Stéttaskipting í kókópöffspakka
Tvær vinkonur hittast og ræða um ólíka sýn á lífið og upplifanir. Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir spjallaði við Berglindi Rós Magnúsdóttur, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, um forréttindi, stéttavitund og hvernig ólíkur bakgrunnur hefur áhrif á hegðun fólks.
Ég var sautján ára vandræðaunglingur þegar ég kynntist Berglindi Rós Magnúsdóttur, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þá hafði ég flosnað upp úr tveimur framhaldsskólum, ennþá nokkuð tætt eftir líflegan skilnað foreldra minna og stanslaust djamm síðan ég var fjórtán ára, í ofanálag nýgreind með flogaveiki. Ég upplifði mig utangarðs og þóttist hafa marga fjöruna sopið eftir sumarvinnu við garðyrkju og fiskvinnslu. Í augum vinkonu minnar naut ég hins vegar forréttinda – og ég gerði það án þess að átta mig á því, eins og oft er raunin með forréttindapésa. Í augum mínum var það hún sem naut eftirsóknarverðustu forréttinda heimsins því hún var svo áberandi sæt.
Ég hafði verið selflutt í Menntaskólann á Akureyri kortéri í skólasetningu fyrir tilstilli ættingja en föðurafi minn hafði eitt sinn kennt við skólann. Og þá hvarflaði ekki einu sinni að mér að það gætu verið forréttindi.
Okkur Berglindi Rós var úthlutað saman herbergi á heimavistinni. Berglind átti að hafa góð áhrif á mig, komandi úr sollinum í Reykjavík, en hún frá afskekktum sveitabæ í Skagafirði. Við höfðum vissulega áhrif hvor á aðra en kannski ekki góð að mati skólayfirvalda – þó svo í dag álíti Berglind að við höfum haft mikilvæg áhrif hvor á aðra á viðkvæmu mótunarskeiði. Berglind Rós er nú með doktorsgráðu í félagsfræði menntunar frá Cambridge háskóla í Bretlandi en hún stundaði einnig nám í Cornell háskólanum í Bandaríkjunum.
Síðastliðið sumar sátum við á indverskum veitingastað í Berlín, búnar að drekka nógu mikið léttvín til að vera kæruleysislega beinskeyttar í tali þegar hún sagði: „Ég varð að klára þessi próf, annars hefði ég hvorki komist lönd né strönd. En þú þurftir þess ekki. Þú prófaðir félagslífið í nógu mörgum menntaskólum til að ná þér í tengslanet og tileinka þér það sem þú þurftir fyrir lífið.“
„Eru menntaskólar til þess að ná sér í tengslanet?“ flissaði ég. Menntadoktorinn glotti svo ögrandi að ég fussaði að tengslanet hefði ekkert með skrifin mín að gera – búin að fá lífstíðarskammt af aðdróttunum um að ég hafi fæðst með silfurskeið menningarmafíósa í munni.
„Skrifin standa fyrir sínu,“ sagði hún, „en þú komst úr þannig umhverfi að þegar við kynntumst barstu enga virðingu fyrir valdi heldur gerðir það sem þú vildir gera. Þú tókst þér stöðu utan kerfsins en gast alltaf gengið að opnum dyrum, þú vissir hvert þú ættir að leita og hvað þú ættir að segja. Það eru forréttindi, ákveðið auðmagn.“
Auðmagn menntskælings
Ég var hugsi yfir orðum hennar, þó að við höfum oft rætt ólíkan bakgrunn okkar: Berglind Rós alin upp hjá ömmu sinni og afa í Fljótunum meðan ég átti nokkra þjóðþekkta nána ættingja. Á unglingsárum kom fyrir að hún væri húðskömmuð en ég tekin silkihönskum fyrir sömu heimskupörin.
Við stigum báðar tættar inn í táningsárin en vinátta okkar er samt lifandi dæmi um öll ósýnilegu lögin af forréttindum sem gegnumsýra samfélag og hafa orðið henni ótæmandi uppspretta í akademískar rannsóknir og mér hvatning til að nota „Almenningsálitið er ekki til“ eftir Bourdieu sem klósettbók svo ég hafi roð við henni í rökræðum sem þessum. Eða þegar hún segir hluti á borð við: „Menntaskólar eru stofnanir upphaflega hannaðar fyrir embættismannastéttina og síðar millistéttina til að læra góða siði og öðlast réttu þekkinguna fyrir fólk í þeirri stöðu, rétta stílinn og tungumálið fyrir opinberan erindrekstur. Makaval er oft hluti af áðurnefndum félagsauði, það er vel þekkt í rannsóknum að tengsl sem myndast í þessum skólum nýtast oft síðar.“
Jú, tengslin við Berglindi Rós síðan í menntó nýtast mér ennþá í lífinu – eins og í viðtalið hér.
Reykt og ögrað
Og hún hefur frásögnina: „Heima hafði ég orðið fyrir miklum áhrifum frá frænku minni, þremur árum eldri, sem var send í sveit til okkar og ærði upp í mér uppreisnarandann um leið og hún gaf mér innsýn í nýja heima. Ein af okkar uppreisnum fólst í að neita að vinna á sunnudögum því það væri óskoraður réttur verkafólks að eiga frí! Í sveitinni var vinnuharka og ég fór að vinna fullan vinnudag með vinnufólkinu um tíu ára aldur. Ég hefði getað haldið stórt heimili tólf ára, svo mikið kunni ég til heimilisverka. Við fengum þessi réttindi í gegn, við María frænka mín, og gátum safnað frídögum saman ef við neyddumst til að heyja á sunnudögum.
Í níunda bekk þótti ég svo óþekk að Páll skólastjóri í Varmahlíð var alveg að gefast upp og varði drjúgum tíma í að kalla mig inn á skrifstofu og reyna að aga mig með litlum árangri. Vandinn fólst aðallega í að ég reykti og stimpaðist við að hætta því og hann var viss um að ég myndi kenna öllum skólanum að reykja. En í tíunda bekk varð ég svo aftur „góða stelpan“ vegna ákveðinnar lífsreynslu sumarið á undan og hélt mínu striki í náminu. Það fleytti mér inn í MA.
Þú varst ekki lengi að vekja uppreisnaróværuna í mér sem hafði legið í dvala en fann sér nú öflugan bandamann.
Þegar ég byrjaði í MA, fimmtán ára, var ég staðráðin í að standa mig því mér hefði hlotnast sú gæfa að komast inn í þennan fína skóla, þrátt fyrir allt og allt. Ég bar óttablandna virðingu fyrir honum, alls ekki viss um að ég væri verðug alls þessa. Þetta ýtti undir nokkuð óspjallaða ímynd fyrstu tvö árin í MA og ég var því talin heppilegur herbergisfélagi fyrir betrunarvist þína á heimavistinni. Þú varst ekki lengi að vekja uppreisnaróværuna í mér sem hafði legið í dvala en fann sér nú öflugan bandamann. Þessi bandamaður hafði, ólíkt öllum öðrum óþekktarormum sem ég hafði kynnst, virðingu og endalaust umburðarlyndi hjá valdhöfum. Svo ég byrjaði aftur að reykja og ögra – í skjóli þínu.“
Vissan um að vera reddað
„Það sem ég upplifði strax þegar ég sá þig var að þú komst úr allt öðrum menningarheimi og þú barst það með þér, þú varst í allt öðruvísi fötum en flestir á Akureyri á þessum tíma,“ segir Berglind.
„Ég var í ljósum gallabuxum og nokkuð flegnum bol og þú í skræpóttum sokkabuxum og lufsuskokki. Þér fannst maturinn í mötuneytinu mjög vondur en ég var þakklát fyrir hann því ég hafði slæma reynslu af mötuneyti síðasta heimavistarskólans sem ég hafði verið í og var alin upp við að vera þakklát fyrir það sem var boðið upp á. Maður átti einfaldlega að vera þakklátur og þakka fyrir sig.
Fyrsta sem þú gerðir var að fara út í búð og kaupa kókópöffs,“ rifjar Berglind upp og hlær við minninguna.
„Fyrir mér var þetta raunar vanþakklæti því þetta var frekar gott mötuneyti miðað við það sem tíðkaðist í skólum. Á sunnudögum var til dæmis heitt kakó og vöfflur – að vísu misstum við mjög gjarnan af sunnudagsmorgunmatnum vegna annasamra laugardagskvölda. En þér fannst það allt í lagi meðan ég upplifði það sem svolítið drama, að missa af þessu fína hlaðborði. Hlaðborð lífsins eru einnig misjafnlega uppdekkuð. Þú barst með þér að hafa aldrei þurft að gera neitt sem þig langaði ekki til að gera.“
„Jú, reyndar,“ langar mig að skjóta inn í því ég hafði unnið tíu tíma á dag í bæði garðyrkju og fiskvinnslu síðan ég var þrettán ára – og meira að segja líka á kassanum í Hagkaup – en eitthvað svipað gerðu hvort sem er allir af þessari barnavinnu-kynslóð, svo ég læt það slæda og Berglind heldur áfram:
„Það gat hins vegar komið sér vel að geta einbeitt sér að lærdómi sem maður hafði engan sérstakan áhuga á og þar skildi á milli okkar. Gera þarf fleira en gott þykir er málsháttur minnar barnæsku en líklega ekki þinnar,“ botnar hún og minnir mig eitt augnablik á ömmu mína. Það er ekki laust við að ég blygðist mín við að heyra þetta – en það er hollt að hlusta.
„Fyrir fólk sem treystir á kerfið er svo mikilvægt að það virki og sé gott,“ útskýrir Berglind þegar hún tengir fortíð okkar við fræðin. „Að það séu gæði í kerfinu því flestir þurfa að treysta á almennt menntakerfi. En þetta var þriðji skólinn sem þú fórst í svo þú hafðir líka samanburð og barst enga sérstaka virðingu fyrir þessum skóla umfram annan. Þú vissir að þér yrði reddað inn í annan skóla ef þú stæðir þig ekki. En ég vissi að ef ég myndi ekki standa mig þá væri mín vegferð öllu óljósari, ekki skrifuð í mín ættarský, og ég færi jafnvel bara að hreinsa dún í sveitinni með allri þeirri félagslegu einangrun sem því fylgdi.“
Líkamleg stéttavitund
Þetta er hræðilegt! andvarpa ég við takmarkaða samúð vinkonu minnar sem heldur áfram sínum vægðarlausa málflutningi: „Í lægri stéttum ber maður aðeins meiri virðingu fyrir því sem fyrir mann er lagt. Líka af því að maður hefur ekki yfirsýn yfir þá möguleika sem felast í forréttindum þeirra sem eru ofar í stéttalögunum. Það var svo mikið diss í þér.
Þú sást alltaf leið til að valdefla sjálfa þig í því kerfi sem þú varst sett inn í án þess að það snerti námið á nokkurn hátt – eins og þegar við stofnuðum Ævintýrafélagið en þannig komstu þér fyrst á framfæri; með því að búa til félag á forsendum þínum. Hin félögin voru þessi hefðbundnu; pólitísk félög, íþróttafélög eða leikfélagið sem er harla ólíklegt að þú hefðir getað samstundis orðið formaður í.
Þú varst fyrsta stelpan sem ég kynntist sem varst ófeimin við að taka þér rými og rödd, oft á óljósum forsendum. Fyrir þá sem eru ekki vanir því að vera í sviðsljósinu þarf það gjarnan að vera skýrt að ef stigið er inn í það ljós hafi viðkomandi augljóst erindi. En það þurfti ekkert svoleiðis, þú varst viss um að þú ættir erindi og ég get skýrt það með þínum félagslega bakgrunni.“
„Láttu gossa!“
„Ég ólst upp við það að konan hafði vald en það var bundið við einkasviðið; heimili og börn og í besta falli kennslu (börn) ef það snerti opinbera sviðið. Konurnar í sveitinni höfðu nánast enga rödd á opinberum vettvangi, s.s. í gegnum stjórnarsetu. Konurnar í kvenfélaginu fengu að baka fyrir fundina og safna peningum í góðgerðarstarfsemi. Amma mín var mjög feimin og vakti aldrei á sér athygli á opinberum vettvangi en ekki vantaði hana gáfur eða góðar tillögur frekar en aðrar konur í sveitinni en það var þá gjarnan afgreitt við eldhúsborðið.
Þetta elst ég upp við svo það var mjög hressandi að upplifa þessa nálgun. Ég man að þegar verið var að kjósa í nemendafélagi MA–þrátt fyrir að Ísland hefði þá átt sinn kvenforseta og rauðsokkur og allt það – þurftu stelpurnar sem buðu sig fram svolítið að sýna að þær væru ekki bara athyglissjúkar. Þær ættu raunverulegt erindi. En þér var alveg sama þó að einhver segði að þú værir athyglissjúk.
Stétt líkamnast í okkur. Þú varst miklu frjálsari af hefðbundnum hugmyndum um kvenleika sem er haldið mjög að ungum stúlkum á öllum tímum.
Ég man meira að segja eftir tilfinningunni í líkamanum þegar ég var að brjótast út úr þessu gamla haftakerfi uppruna míns með þig mér við hlið. Þú stóðst keik og stundum bókstaflega bullaðir í einhvern hljóðnema og ég leið kvalir á meðan því ég sá hryllingssvipinn á fólki: Þær, eina ferðina enn! Alltaf að taka rými og pláss og halda að þær séu eitthvað!“ Berglind hlær og hristir höfuðið yfir þessum stelpum sem við vorum einu sinni. „Þetta er líkamlegt minni, þetta var hræðilegt – en kómískt um leið og bráðnauðsynlegt. Til að breyta sögunni sem hefur tekið sér bólfestu í líkamanum þarf ögrun, tilhlaup og dass af vanlíðan – um stundarsakir.
Þegar tók að vora höfðum við næstum því skrópað okkur út úr skólanum en í raun hafði ég aldrei lært eins mikið um og verið jafn mikill þátttakandi í samfélagi eins og þennan vetur.“
Hefðbundnar hugmyndir um kvenleika
„Stétt líkamnast í okkur. Þú varst miklu frjálsari af hefðbundnum hugmyndum um kvenleika sem er haldið mjög að ungum stúlkum á öllum tímum. Nú erum við að tala um tvær stelpur svo þetta er ekki bara kynjakerfið, sem við erum að tala um, heldur samspil kynja- og stéttakerfisins. Þú ert alin upp við konur sem tóku sér rými og höfðu rödd og vægi í fjölmiðlum og sviðsljósi samfélagsins. Reyndu það að minnsta kosti og höfðu að markmiði að vera hluti af valdinu en um leið að brjóta upp karllægar valdaformgerðir samfélagsins. Mamma þín var ögrandi pistlahöfundur, stjúpmóðir þín þingmaður, móðursystir leikstjóri og amma þín „framkvæmdastjóri Nóbels“ á Íslandi.
Allar þessar konur höfðu tengsl inn í valdastétt samfélagsins, og voru hluti af menningar- og stjórnmálaelítu landsins. Að hafa slík tengsl frá blautu barnsbeini hefur gríðarleg mótunaráhrif, eins og hvernig þú kemur fram á kvöldvöku í Menntaskólanum á Akureyri eða hvar sem er. Þú veist að þú hefur engu að tapa. Þú getur bara farið úr þessum skóla í annan, ef þú gengur of langt. Það er þessi hreyfanleiki sem tengist svo elítu-stéttarstöðunni; þeir sem eru neðar í stéttarlögum hafa ekki þennan hreyfanleika og þessa yfirsýn. Þeir eru miklu fastari í þeim veruleika sem þeim er úthlutað.
Svona virkar stéttarkerfið. Og við þurfum að tala um menningarlegar og félagslegar forsendur – og afleiðingar – stéttskiptingar. Við þurfum að afbyggja hugmyndina að Ísland sé og hafi verið stéttlaust samfélag.“
Ákveðnir skólar sinntu ákveðnum ættum
Berglind Rós var dugleg í námi og ári á undan í skóla, og komst inn í MA á þeim forsendum. Hún upplifði stolt yfir sjálfri sér að hafa komist inn í skólann.
„Það voru tvær fjölskyldur í sveitinni sem höfðu farið þarna. En á sama tíma upplifði ég að ég var nafnlaus í þessum skóla því ég var ekki dóttir eða ættingi einhvers sem hafði verið þarna, ég var bara Magnúsdóttir úr afskekktri sveit. Ég átti enga sögu þarna. Þegar fyrsti fundur með nemendum var haldinn á heimavistinni var spurt: Réttið upp hönd sem hafið átt ættingja hérna? Og það voru mjög margir. Þetta er birtingamynd af því hvernig ákveðnir skólar sinntu tilteknum ættum á Íslandi. Í tilfelli þínu hafði föðurætt þín verið þarna og þess vegna hafðir þú miklu opnara aðgengi að skólanum og þurftir ekki að sýna fram á tilteknar einkunnir til að komast inn í skólann eða tiltekna hegðun til að fá að vera í skólanum. Flestir þurftu t.d. að mæta í skólann og ná prófum,“ – nú flissar Berglind – „og á þessum árum var mikið brottfall úr skólanum á fyrstu og annarri önn námsins sem skýrðist af prófniðurstöðum. Þetta er birtingarmyndin af þínum ættarauði.“
„Ég er með smá aumingjahroll hér!“
„Æ æ,“ segir Berglind áður en hún heldur útskýringunum áfram: „Maður skynjaði hjá sumum að það var gerður munur á fólki eftir tengslum. Síðar, þegar ég kynnist pabba mínum betur, átta ég mig á að hann kemur af slekti nátengdu MR, þar sem afi minn hafði verið kennari og afkomandi Halldórs Kr. Friðrikssonar yfirkennara Lærða skólans og meira og minna öll föðurættin hafði verið hluti af fámennri yfirstétt á hinu gamla Íslandi. En af því að ég elst ekki upp hjá pabba mínum er ég ekkert inni í því. Síðar meir fæ ég betri innsýn í þennan heim þegar ég flyt til Reykjavíkur og kynnist föður mínum betur og það jók enn frekar áhuga minn á stéttapælingum. Nýverið skrifaði ég kafla um langömmur mínar í bókina Margar myndir ömmu um stéttarfall formæðra minna sem voru um fertugt þegar konur fengu kosningarétt. Önnur þeirra giftist sýslumanni og hin kaupsýslumanni en þær missa þessa eiginmenn og þá tekur við mjög erfitt ástand. Það sem hefur verið að gerast á síðustu þrjátíu eða fjörutíu árum á Íslandi er að millistéttin hefur stækkað mjög hratt í gegnum þekkingarhagkerfið og háskólagráðurnar. Margir Íslendingar hafa upplifað þetta.“
Mikilvægi blöndunar
Á síðustu fjörutíu árum hafa fjölmargir Íslendingar færst milli stétta og orðið fyrsta kynslóðin til að verða háskólamenntaðir sérfræðingar, að sögn Berglindar, en þá er hún að tala um millistéttina. Þetta hefur gerst um allan hinn vestræna heim. Á sama tíma, þá sérstaklega á síðustu tuttugu árum, hefur fjárhagsleg stéttskipting aukist gríðarlega. Hugmyndin um frelsi einstaklings og að allir hafi sama aðgengi að frama og velgengni er sterk í íslensku samfélagi.
„Fólk með mjög einfaldar hugmyndir um stétt horfir fyrst og fremst á fjárhagsmismunun,“ segir hún. „En í rauninni erum við með tvo valdavettvanga sem gjarnan takast á um leikreglurnar á pólitískum vettvangi og hvað eigi að skilgreina sem raunveruleg verðmæti. Annars vegar höfum við viðskiptaelítuna (hægrið), hins vegar menningarelítuna (vinstrið) en á síðustu árum hafa skilin milli þessara póla orðið óljósari.
Fólk með mjög einfaldar hugmyndir um stétt horfir fyrst og fremst á fjárhagsmismunun. En í rauninni erum við með tvo valdavettvanga sem gjarnan takast á um leikreglurnar á pólitískum vettvangi og hvað eigi að skilgreina sem raunveruleg verðmæti.
Búið er að viðskiptavæða meira og minna alla vettvanga samfélagsins sem kristallast m.a. í því að erfitt er að halda úti námi sem hefur ekki augljósan efnahagslegan hvata. Gerðar eru skýrslur til að sýna fram á efnahagslegan gróða af menningunni. Hún má ekki lengur hafa bara gildi í sjálfu sér, þ.e. hafa það hlutverk að gera okkur mennskari. Hana, eins og allt annað, þarf að réttlæta með hagvexti. Í umræðu um stétt er gjarnan einblínt á fjárhagslega misskiptingu sem auðvitað skiptir gríðarlegu máli en þá gleymist að skoða menningarlega misskiptingu – en þar komum við að skólakerfinu.
Þeir sem vilja raunverulegan jöfnuð þurfa að móta stefnur sem ýta undir stétta- og menningarblöndun í skólum og að ólíkir hópar komi þar saman og kynnist. Skólaganga er nefnilega ekki bara bundin við námsefni og tímasókn. Í skólum gefst tækifæri til að kynnast margbreytileika samfélagsins.“
Hún tekur breska skólakerfið sem dæmi: „Sjáðu Eton og þessa drengjaskóla, einkaskóla, það er beint streymi á milli þessarar skóla og stjórnmálaelítunnar. Þarna eru drengir sem hafa aldrei kynnst öðru en drengjum með samskonar silfurskeiðar í munni og fá svo aðgengi að öllum helstu valdastöðum samfélagsins, hvort sem það er í viðskiptum eða menningu.
En ef þú hefur ekki innsýn í líf verkafólks eða fólk sem býr við annars konar hlutskipti en þú – ekki einu sinni í gegnum eigin skólagöngu – þá er ólíklegt að þú skiljir veruleika þess og getir unnið fyrir það sem stjórnmálamaður. Okkar samvera í MA er gott dæmi um mikilvægi blöndunar. MA var nefnilega ekki meiri elítuskóli en svo að þangað komust óþekk(t)ar sveitastúlkur,“ segir Berglind Rós að lokum, gáfulega sposk, eins og alltaf.
Vafalaust bjó vinahugur og velvild að baki hjá yfirvöldum í þessum skólum þegar þau tóku við vandræðabarninu mér af því að ættingjar mínir föluðust eftir greiða. Fólk vildi hjálpa vinum sínum, líka þeim sem áttu óþekk börn. En það áttu ekki allir ættingja að sem áttu vini víða í samfélaginu sem gátu hjálpað þeim. Ekki þá frekar en nú. Sagan okkar Berglindar er barn síns tíma, hún myndi hafa farið öðruvísi í dag. En við erum öll sprottin úr þessari veröld, við erum afsprengi hennar og mótuðumst af henni og þar með líf okkar í dag. Stéttskipting lifir góðu lífi í ýmsum myndum og á óteljandi gráum svæðum. Eina sem breytist er birtingamynd hennar.