Mestar líkur á að ríkisstjórn verði mynduð upp úr fjórflokknum
Hart er þrýst á myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en ljóst að það verður erfitt fyrir Vinstri græn að fallast á hana. Þar er vilji til að hafa Samfylkinguna með eða í staðinn fyrir Framsókn. „Moggastjórnin“ ekki talin raunhæfur möguleiki en nýtist sem hótun.
Hver bendir á annan sem orsök þess að upp úr ríkisstjórnarmyndun Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata slitnaði snemma í gær. Opinbera skýringin er sú að Framsóknarflokkurinn hafi ekki talið hinn nauma meirihluta nægjanlegan til að takast á við þær áskoranir sem séu fram undan. Framsókn var samt sem áður ekki tilbúin að taka Viðreisn inn í viðræðurnar til að breikka þann meirihluta. Á það benti Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook í gær. Þar sagði hann að allan tímann „vildi Samfylkingin styrkja slíkt samstarf með Viðreisn. Því höfnuðu Framsókn og þess vegna er það óskiljanlegt að hún noti tæpan meirihluta sem rök fyrir slitum.“
Áhyggjur Framsóknarmanna beindust, samkvæmt heimildum Kjarnans, fyrst og síðast að Pírötum, sem þeir töldu að hefðu gefið of mikið eftir í stjórnarmyndunarviðræðum og að það myndi skapa vanda gagnvart baklandi þeirra þegar liði á kjörtímabilið. Þá höfðu ummæli Björns Leví Gunnarssonar, um að hann myndi ekki styðja öll mál ríkisstjórnarinnar skilyrðislaust, sem mikið var gert úr í völdum miðlum, áhrif inn í viðræðurnar.
Hjá hinum flokkunum er sú skýring almenn að Framsóknarflokkurinn hafi ekki gengið í takt í viðræðunum. Viðmælendur þaðan telja flestir að Ásmundur Einar Daðason hafi sérstaklega verið mótfallinn því að þessi ríkisstjórn yrði mynduð. Í ljósi þess að stjórnin hefði einungis haft eins manns meirihluta þá nægði andstaða eins þingmanns til að hún gæti ekki orðið að veruleika.
Aðrir segja að vinnan um helgina hafi einfaldlega ekki gengið nógu vel. Það hafi ekki verið nóg gert til að komast á þann stað sem nauðsynlegt væri til að halda áfram viðræðunum.
Erfitt að mynda stjórn án Sjálfstæðisflokks
Stjórnarslitin í gær verða að teljast töluverð vonbrigði fyrir Katrín Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna. Hún hefur nú tvívegis á einu ári fengið stjórnarmyndunarumboð og reynt að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. Í bæði skiptin hefur það mistekist.
Það skiptir marga í baklandi Vinstri grænna, og á meðal kjósenda flokksins, miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn verði utan ríkisstjórnar. Nú hafa komið upp tvö tækifæri til að gera nákvæmlega það, tækifæri sem hafi kallað á sjálfstraust og leiðtogahæfni, en hvorugt gengið eftir. Þótt Katrín njóti enn mikils stuðnings innan síns flokks eru miklar efasemdaraddir um frammistöðu hennar hjá fólki í öðrum flokkum. Katrín verði að átta sig á því að hún sé enn í lykilstöðu til að ráða hvaða ríkisstjórn verði mynduð. Og geti ráðið því hvernig hún verði samsett.
Það virðist ljóst að erfitt verður að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins, nema svo ólíklega vilji til að það takist að endurvekja viðræðurnar sem sigldu í strand í gær. Sjálfstæðismenn vilja mynda stjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokki og róa að því öllum árum. Þeir kunna manna best að spila þann leik sem nú er í gangi og að skapa þrýsting og efa á réttum stöðum til að fá sínu framgengt.
Afar ólíklegt er að af slíkri stjórn geti orðið í ljósi þess hversu óvinsælt það yrði innan Reykjavíkurhluta Vinstri grænna, sem er nú orðinn sterkasta vígi flokksins. Þar er enginn vilji til þess að verða þriðja hjólið undir íhaldssamri stjórn með tveimur helstu valdaflokkum landsins.
Vilja Samfylkinguna með, sem vill Viðreisn með
Lykilatriðið frá bæjardyrum Vinstri grænna þegar kemur að myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki er að Samfylkingin verði hluti af slíkri stjórn. Það er flókið í ljósi þess að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur opinberað að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi aldrei nokkru sinni hringt í sig. Og Logi hefur að sama skapi aldrei hringt í Bjarna. Þá sagði Logi það opinberlega þremur dögum fyrir kosningar að hann sæi ekki grundvöll fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokk.
Það er ekki bara hugmyndin um samstarf við pólitískan höfuðandstæðing Samfylkingarinnar sem gerir flokkinn tregan í taumi, heldur líka hugmyndin um veru í samstarfi með bæði honum og Vinstri grænum. Í augum margra Samfylkingarmanna eru báðir flokkarnir íhaldsflokkar sem vilja standa vörð um helstu kerfi íslensks samfélags. Kerfi sem Samfylkingin vill breyta. Þar er sérstaklega átt við landbúnað, sjávarútveg og peningastefnu.
Viðmælendur Kjarnans segja því að ein leiðin til að gera hugmyndina meira aðlaðandi fyrir Samfylkinguna sé að bæta Viðreisn við. Þá yrði til ríkisstjórn með 38 þingmenn gegn 25 þingmönnum andstöðunnar sem hefði mikinn styrk til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan, sérstaklega á vinnumarkaði. Málefnalega er töluverð samleið milli Samfylkingar og Viðreisnar. Og þá yrði til alvöru breið stjórn með vinstriflokki, miðjuflokki með vinstri áherslur, miðjuflokki með hægri áherslur og loks hægri-/íhaldsflokki.
Persónulega á Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gott samband við leiðtoga allra hinna flokkanna þriggja. Ljóst er að andstaða harðkjarnans í Sjálfstæðisflokknum, fólkinu sem hverfist í kringum Morgunblaðið og valdaöflin sem tengjast því, myndi þó verða mikil. Þar er ákaflegt óþol gagnvart Viðreisn og ekki mikið minna gagnvart Samfylkingu.
„Moggastjórnin“ hótun en ekki talin raunhæfur möguleiki
Sá hópur, og sá fjölmiðill, rær að því öllum árum að hér verði mynduð fjögurra flokka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins. Ríkisstjórn sem er oftast köllum „Moggastjórnin“ á meðal annarra stjórnmálamanna í dag.
Þessi ríkisstjórn þykir þó ekki raunhæfur möguleiki þrátt fyrir að hótun um myndun hennar nýtist Sjálfstæðisflokknum vel í að ýta á aðrar samsetningar. Fyrir því eru nokkrar ástæður.
Sú fyrsta og augljósasta er að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur ekki áhuga á að vinna með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eftir allt sem á undan hefur gengið þeirra á milli. Hann sagði við mbl.is í gær að hann væri ekki spenntur fyrir ofangreindri samsetningu á ríkisstjórn. Hann hafi „lagt áherslu á að ríkisstjórn í landinu, til að búa til pólitískan stöðugleika, þurfi breiðari skírskotun. Ég get ekki séð að hún myndi svara því kalli.“
Sigurður Ingi er ekki einn innan Framsóknar með þessa skoðun. Fyrir liggur að Ásmundur Einar Daðason fór fram gegn Gunnar Braga Sveinssyni í Norðvesturkjördæmi m.a. eftir að Gunnar Bragi hafði lent í orðaskaki við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga, og einn mesta áhrifamanninn innan Framsóknarflokksins á undanförnum árum, á opnum fundi í aðdraganda kosninga. Því skaki lauk með að Þórólfur rauk á dyr.
Í raun sat flokksforysta, og önnur öfl innan Framsóknar, undir því að vera ásökuð um mikinn óheiðarleika og atlögu gegn Sigmundi Davíð, af Sigmundi Davíð, mánuðum saman áður en hann yfirgaf flokkinn og stofnaði Miðflokkinn í kringum sína persónu. Í kjölfarið af því sagði Sigmundur Davíð við Vísi að hann hefði áður reynt að ná sáttum við „flokkseigendafélagið í Framsókn“ og önnur öfl sem vildu hann burt. „Til hvers að berjast fyrir því að þú getir starfað áfram með fólki sem lítur á það sem meginmarkmið að drepa þig?,“ bætti hann síðan við. Fleiri aðdróttanir komu síðan fram í bréfi sem hann ritaði flokksmönnum þegar hann hætti í Framsóknarflokknum. Og klauf flokkinn skömmu fyrir kosningar.
Erfiðar kröfur og aldrei víð skírskotun
Þrátt fyrir þetta tókst Framsókn að vinna varnarsigur og halda sama þingmannafjölda. Og flokkurinn er hreinn af innanmeinum eftir langvarandi deilur. Innan Framsóknarflokksins hefur verið sagt að það komi því ekki til greina að fara aftur „heim til ofbeldismannsins.“
Þá er ótalið að Flokkur fólksins er algjörlega óskrifað blað í íslenskum stjórnmálum. Þeir sem kosnir voru á þing fyrir hann eiga margir hverjir langa sögu í öðrum stjórnmálaflokkum og stefnuskrá flokksins þykir mjög yfirdrifinn. Þar er til að mynda lagt til að inngreiðslur í lífeyrissjóði verði skattlagðar í stað útgreiðslna eins og er í dag. Það myndi þýða tilfærslu á skattfé komandi kynslóða til þeirra sem nú eru á lífi. Þetta fjármagn vill Flokkur fólksins nota til að „endurreisa stoðkerfi landsins“ og samfélagslegra verkefna. Um yrði að ræða tugi milljarða króna á ári. Þá er það krafa flokksins að tryggja að laun upp að 300 þúsund krónum verði skattfrjáls, með tilheyrandi tekjusamdrætti fyrir ríkissjóð. Á sama tíma vill flokkurinn auka útgjöld ríkissjóðs verulega með því að afnema allar skerðingar milli almannatrygginga og lífeyrissjóða, afnema frítekjumark og gera grunnheilbrigðisþjónustu að öllu leyti gjaldfrjálsa. Erfitt verður að sjá Sjálfstæðisflokk kyngja nokkru þessara mála.
Sömu sögu er að segja af Miðflokknum, sem vill ráðast í að kaupa Arion banka af núverandi eigendum hans með fjármagni úr ríkissjóði og gefa hann síðan að hluta aftur til almennings.
Þá er auðvitað ótalið að engin ríkisstjórn myndi skapa meiri sundrungu meðal þjóðarinnar en sú sem fjallað er um hér að ofan. Í henni myndu sameinast þau öfl sem voru ráðandi í síðustu tveimur ríkisstjórn sem sprungu og þeir stjórnmálamenn sem eru umdeildastir á meðal þjóðarinnar. Hún næði því aldrei þeim tilgangi að vera breið stjórn með víða skírskotun, líkt og allflestir stjórnmálaleiðtogar hafa talað fyrir að sé nauðsynlegt undanfarnar vikur.
Sundrungin í íslensku samfélagi yrði skýrari en aldrei fyrr við myndun slíkrar stjórnar.