,,Og það er margt bréfið” sagði gamli maðurinn, í upphafskafla Íslandsklukkunnar, þegar hans majestets bífalingsmaður kom á Þingvelli til að höggva niður sameign þjóðarinnar, klukku. Þá vantaði eir og kopar til að endurreisa Kaupinhafn.
Danska ríkisstjórnin á von á bréfi. Þótt bréfa sé iðulega beðið með eftirvæntingu, og jafnvel tilhlökkun, er það bréf sem nú er væntanlegt ekki eitt þeirra. Bréfið kemur frá rússneskum stjórnvöldum. Það fjallar ekki um eir og kopar heldur um stálrör. Og það er ekkert smáræðis rör sem hér um ræðir. Það verður 1200 kílómetrar á lengd og 120 sentimetrar í þvermál og á að liggja frá Vyborg í Rússlandi til Greifswald í Þýskalandi. Lengstan hluta leiðarinnar á botni Finnlandsflóa og Eystrasalts. Rörinu er ætlað að flytja gas, frá Rússlandi til Þýskalands. Erindi bréfsins frá Rússum til Dana verður beiðni um leyfi til að rörið liggi um danska hafsvæðið við Borgundarhólm.
Á að liggja við hlið Nord Stream 1
Fyrirtækið sem stendur að lagningu leiðslunnar heitir Nord Stream. Rússneska fyrirtækið Gazprom á rúmlega helmings hlut en nokkur evrópsk fyrirtæki afganginn. Nord Stream var stofnað árið 2005 í þeim tilgangi að leggja gasleiðslu frá Rússlandi til Þýskalands. Sú leiðsla, sem er í raun tvær samliggjandi leiðslur, gengur undir nafninu Nord Stream 1 og var tekin í notkun í september 2011. Þessi leiðsla leysti úr brýnni þörf því Rússar vinna geysimikið gas og selja stóran hluta þess úr landi. Þangað til Nord Stream 1 var tekin í notkun fór stærstur hluti gasflutninganna til Vestur- Evrópu um Úkraínu.
Samskipti Rússa og Úkraínumanna eru afar stirð og Rússum þykir líklega síður en svo gott vera háðir Úkraínumönnum að þessu leyti. Rússarnir selja Úkraínumönnum gas og stundum hefur það gerst að greiðslur hafa ekki skilað sér. Rússar hafa lítið getað aðhafst, því þá hafa Úkraínumenn einfaldlega lokað fyrir streymið til Vestur-Evrópu, hafa semsagt haft tögl og haldir í þessum efnum. Rússum er líklega bölvanlega við að sitja í þessari klemmu og þess vegna hófu þeir fyrir allmörgum árum undirbúning nýrrar gasleiðslu, sem liggja skyldi við hlið Nord Stream 1. Hluta leiðarinnar, eins og áður sagði, um danskt hafsvæði, skammt undan strönd Borgundarhólms. Leyfið fyrir Nord Stream 1 veittu Danir árið 2009,án þess að depla auga, en nú eru breyttir tímar.
Hvað hefur breyst?
Það sem hefur breyst er einkum tvennt. Í fyrsta lagi það að samskipti marga þjóða og Rússlands eru ekki með sama hætti og þau voru árið 2009. Eru vægast sagt stirð. Rússar hafa undanfarið aukið hernaðarumsvif sín svo mjög að mörgum stendur stuggur af. Innan Evrópusambandsins er sú skoðun útbreidd að gasleiðslan Nord Stream 2 sé fremur liður í milliríkjapólitík Rússa en öryggi í gasflutningum. Í raun sé ekki bein þörf fyrir þessa nýju leiðslu eins og Rússar halda fram. Í öðru lagi kom í ljós fyrir nokkru að upplýsingarnar sem danska þingið, Folketinget, fékk á sínum tíma frá dönsku Orkumálastofnuninni voru að öllum líkindum rangar.
Í greinargerð frá stofnuninni kom fram að Dönum bæri skylda til að heimila lagningu leiðslunnar, í samræmi við Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (79. grein). Málið kom aldrei til kasta þingsins, Orkumálastofnunin veitti leyfið. En síðan hafa margir hafréttarsérfræðingar lýst sig ósammála þessari niðurstöðu Orkumálastofnunarinnar, það sé algjörlega í valdi Dana að ákveða hvort Rússar megi leggja leiðsluna svo nálægt landi við Borgundarhólm, innan 12 sjómílna frá ströndinni. Þar með er málið komið í hendur danska þingsins og þar eru menn ekki á einu máli. Sumir vilja leyfa lögnina, aðrir eru því mótfallnir. Margir þingmenn eru líka afar ósáttir við að leyfið fyrir eldri lögninni hafi verið veitt á röngum forsendum, eins og flest bendir til. Í nýrri skoðanakönnun kom fram að meirihluti Dana vill ekki að Rússar fái leyfi fyrir nýju lögninni.
Leituðu aðstoðar Evrópusambandsins
Danska ríkisstjórnin hefur lengi vitað að von væri á bréfinu frá Rússum. Hún hefur fyrir löngu haft samband við yfirstjórn Evrópusambandsins og óskað eftir aðstoð. Í Brussel ríkir skilningur á því að erfitt sé fyrir litla þjóð, einsog Dani, að standa eina gegn Rússum. En ekki er þó einhugur meðal ráðamanna ESB um afstöðuna til Rússa og leiðslunnar. Þjóðverjar vilja mjög gjarna fá Nord Stream leiðsluna í gagnið sem fyrst, sama gildir um Frakka. Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti fyrir nokkrum dögum að hún færi fús til að annast samninga við Rússa, fyrir hönd Dana. Sú vinna fer þó ekki í gang fyrr en formlegt erindi berst frá dönsku stjórninni.
Rússar segja nýju leiðsluna tryggja öryggi í flutningum
Rússar leggja mikla áherslu á að fá samþykki Dana fyrir nýju lögninni og það sem fyrst. Segja leiðsluna tryggja öryggi í gasflutningunum en milljónatugir evrópskra heimila nota rússagasið, eins og það er oft kallað, til upphitunar og matseldar. Þeir benda líka á að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að eldri lögnin, Nord Stream 1, hafi haft skaðleg áhrif á lífríkið í hafinu.
Hvað ef Danir segja nei?
Vinna við smíði röranna og tilheyrandi búnað hófst árið 2013. Áætlanir Rússa gera ráð fyrir að lagning leiðslunnar hefjist á næsta ári og hún komist í gagnið árið 2019. Þá er miðað við að leiðslan liggi samhliða Nord Stream 1. Ef svo færi að Danir synjuðu beiðni Rússa þýðir það ekki að leiðslan verði ekki lögð. Rússar myndu einfaldlega leggja lykku á leið leiðslunnar, færa hana fjær Borgundarhólmi og út úr danskri lögsögu. Það myndi væntanlega seinka því að leiðslan komist í gagnið en eitt eða tvö ár til eða frá skipta kannski ekki máli í þessu samhengi.