Ástandið á Kóreuskaga hefur ekki verið jafn viðkvæmt síðan árið 1953 þegar um vopnahlé var samið milli norðurs og suðurs. Norður-og Suður Kóreumenn, Bandaríkjamenn og Kínverjar hafa eflt viðbúnað sinn og aðrar þjóðir, s.s. Rússar og Japanir virðast búa sig undir það versta. Leiðtogar ríkjanna berja sér á brjóst og tala eins og stríð sé á næsta leyti. Erfitt er að segja til um hvernig slíkt stríð myndi þróast en miðað við stærð norður kóreyska hersins og kjarnorkugetu þeirra gæti slíkt stríð hæglega orðið að sögulegum harmleik.
Síðustu 100 ár eru blóði drifin og mörg stríð sem virðast nú algerlega tilgangslaus höfðu skelfilegar afleiðingar löngu eftir að beinum átökum lauk.
10. Stríð Sovétmanna í Afghanistan
Afghanistan nútímavæddist hratt á áttunda áratug síðustu aldar en árið 1978 frömdu kommúnistar valdarán með stuðningi Sovétríkjanna. Þeir settu kvaðir á bændur sem brugðust við með því að grípa til vopna og hin nýja stjórn missti tökin á landinu. Til að bjarga stjórninni var rauði herinn sendur inn í landið á jóladag árið 1979. Sovétmenn náðu borgunum en í sveitunum réðu uppreisnarhópar, mujahideen, sem notuðu trúnna sem vopn. Múslimar hvaðanæva úr heiminum fóru til Afghanistan til að berjast fyrir islam og gegn hinum guðlausa innrásarher.
En fleiri studdu þá líka, t.d. Bandaríkjamenn sem litu á átökin sem hluta af kalda stríðinu. Stríðið dróst á langinn og ástandið breyttist lítið uns Mikhail Gorbachev komst til valda. Stefna hans var að draga herliðið hægt og bítandi út úr landinu á seinni hluta níunda áratugsins. Sovétmenn fóru árið 1989 eftir áratug af þrátefli og við tók borgarastyrjöld sem lauk með valdatöku Talíbana árið 1996. Innrás Sovétmanna olli um 1 til 1,5 milljón dauðsföllum, gríðarlegu flóttamannavandamáli, uppgangi jihadisma og gerði Afghanistan að misheppnuðu ríki.
9. Íran-Írak
Eftir að sjítaklerkurinn Khomeini komst til valda í írönsku byltingunni árið 1979 einangraðist landið að miklu leyti frá umheiminum. Hann hvatti sjíta í Írak til að berjast gegn hinni veraldlegu stjórn Saddams Hussain en Hussain vildi ná svæðum og auðlindum í vesturhluta Íran. Með stuðningi bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna réðust Írakar inn í Íran án viðvörunar haustið 1980. Írökum gekk vel í upphafi en Íranir ráku þá svo til baka og sóttu inn í Írak.
Lengst af festist hernaðurinn þó í skotgröfum með tilheyrandi mannfalli. Írakar reyndu að brjóta upp þráteflið með efnavopnum (taugagasi, sinnepsgasi o.fl.) sem þeir beyttu í stórum stíl gegn bæði Írönum og bandamönnum þeirra Kúrdum og Íranir settu Írak í herkví með flota sínum í Persaflóa. En hvorugum stríðsaðilanum tókst að brjóta hinn á bak aftur og stríðið dróst í 8 ár. Það var þrýstingur (og olíuskortur) alþjóðasamfélagsins sem fékk þá loks að samningaborðinu og friður var loks saminn sumarið 1988. Alls féllu um ein milljón manns, helmingur í hvoru landi, án þess að landamærunum væri haggað nokkuð.
8. Víetnam stríðið
Víetnamar voru nánast samfleytt í stríði í rúma hálfa öld. Þeir börðust við Japani í seinni heimsstyrjöldinni 1941-1945, Frakka á árunum 1946-1954, innbyrðis og gegn Bandaríkjamönnum árin 1955-1975 og gegn Kambódíumönnum árin 1978-1992. Það er stríðið gegn Bandaríkjamönnum sem er það langþekktasta og það hafði mest áhrif. Bandaríkjamenn töldu sig ekki geta ráðist beint inn í hið kommúníska Norður Víetnam og í stað þess vörpuðu þeir ógrynni sprengja á landið. Þeir vörpuðu einnig efnavopnum, eldsprengjum og plöntueitri sem hafði skelfileg áhrif á heilsu íbúanna löngu eftir að stríðinu lauk og eyddi jurta og dýralífi á stórum svæðum.
Talið er að um 2 milljónir Víetnama hafi farist í stríðinu en einungis nokkrir tugir þúsunda Bandaríkjamanna. Víetnam stríðið var fyrsta stríðið sem Bandaríkjamenn horfðu á í sjónvarpi heima í stofu og andstaðan jókst heimafyrir með hverju árinu. Þegar Víetnamar gáfu sig ekki reyndi Richard Nixon forseti í örvæntingu sinni að útfæra stríðið til Kambódíu með skelfilegum afleiðingum. Bandaríkjamenn yfirgáfu landið loks árið 1973 og tveimur árum síðar var landið sameinað.
7. Íraksstríðið
Eftir árásina á Tvíburaturnana þann 11. september 2001 var stefna Bush-stjórnarinnar að taka hart á hryðjuverkamönnum og öllum þeim sem hýsa þá. Bandaríkjamenn höfðu því samúð heimsins þegar þeir réðust inn í Afghanistan þetta sama ár, þar sem Talíbanarnir hýstu Osama bin Laden. Heimurinn hafði minni skilning á innrásinni í Írak vorið 2003 sem var réttlætt með því að Saddam Hussain ætti gereyðingarvopn.
Að koma Baath-stjórninni í Írak frá völdum tók innan við mánuð og nokkrum mánuðum seinna var Hussain handsamaður. En þá byrjaði stríðið í raun og veru. Átök brutust út á milli sunní og sjíta múslima og Írak varð að einum stórum þjálfunarbúðum fyrir hryðjuverkahópa eins og t.d. Al-Qaeda og afsprengi þeirra, ISIS. Bandaríkjamenn og leppstjórn þeirra fékk engan frið til að byggja upp landið sem leystist upp í algert stjórnleysi. Innviðirnir hrundu, nauðsynjar s.s. rafmagn og vatn var af skornum skammti og mannfallið í heildina á bilinu 0,5 til 1 milljón manns, að langmestu leyti almennir borgarar. Enn hefur ekki tekist að vinda ofan af vandamálunum sem fylgdu innrásinni í Írak.
6. Kóreustríðið
Sundruð Kórea var vandamál sem stórveldunum tókst ekki að leysa eftir seinni heimsstyrjöldina og því voru stofnuð tvö leppríki sem bæði höfðu sameiningu að markmiði. Þann 25. júní árið 1950 hófu Norður Kóreumenn skyndiárás á suðrið og tókst nærri að ná öllum skaganum. Bandaríkin og nokkur ríki undir fána Sameinuðu Þjóðanna hófu gagnárás og hættu ekki fyrr en þeir voru komnir nálægt kínversku landamærunum.
Kínverjar gripu þá í taumana og hröktu sveitir Sameinuðu Þjóðanna að upprunalegu landamærunum og þar festist hernaðurinn í tvö ár uns vopnahlé var samið í júlí árið 1953. Á þessum tíma höfðu bæði Bandaríkin og Sovétríkin (sem studdu Norður Kóreu) kjarnorkugetu og herforingi Bandaríkjamanna, Douglas MacArthur, vildi beita slíkum vopnum. En Harry Truman Bandaríkjaforseti setti hann af til að stríðið færi ekki úr böndunum. Mannfallið var mikið í þessu stríði sem endaði með jafntefli á sama stað og það hafði byrjað. Talið er að um 1 milljón hermenn hafi fallið, flestir Kínverjar og Norður Kóreumenn, og um 1,5 milljón almennra borgara, þar af nokkuð fleiri í Suður Kóreu.
5. Borgarastyrjöldin í Kongó
Mannskæðasta stríðið síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk var háð í Lýðveldinu Kongó í hjarta Afríku á árunum 1998 til 2003. Kongóbúar máttu þola harkalega nýlendustefnu Belga og þriggja áratuga harðstjórn einræðisherrans Mobutu áður en landið leystist upp í stjórnleysi og röð innanlands styrjalda.
Eftir borgarastyrjöldina í nágrannaríkinu Rúanda árið 1994 flúðu tæp milljón Hútúmanna yfir til Kongó en Tútsar, sem náðu völdum í Rúanda, vildu láta kné fylgja kviði og réðust inn í landið og náðu næstum að fella hina nýju stjórn forsetans Kabila. Mörg Afríkuríki (Úganda, Angóla, Zimbabwe o.fl) tóku þátt í stríðinu sem fór að mestu leyti fram í austurhlutanum sem er ákaflega ríkur af demöntum og góðmálmum. Stríðið er eitt það hrottalegasta sem hefur verið háð þar sem stríðsherrar fóru um með barnaheri, slátruðu heilu þorpunum, brenndu, nauðguðu og aflimuðu. Talið er að tæplega 3 milljónir hafi farist í stríðinu og annað eins á næstu árum á eftir vegna þess. Engu að síður hefur ákaflega lítið verið fjallað um stríðið í vestrænum fjölmiðlum.
4. Kínverska borgarastyrjöldin
Kínverska borgarastyrjöldin var háð á árunum 1927 til 1949 á milli kommúnista undir forystu Maó Zedong og þjóðernissinna undir forystu Chiang Kai-shek. Lengst af voru þjóðernissinnar ofan á og Kai-shek viðurkenndur sem leiðtogi Kína. Stríðið er mjög sérstakt að því leyti að á árunum 1937-1945 gerðu aðilarnir hlé á innbyrðist baráttu (að mestu) og börðust þess í stað sameinaðir gegn Japönum sem lögðu undir sig gervalla austurströndina.
Árin eftir sigurinn á Japönum voru mun blóðugri en upphafsár stríðsins og báðir aðilar gerðust sekir um fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Talið er að um 8 milljónir hafi fallið í borgarastyrjöldinni og þar af 6 milljónir á árunum eftir heimsstyrjöld. En þá voru kommúnistarnir orðnir mun sterkari, sérstaklega í norðurhluta landsins og í sveitunum. Þegar tap virtist óumflýjanlegt sigldi Kai-shek með her sinn yfir til eyjunnar Formósu og setti á fót eigið ríki, sem nú er þekkt sem Tævan. 1. október árið 1949 var Alþýðulýðveldið Kína stofnað og bardögunum lauk. Stríðinu lauk þó aldrei formlega og enn þann dag í dag gera Kínverjar og Tævanir kröfu á landsvæði hvors annars.
3. Rússneska borgarastyrjöldin
Eftir að hafa misst um 3 milljónir manna í fyrri heimstyrjöldinni (mest allra) steyptu Rússar keisaranum Nikulási II og kommúnistar komust til valda haustið 1917. Lenín samdi um frið við Þjóðverja og gaf eftir mikið landsvæði en þá hófst nýtt stríð innanlands á milli kommúnista (rauðliða) og andstæðinga þeirra (hvítliða).
Hvítliðum varð ágengt í upphafi, sérstaklega á jaðarsvæðum í Eystrasalti, Kákakushéruðunum og í Síberíu. En þeir voru sundraðir á meðan rauði herinn var sameinaður undir forystu Leons Trotský. Kommúnistar stóðu uppi sem sigurvegarar árið 1922 og mynduðu Sovétríkin en hvítliðar héldu Eystrasaltslöndunum og Póllandi. Það sem einkenndi þetta stríð voru hreinsanir, fjöldaaftökur og þjóðarmorð á báða bóga m.a. gegn Gyðingum og Kósökkum. Talið er að um 8 milljónir hafi farist í styrjöldinni en þar af einungis 1,5 milljón hermenn. Stór hluti af tölunni orsakast af mikilli hungursneyð undir lok stríðsins en auk gríðarlegs mannfalls þá flúðu margar milljónir Rússland á þessum árum, til Evrópu, Bandaríkjanna og Kína.
2. Fyrri heimsstyrjöldin
Þegar Franz Ferdinand, ríkisarfi austuríska keisaradæmisins, var myrtur í júnímánuði 1914 hófst keðjuverkun sem leiddi til þess að öll stórveldi heimsins bárust á banaspjótum. Barist var um gervallan heiminn en langmestu átökin áttu sér stað á vestur og austurvígstöðvum Evrópu. Stríðið var háð á þeim tíma þegar varnarvopn skiluðu mun betri árangri en sóknarvopn og því festust víglínur í skotgrafarhernaði, sérstaklega á vesturvígstöðvunum.
Herforingjar sendu tugi og hundruðir þúsunda pilta út í opinn dauðann í stórum orrustum á borð við Ypres, Somme og Verdun þar sem ávinningurinn var í mesta lagi nokkrir kílómetrar. Stríðsaðilar prófuðu ýmislegt (flugvélar, gas, skriðdreka) en stríðið var í raun óvinnanlegt á vígvellinum. Það var því mannafli og efnahagslegt úthald sem skilaði Bandamönnum að lokum sigri. Þegar stríðinu lauk í nóvember árið 1918 höfðu 17 milljónir fallið í valinn, þar af tæpur helmingur almennir borgarar, og landakort heimsins var teiknað upp á nýtt. Þá kom spænska veikin og tók tæplega 100 milljón sálir í viðbót.
1. Seinni heimsstyrjöldin
Seinni heimsstyrjöldin er stærsta stríð og jafnframt einn stærsti atburður mannkynssögunnar. Stríðið sem hófst í Asíu árið 1937 og Evrópu 1939 orsakaðist af upprisu fasískra afla með landvinninga að sjónarmiði. Lífsrými (Lebensraum) til að færa út kvíarnar og undiroka hópa sem taldir voru óæðri. Þegar allt er talið voru dauðsföllin u.þ.b. 80 milljónir (3,5% af jarðarbúum) og margar milljónir þurftu að flýja heimili sín eða voru flæmd burt eftir stríðið. Heimsmyndin og áhrifasvæði riðluðust og ógnarjafnvægi kalda stríðsins tók við þegar hildarleiknum lauk árið 1945.
Bandaríkin leiddu nú hinn vestræna heim því Evrópa var í molum og Sovétríkin urðu að heimsveldi þrátt fyrir að hafa misst flesta íbúa (27 milljónir). Stærstur hluti látinna voru óbreyttir borgarar sem voru stráfelldir kerfisbundið, t.d. af vígasveitum nasista (einsatzgruppen). Íbúafjöldi landa eins og Póllands og Hvíta Rússlands náði sér ekki á strik fyrr en mörgum áratugum seinna. Þekktasti atburður heimsstyrjaldarinnar er þó helförin þar sem morð voru gerð að verksmiðjuiðnaði. Rúmlega 10 milljónir fórust og þar af stærstur hluti gyðingdóms í Evrópu. Helförin breytti því samsetningu álfunnar til frambúðar.