Í kvöld verða kappræður ársins í frönskum stjórnmálum. Þá mætast forsetaframbjóðendurnir Emmanuel Macron og Marine Le Pen. Kosið verður á sunnudag. Öll Evrópa fylgist spennt með; framtíð Evrópusambandsins virðist vera í húfi í þessum forsetaslag, sem endurspeglar einnig þróun stjórnmála í álfunni. Macron vill efla samstarf Evrópu, en Le Pen draga úr því. Búist er við hörðum umræðum þar sem tekist verður á um innflytjendamál, alþjóðavæðingu og einangrunarstefnu. Kappræðurnar verða í beinni útsendingu í rúma tvo tíma. Allt er lagt undir. Bæði tóku þau sér frí í gær til þess að undirbúa sig fyrir átökin. Þetta er mikilvægasti viðburður kosningabaráttunar. Áhorfið er gríðarlegt, margir kjósendur gera upp hug sinn eftir þessa útsendingu.
Sögulegur sjónvarpsviðburður
Frakkar hafa upplifað mörg dramatísk atvik í þessari mikilvægu sjónvarpsútsendingu. Það var ískalt andrúmsloft þegar François Mitterand og Valéry Giscard tókust á 1981. Fyrirlitning skein úr augum þeirra, háðsk og eitruð orð féllu.
Frægar eru sömuleiðis harðvítugar kappræður Mitterand og Jaques Chirac árið 1988. Þá höfðu þessir miklu mótherjar þurft að starfa saman í ríkisstjórn, tilneyddir, í heil tvö ár. Mitterand ávarpaði Chiraq stöðugt sem forsætisráðherra sem fór afskaplega í pirrurnar á Chirac og kom honum úr jafnvægi. Hann brást við með því að kalla forsetann Herra Mitterand (sem er ákveðinn dónaskapur) og Mitterand svaraði þá með því að kalla hann Herra forsætisráðherra. Chirac brást reiður við og sagði: „Má ég bara minna þig á að ég er ekki forsætisráðherra og þú ert ekki starfandi forseti. Við erum tveir frambjóðendur á jafnréttisgrundvelli.“
Umræðurnar breyttust hálfpartinn í hanaslag og skítkast og franska þjóðin var í hálfgerðu sjokki yfir þessu öllu saman. Chirac var alla tíð þekktur fyrir að vera djarfur og framsækinn í kappræðum en þarna svaraði Mitterand honum fullum hálsi og var endurkjörinn fyrir vikið.
Frægustu kappræðurnar eru þó kannski þær sem fóru aldrei fram. Árið 2002 komst Jean-Marie Le Pen, faðir Marine Le Pen, í seinni umferð kosninganna, en sitjandi forseti, Jaques Chirac, neitaði að mæta honum.
Öllu meira gekk á þegar Ségolène Royal, fyrsta konan til þessa að komast í seinni umferð forsetakosninganna, mætti Nicolas Sarkozy í sjónvarpskappræðum 2007. Sarkozy, sem er þekktur ræðukappi, átti í vök að verjast fyrsta klukkutímann og var kominn út í horn þegar Royal sakaði hann um spillingu og vanrækslu í starfi. Allt stefndi í rothögg þegar Sarkozy spurði Royal hvort hún hefði virkilega taugarnar í þetta starf, hún væri stöðugt að missa stjórn á skapi sínu. Sarkozy horfði aldrei til hennar, heldur til þáttarstjórnenda. Karlrembustælar sem komu Royal úr jafnvægi.
Í kvöld er búist við fjörugum umræðum. Le Pen og Macron eru algjörar andstæður í pólitík, hann er frjálslyndur, evrópusinni; hún þjóðernissinnuð, hægri öfgakona og andstæðingur ESB. Hún hefur látið í sér heyra í vikunni, kallað Macron elítustrák og þjón auðvaldsins. Hann er öllu kurteisari en lætur hana ef til vill finna til tevatnsins í kvöld.
Gæti dræm kjörsókn orðið Macron að falli?
Samkvæmt öllum skoðanakönnunum ætti Macron að hafa betur á sunnudag, en reynsla síðasta árs (bandarísku forsetakosningarnar og Brexit) sýnir okkur að ekki er alltaf hægt að treysta þeim. Flestar kannanir sýna mikinn mun. Macron 60% og Le Pen 40%.
Macron virðist samt ekki geta treyst á vinstra fólk í þessum slag. Mikill meirihluti stuðningsmanna Jean-Luc Mélenchon ætlar ekki að kjósa Macron á sunnudaginn kemur. Um 36% þeirra ætla að skila auðu eða ógildu, 29% ætla ekki að mæta. Einungis 35% segjast ætla að styðja Macron. Mélenchon, sem lenti í fjórða sæti, hefur ekki fylgt fordæmi Francois Fillon og Benoît Hamon og lýst yfir stuðningi á Macron. Margir hafa gagnrýnt hann fyrir að leggja ekki sitt af mörkum til þess að halda Front National frá völdum og kalla hann siðlausan vinstri öfgamann. Hann ætlar samt að kjósa og hefur sagt við blaðamenn að það þurfi nú enga sérfræðinga til þess að giska á hvað hann kjósi að lokum. „Heldur virkilega einhver að ég muni kjósa Front National? En ég styð ekki áætlun Macron, mér lýst ekkert á hvað hann ætlar að gera.“
Þetta er því sýnd veiði en ekki gefin fyrir Emmanuel Macron, hann gæti lent í vandræðum ef kjörsókn verður dræm. Til þess að Marine Le Pen fari með sigur af hólmi þarf aðvitað eitthvað meiriháttar að gerast. En reynslan hefur einmitt sýnt okkur að allt getur einmitt gerst.