Ríkisstjórn Íslands hyggst leggja fram 101 þingmál á vorþinginu, sem gert er ráð fyrir að standi út maí. Flest málin hyggst fjármálaráðherrann Benedikt Jóhannesson leggja fram, eða sautján talsins, en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra ætla að leggja fram fæst mál, þrjú hvor.
Forsætisráðherra er búinn að leggja fram þingsályktunartillögu sína um breytta skipan ráðuneyta í stjórnarráðinu. Þá á hann bara eftir að flytja þinginu tvær skýrslur, annars vegar um málefni þjóðlendna og hins vegar um framkvæmd upplýsingalaga.
Fjármálaráðherra leggur fram ýmis mál lögum samkvæmt, eins og fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára. Fjármálastefnan er þegar komin fram. Hann er einnig með mál eins og niðurlagningu Lífeyrissjóðs bænda og hjúkrunarfræðinga á málaskránni, sem og ýmsar innleiðingar á Evróputilskipunum.
Líklega er það Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra sem ætlar að leggja fram þau mál sem gætu orðið umdeildust. Hann er með þrettán mál á þingmálaskránni, meðal annars jafnlaunavottun og heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks. Þar er ætlunin að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. Þá ætlar hann að leggja fram frumvarp um almannatryggingar, þar sem farið verður m.a. í að taka upp einfaldara greiðslukerfi vegna bóta og lífeyris. Þá verður stuðningur við öryrkja sem hafa mjög lágar eða engar tekjur bættur og kveðið verður á um að lífeyristökualdur verði hækkaður úr 67 árum í 70 ár. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verður líka hækkað.
Þá mun félagsmálaráðherra líka leggja fram breytingu á fæðingarorlofi, með það að markmiði að hækka hámarksgreiðslur í öruggum skrefum á næstu fjórum árum.
Endurskoðar skipan ferðamála
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ætlar meðal annars að leggja fram frumvarp um Flugþróunarsjóð, sem á að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Hún ætlar líka að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum um skipan ferðamála og heildarendurskoðun á lögum um faggildingu. Umgjörð verður sett um starfsemi Ferðamálastofu með lögum og hún ætlar að endurflytja þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um orkuskipti fram til ársins 2030.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ætlar að leggja fram frumvarp um þjóðbundna mannréttindastofnun, og þingsályktun um löggæsluáætlun fyrir næstu árin. Hún hyggst einnig leggja fram frumvarp til laga um breytingar á gjafsóknum og lagafrumvarp sem tengjast nýjum Landsrétti.
Setur lög um rafsígarettur og stera
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er með fimm mál á þingmálaskrá sinni, meðal annars heildarendurskoðun á lyfjalögum, sem er byggt á frumvarpi sem forveri hans lagði fram á síðasta þingi. Hann ætlar einnig að leggja fram frumvarp um misnotkun vefjaaukandi efna og stera, og setja heildstæðan ramma utan um allt sem tengist rafsígarettum. Hann mun einnig leggja fram lyfjastefnu fyrir næstu árin.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er með sjö mál á sinni könnu. Hún ætlar að endurskoða búvörulögin, og þar með úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur og undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga. Hún ætlar að leggja fram frumvarp um heildarlög um Matvælastofnun, stjórnsýslu Fiskistofu, lög um vigtun sjávarafla og um stjórn álaveiða, svo dæmi séu tekin.
Ný lög um Þjóðleikhús og dansflokkinn
Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna, en þó ekki sama frumvarp og forveri hans lenti í vandræðum með. Frumvarp hans fjallar um lánveitingar til frumgreinanáms. Hann ætlar líka að leggja fram ný heildarlög um sviðslistastarfsemi, þar með talið Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn. Hann hyggst líka innleiða tilskipun frá ESB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi fólks frá öðrum EES ríkjum.
Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra er með átta mál á sinni þingmálaskrá, en eitt er reyndar tekið fram tvisvar. Hann ætlar meðal annars að afnema skyldu Reykjavíkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23, en það var ákveðið með sveitarstjórnarlögum að fjöldi fulltrúa skyldi aukinn. Hann ætlar að innleiða reglugerð um nethlutleysi og ýmsar aðrar innleiðingar eru einnig á hans könnu.
Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra er með þrettán mál á þingmálaskránni. Þar á meðal eru ýmsar innleiðingar á Evróputilskipunum, en líka heildarlög um Umhverfisstofnun, um landmælingar og grunnkortagerð, um skógrækt og landgræðslu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er með tólf mál á sinni skrá og flest varða EES samninginn og innleiðingar honum tengdar. Hann ætlar þó líka að endurskoða lög um Íslandsstofu og vill stofna aðlægt belti utan landhelgi Íslands, sem felur í sér valdheimildir fyrir ríkið að 24 sjómílum frá grunnlínum landhelginnar.