Svona var hægt að spila á höftin eins og fiðlu...og græða á því

Í ákæru gegn meintum fjársvikara má sjá hvernig hann nýtti sér fjármagnshöftin til að hagnast. Maðurinn bjó til sýndarviðskipti til að koma hundruð milljóna út úr höftunum og kom síðan aftur til baka með peninganna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans.

Fjármagnshöft hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008. Þau voru sett svo að umfangsmiklar krónueignir, meðal annars kröfuhafa föllnu bankanna, væri ekki skipt yfir í aðra gjaldmiðla með tilheyrandi búsifjum og gengisfalli fyrir Ísland. Höftin þýddu að flestir Íslendingar gátu ekki skipt krónunum sínum í annan gjaldeyri nema í undantekningartilvikum og með heimild yfirvalda. Þeir þurftu t.d. að framvísa flugfarseðli í banka til að kaupa ferðagjaldeyri. Og slík gjaldeyrisviðskipti voru auk þess takmörkuð við hámarksfjárhæðir. Búið var til mjög umfangsmikið gjaldeyriseftirlit innan Seðlabanka Íslands, sem hafði eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar, og þaðan voru veittar allskyns undanþágur, enda blasti við að innflutnings- og útflutningsfyrirtæki þurftu að skipta krónum í gjaldeyri eða gjaldeyri í krónur til að geta haldið starfsemi sinni áfram.

Til þess að fá að gera slíkt þurftu fyrirtæki meðal annars að sýna fram á að um raunveruleg vöru- eða þjónustuviðskipti væri að ræða. Þetta var sérstaklega mikilvægt til að jafnræðis yrði gætt. Þ.e. að fjármagnseigendur gætu ekki nýtt sér haftaástandið til að hagnast á meðan að launafólk, sem fékk borgað í krónum og lifði fjárhagslega einn mánuð í einu, axlaði aðlögun gengisfalls og efnahagshruns í gegnum heimilisbókhaldið sitt.

Fyrir liggur að margir fjármagnseigendur komu peningum út úr íslensku hagkerfi áður en gengið féll við hrunið og áður en að höft voru sett. Það sést meðal annars á því að eignir Íslendinga á hinni frægu Tortola-eyju fjórfölduðust frá lokum árs 2007 og fram til loka árs 2015 og eru nú um 32 milljarðar króna.

Fjárfestingarleið sett upp fyrir ríka fólkið

Til að reyna að losa um þann þrýsting sem var innan hafta, þ.e. það fjármagn sem vildi komast út úr íslenskum höftum, ákvað Seðlabanki Íslands að setja upp svokallaða fjárfestingarleið. Alls fóru fram 21 svona útboð á árunum 2012-2015.

Í henni fólst að óþolinmóðir krónueigendur máttu fara út á gengi sem var mun óhagstæðara en skráð gengi, svo lengi sem að mótaðilar fundust sem voru tilbúnir að selja gjaldeyri fyrir krónur. Þessir mótaðilar fengu þá 20 prósent virðisaukningu á peninganna sína með því að skipta þeim í krónur. Þ.e. afslátt á íslenskum eignum.

Rúmlega þriðjungur þeirra 208 milljarða króna sem flæddu inn í Ísland með þessum hætti voru peningar íslenskra aðila. Alls voru þeir 794 talsins. Seðlabanki Íslands hefur aldrei viljað upplýsa um hverjir það voru sem fengu að nýta sér þessa leið og borið fyrir sig trúnað. Ljóst er vegna þeirra takmarkanna sem settar voru á umfang fjárfestinga að leiðin stóð þó fyrst og fremst ríku fólki til boða. Og ríkt fólk nýtti sér hana í miklum mæli til að verða enn ríkara. 

Kjarninn hefur greint frá því að samtals hafi virðisaukning þeirra sem nýttu sér leiðina verið 49 milljarðar króna. Auk þess hefur styrking krónunnar á undanförnum árum gert það að verkum að gengishagnaður þeirra er rúmlega 80 milljarðar króna. Þá á eftir að taka tillit til þeirrar ávöxtunar sem þessi hópur hefur fengið á t.d. hlutabréf og fasteignir sem þeir hafa fjárfest í hér á landi á haftatímum. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur hækkað um 81 prósent frá því að fjárfestingarleiðin hóf göngu sína og fram til dagsins í dag. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 47 prósent.

Það má því ætla að líkur séu á því að hópurinn sem fékk að nýta sér fjárfestingarleiðina hafi allt að tvöfaldað peninganna sína á undanförnum árum.

Aftur í sviðsljósið

Fjárfestingarleiðin komst aftur í sviðsljósið í byrjun árs 2017 þegar skýrsla starfs­hóps um eignir Íslend­inga á aflands­­­svæð­um fjallaði um hana. Þar var því meðal ann­­ars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­magn­inu frá aflands­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­ina.

Orð­rétt segir í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­lýs­inga um fjár­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­taka í fjár­­­fest­ing­­ar­­leið Seðla­­bank­ans er ekki til stað­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­bank­ans þegar um grun­­sam­­legar fjár­­­magnstil­­færslur er að ræða. Æski­­legt má telja að sam­­starf væri um miðlun upp­­lýs­inga á milli þess­­ara stofn­ana.“

Í „hringferðinni“ felst að koma peningum úr félagi A í gjaldeyri og þykjast síðan kaupa vöru og þjónustu af félagi B, sem er í eigu sama aðila. B nýtir sér síðan fjárfestingarleiðina með því að kaupa skuldabréf af C (undir stjórn sömu aðila) og við þetta fjölgar krónum þeirra um 20 prósent. Seðlabankinn gerði engar athugasemdir við þessi viðskipti.

Kjarninn greindi frá því í kjölfarið að engar tilkynningar hafi borist til peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara vegna fjárfesta sem nýttu sér fjárfestingarleiðina. 

Um liðna helgi greindi Kjarninn síðan frá því að Seðlabanki Ísland hafi mátt innleysa þriðjung fjárfestingar aðila sem nýttu fjárfestingarleið hans ef þeir urðu uppvísir að því að brjóta gegn kvöðum sem giltu um viðskiptin. Í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans kom fram að hann teldi engan hafa brotið gegn kvöðunum og því hafi hann ekki innleyst neitt.

Ákæra á hendur meintum fjársvikara

Miðað við svör Seðlabankans virðist því allt hafa verið með felldu í fjárfestingarleiðinni. Þ.e. að þar hafi fjármagnseigendur bara verið að sækja sér gríðarlegan ávinning í boði ríkisstofnunar sem bauðst bara þeim sem áttu margar milljónir króna í lausu fé, og erlendum gjaldeyri, utan hafta.

En svindlaði enginn á þessu kerfi? Reyndi enginn að koma peningum út úr höftum með ólögmætum hætti svo hann gæti komið þeim aftur heim og fengið virðisaukninguna? Tók enginn „hringinn“ svokallaða?

Kjarninn hefur undir höndum ákæru í máli þar sem manni á fertugsaldri er gefið að hafa svikið tugi milljóna króna af nokkrum einstaklingum með því að hafa „vakið og styrkt þá röngu hugmynd“ hjá þeim um að hann starfrækti fjárfestingarsjóð í Bandaríkjunum og tekið við fé af þeim til að fjárfesta. Fénu ráðstafaði maðurinn hins vegar, samkvæmt ákæru, í eigin þágu eða annars „með þeim hætti að ekki tengdist eða gat samrýmst ætluðum fjárfestingum“. Brotaþolarnir í málinu hafa ekkert endurheimt af því fé sem þeir töldu sig hafa verið að leggja inn í bandaríska fjárfestingarsjóðinn til fjárfestingar. Greint hefur verið frá meintum fjársvikum mannsins áður í íslenskum fjölmiðlum.

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn meinta fjársvikaranum verður í byrjun apríl næstkomandi.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Maðurinn er hins vegar einnig ákærður fyrir meiriháttar brot gegn lögum um gjaldeyrismál með því að hafa í 18 tilvikum notað innstæður í íslenskum krónum, skipt þeim í erlendan gjaldeyri og látið senda þann gjaldeyri til útlanda með símgreiðslu. Greiðslurnar fóru inn á reikning erlends félags í hans eigu. Til þess að fá að gera þetta lét maðurinn sem að hann væri að greiða fyrir vöru og þjónustu. Vandamálið við þetta var að bæði kaupandinn og seljandinn voru í eigu hans sjálfs. Þegar viðskiptabanki mannsins neitaði í eitt skiptið að framkvæma símgreiðslu framvísaði maðurinn fölsuðum reikningi til að sýna fram á raunveruleika sýndarviðskiptana.

Ákæruvaldið telur að fjármagnsflutningar mannsins til Bandaríkjanna hafi tengst „hringstreymi fjármuna“ sem hafi skilað sér aftur til baka til Íslands. Endurkoma þeirra var í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, og þá með verulegri virðisaukningu.

Hringferð peninga til að græða á höftunum

Til einföldunar virkar „hringferð peninganna“ svona:

Maðurinn þykist vera að eiga vöru- eða þjónustu viðskipti við félag í Bandaríkjunum, sem hann á sjálfur. Þannig fær hann að skipta íslenskum krónum í gjaldeyri á skráð gengi og millifæra hann inn á bankareikning bandaríska félagsins, sem hann átti sjálfur. Fénu var síðan ráðstafað til að fjármagna þátttöku bandaríska félagsins í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands þar sem hægt var að kaupa íslenskar krónur á 20 prósent afslætti, þ.e. á hagstæðara gengi en þeim hafði verið skipt í gjaldeyri á. Bandaríska félagið „keypti“ síðan verðbréf útgefin af íslensku félagi sem maðurinn réði á þeim tíma. Hringferð peninganna er því lokið án þess að nein raunveruleg viðskipti hafi átt sér stað en búið að er að ná í 20 prósent virðisaukningu á það fjármagn sem fór þessa leið. Samkvæmt ákæru er um umtalsverða upphæð að ræða, eða 207,3 milljónir króna. Ávinningur mannsins hleypur því á tugum milljóna króna .

Í ákærunni kemur fram að héraðssaksóknari byggi málatilbúnað sinn á því að „í reynd hafi engir raunverulegir reikningar legið til grundvallar fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum ákærða[...]og að þau hafi að öðru leyti ekki tengst neins konar vöru- og þjónustuviðskiptum hans eða íslenskra félaga hans við viðtakendur greiðslnanna, þ.e. ákærða sjálfan eða bandarísk félög hans.[...]Í öðrum gögnum málsins er heldur ekkert sem fær stutt, og raunar þvert á móti, að ákærði sjálfur eða viðkomandi innlend félög hans hafi átt í vöru- og þjónustuviðskiptum við ákærða sjálfan í útlöndum eða viðkomandi bandarísk félög hans.“

Þá bendi niðurstöður rannsóknar embættisins til þess að símgreiðslurnar og gjaldeyrisviðskiptin hafi í reynd ekki verið annað en liður í „háttsemi ákærða og fleiri sem samkvæmt áður sögðu var til rannsóknar í málinu sem ætluð fjársvik hans og fleiri gegn Seðlabanka Íslands í tengslum við þátttöku bandarísks félags hans[...] í svonefndri fjárfestingaleið bankans. Gögn málsins um þetta sýna að þessar símgreiðslur og tilsvarandi gjaldeyrisviðskipti ákærða voru ekki liður í neinum vöru- og þjónustuviðskiptum heldur þess í stað hluti af viðameiri fjármagnsflutningum sem tengdust þátttöku hins bandaríska félags ákærða [...]í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands vegna svokallaðrar fjárfestingarleiðar bankans. Sú þátttaka var skipulögð og framkvæmd af ákærða af hálfu félagsins og var að öllu leyti á fölskum forsendum[...]Umræddir fjármagnsflutningar einkenndust meðal annars af hringstreymi fjármuna milli félags ákærða[...] í Bandaríkjunum og félaga ákærða á Íslandi.“

Þrátt fyrir að gera þurfi grein fyrir uppruna fjármuna sem komu til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, og að gilda ættu hömlur til að hindra „hringstreymi fjármagns“, þá var ekkert gert til að stöðva þessi „viðskipti“. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar