Að vera eða vera ekki innherji
Hverjir vissu meira en aðrir fyrir bankahrunið? Hvað gerðu þeir við þær upplýsingar? Komu þeir fjármunum undan? Og ef svo er, hafði það einhverjar afleiðingar? Kjarninn hefur undir höndum skýrslur, fundargerðir og önnur gögn vegna rannsóknar á því hvort að innherjasvik hafi átt sér stað í viðskiptum innan Glitnis dagana fyrir bankahrun.
Eftir að íslensku bankarnir féllu haustið 2008 var öllum skilanefndunum sem skipaðar voru yfir þá gert að ráða óháða sérfræðingar til að rannsaka hvort að vikið hafi verið frá innri reglum þeirra, lögum og reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, lögum um verðbréfaviðskipti, almennum hegningarlögum, svo og öðrum réttarheimildum við hrun bankanna.
Skilanefnd Glitnis réð KPMG til verksins og var skoðunartímabilið 1. september 2008 til 15. október 2008. Áherslan var lögð á óeðlilegar tilfærslur eigna í aðdraganda inngrips ríkisins í Glitni.
Í þeirri vinnu voru tvær mismunandi dagsetningar sérstaklega notaðar til viðmiðunar. Önnur var 25. september 2008, en þann dag fór Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi stjórnarformaður Glitnis, á fund Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra til að lýsa fyrir honum áhyggjum sínum af þeirri stöðu sem upp var komin í rekstri Glitnis. Bankinn átti ekki fyrir gjalddaga láns sem var 15. október. Sama dag fóru tveir framkvæmdastjórar hjá Glitni, Jóhannes Baldursson og Vilhelm Már Þorsteinsson, á annan fund í Seðlabankanum þar sem meðal annars var rætt um þá óvissu með getu Glitnis til að geta staðið við greiðslu þann 15. október 2008. Tilgangur beggja fundanna var sá að óska eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum til að fleyta bankanum yfir umræddan gjalddaga og koma í veg fyrir að hann færi í greiðsluþrot. Þessir fundir, og sú staða sem Glitnir var kominn í, leiddi af sér af sér að íslenska ríkið ákvað að taka 75 prósent hlut í Glitni 29. september 2008 gegn því að leggja bankanum til nýtt hlutafé.
Hin dagsetningin sem miðað var við var svo auðvitað 6. október 2008, dagurinn sem neyðarlög voru sett á Íslandi. Daginn eftir féll Glitnir og Fjármálaeftirlitið skipti honum upp í gamlan og nýjan banka.
Skipt um hest í miðri á
KPMG rannsakaði tilfærslur innan Glitnis í rúman mánuð. Frá byrjun nóvember og fram eftir desembermánuði. Rannsókninni var þá ekki lokið en KPMG þurfti að segja sig frá verkinu „af sérstökum ástæðum sem aðilum er kunnugt um“. Ástæðan voru hagsmunaárekstrar sem komu til vegna þess að Sigurður Jónsson, þá forstjóri KPMG, er faðir Jóns Sigurðssonar, þá framkvæmdastjóra Stoða/FL Group, sem var kjölfestufjárfestir Glitnis. KPMG skilaði skýrslu þann 12. desember 2008 um þá vinnu sem fyrirtækið var þegar búið að vinna. Skýrslan er kyrfilega merkt „trúnaðarmál“.
Við vinnu KPMG tók endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young, sem fékk sérfræðinga frá Ernst & Young í Noregi til að aðstoða sig við vinnuna. Teymið skilaði af sér skýrslu árið 2009. Lítill hluti hennar, sem snéri að millifærslum tveggja síðustu bankastjóra Glitnis, Bjarna Ármannssonar og Lárusar Welding, á fé út úr landi, rataði í fréttir á Íslandi í júlí 2009. Annað innihald skýrslunnar, sem er á ensku og merkt „confidential“, hefur hins vegar aldrei komið fyrir augu almennings.
Þegar leið á árið 2009 fékk Glitnir íslensku lögmannsstofuna LEX og alþjóðlega fjármálarannsóknarfyrirtækið Kroll til að vinna áfram með niðurstöður KPMG og Ernst & Young. Tilgangurinn var að kanna hvort hægt yrði að ráðast í einhver riftunarmál eða annars konar gjörninga til að endurheimta fé. Samhliða rannsóknum endurskoðunarfyrirtækjanna voru öll mál sem grunur var um að brytu í bága við lög send til Fjármálaeftirlitsins. Það sendi þau eftir atvikum áfram til embættis sérstaks saksóknara.
Kjarninn er með undir höndum skýrslu KPMG, skýrslu Ernst & Young, skýrslur frá Kroll og samantekt frá LEX um vinnu stofunnar fyrir Glitni þar sem fjallað er um óeðlilegar tilfærslur eigna í aðdraganda inngripa ríkisins í Glitni.
Auk þess er Kjarninn með undir höndunum fundargerðir Fjármálaeftirlitsins af fundum starfsmanna þess með lykilfólki frá þeim endurskoðunarfyrirtækjum sem ráðin voru til að fara í gegnum föllnu bankana. Þeir fundir fóru fram síðla árs 2008. Umfjöllunin sem fylgir hér eftir byggir á þessum gögnum og samtölum við aðila sem að málum komu.
Búnir til listar yfir þá sem bjuggu yfir upplýsingum
Hverjir vissu hvað um bankahrunið? Og gátu þeir nýtt sér það í fjárhagslegum tilgangi? Þessar spurningar hafa ómað nánast látlaust frá bankahruni. Af þeim gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum er nokkuð ljóst að þeir aðilar sem rannsökuðu fall bankanna: skilanefndir, endurskoðunarfyrirtæki, Fjármálaeftirlitið og embætti sérstaks saksóknara hafa verið að velta því sama verulega fyrir sér í kjölfar hrunsins. Og að uppi hafi verið umfangsmiklar grunsemdir um að slíkt hafi átt sér stað.
Samkvæmt fundargerðum af fundum rannsakenda með Fjármálaeftirlitinu frá október og nóvembermánuði 2008 var ákveðið að búa til innherjalista sem á voru stjórnendur, starfsmenn, aðrir venslaðir og tengdir aðilar ásamt stjórnmálamönnum, starfsmönnum Seðlabankans, starfsmönnum ráðuneyta og fleirum. Í raun allir sem gátu mögulega búið yfir meiri upplýsingum um stöðu bankanna en almenningur. Þessir listar voru síðan mátaðir við þær fjármagnshreyfingar sem áttu sér stað í september og október 2008.
Ýmsar mismunandi tegundir af óeðlilegum fjármagnshreyfingum voru skoðaðar á umræddu tímabili. Hjá Glitni skoðaði KPMG til að mynda viðskipti með verðbréf sem töldust óeðlileg, framvirka samninga sem gerðir voru, gjaldeyrisstýringu og meðferð afleiðusamninga. Þá var farið yfir stærstu útlán sem áttu sér stað á tímabilinu, yfir útlán til starfsmanna og farið var var yfir innlausnir úr hinum fræga peningamarkaðssjóði, Sjóði 9.
Tímalína atburða haustið 2008
24. september
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, biður um fund með seðlabankastjóra, Davíð Oddssyni.
25. september
Um hádegisbil hittust Davíð og Þorsteinn Már á fundi í Seðlabankanum. Á fundinum lýsti Þorsteinn þeirri stöðu sem upp var komin í rekstri Glitnis og áhyggjum sínum af gjalddaga láns 15. október sama ár. Sama dag fóru tveir framkvæmdastjórar hjá Glitni, Jóhannes Baldursson og Vilhelm Már Þorsteinsson, á annan fund í Seðlabankanum þar sem meðal annars var rætt um þá óvissu með getu Glitnis til að geta staðið við greiðslu þann 15. október.
26. september
Þorsteinn Már og Lárus Welding, bankastjóri Glitnis, funduðu með Davíð Oddssyni. Síðar sama dag fundaði Davíð með Árna M Mathiesen fjármálaráðherra þar sem hann frétti fyrst af f beiðni Glitnis um lán.
29. september
Tilkynnt að ríkið ætlaði sér að taka 75 prósent eignarhlut í Glitni vegna þess að bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Sjóði 9 var lokað tímabundið sama dag.
1.október
Sjóður 9 var loks opnaður aftur. Þá var búið að kaupa öll skuldabréf Stoða/FL Group út úr þeim. Virði eigna hans lækkaði um sjö prósent vegna þessa.
2-3. október
Stjórnendur Glitnis létu kaupa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 fyrir 33 milljarða króna til að mæta útflæði.
6. október
Neyðarlög sett á Íslandi, Sjóði 9 lokað og Geir H. Haarde forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland.
7. október
Glitnir tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu og sérstök skilanefnd skipuð yfir bankann.
Ernst & Young, sem tók við skoðun á Glitni af KPMG, skoðaði allar óeðlilegar fjármagnshreyfingar frá 1. september til 15. október 2008. Í skýrslu fyrirtækisins er meðal annars fjallað um úttekt Lárusar Welding, þá bankastjóra Glitnis, á 318 milljónum króna, og millifærslu eiginkonu hans á 325 milljónum króna till Bretlands sem átti sér stað í kjölfarið. Millifærslur á fénu til Bretlands áttu sér stað 19. september, 25. september og 3. október. Lárus kom tvívegis fram í íslensku sjónvarpi á þessum tíma, daganna, 21. og 22. september, og sagði þar að staða Glitnis væri traust.
Ernst & Young fjallaði einnig um millifærslu sem Einar Sveinsson, sem hafði áður verið stjórnarformaður Glitnis og var lengi stór hluthafi í bankanum, framkvæmdi 25. september 2008. Einar millifærði þá 168 milljónir króna inn á bankareikning í Noregi. Sú millifærsla fór fram sama dag og þáverandi stjórnarformaður Glitnis fór á fund seðlabankastjóra vegna stöðu bankans.
Ernst & Young vakti athygli á alls 89 útlánum upp á samtals 60 milljarða króna sem veitt voru á þessu tímabili. Þorri þeirra lána voru til fyrirtækja sem töldust tengd aðilum sem gætu búið yfir innherjaupplýsingum. Á sama tíma og þessi lán voru veitt var Glitnir í miklum fjárhagslegum vanda, sem leiddi á endanum til falls bankans í október 2008.
Þá mælti Ernst & Young með því að mál tengd félaginu Kristni ehf., sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur eigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, yrði skoðað betur. Félagið seldi hlutabréf í Glitni daganna 26. september fyrir tæpa fjóra milljarða króna. Bréfin hafði það eignast árið áður þegar Glitnir keypti tæplega 40 prósent hlut í Tryggingamiðstöðinni. Þá átti einnig að hafa verið gert samkomulag um sölurétt ári síðar.
Forsvarsmenn Kristins sögðust síðar einfaldlega hafa verið að nýta þann rétt og að tilviljun hafi ráðið því að það gerðist nokkrum dögum fyrir bankahrun. Sérstakur saksóknari rannsakaði þetta mál en lét þá rannsókn síðar niður falla. Slitastjórn Glitnis höfðaði hins vegar mál og vildi rifta viðskiptunum. Hún taldi sig hafa tapað milljörðum króna á viðskiptunum og taldi að enginn skriflegur samningur hefði verið til um sölurétt. Sátt náðist þó á milli aðila og málið var látið niður falla. Kristinn ehf. er feikilega vel statt félag í dag. Um síðustu áramót átti félagið eigið fé upp á 17,4 milljarða króna.
Ekkert ofangreindra mála rataði í ákærumeðferð þrátt fyrir upphaflegar grunsemdir þeirra aðila sem rannsökuðu það sem gerðist innan Glitnis síðustu daganna fyrir hrun. Og því er ekkert sem bendir til þess að þau viðskipti sem lýst er hafi verið að nokkru leyti ólögleg.
Einbeittu sér að Sjóði 9
Mikill þungi í þeim rannsóknum sem ráðist var í á óeðlilegum fjármagnshreyfingum og viðskiptum var þó á innlausnum úr verðbréfasjóðum sem Glitnir rak. Og sérstaklega peningamarkaðssjóðnum Sjóði 9. Hægt er aðlesa allt um Sjóð 9 hér.
Líkt og áður sagði þá voru rannsakendur Glitnis að horfa á tvö tímabil. Það fyrra þegar Þorsteinn Már Baldvinsson, þá stjórnarformaður Glitnis, fór á fund Davíðs Oddssonar þann 25. september 2008. Ástæða þess að ákveðið var að skoða fjármagnsflutninga og viðskipti innherja á þessum tíma var sú að margir af lykilstarfsmönnum Glitnis vissu af því að Þorsteinn Már var að fara á þennan fund.
Ljóst var að innan Glitnis höfðu stjórnendur áhyggjur af því að þeir starfsmenn sem vissu að vanda bankans myndu mögulega gera eitthvað sem myndi ekki standast nánari skoðun. Þennan saman dag, 25. september, sendi regluvörður bankans póst til allra starfsmanna um „Reglur um viðskipti starfsmanna“ til að minna starfsmenn Glitnis á að reglur um viðskipti með fjármálagerninga og gjaldeyri. Þessi póstur kom ekki í veg fyrir að hluti starfsmanna átti viðskipti í kringum þessa dagsetningu.
Í samantekt þar sem þau mál sem lögmannsstofan LEX vann fyrir slitastjórn Glitnis eru tekin saman kemur þetta skýrt fram. Á meðal þeirra gagna sem vísað er til í samantektinni er minnisblað sem LEX vann og er dagsett 22. september 2011, eða tæpu einu og hálfu ári eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og aðdraganda bankahrunsins kom út.
Í því minnisblaði er farið yfir ráðstafanir ýmissa aðila í kringum þann tíma þegar Þorsteinn Már fundaði með seðlabankastjóra sem talið var að hafi mögulega búið yfir innherjaupplýsingum.
Ráðstafanir Baugsfjölskyldunnar
Málin eru flest tengd því að starfsmenn Glitnis, yfirmenn bankans eða lögaðilar tengdir Baugsfjölskyldunni, sem var ráðandi í eigendahóp Glitnis á þessum tíma, hafi innleyst fé úr peningamarkaðssjóðnum Sjóði 9 daganna 24-26. september þegar raunveruleg staða Glitnis var á fárra vitorði. Sá sjóður var að jafnaði með yfir 50 prósent af heildareignum sínum í bréfum frá tveimur útgefendum, Stoðum/FL Group og Baugi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir að þessir tveir sjóðir hafi verið látnir kaupa upp heilu skuldabréfaflokkanna frá þessum tveimur aðilum. Bæði félögin, Baugur Group og Stoðir/FL Group, lutu stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans. Sjóður 9 var því nokkurs konar ruslakista sem sá helstu eigendum Glitnis fyrir lausu fé með því að kaupa af þeim skuldabréf. Hlutdeildarskírteini í sjóðnum voru síðan seld almenningi sem sparnaðarleið með mikilli ávöxtun.
LEX kannaði bæði hvort gjörningarnir væru riftanlegir og lagði mat á hvort að um möguleg innherjasvik væri að ræða.
Hjúkruðu vildarviðskiptavinum úr tapstöðum
Í skýrslu KPMG um Glitni er fjallað um sérstaklega um afleiðusamninga í einum kaflanum. Þar segir að markaðsvirði slíkra hafi verið um 250 milljarðar króna í lok september 2008. Um 500 aðilar hafi með slíka samninga og voru samningarnir sem sá hópur var með alls um þrjú þúsund talsins. Stærsti hluti þeirra var vegna framvirkra gjaldmiðla- og vaxtasamninga. Af þeim 500 aðilum sem voru með samninga sem þessa voru um 200 á lista yfir tengda aðila. Þessir 200 aðilar voru með um 1.800 samninga, eða meirihluta þeirra.
Í skýrslu KPMG segir að gjaldeyrisviðskipti á þessu tímabil hafi verið veruleg og „eru flestir að koma inní gjaldeyrisviðskipti með tap út úr öðrum samningum, svo sem eins og „strúktúr“ samningum, en það eru skuldabréf þar sem ávöxtun tekur mið af markaðsgengi ákveðinna hlutabréfa.
Markmiðið með því að beina eftirfarandi viðskiptamönnum í gjaldeyrisstýringu var að reyna að vinna upp tap sem þeir höfðu orðið fyrir vegna annarra viðskipta innan bankans. Hér átti því að reyna að „hjúkra“ umræddum viðskiptamönnum.“.
Í skýrslunni kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum sem KPMG hafi fengið hjá starfsmönnum Glitnis „íhuguðu nokkrir viðskiptamenn sem voru þátttakendur í strúktúrsamningum að fara í mál við bankann, meðal annars á þeirri forsendu að ekki hefði verið kynnt fyrir þeim hvaða áhætta fælist í samningunum. Þar sem um umfangsmikla viðskiptavini bankans var að ræða og jafnframt sú staðreynd að slík málaferli væru óþægileg fyrir bankann, þá var ákveðið að fara með viðskiptavinina yfir í gjaldeyrisstýringu þar sem reynt yrði að vinna upp tapið vegna þátttökunnar í strúktúr samningunum.“
Vænt tap Glitnis, að teknu tilliti til trygginga, var áætlað 5,7 milljarðar króna. Í skýrslunni kemur fram að það gæti orðið enn hærra.
Fyrsta málið sem er talið upp á listanum yfir mál tengd Sjóði 9 er innlausn Baugs Group á 289 milljónum krónum úr sjóðnum 25. september, sama dag og fundur stjórnarformanns Glitnis og bankastjóra Seðlabanka Íslands fór fram. Baugur Group var á þessum tíma stærsti einstaki hluthafi Stoðum/FL Group sem var langstærsti einstaki eigandi Glitnis. Í umfjöllun um þetta mál í samantekt um mál sem LEX vann fyrir slitastjórnina segir að það tengist „fleiri ráðstöfunum Baugsfjölskyldunnar 25. og 26. september 2008.“
Þar er vísað til þess að Fjárfestingafélagið Gaumur, stærsti eigandi Baugs Group, hefði innleyst fimm milljónir króna 26. september og félagið Styrkur Invest, sem áður hét BG Capital hafi leyst út 472 milljónir króna út úr Sjóði 9. Styrkur, sem var að fullu í eigu Baugs Group, átti um 40 prósent hlut í Stoðum/FL Group, stærsta eiganda Glitnis. Í samantekinni um málin sem LEX vann segir: „Félagið tengt Baugi. Innherjasvik? Styrkur var hins vegar úrskurðað gjaldþrota, skiptum er lokið, búið eignalaust. Því tilgangslaust að fara í riftunarmál. Gæti hins vegar nýst til að sýna mynstur Baugs, Gaums og Styrks Invest, hvernig innherjaupplýsingar voru nýttar.“
Þar fyrir neðan segir: „Ath. að JÁJ var viðstaddur stjórnarfundi Stoða og involveraður í allt ferlið í tengslum við fund ÞMB og DO – skoða skýrslu RNA.“ JÁJ er skammstöfun fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson og Stoðir er það nafn sem FL Group tók upp fyrr á árinu 2008.
Til viðbótar við ofangreind mál skoðaði LEX sölu Gaums-fjölskyldunnar, sem er Jón Ásgeir, systir hans, móðir og félagið Gaumur, á hlutum í Kaupþingi til Glitnis þann 24. september 2008. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að ákveðið var að fara ekki lengra með málið.
Allir sem höfðu vitneskju um stöðu bankans skoðaðir
Í skýrslu KPMG segir að farið hafi verið yfir það með regluverði Glitnis hvaða athuganir hann hefði gert á viðskiptum starfsmanna bankans í sjóðum Glitnis. Hann upplýsti starfsmenn fyrirtækisins um að hann hefði gert skoðun á „á öllum viðskiptum aðila sem hann taldi hafa haft vitneskju um stöðu bankans“ þessa síðustu daga áður en hann féll.
Í kjölfarið voru tilkynningar til regluvarðar um viðskipti í sjóðunum borin saman við skráð viðskipti. Alls níu stjórnarmenn og starfsmenn sjóða Glitnis ættu að hafa sótt um leyfi til regluvarðar áður en þeir áttu viðskipti við sjóðina. Í skýrslu KPMG sagði að komið hefði Í ljós að sjö þeirra hefðu ekki sótt um slíkt leyfi en þeir eru ekki sérstaklega nafngreindir.
Nokkrir starfsmenn og framkvæmdastjórar Glitnis leystu líka út eignir sínar í Sjóði 9 á sama tíma.Í samantekt LEX eru fjögur viðskipti starfsmanna Glitnis sérstaklega nefnd. Þeir innleystu samtals 184 milljónir króna út úr Sjóði 9 daganna 24. til 26. september.
Um var að ræða Jóhann Ómarsson, þáverandi yfirmann einkabankaþjónustu Glitnis, sem innleysti 96 milljónir króna 24. september 2008. Jóhannes Baldursson, þáverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, innleysti 18 milljónir króna 26. september. Hann fundaði í Seðlabankanum daginn áður og samkvæmt samantekt LEX hafði hann vitneskju um fund Þorsteins Más og Davíðs. Þennan sama dag, 26. september, innleysti félagið BK 44 ehf., í eigu Birkis Kristinssonar starfsmanns Glitnis, 30 milljónir króna og Eiríkur S. Jóhannesson, einnig starfsmaður Glitnis, innleysti 40 milljónir króna.
Bræðurnir Benedikt og Einar Sveinssynir, sem báðir eru umsvifamiklir viðskiptamenn og höfðu áður verið ráðandi hluthafar í Glitni en voru það ekki lengur síðla árs 2008, eru einnig nefndir til sögunnar í skjalinu sem mál sem vert yrði að skoða. Sú skoðun var m.a. tilkominn vegna innlausnar Benedikts á 500 milljónum króna þann 26. september sem greiddar voru út í Bandaríkjadölum og millifærðar inn á reikning í Flórída.
Félag í eigu Einars, Hrómundur ehf., innleysti einn milljarð króna úr Sjóði 9 þann 6. október 2008. Í yfirliti LEX segir að þetta hafi gerst eftir lokun sjóðsins. Féð gekk til greiðslu annarra skulda Hrómundar hjá Glitni. í skjali LEX segir: „Málið var skoðað með tilliti til þess hvort Hrómundur ehf. hefði þannig náð að greiða meira niður af skuldum sínum heldur en það hefði getað ef félagið hefði fengið greitt út úr Sjóði 9, eins og aðrir hlutdeildarskírteinishafar.“ Málið var tilkynnt til sérstaks saksóknara en það fór ekki í ákæruferli.
Einar innleysti einnig í eigin nafni 191 milljón króna úr Sjóði 9 þennan sama dag og LEX telur að það hafi líklega gerst eftir lokun sjóðsins.
Þá er sérstaklega minnst á innlausn Sandgerðisbæjar á 150 milljónum króna úr Sjóði 9 þann 25. september 2008.
„Sönnunarstaðan í þessum málum verður því erfið“
Í samantekinni segir að skoða eigi þessi mál sem hugsanleg riftunarmál, riftanlega gjafagerninga eða jafnvel innherjasvik. Þar segir hins vegar einnig að erfitt hafi reynst að nálgast gögn frá Íslandssjóðum, rekstrarfélaginu sem sér um sjóði Íslandsbanka, þess banka sem reistur var á rústum Glitnis eftir hrun. „Sönnunarstaðan í þessum málum verður því erfið.“
Í áðurnefndu minnisblaði sem LEX skilaði til slitastjórnar Glitnis 22. september 2011 er bent á að til þess að hægt sé að halda áfram með málin yrði að finna gögn sem sönnuðu að umræddir aðilar hafi búið yfir upplýsingum sem ekki voru aðgengilegar öðrum hlutdeildarskírteinishöfum á umræddu tímabili.
Það reyndist erfitt, og á endanum ómögulegt, að sanna að einhver þeirra sem fjallað var um í ofangreindum gögnum hafi nýtt sér innherjaupplýsingar til að bjarga eigin verðmætum áður en að Glitnir féll.
Fjármálaeftirlitið safnaði reyndar saman miklu magni af upplýsingum um þá sem seldu hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum allra bankanna, þar á meðal í Sjóði 9, og sendi sem kæru til embættis sérstaks saksóknara. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins vegna þessa sagði m.a.: „Fjármálaeftirlitið telur að uppi sé rökstuddur grunur um að tilteknir aðilar hafi brotið gegn ákvæðum XIII kafla laga nr. 108/2007 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Það er mat Fjármálaeftirlitsins að meint brot falli undir að vera meiriháttar í skilningi 1. mgr. 148. gr. laganna. Nauðsynlegt er að upplýsa hverjir bjuggu yfir innherjaupplýsingum á þeim tíma sem um ræðir. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að mál þetta hljóti skjóta meðferð hjá sérstökum saksóknara þar sem um mikilvæga almannahagsmuni er að ræða.“
Kæran þótti allt of víðtæk. Í henni var yfirlit yfir viðskipti fjölmargar einstaklinga og lögaðilar með hlutdeildarskírteini í sjóðum sem talið var að mögulega hafi getað búið yfir innherjaupplýsingum. Það hafði hins vegar ekki verið rannsakað sérstaklega hvort þetta fólk bjó raunverulega yfir slíkum og hvað þá hvort það hafi hagnýtt sér þær. Þessi kæra Fjármálaeftirlitsins var því kölluð „símaskráarmálið“ í ljósi þess að umfangið minnti á símaskrá.
Fjármálaeftirlitið sendi síðar sama ár aðra sendingu af kærum vegna innherjamála til sérstaks saksóknara. Þá hafði málunum fækkað gífurlega. Og ekkert þeirra mála sem rakin eru hér að ofan enduðu í ákæruferli þótt að sum þeirra hafi verið rannsökuð frekar. Í mars 2012 barst Fjármálaeftirlitinu bréf frá embætti sérstaks saksóknara þar sem tilkynnt var um að rannsókn allra málanna hefði verið hætt.
Erfitt að sanna innherjasvik
Sárafá innherjamál tengd hruninu rötuðu raunar yfir höfuð á endanum í ákæruferli. Í dag hefur einungis verið sakfellt í tveimur slíkum innherjamálum í Hæstarétti, ein ákæra var dregin til baka og einu máli er ólokið. Ekkert þeirra mála sem ákært hefur verið í snúast um viðskipti í Sjóði 9.
Málin sem sakfellt var í voru gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, sem var hlaut tveggja ára dóm árið 2012. Baldur var dæmdur fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 fyrir 192 milljónir króna. Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika.
Í desember 2013 felldi Hæstiréttur níu mánaða fangelsisdóm, þar af sex mánuði skilorðsbundna, yfir Friðfinni Ragnari Sigurðssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóri millibankamarkaða Glitnis. Hann var dæmdur fyrir innherjasvik með því að hafa í fimm aðskilin skipti á árinu 2008 selt hlutabréf sín í Glitni þrátt fyrir að búa í öllum tilvikum yfir innherjaupplýsingum um lausafjárstöðu bankans sem hann varð áskynja um í starfi sínu hjá bankanum.
Þriðji maðurinn sem var ákærður fyrir innherjasvik var Erlendur Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Glitni. Ákæran á hendur honum var þingfest haustið 2013 en dregin til baka nokkrum vikum síðar. Hann var sakaður um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar þegar eignarhaldsfélagið Fjársjóður, sem var í eigu Erlendar og konu hans, seldi hlutabréf í Glitni fyrir tíu milljónir króna að markaðsvirði vorið 2008.
Eitt innherjamál er enn til meðferðar. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var ákærður fyrir innherjasvik fyrir um ári síðan. Því máli er ekki lokið fyrir dómstólum.
Ástæðan fyrir því er sáraeinföld: það er mjög erfitt að sanna sök í slíkum málum. Ef ekki liggja fyrir skýr gögn um innherjasvik þá er í raun erfitt að ná fram sakfellingu nema viðkomandi gangist hreinlega við því að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar til að hagnast. Líkurnar á því að það gerist eru mjög litlar.