Helgi Magnússon og félög tengd honum gáfu Viðreisn samtals 2,4 milljónir króna á árinu 2016. Sigurður Arngrímsson, viðskiptafélagi Helga og aðaleigandi sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar, gaf 1,2 milljónir króna í eigin nafni og í gegnum tvö félög sín. Þá gaf Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest stærsta eiganda Marel, stjórnmálaflokknum 950 þúsund krónur í eigin nafni og í gegnum félag sitt. Þetta kemur fram í útdrætti úr ársreikningi Viðreisnar sem skilað var inn til Ríkisendurskoðunar nýverið.
Þar kemur fram að Viðreisn hafi alls fengið framlög upp á 29,8 milljónir króna á rekstrarárinu 2016. Alls komu 16,4 milljónir króna frá lögaðilum, 10,3 milljónir frá einstaklingum og þrjár milljónir króna í formi ríkisframlaga. Rekstur flokksins á árinu, en það var fyrsta árið sem Viðreisn bauð fram í kosningum, kostaði alls 41,1 milljón króna. Rúmlega tíu milljóna króna tap var á rekstri flokksins.
Til að setja þessa upphæð í samhengi þá námu framlög til Viðreisnar frá einstaklingum og fyrirtækjum á árinu 2016 rétt rúmum helmingi þess sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá slíkum árið 2015 og voru um sjö milljónum krónum hærri en framlög til Framsóknarflokksins á sama ári. Viðreisn er fyrsti stjórnmálaflokkurinn til að skila útdrætti úr ársreikningi sínum til Ríkisendurskoðunar vegna ársins 2016, en kostnaður við rekstur stjórnmálaflokka er oftast nær mestur á kosningaári, líkt og því síðasta.
Átti alltaf að vera vel fjármagnað
Viðreisn spratt upp úr óánægju með slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið í febrúar 2014. Þá klauf hópur alþjóðasinnaðra sjálfstæðismanna sig frá flokknum og fór að undirbúa nýtt stjórnmálaafl. Á meðal þeirra voru Benedikt Jóhannesson, nú formaður Viðreisnar. Aðrir sem tilheyrðu hópnum voru meðal annars Þorsteinn Pálsson, Jórunn Frímannsdóttir og Vilhjálmur Egilsson.
Í þessum hópi voru líka fjársterkir áhrifamenn úr íslensku atvinnulífi og víðar sem hafði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum allt sitt líf. Til þess hóps töldust til að mynda Helgi Magnússon, Sigurður Arngrímsson og Þórður Magnússon. Hluti hópsins hóf að hittast reglulega til að ræða möguleikann á nýju framboði og annar hópur stofnaði lokaða grúppu á Facebook undir nafninu „Nýi Sjálfstæðisflokkurinn“.
Eitt af því sem rætt var um voru fjármál hins nýja framboðs. Kjarninn greindi frá því í apríl 2014, tveimur og hálfu ári áður en að Viðreisn bauð fram í fyrsta sinn, að stefnt yrði að því að framboðið yrði vel fjármagnað. Það átti ekki að vera vandkvæðum bundið þar sem margir mjög fjársterkir aðilar höfðu þegar tengt sig við það. Samkvæmt heimildum Kjarnans var lögð áhersla á að einstaklingar myndu greiða fyrir tilvist framboðsins úr eigin vasa. Einn viðmælanda Kjarnans sagði að þar myndi ekki verða beðið „um hundrað þúsund kalla, heldur milljónir“.
Fyrsti formlegi stefnumótunarfundur hins nýja stjórnmálaafls var haldinn 11. júní 2014. Um svipað leyti var tilkynnt að flokkurinn myndi heita Viðreisn, eftir Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat við völd á Íslandi frá 1959 og fram til ársins 1971. Tæpu ári síðar, 17. mars 2015, var haldinn fyrstu fundur stuðningsmanna flokksins. Flokkurinn var loks formlega stofnaður á fundi í Hörpu 24. maí 2016 sem um 400 manns mættu á. Þar var Benedikt Jóhannesson kjörinn formaður hans. Framlögin sem þarf að gefa upp til Ríkisendurskoðunar eru einungis þau sem Viðreisn fékk eftir að flokkurinn var formlega stofnaður. Því liggur ekkert fyrir um hversu mikið fé var sett inn í Viðreisn áður en af þeim formlega tímapunkti kom.
Nokkrir styrktaraðilar fyrirferðamiklir
Vanalega mega stjórnmálaflokkar einungis fá 400 þúsund krónur frá hverjum og einum aðila sem gefur þeim pening. Undantekning er frá þeirri reglu ef um er að ræða stofnframlög sem greidd eru á fyrsta starfsári flokksins. Þá má gefa tvöfalt, og því má hver kennitala gefa 800 þúsund þegar þannig ber undir. Fimm einstaklingar gáfu Viðreisn 800 þúsund krónur. Þeir Páll Kr. Pálsson, Thomas Möller, Páll Jónsson, Helgi Magnússon og Þórður Magnússon. Sigurður Arngrímsson gaf flokknum 400 þúsund krónur og Guðmundur Örn Jóhannsson, sjónvarpsstjóri Hringbrautar, gaf 310 þúsund krónur.
Félög tengd Helga Magnússyni gáfu einnig umtalsverðar fjárhæðir. Hofgarðar og Varðberg, eignarhaldsfélög hans, gáfu 400 þúsund krónur hvort og bæði Bláa Lónið og N1, þar sem Helgi er á meðal hluthafa (hann er stjórnarformaður Bláa lónsins og varaformaður stjórnar N1), gáfu 400 þúsund krónur hvort. Alls gaf Helgi því 1,6 milljónir króna beint og í gegnum eignarhaldsfélög sín og fyrirtæki þar sem hann er stór hluthafi og stjórnarmaður gáfu 800 þúsund krónur til viðbótar.
Sigurður Arngrímsson gaf 800 þúsund krónur í gegnum tvö félög, Saffron Holding (félag sem á m.a. 99,18 prósent hlut í Hringbraut) og Ursus Maritimus, auk þess sem hann gaf 400 þúsund krónur í eigin nafni. Þórður Magnússon gaf 800 þúsund í eigin nafni og 150 þúsund krónur í gegnum félag sitt Th. Magnússon ehf. Þá gaf félagið Þarabakki, í eigu Daníels Helgasonar, 800 þúsund krónur og félagið Svartá ehf., í eigu Vilmundar Jósefssonar, sömu upphæð. Benedikt Jóhannesson gaf sjálfur 250 þúsund krónur og Jón Steindór Valdimarsson, nú þingmaður Viðreisnar, gaf 265 þúsund krónur.
Á meðal annarra sem gáfu fé til Viðreisnar má nefna Miðeind, félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar og hluthafa í Kjarnanum.
Hægt er að sjá rekstrarreikninginn, og yfirlit yfir styrktaraðila Viðreisnar, hér.