Panamafélag, Mike Ashley og baráttan um Sports Direct á Íslandi
Mike Ashley er umdeildur maður. Hann er hataður af stuðningsmönnum Newcastle, ældi einu sinni í arinn vegna drykkju á stjórnendafundi og á það til að leggja sig undir borðum ef honum finnst fundir leiðinlegir. Hann á líka 40 prósent í Sports Direct á Íslandi. Og ætlar sér nú að eignast restina.
Sports Direct, fyrirtæki Mike Ashley, hefur stefnt Sigurði Pálma Sigurbjörnssyni, framkvæmdastjóra Sports Direct á Íslandi, og móður hans Ingibjörgu Pálmadóttur. Hann hefur líka stefnt tveimur félögum, annars vegar panamska félaginu Guru Invest í eigu Ingibjargar og hins vegar Rhapsody Investements, félagi frá Lúxemborg sem skráð er eigandi alls hlutafjár í Sports Direct á Íslandi. Ástæða stefnunnar er, samkvæmt umfjöllun í breskum fjölmiðlum um málið, samningsbrot. Ashley telur sig hafa átt kauprétt á öðru hlutafé í fyrirtækinu á ákveðnu verði, en því eru mæðginin ósammála.
Mike Ashley og Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, eru gamlir viðskiptafélagar. Stöð 2, þá í meirihlutaeigu Jóns Ásgeirs, greindi meðal annars frá því árið 2007 að Jón Ásgeir og Pálmi Haraldsson, sem var náinn samstarfsmaður hans á árunum fyrir hrun, ætluðu að kaupa enska knattspyrnuliðið Newcastle af Ashley. Af því varð þó aldrei.
Eftir hrun var Ashley meðal annars sagður eigandi fyrirtækisins MyM-e limited, sem Jón Ásgeir kom að eftir hrun, í íslenskum fjölmiðlum. Í Panamaskjölunum kom hins vegar fram að hópur í kringum Jón Ásgeir hefðu í raun verið eigendur þess og félagið hafi verið fjármagnað af Guru Invest, aflandsfélagi eiginkonu Jóns Ásgeirs. Ashley hafði líka gott aðgengi að lánsfjármagni frá íslenskum banka á góðærisárunum. Kaupþing fjármagnaði til að mynda að hluta uppkaup Ashley á samkeppnisaðilum Sports Direct.
Ashley, fjölskylda Jóns Ásgeirs og náin samstarfsmaður hans stofnuðu síðan saman félag utan um rekstur Sports Direct verslunar á Íslandi fyrir fimm árum síðan. Undanfarin ár hefur eignarhald þess félags verið þannig að fjölskylda Jóns Ásgeirs á 60 prósent hlut og Sports Direct 40 prósent.
En nú hefur greinilega slest upp á vinskapinn. Og Ashley vill eignast allt félagið. Hann reyndi nýverið að kaupa hlut fjölskyldunnar á 100 þúsund evrur, 12,4 milljónir króna, og taldi sig eiga sig eiga kauprétt á því verði. Tilboðinu var hafnað enda velta Sports Direct á Íslandi rúmur milljarður króna á ári og hagnaður síðasta árs um 70 milljónir króna. Virði rekstursins er því mun meiri. Samkvæmt frásögn The Sunday Times er virði Sports Direct á Íslandi í heild nær 2,5 milljörðum króna.
Fjármagn frá Panama notað til að koma Sports Direct á fót
Íþróttavöruverslunin Sports Direct opnaði verslun á Íslandi árið 2012. Tilkynnt var formlega um opnunina í maímánuði það sama ár. Sá sem stýrt hefur fyrirtækinu og komið fram fyrir hönd þess á Íslandi er Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson.
Eignarhald á félaginu utan um rekstur Sports Direct á Íslandi, sem heitir NDS ehf., er í höndum félags skráð í Lúxemborg sem heitir Rhapsody Investments (Europe) Luxemborg. Í Panamaskjölunum var að finna upplýsingar um hvernig stofnað var til félagsins, hverjir eigendur þess eru og hversu mikið fé var lagt til rekstursins.
Þar má meðal annars finna lánssamning frá því í maí 2012 milli Guru Invest, félags skráð í Panama í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og Sigurður Pálma sonar hennar um lánveitingu til hans upp á 115 þúsund pund til að fjármagna hans hlut í stofnun Rhapsody. Guru Invest tók hins vegar veð í hlut hans fyrir endurgreiðslu lánsins.
Í ágúst sama ár var félagið svo sett á laggirnar. Í tölvupóstum sem starfsmenn frá fjármálaþjónustufyrirtækinu SGG Group sendu Jeff Blue, samstarfsmanni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vegna stofnunar félagsins kemur skýrt fram að Mike Ashley ætti að koma að stofnun félagsins. Í pósti frá þeim er að finna vegabréfanúmer Ashley svo hægt sé að gera hann að eiganda auk staðfestingar á heimilisfangi hans.
Þar er einnig að finna hluthafasamkomulag vegna Rhapsody sem gert var á milli allra væntanlegra eigenda félagsins. Þar segir að eignaskipting, eftir að hlutafé verði greitt inn, verði með þeim hætti að SportsDirect.com Retail Ltd. (fyrirtæki Mike Ashley), muni eiga 25 prósent hlut, Guru Invest (félag Ingibjargar í Panama) eigi 27 prósent, Sigurður Pálmi eigi 33 prósent og Jeff Blue 15 prósent. Afrit af póstum vegna gerðar hluthafasamkomulagsins voru send til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, prókúruhafa í Guru Invest.
Af hlutafé félagsins upp á eina milljón punda lagði Guru Invest S.A. fram 320 þúsund pund, Sigurður Pálmi 330 þúsund pund, Sports Direct 250 þúsund pund og Jeff Blue 100 þúsund pund. Sigurður Pálmi fékk lán frá Guru Invest upp á 115 þúsund punda, rúmlega 20 milljónir króna árið 2012, til að fjármagna hlutafjárkaup sín í Rhapsody Investments.
Mikil viðskipti við tengda aðila
Síðan hefur reksturinn gengið vel. Heildarvelta NDS ehf., íslenska félagsins utan um hann, var 1.033 milljónir króna árið 2016 samkvæmt ársreikningi og jókst um 12 prósent milli ára. Hagnaðurinn var 69 milljónir króna eftir skatta.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Félagið hefur nefnilega verið að greiða hratt niður skuldir við tengda aðila. Í apríl 2015 skuldaði NDS tengdum aðilum 215,5 milljónir króna í skammtímaskuldir og 54,2 milljónir króna í langtímaskuldir. Árið síðar hafði skammtímaskuldin lækkað niður í 83 milljónir króna.
Í ársreikningi NDS kemur fram að tengdir aðilar séu „eigendur, stjórn félagsins, framkvæmdastjóri, nánir fjölskyldumeðlimir fyrrgreindra aðila og aðilar sem hafa umtalsverð áhrif sem stórir hluthafar í félaginu.“
Af skuldum við tengda aðila var lánveiting frá móðurfélagi NDS, Rhapsody Investment frá Lúxemborg, alls 55,3 milljónir króna. Sú skuld var á gjalddaga 21. ágúst 2017, eða í gær.
Auk þess kemur fram að NDS hafi keypt vörur og þjónustu af tengdum aðilum fyrir 452,3 milljónir króna á síðasta rekstrarári . Það eru nánast allt kostnaðarverð seldra vara, sem var samtals 506 milljónir króna. Um er að ræða kaup á vörum og þjónustu frá Sports Direct, fyrirtæki Mike Ashley.
Blue vildi að Ashley efndi blautan samning
SportsDirect.com Retail Ltd, fyrirtæki Ashley, á nú, líkt og áður sagði, 40 prósent í sportvöruversluninni sem rekin er undir Hatti Sports Direct í Kópavogi. Hlutur félagsins jókst upp í þá tölu þegar Ashley keypti 15 prósent hlut Jeff Blue fyrir nokkrum árum.
Jeff Blue þessi hafði lengi starfað með Jóni Ásgeiri. Árið 2007, þegar Jón Ásgeir ákvað að stíga til hliðar sem forstjóri Baugs og gerast starfandi stjórnarformaður samstæðunnar, tók Gunnar Sigurðsson, þá framkvæmdastjóri smásölu hjá Baugi, við starfi Jóns Ásgeirs. Við starfi Gunnars tók Jeff Blue. Hann hélt áfram að vinna með Jóni Ásgeiri eftir hrun og kom meðal annars að skuldauppgjöri honum tengdu á árinu 2010. Þá greiddi félagið sem nú heitir Guru Invest, og er með heimilisfesti á Panama, hluta af skuldum Fjárfestingafélagsins Gaums og félags í eigu þess við Glitni. Með greiðslunni var komið í veg fyrir að Glitnir gæti sett ákveðin félög í þrot.
Blue seldi hlutinn sinn í íslenska Sports Direct þegar hann hélt að hann hefði náð samkomulagi við Mike Ashley um að verða fjármálastjóri samstæðu hans. Blue hélt líka að hann hefði samið við Ashley um að sá síðarnefndi myndi greiða sér 15 milljónir punda, tæplega 1,9 milljarða króna, eingreiðslu ef honum tækist að koma hlutabréfaverði Sports Direct úr fjórum pundum í átta pund á hvern hlut.
Umrætt „samkomulag“ var gert á „Horse&Groom“ kránni í London eftir mikla drykkju. Ashley sagði að aldrei hefði verið um raunverulegt tilboð að ræða heldur góðlátlegt grín í drykkjusamlæti. Vitnaleiðslur yfir honum við meðferð málsins voru kostulegar. Ashley sagðist líka vera leiðinlegur og „feitur eins og tunna“ (e. fat as a barrel) þegar hann svaraði spurningum lögmanna.
Blue fannst þetta þó ekki hafa verið neitt grín og fór í mál við Ashley. Hann hélt því fram að samningurinn hefði lögformlegt gildi og því ætti Ashley að greiða sér 15 milljónir punda.
Á meðan að á málsmeðferðinni stóð setti Blue fram allskyns ásakanir um lögbrot sem hann sagði Ashley hefði framið, en tengdust málinu ekki með beinum hætti. Hann ásakaði Ashley meðal annars um að hafa ætla að múta ákveðnum stjórnendum fyrirtækisins og um áform um markaðsmisnotkun með hlutabréf í Sports Direct. Blue hélt því enn fremur fram að Ashley stundaði oft á tíðum viðskipti á óhefðbundin hátt og á óvenjulegum stöðum. Máli sínu til stuðnings sagði hann frá því að Ashley hefði einu sinni ælt í arinn eftir stjórnendafund hjá Sports Direct, sem hefði farið fram á krá. Blue sagði einnig að Ashley ætti það til að leggja sig undir borðum á leiðinlegum fundum. Þetta sýndi að hann væri óhefðbundinn viðskiptamaður sem gerði óhefðbundna samninga, líkt og þann sem Blue taldi sig hafa gert um 15 milljóna punda greiðslu.
Kröfu Blue var vísað frá í lok júlí síðastliðins. Dómarinn í málinu sagði þá staðreynd að Blue hefði sannfært sig um að lagalega bindandi samkomulag hefði verið um að ræða sýndi að mannleg geta til óskhyggju væri nánast takmarkalaus.