Alls keyptu erlendir aðilar eignir á Íslandi fyrir 79 milljarða króna á síðasta ári. Nýfjárfesting í atvinnurekstri nam 30,2 milljörðum króna og útlendingar keyptu ríkisskuldabréf fyrir 28,9 milljarða króna. Fjárfesting í skráðum hlutabréfum nam 11,1 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tölum um innflæði erlends gjaldeyris á grundvelli nýfjárfestingarheimildar sem Seðlabanki Íslands hefur tekið saman fyrir Kjarnann.
Nýfjárfesting erlendra aðila jókst lítillega á milli ára, en hún var 76,1 milljarður króna árið 2015. Þá var langstærsti hluti hennar í íslenskum ríkisskuldabréfum, eða um 54 milljarðar króna. Þær tölur gáfu skýrt til kynna að hin svokölluðu vaxtamunaviðskipti voru hafin af mikilli alvöru á ný. Nýju tölurnar benda til þess að nýtt fjárstreymistæki, sem Seðlabankinn kynnti til leiks í júní í fyrra til að draga úr vaxtamunaviðskiptum, hafi virkað. Kaup erlendra aðila á íslenskum ríkisskuldabréfum drógust verulega saman.
Háir vextir laða að spákaupmenn
Á árunum fyrir hrun flæddu erlendir peningar inn í íslenska hagkerfið í svokölluðum vaxtamunaviðskiptum. Í einföldu máli snúast þau um að erlendir fjárfestar tóku lán í myntum þar sem vextir voru lágir og keyptu síðan íslensk skuldabréf, vegna þess að vextir á þeim eru háir í öllum alþjóðlegum samanburði. Því gátu fjárfestarnir hagnast vel umfram þann kostnað sem þeir báru af lántöku sinnar. Og ef þeir voru að gera viðskipti með eigin fé þá gátu þeir auðvitað hagnast enn meira.
Þessi vaxtamunaviðskipti áttu stóran þátt í að blása upp þá bólu sem sprakk á Íslandi haustið 2008. Það erlenda fé sem leitaði í íslenska skuldabréfaflokka var endurlánað til viðskiptavina íslensku bankanna og við það stækkaði umfang þeirra gríðarlega. Við hrun, þegar setja þurfti fjármagnshöft á til að hindra útflæði gjaldeyris, voru vaxtamunafjárfestingar vel á sjöunda hundrað milljarða króna.
Meginvextir Seðlabanka Íslands lækkuðu skarpt fyrstu árin eftir hrun. Þeir hækkuðu hins vegar aftur á síðustu árum og fóru hæst upp í 5,75 prósent í fyrra. Nú eru þeir fimm prósent. Sömu vextir eru hins vegar nálægt núllinu í mörgum öðrum löndum.
Nýtt tæki kynnt til sögunnar
Á fyrsta fundi Þjóðhagsráðs, sem haldin var í júní í fyrra, varaði Már Guðmundsson seðlabankastjóri við auknum vaxtamunaviðskiptum. Samkvæmt fundargerð sagði Már að peningastefnan á Íslandi stæði frammi fyrir miklum áskorunum, að losun fjármagnshafta væri ein þeirra og að vextir hér væru líka mun hærri en víðast hvar annars staðar. Már sagði að vaxtamunurinn á milli Íslands og annarra landa „skapa hættu á fjármagnsinnstreymi á grundvelli svokallaðra vaxtamunarviðskipta, en slíkt innstreymi hefði truflað miðlum peningastefnunnar í gegnum vexti á seinni helmingi síðasta árs“. Már bætti þó við að nýtt fjárstreymistæki, sem Seðlabankinn kynnti til leiks í byrjun júnímánaðar, ætti að geta haft „áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til og frá landinu og þannig væri betur hægt að beita vöxtunum til að dempa eftirspurn ef á þyrfti að halda“. Það stjórntæki er refla um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.
Már bætti því við í viðtali við Morgunblaðið skömmu síðar tækið „svínvirki“ og að innstreymi erlends gjaldeyris inn á skuldabréfamarkaðinn hafi algjörlega stöðvast eftir að Seðlabankinn hóf að beita reglunni og vaxtamunaviðskiptin þar með líka.
Miðað við samdráttinn sem orðið hefur í fjárfestingum í ríkisskuldabréfum er þetta rétt hjá Má. Árið 2015 nam fjárfesting í þeim 54 milljörðum króna en í fyrra einungis 28,2 milljörðum króna. Vaxtamunaviðskiptin hafa því tæplega helmingast. Gera má ráð fyrir því að obbi þeirra kaupa sem áttu sér stað í fyrra hafi átt sér stað áður en Seðlabankinn hóf að beita nýja stjórntækinu.
Þetta var mjög mikilvægt í aðdraganda þess að höft yrðu losuð frekar, líkt og gert var fyrr á þessu ári. Ef óbreytt vaxtamunaviðskipti hefðu verið valkostur eftir losun þeirra gæti það skapað mikinn vanda í íslensku efnahagskerfi á mjög skömmum tíma.
Útlendingar kaupa mun meira af hlutabréfum og „öðru“
Þrátt fyrir minnkandi vaxtamunaviðskipti jókst erlend nýfjárfesting milli ára um tæplega þrjá milljarða króna. Athygli vekur að áhugi erlendra fjárfesta á skráðum íslenskum hlutabréfum tvöfaldast á milli ára. Árið 2015 keyptu þeir slík fyrir 5,7 milljarða króna en í fyrra keyptu þeir hlutabréf fyrir 11,1 milljarð króna.
Þá er mikil aukning í nýfjárfestingu í atvinnurekstri milli ára, en hún fór úr 13 milljörðum króna í 30,2 milljarða króna. Áhugi útlendinga á íslenskum fasteignum jókst líka. Þeir keyptu slíkar fyrir 652 milljónir króna 2015 en fyrir einn milljarð króna í fyrra.
Í samantekt Seðlabankans er líka liður sem heitir „aðrar fjárfestingar“. Sá liður vex hlutfallslega mest á milli ára og fer úr 1,1 milljarði króna 2015 í 6,2 milljarða króna í fyrra.