Herskylda var innleidd í Svíþjóð árið 1901 en saga hersins er þó langtum eldri, nær aftur til ársins 1521.
Eftir að herskyldan var innleidd voru næstum allir karlar, sem töldust hæfir til að gegna herþjónustu kvaddir í herinn og til að taka þátt í æfingum. Herskyldutímabilið gat varað frá 80 uppí 450 daga. Á fyrstu tveimur áratugum eftir að herskyldunni var komið á fjölgaði mjög í hernum, fram undir 1920. Sænskir stjórnmálamenn voru sammála um nauðsyn þess að hafa sterkan og vel búinn her; landið er stórt (fimmta stærsta land Evrópu) og strandlengjan spannar 3200 kílómetra.
Á þriðja áratug síðustu aldar var komið annað hljóð í strokkinn, margir töldu herinn alltof fjölmennan og fjármunum væri betur varið í annað. Þegar kom fram undir síðari heimsstyrjöld hafði fækkað til muna í hernum og tækjakosturinn orðinn gamall og úreltur.
Hlutleysi og hernaðaruppbygging
Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út varð Svíum ljóst að herafli þeirra mætti sín einskis gegn Þjóðverjum. Sænska ríkisstjórnin lýsti landið hlutlaust og féllst á að Þjóðverjar mættu nota sænskar járnbrautarlestir til flutninga á hermönnum og vopnum til Noregs. Á meðan stríðið geysaði unnu Svíar að uppbyggingu hersins, með varnir landsins í huga. Tvennt hefur, þegar litið er til baka, einkum vakið athygli varðandi uppbyggingu og skipulag sænska hersins á þessum tíma. Annars vegar herskyldan, öllum ungum mönnum bar skylda til að gegna herþjónustu þegar, og ef, svo bæri undir. Þetta þýddi að hægt væri að kalla til allt að 350 þúsund manns sem allir hefðu hlotið þjálfun fyrir utan fastaherinn sem taldi um 100 þúsund. Hitt atriðið, sem ekki þótti síður athyglisvert, var að í stað þess að útbúa tiltölulega fáar stórar herstöðvar voru útbúnar 6 - 8 þúsund minni stöðvar, vandlega faldar, um allt land. Allir sem hægt var að kalla til herþjónustu æfðu reglulega og vissu nákvæmlega hvert skyldi halda ef kvaðning bærist. Með þessu fyrirkomulagi tæki skamman tíma að safna liðinu saman. Hernaðaðaruppbygging Svía hélt áfram eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk, ríflegar fjárveitingar gerðu hernum kleift að efla mjög tækjabúnað sinn og árið 1980 réði sænski herinn yfir 300 flugvélum, 40 herskipum og 12 kafbátum.
Ákváðu að standa fyrir utan NATO
Þegar Atlantshafsbandalagið, NATO, var stofnað árið 1949 urðu allmiklar deilur í Svíþjóð um hvort landið skyldi gerast aðili að bandalaginu. Niðurstaðan var að standa fyrir utan, viðhalda þannig hlutleysinu. Margir sænskir stjórnmálamenn óttuðust að ef Svíar gerðust aðilar myndu Rússar neyða Finna til samstarfs, beinlínis „draga landið austur fyrir járntjald“ eins og Östen Undén sem var utanríkisráðherra Svía 1945 – 1962 orðaði það. Hinsvegar var ljóst að Svíar horfðu til vesturs, og samstarfs við NATO, þótt ekki yrði af beinni þátttöku í bandalaginu.
Lok kalda stríðsins og upplausn Sovétríkjanna
Eftir fall Berlínarmúrsins í nóvember 1989, lok kalda stríðsins og upplausn Sovétríkjanna, breyttist viðhorf Svía til hernaðarmála. Ógnin úr austri væri ekki lengur til staðar „Rússar ættu nóg með sig.“ Þess vegna væri hægt að minnka umsvif hersins, hinn hugsanlegi óvinur væri gufaður upp. Þess vegna væri nú tímabært að draga úr umsvifum og verja fjármunum til annarra hluta. Hugmyndir um niðurskurð til hersins mæltust vel fyrir meðal stjórnmálamanna. Á fyrstu árum tíunda áratugarins gengu Svíar í gegnum miklar efnahagsþrengingar og hugmyndir um minnkandi umsvif hersins, og minni fjárveitingar, voru „betri en nokkur jólagjöf“ sagði sænskur ráðherra í umræðum í þinginu. Og sænsk stjórnvöld létu ekki sitja við orðin tóm. Fjárveitingar til hersins minnkuðu ár eftir ár, sumir þingmenn töluðu jafnvel um að leggja niður herinn „á einu bretti“, aðrir töluðu um að kannski væri hægt að koma upp einhverjum skynjurum „hér og þar“ sem gerðu vart við óeðlilegar mannaferðir og einn þingmaður spurði hvort „þetta þarna internet“sem allir væru að tala um gæti ekki komið í staðinn fyrir herinn. Loftbelgir og ómannaðar flugvélar voru líka nefndar. Þessar hugmyndir gengu ekki eftir en niðurskurðurinn hélt áfram. Þingmenn töluðu um nýjan og nútímalegan her, yfirmenn hersins sögðu það ágæta hugmynd en þegar þeir spurðu í hverju þessi nýi nútími fælist var fátt um svör.
Þegar rýnt er í tölur frá árinu 2000 kemur í ljós að herdeildirnar voru aðeins 15% af því sem verið hafði árið 1985, sérstakar heimavarnadeildir voru 10%, flugherinn, þar með taldar flugvélar, hafði minnkað um helming og flotinn var fjórðungur þess sem hann var fimmtán árum fyrr. Wilhelm Agrell sagnfræðingur, sérfróður um sögu hersins, hefur sagt að ástandið í hernum hafi verið næsta ótrúlegt. Vopn og annar búnaður hersins var fluttur í einhverjar stórar geymslur hingað og þangað í landinu og margt „týndist“ á leiðinni. „Það skorti alla yfirsýn“ sagði sagnfræðingurinn.
En niðurskurðurinn hélt áfram: árið 2004 var fjórðungi hermanna (5000 manns) sagt upp og nú var svo komið að herinn gat ekki með nokkru móti annað þeim verkefnum sem honum voru ætluð.
Útrásin til Afganistan
Vegna þess að ekki virtist bein þörf fyrir sérstakan varnarviðbúnað heima fyrir, rússneski björninn lá jú í dvala, beindu sænskir stjórnmálamenn sjónum sínum út fyrir landsteinana, til alþjóðlegra verkefna. Nánar tiltekið til Afganistan. Slíkum verkefnum máttu aðeins atvinnuhermenn sinna og herskyldan (sem ekki taldist) atvinnumennska var sett í tímabundið hlé, ekki afnumin með lögum.
Rússneski björninn lætur til sín taka
Í ágúst 2008 gerðist það sem fæstir höfðu séð fyrir né grunað, Rússar réðust inn í Georgíu. Fæstir höfðu gert sér í hugarlund að til þess kæmi að evrópskt land réðist á annað land í álfunni. En nú hafði það gerst. „Svíar vöknuðu við vondan draum, þegar spurt var um varnir og viðbúnað klóruðu stjórnmálamenn sér í kollinum og gátu litlu svarað“ sagði áðurnefndur Wilhelm Agrell sagnfræðingur.
Svíum líst ekki á blikuna
Svíar voru dauðskelkaðir. „Hvað ætla Rússar sér“ var spurt. Varnir landsins í molum og eitt sænsku blaðanna fullyrti að örfáir rússneskir hermenn gætu til dæmis lagt undir sig Gotland „rétt si svona“.
Árið 2009 sendi sænska þingið Evrópusambandinu sérstaka yfirlýsingu þar sem fram kemur að Svíar muni ekki sitja aðgerðalausir ef ráðist verður á annað aðildarríki, eða norrænt land. „Svíar vænta þess sama af öðrum ríkjum.“
Spennan fór vaxandi, árið 2011 fóru rússneskar herflugvélar aftur að fljúga nálægt, og stundum inn í, sænskt loftrými. Slíkt hafði ekki gerst síðan á dögum kalda stríðsins. Fréttir bárust líka æ oftar af erlendum kafbátum við strendur Svíþjóðar, herinn taldi lítinn vafa á að þeir væru rússneskir. NATO fór nú að fylgjast grannt með umsvifum Rússa og árið 2014 var haldin stór heræfing þar sem yfirskriftin var „Rússar hafa hernumið Suður-Svíþjóð“.
Fyrir þremur árum undirrituðu Svíar og Finnar samkomulag um nánara samstarf landanna og við NATO. Þetta samkomulag sem var samþykkt í sænska þinginu, Riksdagen, í maí á síðasta ári olli mikilli reiði í Kreml. Rússneski utanríkisráðherrann sagði að ef til þess kæmi að Svíar gerðust aðilar að NATO „myndi Rússland bregðast við“ án þess að útskýra orð sín nánar.
Herskyldan innleidd á ný
Flestir sænskir þingmenn viðurkenna nú það sem nefnt var „nútímavæðing“ hersins hafi gjörsamlega mistekist og niðurskurðurinn hafi nánast lamað herinn. Bera jafnframt fyrir sig að engan hafi getað grunað að Rússar yrðu ógn við friðinn. Þessar skýringar gefa yfirmenn hersins lítið fyrir, segja að stjórnmálamennirnir hafi ekki viljað hlusta. Nú hafa fjárveitingar til hersins verið stórauknar á ný og fyrir nokkrum dögum ákvað ríkisstjórnin að endurvekja herskylduna. Þegar herskyldan var afumin 2010, var það ekki gert með lögum, heldur var hún „ sett í hlé“.
Til að endurvekja herskylduna þarf þess vegna ekki samþykki þingsins en þar er þó mikill meirihluti fylgjandi þessari ákvörðun.
Sænska varnarmálaráðuneytið og herinn höfðu gert sér vonir um, þegar herskyldan var afnumin, að um það bil 4 þúsund manns myndu árlega skrá sig í herinn en það hefur ekki gengið eftir. Að meðaltali hafa 1502 árlega skráð sig og þess vegna vantar nú herinn mannskap.
Sænsk hernaðaryfirvöld draga ekki dul á ástæður þess að styrkja þurfi herinn „rússneski björninn er með hramminn á lofti“ sagði einn af yfirmönnum hersins í viðtali í liðinni viku.
Það má að lokum bæta því við að Danir eru líka uggandi. Danski varnarmálaráðherrann sagði fyrir nokkrum dögum í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN að danska stjórnin stefndi að því að stórauka framlög sín til hermála. Það gæti reyndar orðið þungur róður að fá slíkt samþykkt í danska þinginu, en sýnir á hinn bóginn áhyggjur danska varnarmálaráðherrans.