Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn voru búin að gera drög að stjórnarsáttmála ríkisstjórnar fjórflokksins um síðustu áramót.
Formaður Vinstri grænna var hörð á því að fara ekki með sinn flokk einan í samstarf við þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, og því var lagt hart að Samfylkingunni um að svara því til hvort hún vildi vera með. Um var að reyna háleynilegt verkefni og í viðræðum um samstarfið var tekið loforð um að einungis einum öðrum en formönnum flokkanna fjögurra yrði blandað í málið í hverjum flokki.
2. janúar síðastliðinn lá fyrir texti sem unnin hafði verið yfir hátíðirnar um efnisatriði samstarfs Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar í ríkisstjórn og mikill þrýstingur var settur á Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, að vera með í samstarfinu. Í textanum hafi hins vegar verið ákaflega fátt sem Samfylkingin gat sætt sig við og því hafi flokkurinn metið það sem svo að hann hafi ekki viljað standa í vegi fyrir öðrum viðræðum um ríkisstjórnarmyndun – milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks – sem hefðu getað leitt til frekari umbóta í sjávarútvegi og kosninga um Evrópumál, hvor tveggja mál sem ekki voru í boði í fjórflokkastjórninni. Þess vegna hafi voru skilaboð send um að Samfylkingin væri til viðræðu ef leysa þyrfti stjórnarkreppu en að bíða þyrfti átekta eftir því hvert samtal Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar myndi leiða.
Þetta kemur fram í grein sem Kristján Guy Burgess, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, hefur skrifað um stjórnarmyndunarviðræðurnar í vetur og birt var í nýútkomnu vorhefti Skírnis.
Engin skýr ríkisstjórn í kortunum
Það fór varla fram hjá neinum að erfiðlega gekk að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar í október í fyrra. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem nú situr við völd, tók ekki við fyrr en 11. janúar 2017. Sú ríkisstjórn samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð og er með minnsta mögulega meirihluta á þingi. Hún glímir líka við fordæmalausar óvinsældir ef miðað er við hvað hún hefur setið stutt. Nýleg könnun MMR sýnir að einungis 31,4 prósent þjóðarinnar styður hana. Ríkisstjórnin ber því öll merki þess að vera ríkisstjórn sem var ekki óskastjórn neins.
Flokkarnir þrír höfðu enda reynt tvívegis áður að ná saman í viðræðum áður en það tókst. Milli þeirra viðræðna fóru líka tvívegis fram formlegar viðræður milli fimm flokka – allra nema Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – um myndun ríkisstjórnar. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Bjarni Benediktsson hittust þess utan á fundum til að sjá hvort flokkar þeirra, sem sitja sitt hvoru megin á hinum pólitíska ás en eiga íhaldssemi sameiginlega, gætu náð saman um meirihlutasamstarf. Svo reyndist ekki vera.
Fyrir utan hinar formlegu viðræður áttu sér stað allskyns óformlegar viðræður. Staðan var enda flókin. Sjö flokkar á þingi, kerfisvarnarflokkarnir tveir (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn), sem vanir eru að stjórnar Íslandi, fengu einungis um 40 prósent atkvæða og Samfylkingin var við það að þurrkast út í kosningunum. Þrír flokkar sem stofnaðir voru eftir árið 2012 höfðu náð 21 þingsæti, eða þriðjungi. Ljóst var að engin flokkur gat myndað draumaríkisstjórn sína. Og ef það ætti yfir höfuð að takast að mynda meirihlutastjórn yrði að gera ansi miklar málamiðlanir í lykilmálum.
Framsókn byrjaði á Þorláksmessu
Það áttu sér því stað ýmiskonar óformlegar þreifingar milli forystumanna flokkanna sem voru þess eðlis að þeir vildu ekki að þær spyrðust mikið út. Um var að ræða viðræður sem gætu orðið afar óvinsælar í baklandinu og því ríkti um þær mikil leynd.
Bjarni Benediktsson fékk formlegt stjórnarmyndunarumboð til að mynda þá ríkisstjórn sem nú situr að völdum skömmu fyrir síðustu áramót. Í ljósi þess að flokkarnir þrír sem að þeim viðræðum stóðu höfðu reynt tvívegis áður var gengið út frá því að nú hlyti málið að standa þannig að saman myndi nást. Það væri beinlínis ábyrgðarlaust að sækjast eftir formlegu stjórnarmyndunarumboði ef svo væri ekki.
Það vakti því mikla athygli þegar Morgunblaðið birti forsíðufrétt 2. janúar um að forystumenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks hefðu átt samtöl daganna á undan um mögulega stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki.
Í grein Kristjáns Guy segir reyndar í grein sinni í Skírni að samtöl milli flokka, sem ekki urðu að formlegum viðræðum, hafi byrjað á ný á Þorláksmessu 2016. Þá hafi Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, byrjað að kalla fólk til sín. Hann hafi óttast að ný myndu frændurnir Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé loks ná saman.
Þrýst á Samfylkinguna
Kristján Guy segir að Sigurður Ingi hafi viljað kanna hvort Vinstri græn, Framsókn og Samfylkingin gætu staðið að sameiginlegu tilboði til Sjálfstæðisflokksins. „Þetta var háleynilegt prójekt og þegar þau ræddu saman formennirnir milli jóla og nýárs og byrjuðu að vinna með texta, var tekið loforð um að einungis einum öðrum yrði blandað í málið í hverjum flokki. Þess vegna kom það flestum á óvart þegar fréttir birtust af málinu 2. janúar í Morgunblaðinu.“
Þrátt fyrir að Bjarni hafi verið kominn með formlegt stjórnmyndarumboð til að mynda stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð á þessum tíma hafi hann fengið að vita um hvað væri verið að ræða milli Framsóknar, Vinstri grænna og Samfylkingar milli jóla og nýárs, en vildi ekki blanda sér í þær viðræður meðan hann væri enn að ræða við hina. Það hafi þó ekki breytt því, að sögn Kristjáns Guy, að málaleitan um fjögurra flokka „þjóðstjórn” myndi freista margra Sjálfstæðismanna frekar en að vinna með Benedikt Jóhannessyni og Viðreisn.
Í grein Kristjáns Guy segir svo: „Þegar dró að úrslitastundu á fyrsta vinnudegi nýs árs var tíminn að hlaupa frá þeim sem vildu nýta tækifærið og freista Bjarna Benediktssonar. Honum hafði þótt samvinna við Framsókn og Vinstri græn afar ákjósanlegur kostur þessa tvo mánuði og nú gæti hann verið á borðinu. En Katrín var enn hörð á því að Vinstri græn færu ekki ein til samstarfs við stjórnarflokkana sem höfðu hrökklast frá völdum og þess vegna þyrfti Samfylkingin að svara því hvort hún væri með.
Mikill þrýstingur var lagður á formann Samfylkingarinnar úr herbúðum VG að vera með með þeim orðum að ef þetta gengi ekki upp yrði til hægrisinnaðasta stjórn Íslandssögunnar sem myndi engu skeyta um hagsmuni landsbyggðarinnar. Hvað sem Loga fannst um þá viðvörun, þá leit hann ekki svo á að það væri á hans ábyrgð. Ef Vinstri græn vildu mynda ríkisstjórn, þyrfti ekki á því að halda að Samfylkingin væri með, til þess væri nægur meirihluti á þingi.
En þarna 2. janúar lá fyrir texti sem unninn hafði verið yfir hátíðirnar um efnisatriði samstarfs fjögurra flokka í stjórn en í honum var ákaflega fátt sem Samfylkingin gat haldið sér í. Ekkert var nægilega haldfast um umbætur í sjávarútvegi, Evrópumálin óljós og ekkert í gadda slegið um fjárfestingar í heilbrigðismálum eða uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Það hefði eflaust verið hægt að vinna textann betur, en það leit ekki út fyrir að efnisatriðin sem Samfylkingin hafði lagt inn í umræðurnar, fengju þar mikið pláss.“
Segir Viðreisn og Bjarta framtíð hafa lagt niður kröfur sínar
Það varð því mat Samfylkingarinnar að vilja ekki „standa að því að skemma fyrir viðræðum sem útlit var þá fyrir að gæti leitt til umbóta í sjávarútvegi og kosninga um Evrópu, nokkuð sem Viðreisn var stofnuð um og Björt framtíð hafði einnig haldið hátt á lofti alla sína tíð. Skilaboð voru gefin um að Samfylkingin yrði til viðræðu ef leysa þyrfti stjórnarkreppu en bíða yrði átekta eftir því hvert samtal Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar myndi leiða.“
Kristján Guy segir síðan að úr hafi orðið að Viðreisn og Björt framtíð hafi lagt niður allar kröfur sínar um raunverulegar umbætur í sjávarútvegsmálum í skiptum fyrir aðild að ríkisstjórn. Til viðbótar hafi Sjálfstæðisflokkurinn unnið fullnaðarsigur í Evrópumálum. „Flokkarnir sem höfðu með taktískri snilld haldið sér inni í öllum viðræðum, gátu ekki tryggt sín helstu baráttumál þegar á hólminn var komið. Þau vanmátu eigin samningsstöðu og ofmátu getu landsbyggðararms VG til að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn[...]Eins manns meirihlutinn sem þótti alltof tæpur lengst af viðræðunum og hafði leitt til stjórnarskipta árin 1991, 1995 og 2007, var orðinn í lagi. Stjórnin sem ekki var á vetur setjandi, var orðin að veruleika.“