesturkjördæmis. Hún var menntamálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 2003 til 2009. Þorgerður Katrín var formaður allsherjarnefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA árin 1999-2003.
Þorgerður Katrín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1985 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1993.
Þórdís Kolbrún er fædd á Akranesi 4. nóvember 1987. Hún var fyrst kjörin á þing í kosningunum 2016 og situr sem þingmaður Norðvesturkjördæmis. Hún var aðstoðarmaður Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, 2014 til 2016 og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins árin 2013 til 2014. Hún var lögfræðingur hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála árin 2011-2012. Þórdís Kolbrún hefur einnig gengt fleiri trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þórdís Kolbrún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 2007 og BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og svo ML-prófi árið 2012. Hún var í skiptinámi í lögfræði í Salzburg árið 2011.
Sigríður er fædd í Reykjavík 21. nóvember 1971. Hún tók fyrst sæti á Alþingi við andlát Péturs Blöndal árið 2015. Þá hafði hún tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður frá 2008. Hún hefur starfað sem lögfræðingur og lögmaður hjá Verslunarráði Íslands 1999-2005, í dómstólaráði 2004-2009 og sem héraðsdómslögmaður hjá LEX 2007-2015. Sigríður var í stjórn útgáfufélagsins Andríkis árin 1995-2006 og í ritstjórn Vefþjóðviljans árin 1995-2006. Hún hefur einnig gengt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Sigríður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1991 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1999. Hún hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2001.
Jón er fæddur í Reykjavík 21. september 1956. Hann hefur verið Alþingismaður fyrir Suðvesturkjördæmi síðan 2007. Hann var formaður atvinnuveganefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál frá 2013 til 2016. Jón hefur starfað sem bóndi, yfirmaður auglýsinga- og áskriftardeildar Stöðvar 2, markaðsstjóri prentsmiðjunnar Odda og framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann hefur einnig gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum í hinum ýmsu björgunarsveitum og fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Jón er með próf frá málmiðnaðardeild Iðnskólans í Reykjavík frá 1975 og með próf í rekstrar- og viðskiptafræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 1996.
Kristján Þór er fæddur á Dalvík 15. júlí 1957. Hann hefur verið Alþingismaður Norðausturkjördæmis síðan 2007 og var heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili. Hann var bæjarstjóri Dalvíkur 1986-1994, bæjarstjóri Ísafjarðar 1994-1997 og bæjarstjóri Akureyrarbæjar 1998-2007. Áður starfaði hann sem stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík og svo sem kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík. Hann hefur einnig setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félaga tengdum sjávarútvegi. Kristján Þór hefur einnig gengt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Kristján Þór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1977 og skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1978. Hann lagði stund á nám í íslensku og almennum bókmenntum við Háskóla Íslands og lauk kennsluréttindaprófi þaðan árið 1984.
Björt er fædd á Torfastöðum í Biskupstungum 2. mars 1983. Hún hefur verið Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan árið 2013. Áður en hún tók sæti á Alþingi starfaði hún sem meðferðarfulltrúi við Meðferðarheimilið Torfastöðum 1997 til 2004 og sem stuðningsfulltrúi og verkefnastjóri á geðdeildum Landspítalans með námi 2006 til 2009. Hún starfaði svo við viðskiptaþróun og mannauðsmál hjá Vinun árin 2010 og 2011 og varð svo mannauðs- og stjórnunarráðgjafi hjá Capacent 2011 til 2013. Hún var formaður Geðhjálpar árin 2011 til 2013.
Björt lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2003 og BA-prófi í sálfræði og kynjafræði frá Háskóla Íslands árið 2007. Hún lauk meistaraprófi í mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Lundi árið 2008.
Guðlaugur Þór er fæddur í Reykjavík 16. desember 1967. Hann hefur verið þingmaður Reykvíkinga síðan 2003. Hann var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2007-2008 og heilbrigðisráðherra 2008-2009. Hann borgarfulltrúi í Reykjavík 1998-2006. Áður en Guðlaugur Þór tók sæti á þingi sinnti hann ýmsum störfum hjá fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum. Guðlaugur Þór hefur einnig sinnt ýmsum trúnaðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins. Hann var formaður umhverfisnefndar Alþingis 2004-2007, formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA 2003-2007, formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES 2013-2016 og formaður þingmannanefndar Íslands og ESB 2013-2016. Guðlaugur hefur gengt formennsku og átt sæti í stjórnum alþjóðlegra stjórnmálahreyfinga.
Guðlaugur Þór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1987 og BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1996.
Þorsteinn er fæddur á Seltjarnarnesi 22. nóvember 1969. Hann tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn eftir kosningarnar 2016 sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 2013-2016. Áður hafði hann starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda 2010-2013, framkvæmdastjóri BM Vallár hf. 2002-2010 og sem forstöðumaður hjá Kaupþingi í Lúxembourg 1998-2002. Hann hefur setið í stjórn Samtaka iðnaðarins, Iðunnar, fræðsluseturs og Virk – starfsendurhæfingarsjóðs auk þess að hafa verið varaformaður og formaður lífeyrissjóðsins Gildis árin 2014-2016.
Þorsteinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjvík árið 1990 og BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1995. Þá hefur hann AMP frá IESE Business School, University of Navarra.