Óskarsverðlaunin verða veitt í 89. sinn aðfararnótt mánudagsins 27. febrúar. Sagt hefur verið að verðlaunahátíðin sé fyrirsjáanleg og eina spurningin sé hversu mörg verðlaun söngleikurinn La La Land fái. En hátíðin er nokkuð merkileg í þetta skiptið í ljósi þess að flestar helstu kvikmyndirnar koma úr ólíklegum áttum á meðan gamlir Hollywood risar halda að sér höndum. Þá er metfjöldi svartra leikara, leikstjóra og handritshöfunda tilnefndir í þetta sinn og erlendu myndirnar einstaklega sterkar. Þetta er fjölbreytilegasta kvikmyndaár í langan tíma.
10. En man som heter Ove
Íslendingar þekkja vel söguna um hinn sænska Ove. Bók Fredriks Backman var metsölubók hér á landi árið 2013 og nú stendur yfir sýning Þjóðleikhússins á verkinu. Kvikmyndin sænska hefur einnig slegið í gegn. Maður sem heitir Ove segir frá 59 ára gömlum ekkli sem er sífellt truflaður við það að reyna að fremja sjálfsvíg. Truflunin kemur frá fjölskyldu sem er nýflutt í hverfið og þá sérstaklega hinni óléttu Parvaneh sem lætur Ove ekki í friði. Ove er ruddalegur, hispurslaus, smámunasamur og ónærgætinn með eindæmum og hann þolir illa þegar nágrannar hans fylgja ekki umgengnisreglunum til hins ítrasta. Í myndinni er flakkað fram og aftur í tíma og áhorfandinn fær innsýn inn í líf og persónu Ove og af hverju hann er svo staðráðinn í því að svipta sig lífi. Þrátt fyrir alvarleika hennar er myndin bráðfyndin og sérstaklega einstök ást Ove á Saab-bifreiðum. Myndin er einstaklega vel leikin, þá sérstaklega af Rolf Lassgård, sem leikur Ove í nútímanum, og Bahar Pars, sem leikur Parvaneh.
9. Arrival
Málfræðingar eru sjaldan söguhetjur á hvíta tjaldinu. Það er þó raunin í Arrival sem fjallar um komu tólf geimskipa frá fjarlægri plánetu til jarðar. Þær dreifast vítt um jörðina en eru algerlega kyrrar og geimverurnar hafa ekkert samband við mennina. Það er því hlutverk málfræðingsins, sem leikin er af Amy Adams, að reyna að læra tungumál þeirra og koma af stað samtali við þær. Þegar á líður minnkar aftur á móti þolinmæði sumra og vígvæðingin hefst. Arrival er ekki venjuleg geimverumynd eða vísindaskáldskapur. Hún er hæg og dimm og draumkennd á köflum. Tónlist Jóhanns Jóhannssonar gerir mikið fyrir andrúmsloft myndarinnar en þetta er þriðja samstarfsverkefni hans og kanadíska leikstjórans Denis Villeneuve (Prisoners, Sicario). Arrival fjallar í raun meira um mannkynið sjálft heldur en geimverurnar. Hvernig við getum skilið eitthvað svo framandi og hvort alþjóðasamfélagið getur tekið á stórum og flóknum málum.
8. The Jungle Book
The Jungle Book er “leikin” endurgerð af samnefndri Disney-teiknimynd frá árinu 1967 og byggð á ævintýrinu um Mowgli frá 1894. Leikin innan gæsalappa vegna þess að nánast allt myndinni er tölvugert nema Mowgli sjálfur. Galdurinn við teiknimyndina voru karakterarnir og tónlistin. Talsetninginn í leiknu myndinni er með eindæmum góð og leikararnir vel valdir. Sérstaklega Bill Murray sem björninn Balli, Scarlett Johansson sem slangan Karún og Christopher Walken sem apakóngurinn Lúlli. Þessi mynd er hins vegar mun dekkri og spennuþrungnari en teiknimyndin og sungna tónlistin verður því svolítið hjákátleg. Atriðið í apahofinu sem var ógleymanlegt í teiknimyndinni fyrir dúndrandi jazz og létt andrúmsloft er nú orðið ógnvæglegt bardagaatriði og alls ekki fyrir yngstu börnin. Þá er tígurinn Shere-Khan, leikinn af Idris Elba, orðinn að morðóðum sósíópata. The Jungle Book er tilvalin fyrir eldri börn og fullorðna því sagan er ennþá heillandi. Hún er ótrúlegt sjónarspil og tæknibrellurnar einhverjar þær bestu sem sést hafa.
7. Hacksaw Ridge
Það er ávallt viðburður þegar leikstjórinn Mel Gibson gefur út kvikmynd. Hacksaw Ridge er sannsöguleg mynd um herlækninn Desmond Doss sem vann afrek þegar hann bjargaði 75 hermönnum í orrustunni um Okinawa undir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Eins og vanalega hjá Gibson þá eru kvikmyndataka, klipping, búningar og fleiri tæknileg atriði óaðfinnanleg. Þá leikur Andrew Garfield hlutverk Doss nokkuð vel.
En myndin er sérstök að mörgu leyti, t.d. hversu skörp skilin eru milli fyrri og seinni hluta hennar. Fyrri hlutinn fjallar um æsku Doss og þjálfunina (og auðvitað smá ástarsaga líka) og er í frekar hefðbundnum ævisögu stíl. Hinn seinni er orrustan sjálf sem er á köflum eins og splatter-mynd. Myndin er afturhvarf til eldri stríðsmynda þar sem óvinurinn (Japanir) sjást ekki nema í orrustunni sjálfri og eru ekki eiginlegar persónur heldur nafnlaus og mállaus ógn. Ólíkt eldri stríðsmyndum hefur Hacksaw Ridge þó sterkan friðarboðskap. Líkt og í fyrri verkum Gibson þá hefur myndin sterkan trúarlegan tón, þ.e. hún líkist helst kraftaverkasögu dýrlings.
6. Weiner
Árið 2011 sagði bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Anthony Weiner af sér þingmennsku vegna þess að hann sendi konu einni kynferðislega mynd af sér á Twitter (innanbrókar holdris). Weiner var rísandi stjarna í Demókrataflokknum og taldi sig eiga afturkvæmt í stjórnmálin þrátt fyrir skandalinn. Hann ákvað því að bjóða sig fram í borgarstjórakosningum New York borgar árið 2013 og fékk Josh Kriegman til að mynda framboðið. En þá komu fleiri Twitter skandalar í ljós, sem innihalda m.a. klámmyndaleikkonuna Ginger Lee. Myndin er farsakennd, ákaflega fyndin og óbærilega pínleg. Sum atriðin eru hreint ótrúleg og minna um margt á gerviheimildarmyndir (mockumentaries) Ricky Gervais og Christopher Guest. Erfiðustu atriðin innihalda flest eiginkonu Weiners, Humu Abedin sem er einn af nánustu ráðgjöfum Hillary Clinton. Weiner sjálfur ber þó myndina. Hann er ákaflega líflegur, viðkunnanlegur, beittur, kjaftfor en einnig mjög aumkunarverður…….og með fyndið nafn.
5. Toni Erdmann
Toni Erdmann hefur farið sigurför um heiminn og þykir líkleg til að vinna óskarsverðlaun sem besta erlenda kvikmyndin þetta árið. Það er nokkuð merkilegt í ljósi þess að þetta er þriggja klukkutíma löng þýsk gamanmynd. Myndin fjallar um feðgin sem eiga í mjög stirðu en þó ekki óvinveittu sambandi. Hún gerist að mestu leyti í Rúmeníu þar sem dóttirin Ines starfar sem ráðgjafi í olíubransanum en faðirinn Winfried er tónlistarkennari í óboðinni heimsókn hjá henni.
Hann þykist svo vera allt annar maður, hinn fáránlegi Toni Erdmann, til að hrista upp í sambandinu á milli þeirra. Myndin er mjög fyndin á köflum en þó á undarlegan og vandræðalegan hátt. Hún hefur mjög sérstaka atburðarrás og kemur manni sífellt á óvart. Toni Erdmann er algerlega borin á herðum aðalleikaranna tveggja, hinnar þýsku Söndru Müller og hins austurríska Peter Simonischek. Þau ná saman að mynda alveg sérstaka stemningu sem hefur ekki sést í kvikmyndum áður.
4. Moonlight
Moonlight er í þremur hlutum þar sem litið er stuttlega inn í barnæsku, unglingsár og fullorðinsár hins þögla Chiron. Hann er svartur og býr í fátækrahverfi í Miami-borg eða nágrenni hennar. Í upphafi snertir myndin á viðkvæmum málum þar sem Chiron er lagður í gróft einelti og einstæð móðir hans er krakk-fíkill. Til að flýja hleypur hann í faðm Juan, eiturlyfjasala frá Kúbu. Seinna í myndinni áttar Chiron sig á því að hann er samkynhneigður. Þetta er viðfangsefni sem sjaldan ber á góma, þ.e. samkynhneigð í svörtu klíkusamfélagi. Því má segja að hinn ungi leikstjóri myndarinnar, Barry Jenkins, ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Myndin, sem var gerð fyrir lítið fjármagn, er byggð á leikritinu In Moonlight Black Boys Look Blue eftir Tarell McCraney sem sett var upp í leiklistarskóla. Meginþema Moonlight er útskúfun sem birtist sterkt í þögn Chiron. Því eru hlutverk aukapersónanna veigamesti þáttur myndarinnar og sagan er í raun sögð af þeim.
3. Deadpool
Það er algjör ofmettun í gangi í Hollywood þegar kemur að ofurhetjumyndum byggðum á teiknimyndasögum. Marvel og DC pumpa að jafnaði út 5-6 fyrirsjáanlegum og tilbreytingarlausum myndum á ári. Deadpool er því kærkomin vegna þess að hún hristir algerlega upp í forminu. Myndin tekur sig mátulega alvarlega, er ákaflega fyndin og klúr og Deadpool sjálfur gerir sér fullkomlega grein fyrir því að hann er karakter í bíómynd. Hann brýtur reglulega fjórða vegginn og talar beint til áhorfenda. Ryan Reynolds fer með aðalhlutverkið og veldur því fullkomlega. Hingað til hefur hann aðallega verið þekktur fyrir að leika sæta stráka í frekar lélegum myndum en hér sýnir hann á sér algerlega nýja hlið. Veikleiki myndarinnar er illmennið Francis Freeman sem er síður en svo eftirminnilegur karakter. En það skiptir litlu máli. Myndin snýst ekki um söguþráðinn, heldur Deadpool sjálfan, tæknibrellurnar, klippingarnar, tónlistina og hinn frábæra húmor.
2. Hell or High Water
Hell or High Water fjallar um tvo bræður (leikna af Chris Pine og Ben Foster) í Texas sem ræna banka til að bjarga fjölskyldubúgarðinum. En einungis lítil útibú bankans sem á kröfuna í búgarðinn verða fyrir barðinu á þeim. Myndin minnir á vestra með byssubardögum, eltingaleikjum og allt-umlykjandi töffaratali. Jafnvel minnstu karakterar hafa bit eins og eiturslöngur. Jeff Bridges leikur lögreglumann sem hefur það hlutverk að elta þá uppi og hann stelur myndinni algerlega. Enda hefur hann mikla reynslu af því að bera kúrekahatt og tala djúpraddað á sjarmerandi hátt. Þó að Hell or High Water sé fyrst og fremst spennumynd þá eru einnig sterk Hróa-hattar-skilaboð í henni. Hvorki bankaræningjarnir né lögreglan eru illmennin, heldur bankinn og kerfið sjálft sem neyðir fólk út í örvæntingarfullar aðgerðir. Myndin var ekki framleidd fyrir mikið fjármagn en er einstaklega vel gerð, þá sérstaklega kvikmyndatakan og klippingin.
1. Under sandet
Danska kvikmyndin Undir sandinum gerist við lok seinni heimstyrjaldarinnar og fjallar um þýska stríðsfanga í haldi danska hersins. Í stríðinu bjuggust Þjóðverjar við stórri árás bandamanna á vesturströnd Jótlands og því grófu þeir um tvær milljónir jarðsprengja í fjöruna þar. Sú árás kom hins vegar aldrei og stríðsfangarnir voru neyddir til að hreinsa fjöruna af sprengjum, en flestir þeirra voru aðeins táningar. Í Undir sandinum eru Danir alls ekkert að fegra sinn hlut nema síður sé. Myndin er ákaflega vel gerð í alla staði og sérlega fallega kvikmynduð. En þó að danska fjaran sé fallegt umhverfi þá veit maður að svæðið er stórhættulegt. Atriðin þegar drengirnir grafa upp sprengjurnar taka því verulega á taugarnar. Roland Möller fer með aðalhlutverk myndarinnar sem verkstjóri eins hópsins og gerir það af stakri snilld. Rauði þráðurinn í myndinni er einmitt viðhorf hans til drengjanna og hvernig það breytist með tímanum. Þó að Undir sandinum sé dönsk þá er talið í henni að langmestu leyti á þýsku.