Greint var frá því í Markaðnum í vikunni að 832 núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans, sem fengu hlutabréf í bankanum gefins á árinu 2013, hefðu selt bréf sín fyrir alls 1.391 milljón króna. Bréfin seldi hópurinn bankanum sjálfum í kjölfar þess að bankaráð hans hóf að kaupa eigin bréf í samræmi við endurkaupaáætlun í september 2016. Samkvæmt áætluninni bauðst bankinn til að kaupa allt að tveggja prósenta hlut í sjálfum sér í þremur lotum.
Íslenska ríkið á 98,2 prósent í bankanum og því ljóst að tilboðið var fyrst og síðast til þeirra starfsmanna sem höfðu fengið hlut í bankanum gefins. Ljóst er á ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2016 að ansi margir ákváðu að selja hlutinn og losa þar með út féð. Alls fækkaði hluthöfum Landsbankans um 832 fram að lokum síðasta árs. Hver starfsmaður fékk að meðaltali 1,7 milljónir króna við söluna. Framkvæmdastjórar bankans seldu ekki. Virði þess hlutafjár sem aðrir hluthafar en íslenska ríkið – fyrrverandi og núverandi starfsmenn og 430 fyrrum stofnfjárhafar í tveimur sparisjóðum – áttu enn um síðustu áramót var um 844 milljónir króna miðað við meðalverðið sem greitt var fyrir hluti á árinu 2016. Hluthafar bankans seldu einning bréf í Landsbankanum í febrúar síðastliðum, í síðustu endurkaupalotunni, fyrir rétt rúmlega 90 milljónir króna.
Kjarninn greindi frá því um miðjan mars að ekki fáist upplýsingum um hvort Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hafi selt sína hluti eða ekki. Hann var tíundi stærsti hluthafi Landsbankans samkvæmt ársreikningi 2016 með 345.228 hluti í bankanum. Miðað við meðalverð í endurkaupum Landsbankans á hlutum er virði þess hlutar um 3,6 milljónir króna. Steinþóri var sagt upp störfum í nóvember 2016 vegna Borgunarmálsins svokallaða.
Afleiðing af uppgjöri við kröfhafa
Þegar íslenska ríkið bjó til nýja banka í október 2008 á grundvelli neyðarlaganna voru innlendar innstæður færðar með handafli úr þrotabúum föllnu bankanna yfir í þá. Sömuleiðis voru teknar eignir til að mæta þeim innstæðum, gegn vilyrði um að sannvirði yrði greitt fyrir þær eignir þegar virði þeirra lægi fyrir, sem það sannarlega gerði ekki í auga stormsins haustið 2008.
Árið 2009 var svo samið við kröfuhafa gömlu bankanna um hvernig þessi „skuld“ yrði gerð upp. Í tilfelli Íslandsbanka og Arion banka var það gert með því að kröfuhafarnir eignuðust bankana að mestu. Staðan var hins vegar öðruvísi hjá Landsbankanum. Þar var kröfuhafahópurinn öðruvísi samsettur, líkur á almennum endurheimtum taldar minni, auk þess sem þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafði engan áhuga að láta stærsta endurreista bankann frá sér. Ríkið skyldi eiga hann áfram. Það var pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem sat að völdum.
Samkomulagið sem gert var með Landsbankann og var undirritað í desember 2009 var þannig að ríkið hélt 81,3 prósenta hlut í bankanum en kröfuhafarnir fengu 12,7 prósent. Samhliða gaf Landsbankinn hins vegar út tvö skuldabréf. Annað, sem var upp á 260 milljarða króna í erlendri mynt, átti að greiðast til baka fyrir árslok 2018 vegna yfirtekinna eigna. Hitt, sem var svokallað skilyrt skuldabréf, var bundið við virðisþróun eigna í tveimur eignasöfnum, Pegasus og Pony. Annað var safn lána til stærri fyrirtækja og hitt til smærri fyrirtækja.
Lánasöfnin voru færð yfir í nýja Landsbankann á lágu verði. Ef virðisaukning ætti sér stað átti nýi Landsbankinn að fá 15 prósent hennar en 85 prósent áttu að renna til þrotabús gamla bankans. Sá hluti sem átti að fara til þrotabúsins átti að greiðast með skilyrta skuldabréfinu. Ef virði þess næði 92 milljörðum króna fyrir árslok 2012 átti þrotabúið auk þess að afhenda eignarhlut sinn í nýja bankanum til ríkisins og nýja bankans.
Skemmst er frá því að segja að eignirnar voru mun verðmeiri en reiknað var með í upphafi. Í apríl 2013 var skilyrt skuldabréf upp á 92 milljarða króna gefið út til þrotabúsins og um 17 prósenta hlutur var í staðinn afhentur íslenska ríkinu, sem átti þar með um 98 prósenta hlut í nýja Landsbankanum. Það sem upp á vantar, tveggja prósenta hlutur, rann til Landsbankans
til að mynda stofn fyrir nokkurskonar kaupaukakerfi fyrir starfsmenn hans.
Í yfirlýsingu sem bankinn sendi frá sér vegna kaupaukakerfisins snemma árs 2010 sagði að af „frumkvæði kröfuhafa var gert samkomulag á milli skilanefndar Landsbanka Íslands hf. (gamla bankans), fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs og Landsbankans (NBI hf.) um að hluti hlutabréfa í NBI hf. sem skilanefndin heldur nú á, myndi stofn fyrir kaupaukakerfi sem næði til allra starfsmanna“.
Rukkunarverðlaun sem Steingrímur sættist á
Það klóruðu ansi margir sér í höfðinu yfir þessari ákvörðun. Var vinstri stjórnin, sem hafði gagnrýnt nýfrjálshyggju og hömluleysi fyrirhrunsáranna linnulaust að gefa starfsmönnum Landsbankans, ríkisstarfsmönnum, eign sem metin var á milljarða króna í gegnum bónuskerfi?
Já, það var sannarlega þannig. Og kaupaukakerfið átti að verða verðlaun fyrir starfsfólk bankans ef það næði að innheimta lánin sem voru inni í Pegasus og Pony söfnunum með meiri ávinningi fyrir þrotabúið. Eins konar rukkunarverðlaun.
Líkt og áður sagði var samkomulagið var gert þegar Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra. Hann fjallar um það í bók sinni, Steingrímur J. – Frá Hruni og heim, sem kom út árið 2013. Þar segir hann að í samningaviðræðum um uppgjör milli gamla og nýja Landsbankans hafi skilanefnd hans, að kröfu kröfuhafa bankans, hafi „heimtað að yfirmenn nýja bankans fengju ríkulega bónusa í sinn hlut ef þeim gengi vel að hámarka verðmæti eignasafnsins.“
Þetta sagði Steingrímur að stjórnvöldum hafi þótt óásættanlegt og „draugur úr þeirri fortíð sem við vildum síst af öllu snúa aftur til“. Málið hafi þó staðið í miklu stappi og tafið uppgjörið. „Að lokum var sæst á þá leið að allir starfsmenn bankans skyldu þá njóta góðs af í tilteknum mæli, ef vel gengi, í formi þess að eignast minniháttar hlut, nálægt tvö prósent, í bankanum sem þeir skiptu á milli sín. Tregur féllst ég á þetta í þágu þess að klára samninganna.“