Fimm myndrit: Atvinnuleysi
Atvinnuleysi mældis eitt prósent í júlí. Það er lægsta atvinnuleysi sem mælst hefur á Íslandi í fimm ár.
Atvinnuleysi á Íslandi er nú með lægsta móti. Eftir að hafa náð hámarki í 11,9 prósentum í maí árið 2010 hefur atvinnuleysi minnkað stöðugt, eða um 0,7 prósentustig að jafnaði á ári. Árið 2015 og 2016 minnkaði atvinnuleysi hratt, eða um eitt prósentustig bæði árin. Það sem af er árinu 2017 (fyrstu sjö mánuði ársins) hefur atvinnuleysi minnkað um 0,2 prósentustig frá því í fyrra.
Atvinnuleysi á Íslandi 1991-2016
Atvinnuleysi var 3 prósent á síðasta ári. Minnst var atvinnuleysi á Íslandi árið 1999.
Atvinnuleysi sveiflast mikið á milli mánaða hér á landi. Á myndritinu hér að ofan sést meðalatvinnuleysi yfir heilt ár á árunum 1991 til 2016. Á myndritinu hér að neðan má svo sjá atvinnuleysi í hverjum mánuði frá og með janúar 2003 til og með júlí 2017.
Í júlí náði atvinnuleysi lægsta punkti sínum á þessu tímabili sem hér er grein (2003 til júlí 2017), í 1% atvinnuleysi. Hlutfall atvinnulausra árið 2017 var hæst í maí þegar það náði 5,1 prósenti.
Atvinnuleysi á Íslandi í hverjum mánuði janúar 2003 til júlí 2017
Atvinnuleysi í júlí 2017 var eitt prósent.
Þessar árstíðabundnu sveiflur ráðast ekki síst af þátttöku ungs fólks á vinnumarkaði. Í júní á þessu ári voru 98,1 prósent fólks á aldrinum 16 til 24 ára á atvinnumarkaði, miðað við 82,2 prósent þeirra sem eru á aldrinum 25-74 ára. Í janúar var hlutfall ungs fólks á atvinnumarkaði hins vegar 77,2 prósent.
Hærra hlutfall atvinnuleysis í maí skýrist að miklu leyti af atvinnuleysi ungs fólks, sem var 17,1 prósent miðað við 2,4 prósent atvinnuleysi meðal þeirra sem eru eldri en 25 ára. Í júní voru námsmenn svo komnir í vinnu því atvinnuleysi meðal ungs fólks var skyndilega orðið 5,1 prósent.
Atvinnuleysi eftir aldri 2003-2017
Smelltu á skýringarnar til þess aðgreina gögnin. Færðu músarbendilinn yfir gögnin til að sjá nánar.
Atvinnuleysi er skilgreint í lögum um atvinnuleysistryggingar en allir þeir sem fá ekki vinnu þrátt fyrir leit og færni um að vinna teljast atvinnulausir. Fjöldi atvinnulausra má þess vegna skýra sem hlutfall af atvinnuþátttöku. Allir þeir sem eru í vinnu eða að leita að vinnu teljast til þátttakendur á vinnumarkaði.
Á Íslandi er atvinnuþátttaka með mesta móti, miðað við OECD-löndin. Síðastliðin 25 ár hefur atvinnuþátttaka ekki farið undir 80% af mannfjölda. Tölurnar hér að neðan sýna atvinnuþátttöku 15 ára og eldri í OECD-löndunum árið 2016. Hæsta súlan merkir atvinnuþátttöku á Íslandi.
Atvinnuþátttaka í OECD-löndunum árið 2016
Færðu músarbendilinn yfir gögnin til að sjá nánar.
Atvinnuleysi á Íslandi er jafnframt það minnsta sé það borið saman við OECD-löndin.
Atvinnuþátttaka kvenna er að jafnaði minni en karla. Í júlí var atvinnuþátttaka karla til að mynda 87,7 prósent en atvinnuþátttaka meðal kvenna 78,7 prósent. Ekki hefur verið mikill munur á atvinnuleysi karla og kvenna undanfarin ár, þó munurinn hafi verið talsverður á árum efnahagsþrenginganna 2008-2012.