Vill breyta heiminum – Sandi Toksvig berst fyrir jafnrétti

Danski aðgerðasinninn, þáttastjórnandinn og grínistinn Sandi Toksvig er þekkt fyrir að vera skörp og fljót að hugsa. Hún hefur nú stofnað stjórnmálaflokk og tekið að sér að stýra einum vinsælasta sjónvarpsþætti í Bretlandi. Kjarninn skoðaði sögu hennar.

Sandi stýrir nú einum vinsælasta skemmti- og spurningaþættinum á BBC Two.
Sandi stýrir nú einum vinsælasta skemmti- og spurningaþættinum á BBC Two.
Auglýsing

Fjölmiðlakonan, rithöfundurinn og grínistinn Sandi Toksvig hefur verið opinber persóna í Bretlandi um árabil og hefur ekki setið auðum höndum um ævina. Ung byrjaði hún að skrifa og varð hún þekkt fyrir beittan húmor og að vera snögg til svars. Hún var með þeim fyrstu til að koma út úr skápnum á tíunda áratug síðustu aldar í Bretlandi og fékk bágt fyrir. Hún er aðgerðasinni og berst fyrir jafnrétti kynjanna og fyrir minnihlutahópa og hefur hún nú stofnað stjórnmálaflokk þar sem málefni kvenna eru í fyrirrúmi. Hún hefur einnig tekið við einum vinsælasta spurningaþætti í Bretlandi og skrifar hún bækur, leikrit og söngleiki.

Sandi hélt ræðu í tilefni kvennagöngunnar í London þann 21. janúar síðastliðinn en hundruðir þúsunda kvenna út um allan heim mótmæltu embættistöku Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna. Meðal annars hittust konur á Austurvelli á sama tíma. Sandi talaði um að mikilvægt væri að jafna laun kynjanna og að standa vörð um rétt konunnar til að ráða yfir sínum eigin líkama. Hún sagði að betra væri að reisa brýr en múra og sagðist hún ekki líða fordóma gagnvart fólki sem er öðruvísi á einhvern máta eða vegna trúarbragða.

Vildi ung hafa áhrif

Sandi Toksvig Mynd: EPASandi er fædd í Danmörku árið 1958 en vegna starfa föður hennar þá ólst hún upp víðsvegar um heiminn. Hann vann sem fréttaritari og dvaldi fjölskyldan aðallega í New York. Móðir hennar er bresk og bjuggu þau einnig í London á tímabili. Hún fór í háskóla í Cambridge þar sem hún lagði stund á lögfræði, forleifafræði og mannfræði en þaðan útskrifaðist hún með ágætiseinkunn. Hún hefur greint frá því að draumurinn hafi verið að verða mannréttindalögfræðingur en að hún hafi komist að því að fleiri leiðir séu til að hafa áhrif á samfélagið. Sú leið sé í gegnum kímnigáfu og hafi hún ákveðið að feta þá slóð.

Auglýsing

Hún byrjaði ung að skrifa og vera með uppistand. Síðan hefur hún verið með sína eigin þætti í útvarpi og sjónvarpi í Bretlandi sem og skrifað leikrit og gefið út yfir tuttugu bækur. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín.

Fyrsta konan til að stjórna svo stórum þætti

Sandi stjórnaði útvarpsþættinum The News Quiz á BBC Radio 4 í ein níu ár en hefur nú tekið við þáttastjórn í skemmti- og spurningaþættinum QI á BBC Two af Stephen Fry. Hann var gríðarlega vinsæll þáttastjórnandi eftir 13 ár í starfi og var áhorf á þáttinn alltaf mikið. Þess vegna má ætla að krefjandi hafi verið fyrir Sandi að fylla í skarðið og kviðu margir fyrir þessari breytingu. Sandi er fyrsta konan til að stjórna þætti af þessari stærðargráðu í Bretlandi. Hún er sögð hafa verið hörð á því að fá sömu laun og Fry fyrir starf sitt í QI enda um sama starf að ræða.

Viðbrögðin hafa ekki leynt sér og virðist fólk vera almennt ánægt með breytinguna. Sandi var ekki ókunnug þættinum þar sem hún hefur verið gestur í honum sextán sinnum og því má ætla að hún þekki vel til hans.

Álitsgjafi The Guardian segir að Sandi hafi verið athugul og persónuleg sem nýr þáttastjórnandi QI. Hún hafi verið nógu örlát til að leyfa gestum sínum að finna sína eigin snertifleti á málefnin en nógu skörp til að koma með sína eigin brandara þegar hún fékk tækifæri til. Hún hafi einnig verið nógu ströng til að halda hlutunum gangandi á snörpum hraða. Hann telur því að hún muni pluma sig vel í QI.

Fékk morðhótanir

Sandi hefur verið ötull talsmaður samkynhneigðra en hún kom sjálf út úr skápnum árið 1994. Var hún fyrsta konan til að gera það opinberlega í Bretlandi. Henni var sagt að hún myndi aldrei fá vinnu aftur en frá þessu greindi hún í viðtali við The Telegraph í ágúst 2016. Hún segir frá því að hún og fjölskylda hennar hafi þurft að fá sérstaka öryggisgæslu á sínum tíma og að margir hafi tekið fregnunum illa.

Hún á tvær dætur og einn son með fyrrverandi konu sinni en hún er nú gift sálfræðingnum Debbie Toksvig. Þær giftu sig um leið og lögleiðing hjónabanda fólks af sama kyni gekk í gildi í Bretlandi í mars 2014. Yfir tvö þúsund manns mættu í brúðkaup þeirra þrátt fyrir að aðeins rúmlega hundrað manns hafi verið boðið. Ástæðan fyrir því er sú að Sandi lýsti því yfir að allir þeir sem vildu halda upp á áfangann með þeim væru velkomnir. Fjöldi ókunnugs fólks úr ýmsum áttum mætti því til að gleðjast með parinu. 

Ég tel að leyndarmál séu krabbamein sálarinnar.

Ástæðan fyrir því að koma út úr skápnum á þessum tíma var að hennar sögn fyrir börnin sín; svo þau þyrftu ekki að skammast sín eða fela það að eiga tvær mæður. „Ég tel að leyndarmál séu krabbamein sálarinnar,“ segir hún í því því sambandi og greindi frá því að hún hafi ekki viljað á þessum tíma lifa í leyni og hafi því tekið þessa ákvörðun þrátt fyrir aðvaranir. Hún segir jafnframt í fyrrnefndu viðtali að þetta hafi verið erfiður tími, hún hafi fengið morðhótanir og að fjölskyldan hafi þurft að fara í felur í tvær vikur. En fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott því hún fékk einnig skilaboð og bréf frá konum sem þökkuðu henni hafa fyrir að koma út með þessum hætti.

Vill betri heim fyrir börnin sín

Stjórnmál hafa gegnt veigamiklu hlutverki í lífi Sandi en hún hefur verið um árabil aðgerðasinni og talsmaður fyrir réttindum kvenna. Hún tók til að mynda þátt í stofnun stjórnmálaflokks með áherslur á jafnrétti kvenna, eða eins konar kvennalista, árið 2015 sem ber nafnið The Women´s Equality Party.

Sandi gerði grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að stofna stjórnmálaflokk í TED-fyrirlestri en þar fjallar hún um jafnrétti kynjanna og hvernig kynbundin mismunun birtist henni. Hún byggir fyrirlesturinn upp eins og uppistand og hún spyr sig af hverju þessi mismunun sé látin viðgangast. Því þrátt fyrir að margir séu tilbúnir að leggja sitt að mörkum og gera eitthvað í hlutunum þá breytist samfélagið hægt. Hún segir að hvati sinn til að berjast fyrir þessum ákveðna málstað hafi verið sá að hún vildi betri heim fyrir börnin sín þrjú.

Barátta framundan

Sandi segist hafa áttað sig á því, fyrir ekki svo löngu síðan, að mikil vinna væri enn framundan í jafnréttismálum. Ekki væri jafnræði komið á og að baráttan væri ekki bundin við söguna eða fortíðina. Því hvergi í heiminum fái konur sömu laun fyrir sömu vinnu og þess vegna telur Sandi það mikilvægt að fá til dæmis fleiri konur í stjórnun fyrirtækja og í áhrifastöður. Hún segist hafa viljað taka málin í sínar eigin hendur og stofnaði hún því þennan flokk með áherslur á mál kvenna. Viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa og hafa konur og karlar skráð sig í flokkinn og sýnt áhuga.

Ímyndið ykkur ef við gætum virkjað milljónir kvenna um heim allan sem segjast vera búnar að fá nóg af hefðbundnum stjórnmálum og þrasi. Við gætum bókstaflega breytt heiminum og það er það sem ég vil.

Sandi segir að vegna þessara góðu viðbragða hafi málefni þeirra borið á borð annarra stjórnmálaflokka. Hún telur þó að ekki sé nóg að stofna einn flokk í einu landi heldur þurfi að verða breyting á alheimsvísu. Hún segir að hún vilji sjá flokka með þessar áherslur í öllum löndum. „Ímyndið ykkur ef við gætum virkjað milljónir kvenna um heim allan sem segjast vera búnar að fá nóg af hefðbundnum stjórnmálum og þrasi. Við gætum bókstaflega breytt heiminum og það er það sem ég vil,“ segir Sandi og lýkur þannig fyrirlestrinum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None