Mike Ashley 22.08.2017

Panamafélag, Mike Ashley og baráttan um Sports Direct á Íslandi

Mike Ashley er umdeildur maður. Hann er hataður af stuðningsmönnum Newcastle, ældi einu sinni í arinn vegna drykkju á stjórnendafundi og á það til að leggja sig undir borðum ef honum finnst fundir leiðinlegir. Hann á líka 40 prósent í Sports Direct á Íslandi. Og ætlar sér nú að eignast restina.

Sports Direct, fyr­ir­tæki Mike Ashley, hefur stefnt Sig­urði Pálma Sig­ur­björns­syni, fram­kvæmda­stjóra Sports Direct á Íslandi, og móður hans Ingi­björgu Pálma­dótt­ur. Hann hefur líka stefnt tveimur félög­um, ann­ars vegar panamska félag­inu Guru Invest í eigu Ingi­bjargar og hins vegar Rhapsody Investem­ents, félagi frá Lúx­em­borg sem skráð er eig­andi alls hluta­fjár í Sports Direct á Íslandi. Ástæða stefn­unnar er, sam­kvæmt umfjöllun í breskum fjöl­miðl­u­m um málið, samn­ings­brot. Ashley telur sig hafa átt kaup­rétt á öðru hlutafé í fyr­ir­tæk­inu á ákveðnu verði, en því eru mæðginin ósam­mála.

Mike Ashley og Jón Ásgeir Jóhann­es­son, eig­in­maður Ingi­bjarg­ar, eru gamlir við­skipta­fé­lag­ar. Stöð 2, þá í meiri­hluta­eigu Jóns Ásgeirs,  greindi meðal ann­ars frá því árið 2007 að Jón Ásgeir og Pálmi Har­alds­son, sem var náinn sam­starfs­maður hans á árunum fyrir hrun, ætl­uðu að kaupa enska knatt­spyrnu­liðið Newcastle af Ashley. Af því varð þó aldrei.

Eftir hrun var Ashley meðal ann­ars sagður eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins MyM-e limited, sem Jón Ásgeir kom að eftir hrun, í íslenskum fjöl­miðl­um. Í Panama­skjöl­unum kom hins vegar fram að hópur í kringum Jón Ásgeir hefðu í raun verið eig­endur þess og félagið hafi verið fjár­magnað af Guru Invest, aflands­fé­lagi eig­in­konu Jóns Ásgeirs. Ashley hafði líka gott aðgengi að láns­fjár­magni frá íslenskum banka á góð­ær­is­ár­un­um. Kaup­þing fjár­magn­aði til að mynda að hluta upp­kaup Ashley á sam­keppn­is­að­ilum Sports Direct.

Ashley, fjöl­skylda Jóns Ásgeirs og náin sam­starfs­maður hans stofn­uðu síðan saman félag utan um rekstur Sports Direct versl­unar á Íslandi fyrir fimm árum síð­an. Und­an­farin ár hefur eign­ar­hald þess félags verið þannig að fjöl­skylda Jóns Ásgeirs á 60 pró­sent hlut og Sports Direct 40 pró­sent.

En nú hefur greini­lega slest upp á vin­skap­inn. Og Ashley vill eign­ast allt félag­ið. Hann reyndi nýverið að kaupa hlut fjöl­skyld­unnar á 100 þús­und evr­ur, 12,4 millj­ónir króna, og taldi sig eiga sig eiga kaup­rétt á því verði. Til­boð­inu var hafnað enda velta Sports Direct á Íslandi rúmur millj­arður króna á ári og hagn­aður síð­asta árs um 70 millj­ónir króna. Virði rekst­urs­ins er því mun meiri. Sam­kvæmt frá­sögn The Sunday Times er virði Sports Direct á Íslandi í heild nær 2,5 millj­örðum króna.

Fjár­magn frá Panama notað til að koma Sports Direct á fót

Íþrótta­vöru­versl­unin Sports Direct opn­aði verslun á Íslandi árið 2012. Til­kynnt var form­lega um opn­un­ina í maí­mán­uði það sama ár. Sá sem stýrt hefur fyr­ir­tæk­inu og komið fram fyrir hönd þess á Íslandi er Sig­urður Pálmi Sig­ur­björns­son.

Eign­ar­hald á félag­inu utan um rekstur Sports Direct á Íslandi, sem heitir NDS ehf., er í höndum félags skráð í Lúx­em­borg sem heitir Rhapsody Invest­ments (Europe) Lux­em­borg. Í Panama­skjöl­unum var að finna upp­lýs­ingar um hvernig stofnað var til félags­ins, hverjir eig­endur þess eru og hversu mikið fé var lagt til rekst­urs­ins.

Þar má meðal ann­ars finna láns­samn­ing frá því í maí 2012 milli Guru Invest, félags skráð í Panama í eigu Ingi­bjargar Pálma­dótt­ur, og Sig­urður Pálma sonar hennar um lán­veit­ingu til hans upp á 115 þús­und pund til að fjár­magna hans hlut í stofnun Rhapsody. Guru Invest tók hins vegar veð í hlut hans fyrir end­ur­greiðslu láns­ins.

Í ágúst sama ár var félagið svo sett á lagg­irn­ar. Í tölvu­póstum sem starfs­menn frá fjár­mála­þjón­ustu­fyr­ir­tæk­inu SGG Group sendu Jeff Blue, sam­starfs­manni Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar vegna stofn­unar félags­ins kemur skýrt fram að Mike Ashley ætti að koma að stofnun félags­ins. Í pósti frá þeim er að finna vega­bréfa­númer Ashley svo hægt sé að gera hann að eig­anda auk stað­fest­ingar á heim­il­is­fangi hans.

Þar er einnig að finna hlut­hafa­sam­komu­lag vegna Rhapsody sem gert var á milli allra vænt­an­legra eig­enda félags­ins. Þar segir að eigna­skipt­ing, eftir að hlutafé verði greitt inn, verði með þeim hætti að Sports­Direct­.com Retail Ltd. (fyr­ir­tæki Mike Ashley), muni eiga 25 pró­sent hlut, Guru Invest (fé­lag Ingi­bjargar í Pana­ma) eigi 27 pró­sent, Sig­urður Pálmi eigi 33 pró­sent og Jeff Blue 15 pró­sent. Afrit af póstum vegna gerðar hlut­hafa­sam­komu­lags­ins voru send til Jóns Ásgeirs Jóhann­es­son­ar, pró­kúru­hafa í Guru Invest.

Félag sem skráð er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, Guru Invest, og er með heimilisfesti í Panama, hefur fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, var skráður með prókúru í félaginu og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað.

Af hlutafé félags­ins upp á eina milljón punda lagði Guru Invest S.A. fram 320 þús­und pund, Sig­urður Pálmi 330 þús­und pund, Sports Direct 250 þús­und pund og Jeff Blue 100 þús­und pund. Sig­urður Pálmi fékk lán frá Guru Invest upp á 115 þús­und punda, rúm­lega 20 millj­ónir króna árið 2012, til að fjár­magna hluta­fjár­kaup sín í Rhapsody Invest­ments.

Mikil við­skipti við tengda aðila

Síðan hefur rekst­ur­inn gengið vel.  Heild­ar­velta NDS ehf., íslenska félags­ins utan um hann,  var 1.033 millj­ónir króna árið 2016 sam­kvæmt árs­reikn­ingi og jókst um 12 pró­sent milli ára. Hagn­að­ur­inn var 69 millj­ónir króna eftir skatta.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Félagið hefur nefni­lega verið að greiða hratt niður skuldir við tengda aðila. Í apríl 2015 skuld­aði NDS tengdum aðilum 215,5 millj­ónir króna í skamm­tíma­skuldir og 54,2 millj­ónir króna í lang­tíma­skuld­ir. Árið síðar hafði skamm­tíma­skuldin lækkað niður í 83 millj­ónir króna.

Í árs­reikn­ingi NDS kemur fram að tengdir aðilar séu „eig­end­ur, stjórn félags­ins, fram­kvæmda­stjóri, nánir fjöl­skyldu­með­limir fyrr­greindra aðila og aðilar sem hafa umtals­verð áhrif sem stórir hlut­hafar í félag­in­u.“  

Af skuldum við tengda aðila var lán­veit­ing frá móð­ur­fé­lagi NDS, Rhapsody Invest­ment frá Lúx­em­borg, alls 55,3 millj­ónir króna. Sú skuld var á gjald­daga  21. ágúst 2017, eða í gær.

Auk þess kemur fram að NDS hafi keypt vörur og þjón­ustu af tengdum aðilum fyrir 452,3 millj­ónir króna á síð­asta rekstr­ar­ári . Það eru nán­ast allt kostn­að­ar­verð seldra vara, sem var sam­tals 506 millj­ónir króna. Um er að ræða kaup á vörum og þjón­ustu frá Sports Direct, fyr­ir­tæki Mike Ashley.

Blue vildi að Ashley efndi blautan samn­ing

Sports­Direct­.com Retail Ltd, fyr­ir­tæki Ashley, á nú, líkt og áður sagði, 40 pró­sent í sport­vöru­versl­un­inni sem rekin er undir Hatti Sports Direct í Kópa­vogi. Hlutur félags­ins jókst upp í þá tölu þegar Ashley keypti 15 pró­sent hlut Jeff Blue fyrir nokkrum árum.

Jeff Blue þessi hafði lengi starfað með Jóni Ásgeiri. Árið 2007, þegar Jón Ásgeir ákvað að stíga til hliðar sem for­stjóri Baugs og ger­ast starf­andi stjórn­ar­for­maður sam­stæð­unn­ar, tók Gunnar Sig­urðs­son, þá fram­kvæmda­stjóri smá­sölu hjá Baugi, við starfi Jóns Ásgeirs. Við starfi Gunn­ars tók Jeff Blue. Hann hélt áfram að vinna með Jóni Ásgeiri eftir hrun og kom meðal ann­ars að skulda­upp­gjöri honum tengdu á árinu 2010. Þá greiddi félagið sem nú heitir Guru Invest, og er með heim­il­is­festi á Pana­ma, hluta af skuldum Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gaums og félags í eigu þess við Glitni. Með greiðsl­unni var komið í veg fyrir að Glitnir gæti sett ákveðin félög í þrot.

Blue seldi hlut­inn sinn í íslenska Sports Direct þegar hann hélt að hann hefði náð sam­komu­lagi við Mike Ashley um að verða fjár­mála­stjóri sam­stæðu hans. Blue hélt líka að hann hefði samið við Ashley um að sá síð­ar­nefndi myndi greiða sér 15 millj­ónir punda, tæp­lega 1,9 millj­arða króna, ein­greiðslu ef honum tæk­ist að koma hluta­bréfa­verði Sports Direct úr fjórum pundum í átta pund á hvern hlut.

Horse&Groom kráin í London.

Umrætt „sam­komu­lag“ var gert á „Horse&Groom“ kránni í London eftir mikla drykkju. Ashley sagði að aldrei hefði verið um raun­veru­legt til­boð að ræða heldur góð­lát­legt grín í drykkju­sam­læt­i. Vitna­leiðslur yfir honum við með­ferð máls­ins voru kostu­leg­ar. Ashley sagð­ist líka vera leið­in­legur og „feitur eins og tunna“ (e. fat as a barrel) þegar hann svar­aði spurn­ingum lög­manna.

Blue fannst þetta þó ekki hafa verið neitt grín og fór í mál við Ashley. Hann hélt því fram að samn­ing­ur­inn hefði lög­form­legt gildi og því ætti Ashley að greiða sér 15 millj­ónir punda.

Á meðan að á máls­með­ferð­inni stóð setti Blue fram allskyns ásak­anir um lög­brot sem hann sagði Ashley hefði framið, en tengd­ust mál­inu ekki með beinum hætti. Hann ásak­aði Ashley meðal ann­ars um að hafa ætla að múta ákveðnum stjórn­endum fyr­ir­tæk­is­ins og um áform um mark­aðs­mis­notkun með hluta­bréf í Sports DirectBlue hélt því enn fremur fram að Ashley stund­aði oft á tíðum við­skipti á óhefð­bundin hátt og á óvenju­legum stöð­um. Máli sínu til stuðn­ings sagði hann frá því að Ashley hefði einu sinni ælt í arinn eftir stjórn­enda­fund hjá Sports Direct, sem hefði farið fram á krá. Blue sagði einnig að Ashley ætti það til að leggja sig undir borðum á leið­in­legum fund­um. Þetta sýndi að hann væri óhefð­bund­inn við­skipta­maður sem gerði óhefð­bundna samn­inga, líkt og þann sem Blue taldi sig hafa gert um 15 millj­óna punda greiðslu.

Kröfu Blue var vísað frá í lok júlí síð­ast­lið­ins. Dóm­ar­inn í mál­inu sagði þá stað­reynd að Blue hefði sann­fært sig um að laga­lega bind­andi sam­komu­lag hefði verið um að ræða sýndi að mann­leg geta til ósk­hyggju væri nán­ast tak­marka­laus.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar