Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins eru á lista Alþingis yfir þá sem hlotið hafa hæstu endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar.
Fram hefur komið að Ásmundur Friðriksson hafi hlotið alls 4,6 milljónir króna endurgreiddar í fyrra vegna aksturskostnaðar.
Í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar um aksturskostnað þingmanna kom fram að litið sé svo á að aksturinn tengist starfi alþingismanna fyrir umbjóðendur, varði samband þeirra við kjósendur og sé því þeirra mál eins og ýmislegur annar kostnaður við starf þingmanna. „Þess vegna hafa almennt ekki verið veittar persónugreinanlegar upplýsingar um þessar endurgreiðslur,“ segir í svarinu.
Fimm þingmenn svara ekki
Kjarninn spurði alla þingmenn landsbyggðarkjördæma um þeirra aksturskostnað. Spurt var hvort þingmenn hafi fengið endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar á árunum 2013 til 2017, hvaða ár væri um að ræða, hversu mikil keyrslan var og hversu há endurgreiðsluupphæð var á hverju ári fyrir sig. Fimmtán efnisleg svör bárust Kjarnanum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins svaraði ekki fyrirspurn Kjarnans. Það gerðu ekki heldur Sigurður Ingi Jóhannsson, og Ásmundur Einar Daðason, þingmenn Framsóknarflokksins.
Haraldur Benediktsson og Páll Magnússon þingmenn Sjálfstæðisflokksins svöruðu fyrirspurninni ekki efnislega.
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var ekki spurður þar sem upplýsingar um hans akstur liggja fyrir.
Þeir landsbyggðarþingmenn sem komu glænýir inn á þing nú í vetur voru eðli málsins samkvæmt ekki spurðir. Né heldur þau sem duttu út af þingi í kosningum í lok ársins 2017, þau Teitur Björn Einarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Benedikt Jóhannesson og Eva Pandóra Baldursdóttir.
Uppfært: Í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur sem barst eftir að fréttin fór í loftið kemur fram að hún hafi engar greiðslur fengið, 0 krónur.
Vilhjálmur, Oddný og Silja á topplistunum
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir í samtali við Kjarnann að hann hafi verið flest árin í öðru sæti og að hann sé ekki feiminn við að viðurkenna það. Hann gagnrýnir einhliða umræðu sem að hans mati hefur verið um aksturskostnað þingmanna og vill benda á að hann rukki til að mynda aldrei fyrir matarkostnað og mjög sjaldan hótelherbergi og fleira í þeim dúr. Hann segir mikilvægt að líta á heildarmyndina og að annars konar kostnaður eigi einnig að vera til umræðu. Vilhjálmur segir að þingið hafi náð góðum árangri við að minnka kostnað undanfarið en bætir því við að alltaf hljóti að verða einhver kostnaður við það að hafa landsbyggðarþingmenn. Krafa sé á þá þingmenn að sinna kjósendum sínum, hitta og vera viðstaddir hina ýmsu viðburði. Vilhjálmur var við akstur þegar Kjarninn náði tali af honum og hafði því ekki aðgang að nákvæmum tölum um endurgreiðslur sínar. Sé það rétt að hann hafi fengið næst hæstu greiðslurnar á eftir Ásmundi fékk Vilhjálmur í fyrra tæplega 3,5 milljónir í endurgreiðslu aksturskostnaðar í fyrra.
Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fékk á síðasta ári 1.929.818 krónur í endurgreiðslur. Í heild var akstur Silju í fyrra 18.182 kílómetrar, en í svari Silju var kílómetrafjöldinn ekki var sérstaklega sundurliðaður í heimakstur og annan akstur. Árið 2016 voru greiðslurnar tæplega 2,8 milljónir og eknir kílómetrar 27.881. Alls hafa greiðslur til Silju numið 12.250.135 krónum á árunum 2013 til 2017. Í svari Silju til Kjarnans kemur fram að hún telji gagnlegt að taka inn í umfjöllun af þessu tagi meðalkostnað á þá þingmenn sem aka ekki heim til sín, þ.e. þá sem búa enn fjær þinginu, til dæmis í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum. „Taka þá inn kostnað við bílaleigubíla, eldsneyti, húsnæðiskostnað á höfuðborgarsvæðinu sem og flugmiða. Umfjöllun um þá sem aka mest (væntanlega við búum utan Reykjavíkur og ökum heim á kvöldin) nær í raun ekki utan um umfjöllunarefnið. Síðan væri hægt að raða þingmönnum upp eftir hvað þeir kosta mikið per haus. Ég held að þeir sem búi fjærst kosti mest, við „kragafólk“ næstmest og ódýrastir eru þeir þingmenn sem búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Silja Dögg.
Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðiflokksins í Norðausturkjördæmi fékk akstursgreiðslur fyrir þingveturinn 2017. Hann tók 907 kílómetra það árið og fékk endurgreiddar 99.770 krónur í aksturskostnað.
Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi segist fyrst hafa ekið sínum eigin bíl til vinnu eftir að hann settist á þing haustið 2016. Guðjón býr á Akranesi. Um og leið og kostur gafst gerði hann samkomulag við Alþingi um afnot af bílaleigubíl. Á árinu 2016 hafi honum því verið greiddar 220.550 kónur í endurgreiðslu vegna aksturskostnaðar og „síðan ekki söguna meir“. Hann segir að um hafi verið að ræða akstur milli heimilis og þings, auk nauðsynlegra ferða um kjördæmið en hafði ekki nánari upplýsingar um fjölda ekinna kílómetra að svo stöddu.
Aðrir með minni kostnað eða engan
Aðrir þingmenn sem svöruðu gáfu ónákvæmari svör eða hafa ekki innheimt aksturskostnað.
Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstri grænna, einnig í Suðurkjördæmi, settist á þing árið 2016. Eina heila árið hans á þingi er því árið 2017 og samkvæmt svari Ara nema endurgreiðslur til hans ekki einni milljón, þar með taldar þrjár utanlandsferðir. Ari sagði að sennilegast hafi akstursgreiðslur verið í námunda við 300 þúsund og „þá fyrir innan við 3000 km akstur og örfáar gistinætur og flugferðir til Eyja og Hafnar eru inni í upphæðinni,“ segir Ari sem boðar nánari upplýsingar en hann var á leið um kjördæmið í kjördæmaviku og hafði ekki aðstöðu til að skoða málið nánar.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata í Suðurkjördæmi, segir í svari sínu til Kjarnans að hann hafi aldrei innheimt aksturskostnað. Hann hefur tvisvar innheimt kostnað vegna bílaleigubíls í nokkra daga vegna ferða á vegum þingsins. „Annars keyri ég núna eigin bíl og finnst óþarfi að rukka þingið sérstaklega fyrir það. Nógu andskoti mikið fá þingmenn greitt fyrir,“ segir Smári.
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi segir kjör þingmanna liggja fyrir á vef Alþingis og nánari persónugreinanleg kjör falli undir persónuverndarlög. Hennar endurgreiddi akstur á ársgrundvelli sé ekki á „topp tíu lista og er innan eðlilegra marka“.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis segist í svari sínu til Kjarnans ekki hafa fengið endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar. „Ég hef nýtt mér flug og bílaleigubíla, eftir atvikum, í samræmi við tilmæli skrifstofu Alþingis.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi segist alla jafna taka bílaleigubíl frá Akureyri til Ólafsfjarðar þegar hún fer heim. Þrjú skipti hafi hún verið á einkabíl á milli og einu sinni ekið á einkabíl milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hún hafi fengið þær greiðslur samkvæmt reglum en samtals hafi verið um að ræða 621 kílómetra á árinu 2017. „En ég hef ekki yfirlit yfir það frá árinu 2013 þar sem það var ekki rafrænt fyrr en 2016 en það má telja á fingrum annarrar handar,“ segir Bjarkey í svari sínu.
Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmis segist nær alltaf taka bílaleigubíl þegar um lengri ferðir sé að ræða. Hún noti einkabíl í styttri ferðir og fái endurgreiðslur vegna þeirra, en sú notkun sé mjög lítil. Hún sat ekki á þingi þorra ársins 2017 en kom aftur inn í kosningunum þá um haustið.
Þórunn Egilsdóttir segist notast nær alltaf við bílaleigubíla. Að öðru leyti vísar hún til vinnu forsætisnefndar varðandi þessi mál.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður norðausturkjördæmis hafði ekki tök á að taka saman umbeðnar upplýsingar með þessum fyrirvara vegna kjördæmaviku en vakti athygli á að hann hafi frá því um mitt ár 2013 gegnt ráðherraembætti og því séu greiðslur hans vegna aksturskostnaðar litlar ef einhverjar.
Upplýsingarnar verði birtar
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, svaraði fyrirspurn Kjarnans með þeim hætti að hann hafi sennilega öll þessi ár sem hann hafi setið á þingi fengið lítilsháttar endurgreiðslur vegna aksturs á eigin bíl. Það heyri þó orðið til algerra undantekninga að hann noti eigin bíl. Hann telur árlegan kílómetrafjölda síðastliðin ár hafa verið í kringum 1.500 til 3.000 kílómetra. „Ein tvær ferðir í kjördæmið þegar ég hef verið í lengri ferðum og viljað vera á eigin bíl og stundum kannski ein ferð í önnur kjördæmi þegar ég hef lagt til bíl í sameiginlegar ferðir þingflokksins eða svoleiðis. En, að uppistöðu til nota ég flug til ferða til og frá kjördæminu og svo stundum bílaleigubíl í einn tvo þrjá daga í tengslum við það,“ segir Steingrímur.
Kjarninn sendi honum, sem forseta þingsins, ósk um nákvæmar upplýsingar um hversu háar greiðslur hver og einn þingmaður hefur fengið í endurgreiðslu fyrir útlagðan kostnað vegna aksturs. „Þess er óskað að nöfn viðkomandi þingmanna séu uppgefin í svarinu og þar sé, auk kostnaðar, tilgreint hversu marga kílómetra þeir keyrðu á hverju ári fyrir sig. Þess er óskað að ofangreindar upplýsingar verði veittar fyrir árin 2013-2017.“
Í beiðni Kjarnans um upplýsingar frá forseta þingsins sagði ennfremur: „Augljóst er að fjölmiðlar geta ekki sinnt aðhaldshlutverki sínu ef umræddar upplýsingar fást ekki afhentar. Ótækt er að beita fyrir sig þeim rökum að ríkari hagsmunir séu fólgnir í því að veita ekki persónugreinanlegar upplýsingar og láta sem að sá friðhelgisréttur einstakra þingmanna sé ríkari en réttur almennings, vinnuveitanda þingmanna, til þess að fá upplýsingar um meðferð á opinberu fé.
Til viðbótar er þess óskað að fá tæmandi upplýsingar um hvernig eftirliti með aksturskostnaði þingmanna sé háttað? Er kannað með einhverjum hætti hvort að kröfur þeirra um endurgreiðslu fyrir útlagðan kostnað séu réttar? Hver sinnir því eftirliti?
Í ljósi þess að ofangreind fyrirspurn snýr að máli sem er mjög í umræðunni nú er þess óskað að lögð verði áhersla á skjót svör. Ef með þarf er þess óskað að umrædd fyrirspurn verði tekin fyrir á næsta fundi forsætisnefndar og að afstöðu nefndarinnar verði komið á framfæri við fyrirspyrjanda strax og hún liggi fyrir.“
Í svari Steingrím segir að þetta verði tekið fyrir ásamt öðrum tengdum erindum í forsætisnefnd á næstunni, við fyrsta hentugleika. Hann vísaði ennfremur í tilkynningu sína frá því á þriðjudag sem send var fjölmiðlum þar sem fram kom að Alþingismönnum hafi síðustu daga borist margvíslegar fyrirspurnir um greiðslur tengdar starfi þeirra á Alþingi. „Af því tilefni vill forseti Alþingis koma því á framfæri að til skoðunar hefur verið á undanförnum mánuðum, og rætt m.a. í forsætisnefnd Alþingis, að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna þannig að aðgangur að þeim verði öllum auðveldur og þær birtar á vef þingsins. Fyrir hafa legið í drögum reglur um fyrirkomulagið og hefur í þeim efnum verið horft til þess hvernig önnur þing haga upplýsingum um þessi mál. Markmiðið er að engin leynd sé yfir neinu sem varðar almenn kjör og greiðslur til þingmanna og fullkomið gagnsæi ríki. – Þingmönnum er að auðvitað í sjálfsvald sett hvaða upplýsingum þeir koma sjálfir á framfæri um sín kjör, eins og verið hefur. Alþingi hefur með markvissum hætti reynt að skapa góða umgjörð störf og kjör þingmanna, þar á meðal með siðareglum og reglum um hagsmunaskráningu þingmanna sem eru á vef þingsins. Sú aukna upplýsingagjöf sem í vændum er mun bætast þar við,“ sagði í tilkynningu forseta þingsins.
Í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun sagðist Steingrímur vilja setja upplýsingar um akstur og fastar greiðslur til þingmanna á vef Alþingis. Eins og reglurnar séu núna fylgist enginn með akstri þingmanna. „Auðvitað er það þannig að það er talsvert í höndum þingmannsins að tilgreina aksturserindið og við verðum rétt að treysta því að menn geri það samkvæmt bestu samvisku,“ sagði Steingrímur.
Birtir allan sinn ferðakostnað
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík birti í gær yfirlit yfir þann ferðakostnað sem hann hefur fengið endurgreiddan síðastliðið ár, sem var fyrsta árið hans sem þingmaður. Alls fékk hann endurgreiddar 292.197 krónur. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Andrés að umræðan um starfskostnað þingmanna undanfarna daga sé af hinu góða. „Ef þingmenn eiga að sinna starfinu af þeim metnaði sem það á skilið, þá kostar það pening. Við eigum að sinna landinu öllu, hitta fólk á ólíkum stöðum, þiggja boð á ráðstefnur og halda opna fundi. En á móti er sjálfsagt að þau útgjöld séu birt opinberlega og vonandi að fundin verði samræmd leið til þess á vegum Alþingis sem fyrst.“
Umræðan um starfskostnað þingmanna undanfarna daga er af hinu góða. Ef þingmenn eiga að sinna starfinu af þeim metnaði...
Posted by Andrés Ingi á þingi on Thursday, February 15, 2018