Ísland langt frá því að uppfylla Parísarsáttmálann

Ísland er órafjarri því að ná settu marki í minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda í takti við Parísarsáttmálann. Samfélagslegur kostnaður vegna kaupa losunarheimilda í framtíðinni er metinn á rúmlega 220 milljarða.

Frá loftslagsráðstefnunni í París í fyrra.
Frá loftslagsráðstefnunni í París í fyrra.
Auglýsing

Búist er við því að losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á Íslandi árið 2030 verði 99% meiri en árið 1990, ef fram­heldur sem horf­ir. Þetta hefur meðal ann­ars verið rakið í skýrslu Hag­fræði­stofn­unar Háskóla Íslands, sem Bryn­hildur Dav­íðs­dótt­ir, pró­fessor við Háskóla Íslands, rit­stýrði.Til þess að landið standi við skuld­bind­ingar sínar sam­kvæmt Par­ís­ar­sátt­mál­anum gætu íslenska ríkið og íslenskt atvinnu­líf,  staðið frammi fyrir rúmum 220 millj­arða króna kostn­aði vegna kaupa á los­un­ar­heim­ild­um. 

Ísland, Nor­egur og Liechten­stein eru að semja við ESB um inn­göngu inn í lofts­lags­kerfi sam­bands­ins, en kerfið fylgir Par­ís­ar­samn­ingnum sem und­ir­rit­aður var árið 2015 og stað­festur í fyrra. Það er næsta víst að skuld­bind­ingar þess­ara landa muni fara í stórum dráttum eftir þeim reglum og við­miðum sem er að finna í til­lögum ESB. 

Umræddar til­lögur Evr­ópu­sam­bands­ins fela í sér að losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda muni drag­ast saman um 40% árið 2030 miðað við árið 1990. Það verði gert með 43% sam­drætti í iðn­aði sem fellur undir við­skipta­kerfi ESB og 30% sam­drætti frá öðrum los­un­ar­að­il­u­m. 

Auglýsing

Stór­iðja og alþjóða­flug innan Evr­ópu fellur undir við­skipta­kerfi ESB, en minnkun á losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda verður fram­kvæmd með við­skiptum á los­un­ar­heim­ild­um. 

Langt frá mark­miðum

Sam­kvæmt spá Orku­stofn­unnar þarf mikið til að Ísland geti upp­fyllt þau skil­yrði. Því er spáð að elds­neyt­is­notkun fari úr um 655 þús­und tonnum árið 1990 í um 972 þús­und tonn árið 2030, en það sam­svarar 48% aukn­ingu. Ekki er tekið til­lit til skóg­ræktar og end­ur­heimt vot­lendis í þessum útreikn­ing­um. 

Grafið hér að neðan sýnir þróun í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda und­an­farin ár. Svarta línan sýnir stefnu Evr­ópu­sam­bands­ins, sem Ísland þarf að öllum lík­indum að fylgja eft­ir. Bláa línan sýnir svo árangur sam­bands­ins hingað til, sem hefur náð að halda mark­miði sínu. Rauða línan sýnir svo árangur Íslands, en útblástur hér á landi hefur auk­ist nokkuð á síð­ustu 27 árum. Tölur fyrir útblástur hjá Íslandi inni­halda að vísu ekki alþjóða­flug til og frá lands­ins, þótt það sé tekið með í tölum Evr­ópu­sam­bands­ins.

Losun Íslands og Evrópusambandsins frá 1990-2030. Heimildir Kjarnans.

Spáð er áfram­hald­andi aukn­ingu á útblæstri gróð­ur­húsa­loft­teg­unda hjá Íslandi ef fyr­ir­hug­aðar áætl­anir um opn­un kís­il­málms­verk­smiðja gangi eftir og ferða­mönnum haldi áfram að fjölga með til­heyr­andi aukn­ing­u milli­landa­flugs. Sam­kvæmt skýrslu Hag­fræði­stofn­unnar mun aukn­ingin nema 99% árið 2030 miðað við 1990, ef fram heldur sem horfir og ekk­ert verður að gert.

220 millj­arðar

Verð á kolefn­isk­vóta mun fara ört vax­andi í fram­tíð­inni, sam­kvæmt nýrri skýrslu sem gefin var út á vegum Alþjóða­bank­ans. Til þess að stand­ast skuld­bind­ingar ESB um minnkun á losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda er því spáð að íslenska ríkið og atvinnu­lífið muni þurfa að kaupa kolefn­isk­vóta á bil­inu 5-50 millj­arða á ári hverju. Núvirtur kostn­aður vegna kaupa á kolefn­isk­vóta til árs­ins 2030 nemur rúm­lega 220 millj­örð­um, miðað við fyrr­nefndar for­send­ur.

Ljóst er því að kostn­aður vegna skuld­bind­inga Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins muni verða veru­leg áskor­un. Annað hvort er hægt að fjár­festa í grænum innviðum fyrir rúma 220 millj­arða eða borga þá beint út í kolefn­isk­vóta til Evr­ópu­sam­bands­ins. Seinni kostn­að­ur­inn gæti hins vegar verið kostn­að­ar­sam­ari fyrir Ísland, ef svo færi að landið þyrfti að standa við frek­ari lofts­lagskuld­bind­ingar eftir árið 2030.    

Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiInnlent