Arðgreiðslur til eigenda í sjávarútvegi 66 milljarðar frá 2010
Samanlagt hefur hagur sjávarútvegsfyrirtækja vænkast um 366,8 milljarða króna á örfáum árum. Eigendur þeirra hafa notið góðs af því í gegnum háar arðgreiðslur. frá 2011 hafa veiðigjöld numið 45,2 milljörðum króna.
Samanlagðar arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna frá árinu 2010 nema 65,8 milljörðum króna. Eigið fé þeirra frá hruni hefur batnað um 300 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 365,8 milljarða króna á síðastliðnum árum. Þetta kemur fram í tölum úr Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte vegna ársins 2016, sem kynntar voru á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn var síðastliðinn þriðjudag.
Þar kom fram að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækjanna frá árinu 2009 og út síðasta ár hefur numið samtals 342 milljörðum króna. Sú upphæð myndi duga fyrir 43,3 prósent áætlaðra útgjalda íslenska ríkisins á næsta ári. Frá árinu 2011 hafa fyrirtækin greitt 45,2 milljarða króna til ríkissjóðs í formi veiðigjalda. Í reikningum fyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði og því er búið að taka tillit til þess þegar hreinn hagnaður er reiknaður út.
Veiðigjöld lækkuðu milli ára
Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja í fyrra sló öll fyrri met. Hann var 55 milljarðar króna og aðeins hærri en 2013, þegar hann var mjög sambærilegur. Samanlagt hafa íslensku sjávarútvegsfyrirtækin hagnast um 342 milljarða króna eftir hrun.
Bein opinber gjöld sem geirinn greiddi í fyrra voru 19,1 milljarðar króna og lækkuðu um 3,5 milljarða króna á milli ára. Veiðigjöldin ein og sér voru 6,4 milljarðar króna á síðasta ári og lækkuðu um 1,1 milljarð króna frá árinu á undan. Fyrir liggur að þau eigi að hækka vegna ársins í ár í um ellefu milljarða króna. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag að útgerðin geti ekki staðið undir hærri veiðigjöldum.
Hagur geirans vænkast um 367 milljarða
Alls er bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja 221 milljarður króna. Það var neikvætt um 80 milljarða króna í lok árs 2008 og hefur því aukist um 301 milljarð króna síðan á hrunárinu. Þá á eftir að taka tillit til arðgreiðslna sem hafa numið 65,8 milljörðum króna frá árinu 2010. Samanlagt hefur hagur sjávarútvegsfyrirtækja því vænkast um 366,8 milljarða króna á örfáum árum.
Þennan viðsnúning hafa eigendur þeirra meðal annars nýtt í að greiða hratt niður skuldir og í að auka fjárfestingu í geiranum. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja voru 319 milljarðar króna um síðustu áramót og höfðu þá lækkað um 175 milljarða króna frá hruni. Fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum, sem eru til að mynda ný skip, var 22 milljarðar króna í fyrra. Hún hefur verið um 25 milljarðar króna að meðaltalið árlega á síðustu þremur árum.
Lendir að mestu hjá stærstu fyrirtækjunum
Í þeirri kosningabaráttu sem nú stendur yfir eru ansi margir stjórnmálaflokkar með það á stefnuskrá sinni að auka gjaldtöku á þá sem nýta sér auðlindir landsins. Efst á blaði þar er sjávarútvegur. Eins og kerfið virkar í dag eru um eitt þúsund fyrirtæki sem greiða veiðigjald og leggst það mismunandi þungt á þau fyrirtæki.
Ljóst er þó að geta þeirra allra stærstu í geiranum til að standa undir umframgreiðslum er til staðar, þótt að smærri fyrirtæki eigi í erfiðleikum með slíkar.
Þessi gífurlega bætti hagur sjávarútvegarins lendir nefnilega að að mestu hjá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Þannig hefur til að mynda Samherji, samstæða félaga sem starfa á sviði sjávarútvegs hérlendis og erlendis, hagnast um 86 milljarða króna á undanförnum sex árum. Hagnaður Samherja fyrir afskriftir og fjármagnsliði í fyrra var 17 milljarðar króna. Helstu eigendur Samherja eru frændurnir, forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson.