Reykjavíkurborg mælist langneðst í þjónustukönnun Gallup í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kemur að þjónustu bæði leikskóla og grunnskóla, þjónustu við eldri borgara og þjónustu við fatlaða.
Þetta kemur fram í samanburðarkafla könnunarinnar sem Kjarninn hefur undir höndum. Reykjavík er einnig neðst í mælingu á heildaránægju íbúa af sveitarfélagi sínu.
Reykjavík fær 2,8 í einkunn þegar spurt er um afstöðu til þjónustu leikskóla sveitarfélagsins, hæsta einkunn er fimm. Þar er Garðabær efst sveitarfélaga með 4,3 í einkunn.
Þegar kemur að þjónustu grunnskóla fær Reykjavík 3,1 en Garðabær, sem aftur mælist efst sveitarfélaga fær 4,2.
Reykjavíkurborg fær 2,4 þegar spurt er um þjónustu við eldri borgara en þar mælist Hveragerði hæst með 4,2 og Reykjavík er enn lægst þegar spurt er um þjónustu við fatlaða, fær 2,5 en Fljótsdalshérað fær þar hæstu einkunn, 3,7.
Reykjavíkurborg mælist ekki neðst í öllum málaflokkum sem spurt er um í könnun Gallup, en þar stappar nærri. Borgin mælist næst neðst í skipulagsmálum, þriðja neðst í menningarmálum og fimmta neðst í sorphirðumálum svo dæmi séu tekin.
Umdeild könnun
Viðmælendur Kjarnans, sem ekki vildu koma fram undir nafni en eru kjörnir fulltrúar víða um land í þeim sveitarfélögum sem þjónustukönnun Gallup tekur fyrir, voru sammála um að sumt væri ósanngjarnt í niðurstöðum könnunarinnar.
Þannig mælist Reykjavíkurborg til dæmis neðar en Seltjarnarnes í ánægju íbúa sveitarfélaganna með menningarmál, en ljóst er að umfang menningarstarfsemi Reykjavíkurborgar er vægast sagt margföld á við umfang sama málaflokks hjá Seltjarnarnesi.
Stundum megi ætla að minni sveitarfélögin græði á smæð sinni, þar sem einhvers konar bæjarstolt kunni að mati viðmælenda Kjarnans í sumum tilvikum að hafa áhrif á svör íbúa þeirra.
Hins vegar sé könnunin gott tæki fyrir sveitarfélögin til að skoða breytingu á ánægju eða óánægju íbúa ár eftir ár, til dæmis ef gerðar eru breytingar á einstökum málaflokkum. Sem og hvati til að gera betur þar sem ljóst þykir að óánægja íbúa sé mikil með ákveðin mál.
Reykjavík ekki með
Reykjavíkurborg tekur ekki beinan þátt í þjónustukönnuninni og hefur ekki gert í nokkur ár. Íbúar borgarinnar eru þó hafðir með í úrtaki Gallup til samanburðar fyrir önnur sveitarfélög.
Í svörum borgarstjóra við gagnrýni minnihlutans í borgarstjórn vegna þeirrar ákvörðunar borgarinnar að vera ekki með í könnuninni hefur komið fram að sviðsstjórar Reykjavíkurborgar hafi verið á nær einu máli um að þjónustukönnunin nýtist þeim ekki til að bæta þjónustu borgarinnar. Hún mæli fremur ímynd þjónustunnar en ánægju þeirra sem nýti sér hana. Þannig væri ósamræmi milli könnunar Gallup og annarra kannana. Þegar könnuð væri ánægja beinna notenda, en ekki bæði notendur þjónustu sem og þeirra sem ekki nýta sér hana, væri ánægjan meiri en þegar úrtakið væri almennt.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var á fundi borgarstjórnar í gær og hafði ekki tök á að veita Kjarnanum viðtal um málið. Hann sagði hins vegar að þessar kannanir þurfi að rýna vel áður en hægt sé að tjá sig um þær að einhverju viti. „Um það hafa reyndar verið skrifaðar lærðar ritgerðir,“ kom fram í skilaboðum frá Degi.
Þjónustukönnun Gallup hefur verið framkvæmd frá árinu 2008, þar sem viðhorf og ánægja íbúa með þjónustu í stærstu sveitarfélögum landsins er kannað. „Niðurstöður nýtast meðal annars við forgangsröðun verkefna og stefnumótun en gerður er samanburður á niðurstöðum við heildarniðurstöður annarra sveitarfélaga. Um er að ræða árangursríka leið til að fá upplýsingar um afstöðu íbúa og hvar veikleikar og styrkleikar liggja í þjónustu og starfi sveitarfélagsins,“ segir á heimasíðu Gallup.