Árið 2016 var árið þar sem skoðanakannanir virtust algerlega marklausar. Fæstir höfðu reiknað með að Bretar kysu með því að ganga úr Evrópusambandinu og sigur Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum kom eins og vatnsgusa framan í flesta stjórnmálaskýrendur. Meira að segja hér á Íslandi voru úrslitin töluvert frá því sem búist var við. Pópúlismi er í uppsveiflu víða um heim og erfitt að reiða hendur á hann þar sem fylgið mælist illa í könnunum. Frjálslynt og alþjóðasinnað fólk er því með í maganum yfir flestum kosningum sem haldnar eru. Hér verður farið yfir nokkrar af þýðingarmestu kosningum sem haldnar verða á árinu 2017.
Þingkosningar í Hollandi
Þann 15. mars ganga Hollendingar að kjörborðinu. Allra augu munu beinast að Frelsisflokknum (PVV) og leiðtoga hans Geert Wilders. Flokkurinn er af meiði þjóðernispópúlisma og Wilders hefur verið einn umdeildasti stjórnmálamaður Evrópu um nokkurt skeið þá sérstakelga fyrir framgöngu sína gegn islam. Wilders vill banna kóraninn, koma í veg fyrir moskubygginar og sekta konur fyir að ganga með höfuðklúta. Hann komst í fréttirnar fyrir meiðandi ummæli um Marokkóbúa á framboðsfundi árið 2014 og var dæmdur fyrir þau nú í desember, en án refsingar þó. Wilders hefur notað þennan dóm til að gera sig að píslarvætti tjáningarfrelsisins og það virðist virka.
Frelsisflokkurinn sem fékk 10% í seinustu þingkosningum árið 2012 er nú að mælast með um 30% í skoðanakönnunum sem myndi að öllum líkindum gera hann að stærsta þingflokki landsins. Stjórnmálaskýrandinn Tom Jan-Meus telur að kosning Donald Trump muni hafa töluverð áhrif á hollensku þingkosningarnar. Fyrir kosningarnar sagði hann:
„Hollendingar munu sennilega taka harkalega hægribeygju í mars. Hversu langt til hægri þeir fara er í höndum bandarískra kjósenda.“
Wilders hefur heitið því að draga Holland út úr Evrópusambandinu ef flokkurinn sigrar kosningarnar og kemst í ríkisstjórn. Talað hefur verið um Nexit í því samhengi og yrði mikið áfall fyrir sambandið. Holland er öflugt verslunarland og 17. stærsta hagkerfi heims þrátt fyrir að þar búi einungis um 17 milljónir íbúa. Hollendingar hafa einnig verið dyggustu stuðningsmenn Evrópusambandsins hingað til, ásamt Belgum og Lúxemborgurum. Ef þetta vígi fellur gæti það haft dómínó-áhrif um álfuna. Aðrir flokkar gætu þó reynt að mynda bandalag gegn Frelsisflokknum.
Nú sitja tveir stærstu flokkar landsins til hægri og vinstri saman í stjórn. Flokkur forsætisráðherrans Mark Rutte, Frelsis og lýðræðisflokkur fólksins (VVD), mun að öllum líkindum halda sjó að mestu leyti en búist er við afhroði hjá Verkamannaflokknum (PvdA). Það er því ljóst að Rutte mun þurfa að leita til fleiri flokka ef takast á að halda Wilders frá stjórnartaumunum. Það er þó ekki víst að Wilders nái að koma Hollandi úr Evrópusambandinu þó að hann sigri kosningarnar. Stuðningur við úrsögn er ekki mikið hærri en það fylgi sem PVV mælist með í könnunum. Brexit kenndi okkur þó að treysta könnunum tæplega.
Forsetakosningar í Frakklandi
Forsetakosningarnar í Frakklandi eru tvískiptar. Fyrri umferðin fer fram 23. apríl og sú seinni milli tveggja efstu frambjóðandanna 7. maí. Í síðustu kosningum, árið 2012, sigraði Sósíalistinn Francois Hollande sitjandi forseta Nicolas Sarkozy með mjög naumum mun. Þá fékk Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar (Front Nationale) tæplega 18% atkvæða. Nú er hún talin líkleg til að komast í aðra umferð kosninganna þar sem fylgið við hana mælist nú um 25-27% og hefur verið á uppleið. Í öðru sæti kannana er Repúblíkaninn Francois Fillon sem talið er að komist nær örugglega í aðra umferð kosninganna. Sósíalistar eru aftur á móti í miklum vandræðum.
Þann 29. janúar mun það ráðast hvort að Benoit Hamon eða Manuel Valls verður frambjóðandi þeirra en talið er nær óhugsandi að annar hvor þeirra komist áfram. Helsta ástæða þess eru miklar óvinsældir Hollande forseta. Von vinstri manna er því bundin við fyrrum viðskiptaráðherrann Emmanuel Macron sem klauf Sósíalistaflokkinn og stofnaði Hreyfinguna! (En Marche!) árið 2016. Hann hefur verið að mælast með tæplega 20% fylgi undanfarið.
Það hefur áður gerst að frambjóðandi hinnar þjóðernispópúlísku Þjóðfylkingar komist í aðra umferð, þ.e. árið 2002. Þá náði Jean-Marie Le Pen, faðir Marine, mjög óvænt inn með tæplega 17% fylgi en atkvæði í þeim kosningum dreifðust mjög víða. Frökkum var mjög brugðið og fylktu sér bakvið forsetann Jacques Chirac sem var þó mjög óvinsæll á þessum tíma. Chirac fékk aðeins tæp 20% í fyrri umferðinni en rúmlega 82% í þeirri seinni. Le Pen hækkaði hins vegar aðeins um tæpt prósentustig milli umferða. Ef Francois Fillon og Marine Le Pen mætast í annarri umferð í þessum kosningum er ólíklegt að bilið verði jafn mikið og ekki loku fyrir því skotið að Le Pen gæti unnið. Bylgja þjóðernispópulisma í Evrópu hefur gert boðskap Þjóðfylkingarinnar mun ásættanlegri í augum almennings en hann var árið 2002. Marine er einnig mun fágaðri frambjóðandi en faðir hennar sem hefur látið mörg stæk ummæli falla um aðra kynþætti og útlendinga í gegnum tíðina. Ef Marine Le Pen vinnur er ljóst að eitt mál kemst á oddinn í frönskum stjórnmálum, útganga Frakklands úr Evrópusambandinu eða Frexit. Hvort sambandið lifi það af er stór spurning.
Þingkosningar í Þýskalandi
Kosningar til þýska sambandsþingsins verða haldnar þann 24. september. Reyndar eru einnig forsetakosningar í landinu strax 12. febrúar sem skipta mun minna máli en gætu gefið einhverja vísbendingu um hvernig þingkosningarnar fara. Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, hefur verið kanslari síðan árið 2005 og hyggst verða það áfram en staða hennar hefur sjaldan eða aldrei verið jafn veik. Hún hefur tekið afdráttarlausa afstöðu með flóttafólki og hleypt um einni milljón inn í landið á undanförnum árum. Hún hefur skapað sér stöðu sem óumdeildur leiðtogi evrópskrar frjálslyndisstefnu og eftir að Trump tók við að Obama sem forseti Bandaríkjanna þá á það við um heiminn allan líka. Þjóðernispópúlisminn hefur fest rætur í Þýskalandi og birtist það helst í auknu fylgi við flokkinn Valkost fyrir Þýskaland (AfD).
Flokkurinn sem stofnaður var fyrir þingkosningarnar 2013 fékk þá tæplega 5% fylgi og náði ekki inn mönnum en þar er sama fyrirkomulag og hér á Íslandi með 5% þröskuld. Nú mælist flokkurinn með um 10-15% sem er ekki jafn hátt og í mörgum öðrum Evrópulöndum en engu að síður er öruggt að þeir fái þó nokkuð marga þingmenn. Eftir kosningarnar 2013 mynduðu tveir stærstu flokkar Þýskalands, Kristilegir demókratar og Sósíaldemókratar, ríkisstjórn. Þá vann Merkel stórsigur með 41,5% fylgi en samstarfsflokkurinn fékk 25,7%. Það er búist við að báðir flokkarnir tapi fylgi í kosningunum í september en ólíklegt þykir að þeir tapi meirihlutanum. Spurningin er aftur á móti hvort þeir hafi áhuga á að starfa áfram saman í breiðfylkingu ef tapið verður stórt fyrir báða flokka.
Búist er við því að kosningabaráttan verið mjög sóðaleg, sérstaklega miðað við Þýskaland, og að stefna Merkel í flóttamannamálum og vandræði Evrópusambandsins verði helstu deilumálin. Telja verður þó líklegt að Merkel verði í þeirri stöðu að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar því það er enginn annar leiðtogi í sjónmáli til að taka við af henni. Helstu tíðindi kosninganna verða hins vegar innkoma AfD. Stjórnmálaskýrandinn Nina Schick orðar þetta svo:
„Ég held að aðalfréttin úr kosningunum verði sú að AfD, öfga-hægri pópúlistaflokkur, mun komast yfir þröskuldinn til að komast inn á sambandsþingið. Að það skuli gerast í þýskum stjórnmálum hræðir fólk.“
Ólíkt ástandinu í Hollandi og Frakklandi þá er ekkert í spilunum sem bendir til þess að Þýskaland, stærsta hagkerfi Evrópu, yfirgefi Evrópusambandið í bráð. Hins vegar gæti Evrópusambandið yfirgefið Þýskaland ef Nexit og Frexit verða að veruleika.
Aðrar athyglisverðar kosningar:
Þingkosningar í Hong Kong
Íbúar Hong Kong ganga til kosninga þann 26. mars. Mikill hiti hefur verið í stjórnmálum borgarinnar á undanförnum árum eftir að kínverskt stjórnvöld breyttu kosningakerfinu og stúdentar mótmæltu kröftuglega. Við afhendingu Hong Kong frá Bretlandi til Kína árið 1997 var komið á kerfi sem á að tryggja sjálfræði borgarinnar. En kínversk stjórnvöld hafa alla tíð síðan beitt sér gegn því og öllum þeim sem vilja auka sjálfstæði Hong Kong á nokkurn hátt. Stúdentar og ungt fólk styður flest sjálfstæði borgarinnar og er uggandi um stöðuna og sjálfræðið. Niðurstöður kosninganna munu að miklu leyti velta á því hversu góð kosningaþáttaka ungs fólks verður.
Sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi
Íhaldsflokkurinn hefur um 13% forskot á Verkamannaflokkinn í skoðanakönnunum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 4. maí. Því hafa margir velt því fyrir sér hvort boðað verði til þingkosninga í Bretlandi á þessu ári til að styrkja umboð Theresu May til að koma útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í gegn. En sveitarstjórnarkosningarnar að þessu sinni munu að miklu leyti snúast um Skotland.
Skoski Þjóðernisflokkurinn hefur yfirburðastöðu á skoska þinginu og nánast alla skosku þingmennina á breska þinginu. Þá kaus hver einasta sýsla landsins með áframhaldandi viðveru Bretlands í Evrópusambandinu. Búist er við því að sérstaða Skotlands styrkist enn frekar með sigri Þjóðernisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum og að í kjölfarið verði boðað til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins.
Forsetakosningar í Suður Kóreu
Í desember síðastliðnum var Park Geun-hye forseti landsins sett af tímabundið eftir spillingarmál. Park ólst upp í sértrúarsöfnuði og talið er að Choi Soon-il, reglubróðir hennar, hafi haft of mikil áhrif á stjórn landsins og jafnvel stjórnað því alfarið bak við tjöldin. Ef dómstólar fallast á að Park verði vikið úr embætti verður kosið 1-2 mánuðum seinna. Annars verður kosið 20. desember og ljóst að forsetinn gengur löskuð inn í þær kosningar. Park situr fyrir hægriflokkinn Saenuri en hjá stærsta vinstriflokknum, Demókrataflokknum, lítur út fyrir að Lee Jae-myung verði frambjóðandinn. Lee er fyrirferðarmikill pópúlisti sem hefur lýst aðdáun sinni á bæði Donald Trump og Bernie Sanders. Hann þykir líklegur til að sigra og ef svo fer segist hann ætla að hefja eiginlegt samtal við Norður Kóreu og koma Park Geun-hye bak við lás og slá.
19. Landsþing Kína
Kína er ekki lýðræðisríki og því ekki kosið til æðstu embætta landsins. Æðstu menn Kommúnistaflokksins koma hins vegar reglulega saman og velja fulltrúa í mið-og fastanefndir sem stýra landinu. Þetta val mun næst eiga sér stað á haustmánuðum 2017. Xi Jinping hefur verið aðalritari síðan 2012 og það lítur allt út fyrir það að hann haldi þeirri stöðu. Spurningin er aftur á móti sú hvort að hann nái að koma bandamönnum sínum og væntanlegum arftaka að í nefndirnar eða hvort að valdi milli fylkinga flokksins verður dreift eins og svo oft áður. Árið 2017 verður mjög mikilvægt ár í kínverskum stjórnmálum þar sem óvenju mörgum nefndarmönnum verður skipt út vegna aldurs, þ.e. um helming í miðnefndinni og 5 af 7 í fastanefndinni. Það hefur hægst á kínverskum efnahag undanfarið og búist er við því að það muni ráða úrslitum um val á mönnum í nefndir. Ólíkt því sem við eigum að venjast þá fer umræðan þó aðallega fram í reykfylltum bakherbergjum en ekki í fjölmiðlum.