Mynd: Birgir Þór

Engin sýnileg ríkisstjórn í kortunum

Klofningsframboð úr Framsóknarflokknum virðist helst taka fylgi frá honum og Sjálfstæðisflokki. Samanlagt fylgi Framsóknarblokkarinnar yrði þriðja versta kosningarniðurstaða flokksins frá upphafi og klofningurinn virðist ætla að skerða líkur Sjálfstæðisflokks á því að komast í ríkisstjórn.

Staðan í íslenskum stjórn­málum virð­ist ákaf­lega snú­in. Mjög erfitt, ef ekki ómögu­legt, verður að mynda tveggja flokka rík­is­stjórn að loknum næstu kosn­ingum og klofn­ingur í Fram­sókn­ar­flokkn­um, sem er ekki lengur geisla­virkur í hugum ann­arra flokka, veikir stöðu hans sem hins aug­ljósa milli­stykkis í þriggja flokka stjórn.

Mestar líkur eru á því að Vinstri græn verði í næstu rík­is­stjórn. Þá ályktun má draga út frá ýmsum þátt­um. Flokk­ur­inn mælist stærstur í skoð­ana­könn­unum, flestir lands­menn vilja Katrínu Jak­obs­dóttur sem næsta for­sæt­is­ráð­herra og eng­inn flokkur úti­lokar sam­starf við Vinstri græna.

Það er þó vert að benda á að mjög margt getur gerst á síð­ustu vikum kosn­inga­bar­átt­unn­ar, sem er í raun ekki hafin af neinni alvöru. Stór hluti kjós­enda virð­ist ekki hafa gert upp hug sinn.

Ef lands­lagið er brotið niður í þrennt lítur staðan þannig út, sam­kvæmt nýj­ustu könnun MMR: Flokk­arnir sem hafa að mestu stýrt Íslandi á lýð­veld­is­tím­an­um, Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokk­ur, mæl­ast með 29,9 pró­sent fylgi. Flokkar sem stofn­aðir voru eftir árið 2012, Pírat­ar, Flokkur fólks­ins, Við­reisn, Björt Fram­tíð, Mið­flokk­ur­inn, Íslenska þjóð­fylk­ingin og Dögun mæl­ast svo með sam­an­lagt 34,1 pró­sent fylgi. Vinstri græn og Sam­fylk­ing­in, sem mynda vinstri- og jafn­að­ar­manna­væng stjórn­mála, mæl­ast með sam­an­lagt fylgi upp á 35,1 pró­sent.

Eins og er blasir ekk­ert stjórn­ar­mynstur við. Og klofn­ing­ur­inn í Fram­sókn­ar­flokknum fækkar þeim mögu­leikum sem lík­leg­astir voru enn frek­ar.

Yrði þriðja versta nið­ur­staða Fram­sókn­ar­blokkar frá upp­hafi

Könnun MMR, sem birt var í gær, var sú fyrsta sem gerð var eftir að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son ákváð að kljúfa sig frá flokknum og stofna Mið­flokk­inn. Hún hefur án efa verið for­ystu­fólki í Fram­sókn mikið áfall, enda fylgi flokks­ins ein­ungis 6,4 pró­sent á meðan að  fylgi klofn­ings­fram­boðs­ins, flokks Sig­mundar Dav­íðs, mæld­ist 7,3 pró­sent.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur klofið sig úr Framsóknarflokknum og stofnað Miðflokkinn.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hefur þó mælst með lægra fylgi í könn­unum MMR. Það er meira að segja ekk­ert svo langt síð­an. Síð­ast mæld­ist fylgi flokks­ins 6,4 pró­sent í júlí í fyrra, þegar Sig­mundur Davíð var enn for­maður hans. Lægst mæld­ist fylgið þó 4,9 pró­sent í des­em­ber 2008, um mán­uði áður en Sig­mundur Davíð tók við sem for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Sam­an­lagt fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins og Mið­flokks­ins mælist 13,7 pró­sent. Það er meira en Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn fékk í síð­ustu kosn­ingum þegar 11,5 pró­sent kjós­enda studdu hann. Sú nið­ur­staða var hins vegar versta nið­ur­staða Fram­sóknar frá upp­hafi. Sam­an­lagt fylgi hins vænt­an­lega mið­flokks og Fram­sókn­ar­flokks­ins er aðeins minna en Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn fékk upp úr kjör­köss­unum í kosn­ing­unum 2009, þegar Sig­mundur Davíð leiddi flokk­inn í fyrsta sinn. Þá fékk hann 14,8 pró­sent atkvæða.

Sam­an­lagt fylgi Fram­sóknar og Mið­flokks­ins eins og það mælist nú yrði því þriðja versta kosn­ing­ar­nið­ur­staða Fram­sókn­ar­flokks­ins frá upp­hafi ef kosið yrði í dag.

Ómögu­legt að mynda kerf­is­varn­ar­stjórn­ina

En hvað þýðir þessi klofn­ingur fyrir aðra stjórn­mála­flokka? Það er fyr­ir­liggj­andi að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vill helst starfa með Fram­sókn­ar­flokknum í rík­is­stjórn. Flokk­arnir sátu saman í slíkri frá 1995 til 2007 og svo aftur frá 2013 og fram á haust 2016. Og hafa, meira og minna, stýrt Íslandi frá lýð­veld­is­stofn­un, oft­ast sam­an. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur tekið þátt í tveimur öðrum rík­is­stjórn­ar­sam­störfum á þess­ari öld sem bæði hafa sprung­ið. Það fyrra, með Sam­fylk­ing­unni, end­aði eftir 615 daga. Sú síð­ari, sem mynduð var með Bjartri fram­tíð og Við­reisn, ent­ist ein­ungis í átta mán­uði.

Það virð­ist hins vegar ólík­legt að tveggja flokka stjórn Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks verði ger­leg í fyr­ir­sjá­an­legri fram­tíð. Síð­ast þegar flokk­arnir tveir fengu nægan meiri­hluta til þess gerð­ist það eftir kosn­inga­sigur Fram­sókn­ar­flokks­ins 2013, sem átti sér stað þegar Ísland stóð á efna­hags­legum tíma­mót­um, sam­fé­lagið var í miklu ójafn­vægi og landið var ekki enn komið almenni­lega út úr stormi hruns­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn náði þá að eigna sér Ices­ave nið­ur­stöð­una og sigldi í mark á baki lof­orði um að gefa hluta Íslend­inga tugi millj­arða króna úr rík­is­sjóði ef þeir myndu kjósa flokk­inn. Það er for­dæma­laust í íslenskri stjórn­mála­sögu að flokkur bjóði fólki bein­línis reiðufé úr rík­is­sjóði fyrir að kjósa sig.



Þótt við­búið sé að stór lof­orð verði notuð til að lokka fólk til fylgis við flokka í aðdrag­anda kom­andi kosn­inga verður að telj­ast mjög ólík­legt að ein­hver þeirra nái nálægt um fjórð­ungs fylgi líkt og Fram­sókn gerði þá.

Minna sam­an­lagt fylgi en í kosn­ing­unum í fyrra

Rík­is­stjórn kerf­is­varn­ar­flokk­anna tveggja, Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar, kol­féll í kosn­ing­unum í fyrra­haust. Þeir fengu ein­ungis 40,5 pró­sent fylgi. Sam­kvæmt nýj­ustu könnun MMR mælist sam­an­lagt fylgi þeirra 29,9 pró­sent. Ef klofn­ings­fram­boðið Mið­flokk­ur­inn er lagt saman við þá tölu er fylgið samt ein­ungis 37,2 pró­sent.

Þessi staða flækir mögu­leika Sjálf­stæð­is­flokks­ins til að kom­ast í rík­is­stjórn umtals­vert. Ljóst má vera að Mið­flokk­ur­inn er að taka mest fylgi frá Fram­sókn­ar­flokkn­um, en hann tekur líka fylgi frá Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Og í ljósi þess að Sam­fylk­ing­in, Pírat­ar, Við­reisn og Björt fram­tíð, kom­ist allir þeir flokkar að á þingi, eru veru­lega ólík­legir til að starfa með Sjálf­stæð­is­flokknum í rík­is­stjórn, og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn með þeim, þá er ljóst að flokk­ur­inn bindur vonir sínar við að geta annað hvort myndað tveggja flokka rík­is­stjórn með Vinstri grænum eða þriggja flokka rík­is­stjórn þar sem Fram­sókn kæmi inn sem þriðja hjól­ið. Miðað við könnun MMR þá er tveggja flokka stjórn með Vinstri grænum í besta falli mögu­leg með minnsta mögu­lega þing­meiri­hluta en minni­hluta atkvæða á bak­við sig. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var að koma úr slíkri rík­is­stjórn sem sprakk eftir átta mán­uði og leggur vart aftur út í slíkt ævin­týri, sér­stak­lega þegar við blasir að rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokknum yrði mjög óvin­sæl á meðal kjós­enda Vinstri grænna, sem vilja flestir félags­hyggju­stjórn.

Í nýlegri könnun Gallup, sem fram­kvæmd var eftir stjórn­ar­slit, kom fram að ein­ungis 18 pró­sent kjós­enda Vinstri grænna vilja sjá Sjálf­stæð­is­flokk­inn í rík­is­stjórn með sínum flokki. Til sam­an­burðar sögð­ust 80 pró­sent þeirra vilja mynda rík­is­stjórn með Sam­fylk­ing­unni.

Líklegast er, í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi í dag, að Katrín Jakobsdóttir verði næsti forsætisráðherra þjóðarinnar. Það á þó margt eftir að gerast fram að kosningum.

Ef Mið­flokk­ur­inn heldur áfram að reyta af Fram­sókn­ar­flokkn­um, og aðeins af Sjálf­stæð­is­flokknum í leið­inni, þá veikir það mjög mögu­leika þess­ara tveggja flokka að mynda bak­bein í rík­is­stjórn.

Sjálf­stæð­is­flokkur varla að fara að sam­þykkja hátekju­skatt

Til við­bótar verður að öllum lík­indum flókið fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn að selja rík­is­stjórn­ar­sam­starf við Vinstri græn og Fram­sókn­ar­flokk til hluta síns bak­lands við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við­mæl­endur Kjarn­ans innan Vinstri grænna segja nefni­lega að það sé ófrá­víkj­an­leg for­senda þess að flokk­ur­inn taki þátt í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi að fall­ist verði á skatt­kerf­is­breyt­ingar sem auki jöfn­uð. Þar á flokk­ur­inn við t.d. hátekju­skatt og auð­legð­ar­skatt.

Í vik­unni varð ber­sýni­lega ljóst að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ætlar að aðlaga sig að þessum kröfum í aðdrag­anda kosn­inga. Í bréfi Sig­urðar Inga Jóhanns­sonar, for­manns flokks­ins, til flokks­manna kom fram að áherslur flokks­ins yrðu m.a. end­ur­bætur á skatt­kerf­inu „til að létta skatt­byrði hjá fólki með milli- og lægri tekjur en hækka á hátekj­ur.“ Ljóst er að margir innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins ættu erfitt með að kyngja slíkum skatta­hækk­un­um.

Telja verður nær ómögulegt að Framsóknarflokkurinn myndi setjast í ríkisstjórn með Miðflokknum. Það sama má reyndar segja um nær alla flokka sem í framboði eru.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Telja verður nær ómögu­legt að Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Fram­sókn­ar­flokkur og Mið­flokkur myndi rík­is­stjórn, jafn­vel þótt að þeir nái fylgi til þess. Í ljósi þess að það and­ar, væg­ast sagt, köldu milli Sig­mundar Dav­íðs og Bjarna Bene­dikts­sonar eftir rík­is­stjórn­ar­slitin vorið 2016 og að Sig­mundur Davíð hefur bein­línis ásakað áhrifa­fólk innan Fram­sókn­ar­flokks­ins um að vilja drepa sig, þá yrði slík rík­is­stjórn vart starf­hæf.

Þegar við bæt­ist hvernig lyk­il­fólk innan Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sóknar talar um Sig­mund Davíð er ljóst að það telur hann ekki sam­starfs­hæfan með nokkru móti. Sama gildir reyndar um lyk­il­fólk innan allra ann­arra flokka og því við­bú­ið, sama hver árangur Mið­flokks­ins verður í kom­andi kosn­ing­um, að ein­angrun Sig­mundar Dav­íðs í íslenskum stjórn­málum haldi áfram.

Margt eftir að breyt­ast og engin fær óska­stjórn­ina sína

Segja má að íslensk stjórn­mál skipt­ist í þrennt eins og staðan er í dag. Kerf­is­varn­ar­flokk­arnir tveir, Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokk­ur, mæl­ast sam­an­lagt með 29,9 pró­sent fylgi.

Flokkar sem stofn­aðir voru eftir árið 2012, Pírat­ar, Flokkur fólks­ins, Við­reisn, Björt Fram­tíð, Mið­flokk­ur­inn, Íslenska þjóð­fylk­ingin og Dögun mæl­ast svo með sam­an­lagt 34,1 pró­sent fylgi. Að end­ingu mynda Vinstri græn og Sam­fylk­ingin vinstri- og jafn­að­ar­manna­væng stjórn­mála með sam­an­lagt fylgi upp á 35,1 pró­sent.

Í áður­nefndri könnun Gallup kom fram Stuðn­ings­menn Vinstri grænna vilja helst vinna með Sam­fylk­ing­unni en síst með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Þar kom líka áfram að 51 pró­sent kjós­enda Sjálf­stæð­is­flokks vilji Fram­sókn­ar­flokk­inn í rík­is­stjórn en ein­ungis þrjú pró­sent sjá Vinstri græna þar. Alls nefndu 71 pró­sent stuðn­ings­manna Fram­sóknar Sjálf­stæð­is­flokk­inn sem flokk sem þeir vildu í rík­is­stjórn en ein­ungis 12 pró­sent Vinstri græna. Stuðn­ings­menn Sam­fylk­ingar og Pírata virð­ast vera með nokkuð sam­bæri­lega skoðun á því með hverjum þeir vilji helst starfa. Það eru með hvorum öðrum og svo Vinstri græn­um, Bjartri fram­tíð eða Við­reisn. Ein­ungis eitt pró­sent kjós­enda Pírata vilja sjá Sjálf­stæð­is­flokk­inn í rík­is­stjórn og þrjú pró­sent kjós­enda Sam­fylk­ing­ar.

Miðað við stöð­una eins og hún er í dag er ólík­legt að nokkur fái ósk­a­rík­is­stjórn­ina sína. Þó er vert að benda á að enn eru rúmar fjórar vikur til kosn­inga, listar flestra fram­boða eru ekki til­búnir og þorri kjós­enda virð­ist óákveð­inn. Kosn­inga­þátt­taka mun skipta miklu máli og ef hún verður lítil mun það vinna með Sjálf­stæð­is­flokknum og Fram­sókn­ar­blokk­inni, sem höfða til elstu kjós­end­anna, þeirra sem skila sér helst á kjör­stað. Auk þess er það gömul saga og ný að Sjálf­stæð­is­flokknum tekst venju­lega að hífa fylgi sitt upp á síð­ustu dögum kosn­inga­bar­átt­unnar þegar for­skot hans sem fjölda­hreyf­ingar nýt­ist best.

Það á því án efa margt eftir að breyt­ast fram að kjör­degi, sem verður 28. októ­ber næst­kom­andi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar