Helguvíkurmartröðin heldur áfram
Arion banki á 16 prósent í United Silicon og er helsti lánardrottinn félagsins. Lífeyrissjóðir eiga einnig hlut, Landsvirkjun selur verksmiðjunni rafmagn, ÍAV á inni hjá henni milljarð og Reykjanesbær reiknaði með miklum tekjum vegna hennar. Allt þetta er nú í uppnámi.
Félagið sem á verksmiðju United Silicon, einnig þekkt sem Sameinað Silicon, í Helguvík hefur fengið greiðslustöðvun og ætlar í nauðasamningsgerð við stærstu kröfuhafa sína. Verksmiðjan hóf starfsemi í nóvember í fyrra og hefur því einungis verið starfandi í rúma sjö mánuði. Ljóst er að áhrif greiðslustöðvunarinnar hérlendis – og nauðasamninganna ef þeir nást – verða víðtæk. Arion banki fjármagnaði byggingu verksmiðjunnar, Landsvirkjun selur henni rafmagn og bæði Arion, íslenskir lífeyrissjóðir eru á meðal eigenda, Reykjanesbær hefur umtalsverðar tekjur af rekstri hennar og Íslenskir Aðalverktakar (ÍAV) eiga kröfu upp á milljarð króna á United Silicon.
Eignarhaldið á félaginu er reyndar að stóru leyti á huldu. Á heimasíðu United Silicon segir að félagið sé í meirihlutaeigu Íslendinga. En þegar Kjarninn hafði samband við Kristleif Andrésson, talsmann félagsins, til að fá hluthafalista United Silicon sagði hann að ekkert yrði gefið upp um eignarhaldið að svo stöddu. Hjá Arion banka fengust þær upplýsingar að bankinn eigi nú um 16 prósent hlut auk þess sem hann er helsti lánardrottinn félagsins. Í maí greindi RÚV frá því að Frjálsi lífeyrissjóðurinn ætti 5,6 prósent hlut, Festa lífeyrissjóður 3,7 prósent og eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna rúmlega hálft prósent, að lokinni hlutafjáraukningu sem framkvæmd var i apríl 2017.
Allir ofangreindir íslensku aðilar verða fyrir beinum og neikvæðum fjárhagslegum áhrifum vegna stöðu United Silicon. Hversu miklum á eftir að koma í ljós.
Draumur stjórnmálamanna verður að matröð
Reykjanesbær varð fyrir miklum búsifjum þegar Bandaríkjaher hvarf frá landinu árið 2006. Herinn var enda gríðarlega stór atvinnuveitandi og sveitarfélögin á Suðurnesjum höfðu af honum margháttaðar tekjur. Til að bregðast við þeirri stöðu hófu stjórnmálamenn að beita sér fyrir uppbyggingu iðnaðarsvæðis í Helguvík. Samhliða gekkst Reykjanesbær í ábyrg fyrir milljarða króna uppbyggingu hafnar á svæðinu. Hugmyndin var sú að höfnin myndi síðar skila sveitarfélaginu miklum tekjum þegar stóriðjufyrirtæki hæfu starfsemi sína þar.
Sú áætlun fór ekki alveg eins og upp var lagt. Þess í stað endaði Reykjanesbær sem eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur þess undanfarin ár hefur verið afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014 var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Í október 2015 sendi sveitarfélagið tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem sagði að nauðsynlegt væri að það næði samkomulagi við „helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda[...]Náist ekki samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarfélagsins og stofnana þess verður samkvæmt sveitastjórnarlögum óskað eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn“.
Af því varð ekki en sveitarfélagið hefur m.a. þurft að leggja auknar skattbyrðar á íbúa sína til að laga hina afleitu fjárhagsstöðu. Og stór hluti þeirra skulda sem þurfti að semja um voru vegna lána sem tekin voru vegna uppbyggingu hafnarinnar í Helguvík.
Í dag er afraksturinn sá að Norðurál hefur reist álver að hluta í Helguvík en er ekki með orku til að standsetja það, og mun ekki fá hana. Sá draumur var endanlega úti þegar orkusölusamningur Norðuráls við HS Orku var felldur úr gildi í lok síðasta árs.
Hitt stóriðjufyrirtækið á svæðinu er síðan United Silicon, sem opnaði kísilmálmverksmiðjuna sína í nóvember. Síðan þá hafa íbúar kvartað stanslaust undan mengun, enda verksmiðjan staðsett mjög nálægt byggð, kviknað hefur í verksmiðjunni og Umhverfisstofnun hefur lokað henni tímabundið. Í gær var svo tilkynnt um að félagið sem á verksmiðjuna sé komið í greiðslustöðvun.
Höfnin, sem Reykjanesbær gekkst í ábyrgð upp á marga milljarða króna fyrir, hefur aldrei skilað þeim tekjum sem hún átti að gera og hvorki Reykjaneshöfn né Reykjanesbær hafa ráðið við afborganir af lánum vegna hennar.
Draumurinn um iðnaðarsvæðið í Helguvík sem bjargvætt Reykjanesbæjar hefur því snúist upp í algjöra martröð.
Dregið verulega úr ánægjunni
Í júlí 2014 var send fréttatilkynning um að Landsvirkjun og United Silicon hefðu náð saman um að Landsvirkjun myndi útvega kísilmálmverksmiðjunni 35 MW af orku fyrir starfsemi sína. Í tilkynningunni sagði að fjármögnun verkefnisins væri tryggð og yrði í höndum Arion banka í formi hefðbundinnar verkefna- og lánsfjármögnunar annars vegar og útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði hins vegar. Rekstur átti að hefjast 1.apríl 2016. Kostnaðurinn við fyrsta áfanga framkvæmdarinnar var metin á um 12 milljarða króna og var fjármagnaður með eigin fé og lántöku frá Arion banka. Heildarfjárfestingin, sem miðaði við fjóra ofna í rekstri, var um 35 milljarðar króna.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði af þessu tilefni að fyrirtækið væri þess fullvisst að kísilmálmframleiðsla ætti góða framtíðarmöguleika á Íslandi þar sem aðstæður hentuðu iðnaðinum einkar vel. „Verkefnið mun styrkja iðnþróun á Íslandi og einnig er jákvætt að hér er komið á uppbyggingu í Helguvík þar sem aðstæður eru góðar fyrir slíka starfsemi“.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sagði að það væri „virkilega ánægjulegt fyrir Arion banka að koma koma með svo afgerandi hætti að jafn stóru og mikilvægu uppbyggingarverkefni sem bygging kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík er“.
Í lok ágúst sama ár var skóflustunga tekin að verksmiðjunni. Á meðal þeirra sem framkvæmdu hana voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðarráðherra.
Íslenskir Aðalverktakar (ÍAV) var ráðinn sem aðalverktaki verkefnisins en endaði með því að leggja niður störf um mitt ár 2016 vegna vanefnda. Vandræðin voru byrjuð áður en verksmiðjan var gangsett.
Nú, þremur árum síðar verður því að teljast mjög ólíklegt að þeir sem að verkefninu koma telji það enn „virkilega ánægjulegt“.
Greiðslustöðvun samþykkt
Í lok júlí komst gerðardómur að þeirri niðurstöðu að United Silicon ætti að greiða ÍAV ógreidda reikninga upp á rúmlega einn milljarð króna. Sú niðurstaða skiptir, samkvæmt viðmælendum Kjarnans, miklu máli í þeirri ákvörðun sem tilkynnt var um í gær. Þá greindi félagið frá því að Héraðsdómur Reykjaness hefði veitt stjórn þess heimild til greiðslustöðvunar sem miðar að því að ná bindandi nauðasamningum við lánardrottna.
Í tilkynningu vegna þessa sagði að ástæðurnar væru „erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni.“ Vegna þessara rekstrarerfiðleika hafi verið fyrirsjáanlegt að félagið myndi að óbreyttu eiga erfitt með að standa í skilum við lánardrottna og að yfirvofandi séu aðgerðir einstakra kröfuhafa ef ekki verður brugðist við án tafar. „Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV eykur enn á þessa óvissu en samningar um uppgjör þeirra skulda sem þar var tekist á um hafa ekki borið árangur.“
Í tilkynningunni sagði að hluthafar hafi frá því að verksmiðjan tók til starfa lagt félaginu til viðbótarhlutafé til að fjármagna reksturinn og endurbætur á búnaði og almennri aðstöðu fyrir starfsfólk. „Ljóst er að enn frekari endurbætur á búnaði og aðstöðu eru nauðsynlegar til að verksmiðjan geti framleitt afurðir í því magni og af þeim gæðum sem áætlað var í upphafi og án þeirrar lyktamengunar sem íbúar í nágrenninu hafa kvartað undan.“
Stjórn félagsins taki alvarlega þá ábyrgð sem fylgir því að reka stórt fyrirtæki með mikinn fjölda starfsmanna sem skapi tekjur fyrir nærsamfélagið. „Nauðasamningar eru besta leiðin til að verja þau störf og tryggja að hægt sé að halda uppbyggingu starfseminnar áfram á þann veg að fyrirtækið geti starfað í samræmi við starfsleyfi og í góðri sátt við umhverfið.“
Leynd ríkir um eignarhaldið
Kjarninn leitaði upplýsinga hjá United Silicon, einnig þekkt sem Sameinað Silicon, um hvernig eigendahópurinn, sem óhjákvæmilega verður fyrir miklum áhrifum vegna stöðunnar sem er uppi, væri samsettur. Fyrir liggur að reksturinn er að mestu í eigu félags sem er skráð í Hollandi en engar upplýsingar um hluthafaskrá er að finna í íslenskri fyrirtækjaskrá. Kristleifur Andrésson, talsmaður United Silicon, sagði að upplýsingar um eignarhaldið verði ekki gefnar upp að svo stöddu.
Arion banki er, líkt og áður sagði, helsti lánardrottinn United Silicon. Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi bankans, segir í samtali við Kjarnann að bankinn sé líka minnihlutaeigandi í félaginu með um 16 prósent eignarhlut. „Nú hefur Sameinað silicon svigrúm til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu og vonandi mun sú vinna ganga vel. Eðli málsins samkvæmt fylgist bankinn náið með þróun mála og leggur sitt af mörkum við að leita lausna á þeim vanda sem félagið glímir við.“
Arion banki mun birta hálfsársuppgjör sitt í næstu viku. Við því má búast að þar verði fjallað um áhrif stöðu United Silicon á bankann og hvort framkvæmd verði varúðarniðurfærsla í bókum bankans vegna hennar. Haraldur Guðni segist hins vegar ekkert geta tjáð sig um það fyrr en að árshlutareikningur bankans verði birtur.
Kjarninn óskaði eftir viðbrögðum frá Landsvirkjun vegna greiðslustöðvunar United Silicon. Í skriflegu svari fyrirtækisins segir að í gildi sé orkusölusamningur milli Landsvirkjunar og United Silicon. Samstarfið hafi verið gott og United Silicon hafi staðið við samninga og samkomulag sem hefur verið gert við Landvirkjun. „Kísilverið er að taka rafmagn og hefur Landsvirkjun tryggar ábyrgðir fyrir greiðslum frá United Silicon samkvæmt samningum.“