Vinnsla skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána – hina svokölluðu Leiðréttingu – lauk um miðjan október 2016, áður en síðustu Alþingiskosningar fóru fram. Í janúar 2017 var fyrstu efnisgrein skýrslunnar bætt við hana og hún í kjölfarið birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 18. janúar, þremur mánuðum eftir að vinnslu hennar lauk. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um vinnslu skýrslunnar.
Vinna við skýrsluna hófst fljótlega eftir að beiðni um gerð hennar barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu í október 2015, fyrir rúmum 15 mánuðum síðan. Fyrstu drög að henni voru send til yfirlestrar um miðjan janúar 2016, fyrir ári síðan. Í byrjun júní 2016 var síðan óskað eftir viðbótargögnum frá ríkisskattstjóra og ný drög að skýrslunni tilbúin í sama mánuði. Vinnslu hennar lauk svo um miðjan október 2016.
Kjarninn hafði ítrekað spurst fyrir um afdrif skýrslunnar. Í byrjun desember fengust þau svör að afgreiðsla hennar biði nýrrar ríkisstjórnar. Þá var um hálf ár síðan að drög að skýrslunni voru tilbúin og rúmur einn og hálfur mánuður frá því að vinnslu við hana lauk. Í kjölfar þess að skýrslan var birt þá spurðist Kjarninn fyrir um hvenær henni hefði verið skilað. Í upprunalega svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins sagði að „ endanleg gerð skýrslunnar lá fyrir þegar henni var skilað“ þann 18. janúar síðastliðinn. Þegar spurt hvað fælist í endanlegum frágangi og hvenær búið hefði verið að vinna upplýsingarnar sem skýrslan byggir á kom í ljós að vinnslu hennar hafi lokið í október.
Þetta er önnur skýrslan sem búið var að vinna í fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir síðustu kosningar, en var ekki birt opinberlega fyrr en í janúar 2017. Hin var skýrsla um aflandseignir Íslendinga og áætlaðan kostnað íslensks samfélags vegna þeirra. Starfshópur skilaði þeirri skýrslu 13. september 2016. Hún var síðar kynnt sérstaklega fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, 5. október. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 6. janúar.
Önnur skýrslan um Leiðréttinguna
Leiðréttingaskýrslan sem birt var 18. janúar er önnur skýrslan sem ráðuneytið hefur unnið um Leiðréttinguna, niðurfærslu á verðtryggðum fasteignalánum um 72,2 milljarða króna. Þegar aðgerðin var kynnt haustið 2014, voru birtar takmarkaðar upplýsingar um hvernig peningarnir skiptust á milli tekju-, aldurs-, og eignahópa. Allar upplýsingar voru settar fram með hlutfallsbilum.
Þann 11. nóvember 2014 lagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fram fyrirspurn á Alþingi í 15 liðum um Leiðréttinguna. Tæpum mánuði síðar barst svar frá Bjarna Benediktssyni. Í svarinu var engum spurninga Katrínar svarað efnislega en svörum lofað á vorþingi 2015 með með framlagningu sérstakrar skýrslu ráðherra um aðgerðina.
Málið olli nokkru uppnámi á Alþingi og svaraði ráðherra í kjölfarið fimm af 15 spurningum Katrínar 29. janúar 2015. Beðið var eftir frekari svörum í fimm mánuði til viðbótar og 29. júní 2015 birti fjármála- og efnahagsráðherra svo skýrslu sína um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðisveðlána. Hún hafði upphaflega átt að birtast í desember 2014 og verið í „lokafrágangi“ frá því í maí 2015.
Skýrslan varpaði skýrara ljósi á því hvernig Leiðréttingin skiptist á milli þeirra sem hana fengu, en svaraði ekki öllum þeim spurningum sem fram höfðu verið lagðar. Kjarninn þurfti að óska sérstaklega eftir tölum sem lágu á bak við skýringarmyndir sem birtar voru í skýrslunni til að fá geta áttað sig hvernig upphæðin skiptist á milli fólks eftir aldri, búsetu og tekjum. Engar upplýsingar voru um eignastöðu þeirra sem fengu leiðréttingu í skýrslunni.
Að einhverju leyti voru upplýsingarnar sem komu fram í skýrslunni endurbirting á þeim upplýsingum sem birtar voru í Hörpu í nóvember 2014.
Ítrekað spurst fyrir um skýrsluna
Það sem vantaði sérstaklega var samhengi við alla aðra framteljendur. Þ.e. hvernig Leiðréttingin dreifðist þegar allir Íslendingar eru skoðaðir saman, ekki bara þeir sem voru þiggjendur hennar. Þá vantaði líka að sjá hvernig hún skiptist á milli allra eftir hreinum eignum. Beiðni um nýja skýrslu sem skýrði þetta var lögð fram á Alþingi í júní 2015, fyrir 19 mánuðum. Hún var samþykkt í október sama ár, fyrir tæpum 15 mánuðum síðan.
Þingmennirnir sem stóðu að skýrslubeiðninni kölluðu eftir skýringum á drættinum rúmum tveimur vikum fyrir kosningarnar í október í fyrra. Þá sagðist forseti Alþingis ætla að kanna málið. Síðan hefur ekkert gerst.
Kjarninn spurðist fyrir um afdrif skýrslunnar í byrjun desember og þá fengust þau svör hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að afgreiðsla hennar biði næstu ríkisstjórnar. Aftur var spurst fyrir um hana þegar nýr ráðherra tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sú fyrirspurn var send 12. janúar og ítrekuð 16. janúar. Þann 18. janúar var skýrslan síðan birt á vef ráðuneytisins. Þá höfðu lokadrög hennar legið fyrir frá því í júní og vinnslu við hana verið lokið í þrjá mánuði.
Tekjuháir og eignamiklir fengu langmest í sinn hlut
Í skýrslunni um Leiðréttinguna kemur fram að 20 prósent Íslendinga sem áttu mestar hreinar eignir fengu samtals 22,7 milljarða króna í leiðréttingu, eða tæplega þriðjung hennar. Sá helmingur þjóðarinnar sem á minnstu hreinu eignirnar fékk 28,01 prósent leiðréttingarinnar, eða 20,2 milljarða króna. Sá helmingur sem á mestar eignir fékk 71,99 prósent hennar, eða 52 milljarða króna.
Þau tíu prósent landsmanna sem þénuðu mest á árinu 2014 fengu tæplega 30 prósent af þeim 72,2 milljörðum króna sem ráðstafað var inn á fasteignaveðlán hluta landsmanna í gegnum Leiðréttinguna. Meðalheildartekjur þessa hóps árið 2014 voru 21,6 milljónir króna. Það þýðir að um 22 milljarðar króna hafi runnið til þess tíu prósent landsmanna sem hafði hæstar tekjur árið 2014 í gegnum Leiðréttinguna. Sú tíund Íslendinga sem átti mestar eignir, en meðaltalseign hópsins er 82,6 milljónir króna, fékk tæplega tíu milljarða króna úr ríkissjóði í gegnum Leiðréttinguna.
Til samanburðar fékk tekjulægri helmingur þjóðarinnar 14 prósent upphæðarinnar í sinn hlut, eða rúmlega tíu milljarða króna. Það þýðir að 86 prósent hennar fór til þess helmings þjóðarinnar sem hafði hærri tekjur.
Kjarninn skrifaði tvær ítarlegar fréttaskýringar um skýrsluna í síðustu viku.