Fyrrverandi dúx orðinn forsætisráðherra Íslands
Katrín Jakobsdóttir er önnur konan sem gegnir embætti forsætisráðherra en hvað eftir annað mælist hún með hvað mest persónufylgi í skoðanakönnunum af öllum starfandi stjórnmálamönnum. En hver er Kata Jak, eins og hún er gjarnan kölluð?
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er nú orðin forsætisráðherra í nýrri stjórn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Gríðarlegt persónufylgi Katrínar á sér fá fordæmi og fagna margir því að hún sé orðinn forsætisráðherra. Hún er þriðja yngsta manneskjan til að gegna þessu valdamesta embætti á Íslandi en þrátt fyrir það er hún alls enginn nýgræðingur í stjórnmálum. En hver er bakgrunnur Katrínar Jakobsdóttur?
Katrín er fædd í Reykjavík þann 1. febrúar 1976. Hún er gift Gunnari Erni Sigvaldasyni heimspekingi og eiga þau saman þrjá syni, þá Jakob, Illuga og Ármann Áka.
Faðir hennar hét Jakob Ármannsson en hann lést árið 1996, 57 ára að aldri. Hann var bankamaður og kennari. Móðir hennar var sálfræðingurinn Signý Thoroddsen en hún fæddist árið 1940 og lést 2011.
Afi Katrínar var Sigurður S. Thoroddsen alþingismaður og meðal annarra skyldmenna hennar voru Katrín Thoroddsen alþingiskona og Skúli S. Thoroddsen alþingismaður og langafinn Skúli Thoroddsen alþingismaður.
Dúx með 9,7
Katrín útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Sund árið 1996. Hún dúxaði með 9,7 í aðaleinkunn, hæstu einkunn sem stúdent við MS hafði fengið fram að því.
„Ég hef svo sem enga töfraformúlu fyrir dúxa, en ég lærði vel fyrir prófin. Ég tek tarnir fyrir próf, fremur en að liggja alltaf yfir bókunum og hef alltaf verið með góðar einkunnir,“ sagði Katrín í viðtali við Morgunblaðið í maí 1996.
Hún er ekki eini dúxinn í fjölskyldunni, því bræður hennar tveir, tvíburarnir Ármann og Sverrir, luku sínum stúdentsprófum frá Menntaskólanum við Sund með láði. Ármann dúxaði með 9,6 og Sverrir var annar semidúxa.
Ármann er prófessor í íslensku og rithöfundur. Frá því 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku-og menningardeild Háskóla Íslands. Á menntaskólaárum sínum komst hann ásamt tvíburabróður sínum Sverri þrisvar í úrslit í Gettu betur og sigraði í þeirri keppni 1990. Árið 1989 var hann í ræðuliði skólans sem sigraði í Morfís-ræðukeppninni. Árið 2001 var Ármann dómari í Gettu betur.
Sverrir Jakobsson bróðir hennar er sagnfræðingur en hann útskrifaðist frá Menntaskólanum við Sund árið 1990, lauk svo BA-prófi við Háskóla Íslands 1993 og MA-prófi frá Háskólanum í Leeds í Bretlandi. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2005. Sverrir var aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands árin 2010 til 2013, lektor 2013 til 2014 og hefur starfað sem prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands frá árinu 2014. Sverrir var í forsvari fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga og formaður þeirra 1999 til 2000.
Áhugi á glæpasögum
Katrín stundaði nám við Háskóla Íslands og lauk þar BA-prófi í íslensku með frönsku sem aukagrein árið 1999. Katrín lauk meistaranámi í íslenskum bókmenntum frá HÍ árið 2004.
Hún skrifaði bók upp úr BA-ritgerð sinni sem nefnist Glæpurinn sem ekki fannst: saga og þróun íslenskra glæpasagna.
Í viðtali við Vísi í janúar árið 2002 segist hún alltaf hafa haft áhuga á glæpasögum. „Ég las Agöthu Christie á unglingsaldri og þótti hún ótrúlega skemmtileg. Uppáhaldsbarnabækurnar voru Dularfullu-bækurnar og Fimm-bækurnar,“ sagði hún í viðtalinu.
Í greininni segir að þegar komið hafi verið að því að skrifa BA-ritgerð hafi Katrín gefist upp á hefðbundnum ritgerðaryrkisefnum og tekið að sér að skrifa sögu íslenskra glæpasagna. Upplýsingarnar sem lágu fyrir um verkefnið hafi verið um það bil fimm línur í íslensku bókmenntasögunni. Hún sagði að rannsóknarvinnan hafi verið ótrúlega skemmtileg. „Ég gekk um bæinn og spurði fólk sem komið var til vits og ára hvort það myndi eftir glæpasögum. Þessar gömlu íslensku glæpasögur voru mjög víðlesnar. Eldra fólk las þær og hafði gaman af. Það er því nægur markaður fyrir glæpasögur á íslandi,“ sagði hún enn fremur í viðtalinu.
„Mér finnst þessar sögur geigvænlega skemmtilegar og það var mjög gaman að lesa þær og stúdera. Þær segja mikið um ráðandi viðhorf. Glæpasögur brjótast ekki gegn ríkjandi hefðum; þær gera enga uppreisn.“
Hún var málfarsráðunautur á fréttastofum RÚV í hlutastarfi 1999 til 2003 auk fjölmargra sumarstarfa. Hún starfaði jafnframt í dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og ritstörf fyrir ýmsa prentmiðla 2004 til 2006. Katrín kenndi í Endurmenntun, símenntunarmiðstöðvum og Mími tómstundaskóla 2004 til 2007 og gegndi ritstjórnarstörfum fyrir Eddu - útgáfu og JPV-útgáfu 2005 til 2006. Einnig var hún stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík 2006 til 2007.
Byrjaði ung í stúdentapólitík
Katrín varð þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður árið 2007 fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Hún varð menntamálaráðherra árið 2009 í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og mennta- og menningarmálaráðherra árin 2009 til 2013. Hún var samstarfsráðherra Norðurlanda 2009 til 2013.
Stjórnmálaferill hennar byrjaði snemma en hún var í stúdentaráði Háskóla Íslands og háskólaráði 1998 til 2000. Hún varð formaður Ungra Vinstri grænna árið 2002 og gegndi því embætti til ársins 2003. Katrín var fulltrúi í fræðsluráði, síðar menntaráði, Reykjavíkur 2002 til 2005 og formaður nefndar um barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur 2002 til 2006.
Katrín var varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann 2002 til 2006 og varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 2003 til 2013. Hún var formaður samgöngunefndar Reykjavíkur árið 2004 og formaður umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 2004. Hún hefur setið í fjölda annarra nefnda í gegnum tíðina og var hún samstarfsráðherra Norðurlanda 2009 til 2013.
Katrín hefur verið formaður VG síðan 2013. Hún tók við af Steingrími J. Sigfússyni en hún fékk 98,4 prósent atkvæða á landsfundi á sínum tíma.
Lék í myndbandi Bang Gang
Þess má til gamans geta að Katrín lék í myndbandi við lagið „Listen Baby“ með Bang Gang árið 1996. Lemúrinn rifjaði upp leiklistarhæfileika hennar í grein fyrir þremur árum. Í henni kemur fram að hljómsveitin Bang Gang hafi upphaflega verið tveggja manna verkefni skólafélaga úr Menntaskólanum í Reykjavík. Annar þeirra var Barði en hinn var Henrik Björnsson, sem átti síðar eftir að gera garðinn frægan með hljómsveitinni Singapore Sling. Meðlimir sveitarinnar voru rúmlega tvítugir og Katrín var á sama aldri.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið þar sem Katrínu bregður fyrir í hlutverki dularfullu konunnar.