Mynd: Birgir Þór Harðarson

Mestar líkur á að ríkisstjórn verði mynduð upp úr fjórflokknum

Hart er þrýst á myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en ljóst að það verður erfitt fyrir Vinstri græn að fallast á hana. Þar er vilji til að hafa Samfylkinguna með eða í staðinn fyrir Framsókn. „Moggastjórnin“ ekki talin raunhæfur möguleiki en nýtist sem hótun.

Hver bendir á annan sem orsök þess að upp úr rík­is­stjórn­ar­myndun Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks og Pírata slitn­aði snemma í gær. Opin­bera skýr­ingin er sú að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafi ekki talið hinn nauma meiri­hluta nægj­an­legan til að takast á við þær áskor­anir sem séu fram und­an. Fram­sókn var samt sem áður ekki til­búin að taka Við­reisn inn í við­ræð­urnar til að breikka þann meiri­hluta. Á það benti Logi Ein­ars­son, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í stöðu­upp­færslu á Face­book í gær. Þar sagði hann að allan tím­ann „vildi Sam­fylk­ingin styrkja slíkt sam­starf með Við­reisn. Því höfn­uðu Fram­sókn og þess vegna er það óskilj­an­legt að hún noti tæpan meiri­hluta sem rök fyrir slit­u­m.“

Áhyggjur Fram­­sókn­­ar­­manna beindust, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, fyrst og síð­­­ast að Píröt­um, sem þeir töldu að hefðu gefið of mikið eftir í stjórn­­­ar­­mynd­un­­ar­við­ræðum og að það myndi skapa vanda gagn­vart bak­landi þeirra þegar liði á kjör­­tíma­bil­ið. Þá höfðu ummæli Björns Leví Gunn­ars­son­ar, um að hann myndi ekki styðja öll mál rík­is­stjórn­ar­innar skil­yrð­is­laust, sem mikið var gert úr í völdum miðlum, áhrif inn í við­ræð­urn­ar.

Hjá hinum flokk­unum er sú skýr­ing almenn að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafi ekki gengið í takt í við­ræð­un­um. Við­mæl­endur þaðan telja flestir að Ásmundur Einar Daða­son hafi sér­stak­lega verið mót­fall­inn því að þessi rík­is­stjórn yrði mynd­uð. Í ljósi þess að stjórnin hefði ein­ungis haft eins manns meiri­hluta þá nægði and­staða eins þing­manns til að hún gæti ekki orðið að veru­leika.

Aðrir segja að vinnan um helg­ina hafi ein­fald­lega ekki gengið nógu vel. Það hafi ekki verið nóg gert til að kom­ast á þann stað sem nauð­syn­legt væri til að halda áfram við­ræð­un­um.

Erfitt að mynda stjórn án Sjálf­stæð­is­flokks

Stjórn­ar­slitin í gær verða að telj­ast tölu­verð von­brigði fyrir Katrín Jak­obs­dótt­ur, for­mann Vinstri grænna. Hún hefur nú tví­vegis á einu ári fengið stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð og reynt að mynda rík­is­stjórn án Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Í bæði skiptin hefur það mis­tek­ist.

Það skiptir marga í bak­landi Vinstri grænna, og á meðal kjós­enda flokks­ins, miklu máli að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verði utan rík­is­stjórn­ar. Nú hafa komið upp tvö tæki­færi til að gera nákvæm­lega það, tæki­færi sem hafi kallað á sjálfs­traust og leið­toga­hæfni, en hvor­ugt gengið eft­ir. Þótt Katrín njóti enn mik­ils stuðn­ings innan síns flokks eru miklar efa­semd­araddir um frammi­stöðu hennar hjá fólki í öðrum flokk­um. Katrín verði að átta sig á því að hún sé enn í lyk­il­stöðu til að ráða hvaða rík­is­stjórn verði mynd­uð. Og geti ráðið því hvernig hún verði sam­sett.

Það virð­ist ljóst að erfitt verður að mynda rík­is­stjórn án Sjálf­stæð­is­flokks­ins, nema svo ólík­lega vilji til að það tak­ist að end­ur­vekja við­ræð­urnar sem sigldu í strand í gær. Sjálf­stæð­is­menn vilja mynda stjórn með Vinstri grænum og Fram­sókn­ar­flokki og róa að því öllum árum. Þeir kunna manna best að spila þann leik sem nú er í gangi og að skapa þrýst­ing og efa á réttum stöðum til að fá sínu fram­gengt.

Afar ólík­legt er að af slíkri stjórn geti orðið í ljósi þess hversu óvin­sælt það yrði innan Reykja­vík­ur­hluta Vinstri grænna, sem er nú orð­inn sterkasta vígi flokks­ins. Þar er eng­inn vilji til þess að verða þriðja hjólið undir íhalds­samri stjórn með tveimur helstu valda­flokkum lands­ins.

Vilja Sam­fylk­ing­una með, sem vill Við­reisn með

Lyk­il­at­riðið frá bæj­ar­dyrum Vinstri grænna þegar kemur að myndun rík­is­stjórnar með Sjálf­stæð­is­flokki er að Sam­fylk­ingin verði hluti af slíkri stjórn. Það er flókið í ljósi þess að Logi Ein­ars­son, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hefur opin­berað að Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hafi aldrei nokkru sinni hringt í sig. Og Logi hefur að sama skapi aldrei hringt í Bjarna. Þá sagði Logi það opin­ber­lega þremur dögum fyrir kosn­ingar að hann sæi ekki grund­völl fyrir sam­starfi við Sjálf­stæð­is­flokk.

Það er ekki bara hug­myndin um sam­starf við póli­tískan höf­uð­and­stæð­ing Sam­fylk­ing­ar­innar sem gerir flokk­inn tregan í taumi, heldur líka hug­myndin um veru í sam­starfi með bæði honum og Vinstri græn­um. Í augum margra Sam­fylk­ing­ar­manna eru báðir flokk­arnir íhalds­flokkar sem vilja standa vörð um helstu kerfi íslensks sam­fé­lags. Kerfi sem Sam­fylk­ingin vill breyta. Þar er sér­stak­lega átt við land­bún­að, sjáv­ar­út­veg og pen­inga­stefnu.

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja því að ein leiðin til að gera hug­mynd­ina meira aðlað­andi fyrir Sam­fylk­ing­una sé að bæta Við­reisn við. Þá yrði til rík­is­stjórn með 38 þing­menn gegn 25 þing­mönnum and­stöð­unnar sem hefði mik­inn styrk til að takast á við þær áskor­anir sem eru fram und­an, sér­stak­lega á vinnu­mark­aði. Mál­efna­lega er tölu­verð sam­leið milli Sam­fylk­ingar og Við­reisn­ar. Og þá yrði til alvöru breið stjórn með vinstri­flokki, miðju­flokki með vinstri áhersl­ur, miðju­flokki með hægri áherslur og loks hægri-/í­halds­flokki.

Ríkisstjórn sem innihéldi bæði Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, með Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson í forystu, þykir afar ólíkleg.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Per­sónu­lega á Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir gott sam­band við leið­toga allra hinna flokk­anna þriggja. Ljóst er að and­staða harð­kjarn­ans í Sjálf­stæð­is­flokkn­um, fólk­inu sem hverf­ist í kringum Morg­un­blaðið og valda­öflin sem tengj­ast því, myndi þó verða mik­il. Þar er ákaf­legt óþol gagn­vart Við­reisn og ekki mikið minna gagn­vart Sam­fylk­ingu.

Mogga­stjórnin“ hótun en ekki talin raun­hæfur mögu­leiki

Sá hóp­ur, og sá fjöl­mið­ill, rær að því öllum árum að hér verði mynduð fjög­urra flokka rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Mið­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Flokks fólks­ins. Rík­is­stjórn sem er oft­ast köllum „Mogga­stjórnin“ á meðal ann­arra stjórn­mála­manna í dag.

Þessi rík­is­stjórn þykir þó ekki raun­hæfur mögu­leiki þrátt fyrir að hótun um myndun hennar nýt­ist Sjálf­stæð­is­flokknum vel í að ýta á aðrar sam­setn­ing­ar. Fyrir því eru nokkrar ástæð­ur.

Sú fyrsta og aug­ljós­asta er að Sig­urður Ingi Jóhanns­son, for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hefur ekki áhuga á að vinna með Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni eftir allt sem á undan hefur gengið þeirra á milli. Hann sagði við mbl.is í gær að hann væri ekki spenntur fyrir ofan­greindri sam­setn­ingu á rík­is­stjórn. Hann hafi „lagt áherslu á að rík­­­is­­­stjórn í land­inu, til að búa til póli­­­tísk­an stöðug­­­leika, þurfi breið­­ari skír­skot­un. Ég get ekki séð að hún myndi svara því kall­i.“

Sig­urður Ingi er ekki einn innan Fram­sóknar með þessa skoð­un. Fyrir liggur að Ásmundur Einar Daða­son fór fram gegn Gunnar Braga Sveins­syni í Norð­vest­ur­kjör­dæmi m.a. eftir að Gunnar Bragi hafði lent í orða­skaki við Þórólf Gísla­son, kaup­fé­lags­stjóra Kaup­fé­lags Skag­firð­inga, og einn mesta áhrifa­mann­inn innan Fram­sókn­ar­flokks­ins á und­an­förnum árum, á opnum fundi í aðdrag­anda kosn­inga. Því skaki lauk með að Þórólfur rauk á dyr.

Í raun sat flokks­for­ysta, og önnur öfl innan Fram­sókn­ar, undir því að vera ásökuð um mik­inn óheið­ar­leika og atlögu gegn Sig­mundi Dav­íð, af Sig­mundi Dav­íð, mán­uðum saman áður en hann yfir­gaf flokk­inn og stofn­aði Mið­flokk­inn í kringum sína per­sónu. Í kjöl­farið af því sagði Sig­mundur Davíð við Vísi að hann hefði áður reynt að ná sáttum við „flokks­eig­enda­fé­lagið í Fram­sókn“ og önnur öfl sem vildu hann burt. „Til hvers að berj­ast fyrir því að þú getir starfað áfram með fólki sem lítur á það sem meg­in­mark­mið að drepa þig?,“ bætti hann síðan við. Fleiri aðdrótt­anir komu síðan fram í bréfi sem hann rit­aði flokks­mönnum þegar hann hætti í Fram­sókn­ar­flokkn­um. Og klauf flokk­inn skömmu fyrir kosn­ing­ar.

Erf­iðar kröfur og aldrei víð skírskotun

Þrátt fyrir þetta tókst Fram­sókn að vinna varn­ar­sigur og halda sama þing­manna­fjölda. Og flokk­ur­inn er hreinn af inn­an­meinum eftir langvar­andi deil­ur. Innan Fram­sókn­ar­flokks­ins hefur verið sagt að það komi því ekki til greina að fara aftur „heim til ofbeld­is­manns­ins.“

Þá er ótalið að Flokkur fólks­ins er algjör­lega óskrifað blað í íslenskum stjórn­mál­um. Þeir sem kosnir voru á þing fyrir hann eiga margir hverjir langa sögu í öðrum stjórn­mála­flokkum og stefnu­skrá flokks­ins þykir mjög yfir­drif­inn. Þar er til að mynda lagt til að inn­greiðslur í líf­eyr­is­sjóði verði skatt­lagðar í stað útgreiðslna eins og er í dag. Það myndi þýða til­færslu á skattfé kom­andi kyn­slóða til þeirra sem nú eru á lífi. Þetta fjár­magn vill Flokkur fólks­ins nota til að „end­ur­reisa stoð­kerfi lands­ins“ og sam­fé­lags­legra verk­efna. Um yrði að ræða tugi millj­arða króna á ári. Þá er það krafa flokks­ins að tryggja að laun upp að 300 þús­und krónum verði skatt­frjáls, með til­heyr­andi tekju­sam­drætti fyrir rík­is­sjóð. Á sama tíma vill flokk­ur­inn auka útgjöld rík­is­sjóðs veru­lega með því að afnema allar skerð­ingar milli almanna­trygg­inga og líf­eyr­is­sjóða, afnema frí­tekju­mark og gera grunn­heilbrigð­is­þjón­ustu að öllu leyti gjald­frjálsa. Erfitt verður að sjá Sjálf­stæð­is­flokk kyngja nokkru þess­ara mála.

Sömu sögu er að segja af Mið­flokkn­um, sem vill ráð­ast í að kaupa Arion banka af núver­andi eig­endum hans með fjár­magni úr rík­is­sjóði og gefa hann síðan að hluta aftur til almenn­ings.

Þá er auð­vitað ótalið að engin rík­is­stjórn myndi skapa meiri sundr­ungu meðal þjóð­ar­innar en sú sem fjallað er um hér að ofan. Í henni myndu sam­ein­ast þau öfl sem voru ráð­andi í síð­ustu tveimur rík­is­stjórn sem sprungu og þeir stjórn­mála­menn sem eru umdeild­astir á meðal þjóð­ar­inn­ar. Hún næði því aldrei þeim til­gangi að vera breið stjórn með víða skírskot­un, líkt og all­flestir stjórn­mála­leið­togar hafa talað fyrir að sé nauð­syn­legt und­an­farnar vik­ur.

Sundr­ungin í íslensku sam­fé­lagi yrði skýr­ari en aldrei fyrr við myndun slíkrar stjórn­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar