Mynd: Birgir Þór

Engin sýnileg ríkisstjórn í kortunum

Klofningsframboð úr Framsóknarflokknum virðist helst taka fylgi frá honum og Sjálfstæðisflokki. Samanlagt fylgi Framsóknarblokkarinnar yrði þriðja versta kosningarniðurstaða flokksins frá upphafi og klofningurinn virðist ætla að skerða líkur Sjálfstæðisflokks á því að komast í ríkisstjórn.

Staðan í íslenskum stjórnmálum virðist ákaflega snúin. Mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, verður að mynda tveggja flokka ríkisstjórn að loknum næstu kosningum og klofningur í Framsóknarflokknum, sem er ekki lengur geislavirkur í hugum annarra flokka, veikir stöðu hans sem hins augljósa millistykkis í þriggja flokka stjórn.

Mestar líkur eru á því að Vinstri græn verði í næstu ríkisstjórn. Þá ályktun má draga út frá ýmsum þáttum. Flokkurinn mælist stærstur í skoðanakönnunum, flestir landsmenn vilja Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra og enginn flokkur útilokar samstarf við Vinstri græna.

Það er þó vert að benda á að mjög margt getur gerst á síðustu vikum kosningabaráttunnar, sem er í raun ekki hafin af neinni alvöru. Stór hluti kjósenda virðist ekki hafa gert upp hug sinn.

Ef landslagið er brotið niður í þrennt lítur staðan þannig út, samkvæmt nýjustu könnun MMR: Flokkarnir sem hafa að mestu stýrt Íslandi á lýðveldistímanum, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, mælast með 29,9 prósent fylgi. Flokkar sem stofnaðir voru eftir árið 2012, Píratar, Flokkur fólksins, Viðreisn, Björt Framtíð, Miðflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og Dögun mælast svo með samanlagt 34,1 prósent fylgi. Vinstri græn og Samfylkingin, sem mynda vinstri- og jafnaðarmannavæng stjórnmála, mælast með samanlagt fylgi upp á 35,1 prósent.

Eins og er blasir ekkert stjórnarmynstur við. Og klofningurinn í Framsóknarflokknum fækkar þeim möguleikum sem líklegastir voru enn frekar.

Yrði þriðja versta niðurstaða Framsóknarblokkar frá upphafi

Könnun MMR, sem birt var í gær, var sú fyrsta sem gerð var eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákváð að kljúfa sig frá flokknum og stofna Miðflokkinn. Hún hefur án efa verið forystufólki í Framsókn mikið áfall, enda fylgi flokksins einungis 6,4 prósent á meðan að  fylgi klofningsframboðsins, flokks Sigmundar Davíðs, mældist 7,3 prósent.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur klofið sig úr Framsóknarflokknum og stofnað Miðflokkinn.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Framsóknarflokkurinn hefur þó mælst með lægra fylgi í könnunum MMR. Það er meira að segja ekkert svo langt síðan. Síðast mældist fylgi flokksins 6,4 prósent í júlí í fyrra, þegar Sigmundur Davíð var enn formaður hans. Lægst mældist fylgið þó 4,9 prósent í desember 2008, um mánuði áður en Sigmundur Davíð tók við sem formaður Framsóknarflokksins.

Samanlagt fylgi Framsóknarflokksins og Miðflokksins mælist 13,7 prósent. Það er meira en Framsóknarflokkurinn fékk í síðustu kosningum þegar 11,5 prósent kjósenda studdu hann. Sú niðurstaða var hins vegar versta niðurstaða Framsóknar frá upphafi. Samanlagt fylgi hins væntanlega miðflokks og Framsóknarflokksins er aðeins minna en Framsóknarflokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í kosningunum 2009, þegar Sigmundur Davíð leiddi flokkinn í fyrsta sinn. Þá fékk hann 14,8 prósent atkvæða.

Samanlagt fylgi Framsóknar og Miðflokksins eins og það mælist nú yrði því þriðja versta kosningarniðurstaða Framsóknarflokksins frá upphafi ef kosið yrði í dag.

Ómögulegt að mynda kerfisvarnarstjórnina

En hvað þýðir þessi klofningur fyrir aðra stjórnmálaflokka? Það er fyrirliggjandi að Sjálfstæðisflokkurinn vill helst starfa með Framsóknarflokknum í ríkisstjórn. Flokkarnir sátu saman í slíkri frá 1995 til 2007 og svo aftur frá 2013 og fram á haust 2016. Og hafa, meira og minna, stýrt Íslandi frá lýðveldisstofnun, oftast saman. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þátt í tveimur öðrum ríkisstjórnarsamstörfum á þessari öld sem bæði hafa sprungið. Það fyrra, með Samfylkingunni, endaði eftir 615 daga. Sú síðari, sem mynduð var með Bjartri framtíð og Viðreisn, entist einungis í átta mánuði.

Það virðist hins vegar ólíklegt að tveggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði gerleg í fyrirsjáanlegri framtíð. Síðast þegar flokkarnir tveir fengu nægan meirihluta til þess gerðist það eftir kosningasigur Framsóknarflokksins 2013, sem átti sér stað þegar Ísland stóð á efnahagslegum tímamótum, samfélagið var í miklu ójafnvægi og landið var ekki enn komið almennilega út úr stormi hrunsins. Framsóknarflokkurinn náði þá að eigna sér Icesave niðurstöðuna og sigldi í mark á baki loforði um að gefa hluta Íslendinga tugi milljarða króna úr ríkissjóði ef þeir myndu kjósa flokkinn. Það er fordæmalaust í íslenskri stjórnmálasögu að flokkur bjóði fólki beinlínis reiðufé úr ríkissjóði fyrir að kjósa sig.


Þótt viðbúið sé að stór loforð verði notuð til að lokka fólk til fylgis við flokka í aðdraganda komandi kosninga verður að teljast mjög ólíklegt að einhver þeirra nái nálægt um fjórðungs fylgi líkt og Framsókn gerði þá.

Minna samanlagt fylgi en í kosningunum í fyrra

Ríkisstjórn kerfisvarnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, kolféll í kosningunum í fyrrahaust. Þeir fengu einungis 40,5 prósent fylgi. Samkvæmt nýjustu könnun MMR mælist samanlagt fylgi þeirra 29,9 prósent. Ef klofningsframboðið Miðflokkurinn er lagt saman við þá tölu er fylgið samt einungis 37,2 prósent.

Þessi staða flækir möguleika Sjálfstæðisflokksins til að komast í ríkisstjórn umtalsvert. Ljóst má vera að Miðflokkurinn er að taka mest fylgi frá Framsóknarflokknum, en hann tekur líka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Og í ljósi þess að Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Björt framtíð, komist allir þeir flokkar að á þingi, eru verulega ólíklegir til að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn, og Sjálfstæðisflokkurinn með þeim, þá er ljóst að flokkurinn bindur vonir sínar við að geta annað hvort myndað tveggja flokka ríkisstjórn með Vinstri grænum eða þriggja flokka ríkisstjórn þar sem Framsókn kæmi inn sem þriðja hjólið. Miðað við könnun MMR þá er tveggja flokka stjórn með Vinstri grænum í besta falli möguleg með minnsta mögulega þingmeirihluta en minnihluta atkvæða á bakvið sig. Sjálfstæðisflokkurinn var að koma úr slíkri ríkisstjórn sem sprakk eftir átta mánuði og leggur vart aftur út í slíkt ævintýri, sérstaklega þegar við blasir að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum yrði mjög óvinsæl á meðal kjósenda Vinstri grænna, sem vilja flestir félagshyggjustjórn.

Í nýlegri könnun Gallup, sem framkvæmd var eftir stjórnarslit, kom fram að einungis 18 prósent kjósenda Vinstri grænna vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn með sínum flokki. Til samanburðar sögðust 80 prósent þeirra vilja mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Líklegast er, í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi í dag, að Katrín Jakobsdóttir verði næsti forsætisráðherra þjóðarinnar. Það á þó margt eftir að gerast fram að kosningum.

Ef Miðflokkurinn heldur áfram að reyta af Framsóknarflokknum, og aðeins af Sjálfstæðisflokknum í leiðinni, þá veikir það mjög möguleika þessara tveggja flokka að mynda bakbein í ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkur varla að fara að samþykkja hátekjuskatt

Til viðbótar verður að öllum líkindum flókið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að selja ríkisstjórnarsamstarf við Vinstri græn og Framsóknarflokk til hluta síns baklands við þær aðstæður sem nú eru uppi. Viðmælendur Kjarnans innan Vinstri grænna segja nefnilega að það sé ófrávíkjanleg forsenda þess að flokkurinn taki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi að fallist verði á skattkerfisbreytingar sem auki jöfnuð. Þar á flokkurinn við t.d. hátekjuskatt og auðlegðarskatt.

Í vikunni varð bersýnilega ljóst að Framsóknarflokkurinn ætlar að aðlaga sig að þessum kröfum í aðdraganda kosninga. Í bréfi Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns flokksins, til flokksmanna kom fram að áherslur flokksins yrðu m.a. endurbætur á skattkerfinu „til að létta skattbyrði hjá fólki með milli- og lægri tekjur en hækka á hátekjur.“ Ljóst er að margir innan Sjálfstæðisflokksins ættu erfitt með að kyngja slíkum skattahækkunum.

Telja verður nær ómögulegt að Framsóknarflokkurinn myndi setjast í ríkisstjórn með Miðflokknum. Það sama má reyndar segja um nær alla flokka sem í framboði eru.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Telja verður nær ómögulegt að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Miðflokkur myndi ríkisstjórn, jafnvel þótt að þeir nái fylgi til þess. Í ljósi þess að það andar, vægast sagt, köldu milli Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar eftir ríkisstjórnarslitin vorið 2016 og að Sigmundur Davíð hefur beinlínis ásakað áhrifafólk innan Framsóknarflokksins um að vilja drepa sig, þá yrði slík ríkisstjórn vart starfhæf.

Þegar við bætist hvernig lykilfólk innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar talar um Sigmund Davíð er ljóst að það telur hann ekki samstarfshæfan með nokkru móti. Sama gildir reyndar um lykilfólk innan allra annarra flokka og því viðbúið, sama hver árangur Miðflokksins verður í komandi kosningum, að einangrun Sigmundar Davíðs í íslenskum stjórnmálum haldi áfram.

Margt eftir að breytast og engin fær óskastjórnina sína

Segja má að íslensk stjórnmál skiptist í þrennt eins og staðan er í dag. Kerfisvarnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, mælast samanlagt með 29,9 prósent fylgi.

Flokkar sem stofnaðir voru eftir árið 2012, Píratar, Flokkur fólksins, Viðreisn, Björt Framtíð, Miðflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og Dögun mælast svo með samanlagt 34,1 prósent fylgi. Að endingu mynda Vinstri græn og Samfylkingin vinstri- og jafnaðarmannavæng stjórnmála með samanlagt fylgi upp á 35,1 prósent.

Í áðurnefndri könnun Gallup kom fram Stuðningsmenn Vinstri grænna vilja helst vinna með Samfylkingunni en síst með Sjálfstæðisflokknum. Þar kom líka áfram að 51 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vilji Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn en einungis þrjú prósent sjá Vinstri græna þar. Alls nefndu 71 prósent stuðningsmanna Framsóknar Sjálfstæðisflokkinn sem flokk sem þeir vildu í ríkisstjórn en einungis 12 prósent Vinstri græna. Stuðningsmenn Samfylkingar og Pírata virðast vera með nokkuð sambærilega skoðun á því með hverjum þeir vilji helst starfa. Það eru með hvorum öðrum og svo Vinstri grænum, Bjartri framtíð eða Viðreisn. Einungis eitt prósent kjósenda Pírata vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og þrjú prósent kjósenda Samfylkingar.

Miðað við stöðuna eins og hún er í dag er ólíklegt að nokkur fái óskaríkisstjórnina sína. Þó er vert að benda á að enn eru rúmar fjórar vikur til kosninga, listar flestra framboða eru ekki tilbúnir og þorri kjósenda virðist óákveðinn. Kosningaþátttaka mun skipta miklu máli og ef hún verður lítil mun það vinna með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarblokkinni, sem höfða til elstu kjósendanna, þeirra sem skila sér helst á kjörstað. Auk þess er það gömul saga og ný að Sjálfstæðisflokknum tekst venjulega að hífa fylgi sitt upp á síðustu dögum kosningabaráttunnar þegar forskot hans sem fjöldahreyfingar nýtist best.

Það á því án efa margt eftir að breytast fram að kjördegi, sem verður 28. október næstkomandi.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar