Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti flutningsmaður frumvarps um lækkun kosningaaldurs fyrir sveitastjórnarkosningar í 16 ár, segir að eins og mælendaskráin líti út í þinginu nú sé útlit fyrir að umræðan um málið verði lengri en tími sé til að klára í dag. „Það þýðir að við náum ekki að klára málið fyrir páskahlé og þá er orðið hæpið að við náum að lækka kosningaaldur fyrir kosningarnar í vor.“
Á Alþingi stendur nú yfir málþóf þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins til að tefja fyrir atkvæðagreiðslu um frumvarp sem mun lækka kosningaaldur úr 18 árum í 16 fyrir komandi sveitastjórnarkosningar, sem fram fara í lok maí. Ef frumvarpið yrði að lögum myndu um níu þúsund nýir kjósendur fá rétt til að taka þátt í þeim kosningum.
Öruggur meirihluti er fyrir málinu á þingi, samkvæmt viðmælendum Kjarnans. Málþóf þeirra gerir það hins vegar að verkum að ekki næst að greiða atkvæði um það. Það þýðir því að vilji minnihluta þingmanna nær fram að ganga, að minnsta kosti í bili, og 16 og 17 ára Íslendingar fá ekki að kjósa í sveitastjórnarkosningunum í lok maí líkt og stefnt var að.
Aðspurður hvort hægt sé að setja málið aftur á dagskrá eftir páskafrí segir Andrés að það þurfi að skoða það, en líklega sé þá of skammur tími til að ná málinu í gegn fyrir komandi kosningar.
Hart tekist á
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur verið hart tekist á í hliðarherbergjum Alþingis í dag um málið. Það sem gerir það flókið er að víglínan dregst ekki á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þvert á móti er um að ræða mál sem Vinstri græn lögðu fram og hafa haft forgöngu um lengi. Síðast þegar frumvarpið var lagt fram, en fékk ekki efnislega meðferð, var fyrsti flutningsmaður þess Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins og nú forsætisráðherra. Nú er, líkt og áður sagði, Andrés Ingi fyrsti flutningsmaður þess nú.
Önnur umræða um málið fór fram í gær og þar voru lagðar fram tvær breytingartillögur sem báðar miðuðu að því að gildistöku laganna yrði frestað, annars vegar til 1. janúar 2019 og hins vegar til 1. janúar 2019. Báðar þessar tillögur voru felldar.
Atkvæði féllu þannig að nær allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins, Miðflokks vildu fresta gildistökunni fram yfir næstu kosningar. Auk þess greiddu þrír þingmenn Framsóknarflokks atkvæði með því. Þessi hópur myndaði hins vegar minnihluta. Þriðja breytingatillagan sem felur í sér að gildistöku laganna verði frestað fram yfir kosningar, lögð fram af Gunnari Braga Sveinssyni þingmanni Miðflokks, bíður afgreiðslu þrátt fyrir að tvær nánast samhljóma tillögur hafi verið felldar í gær.
Málið gekk í kjölfarið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fundaði tvívegis um það í gær. Ein þeirra raka sem teflt var fram af andstæðingum þess að málið yrði samþykkt í dag var að það gæti teflt kosningum í tvísýnu. Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir að það hafi hins vegar komið skýrt fram á fundi nefndarinnar með fulltrúa dómsmálaráðuneytisins í gær að það væri ekkert við breytingu á kosningaaldri sem krefðist einhvers konar aukaframkvæmdar að hálfu ráðuneytisins. „Þetta er ekki þannig breyting. Ekki frekar en í fyrra þegar boðað var til kosninga með fimm vikna fyrirvara.“
Þingfundur mun standa til klukkan 20:00 í kvöld samkvæmt fyrirliggjandi dagskrá. Eftir það mun þingi vera slitið og þingmenn fara í páskafrí í tvær vikur.
Fylgni milli fylgis og vilja til að lækka aldurinn
Athygli vekur að þeir flokkar sem njóta mest stuðnings hjá ungu fólki eru mun meira fylgjandi því að frumvarpið verði samþykkt strax og að breytingin taki gildi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Í síðustu skoðanakönnuninni sem Gallup gerði um fylgi stjórnmálaflokka fyrir síðustu Alþingiskosningar, og birtist 27. október 2017, kom til að mynda fram að Vinstri græn nutu stuðnings 25 prósent kjósenda sem voru undir 30 ára. Stuðningur við flokkinn var langmestur í yngsta aldurshópnum og umtalsvert . Píratar nutu stuðnings 15 prósent kjósenda í þeim aldurshópi. Til samanburðar ætluðu 3-6 prósent þeirra sem voru eldri en 50 ára að kjósa Pírata. Viðreisn naut stuðnings 11 prósents kjósenda undir þrítugu en einungis fjögur prósent kjósenda sem voru yfir 60 ára ætluðu að kjósa flokkinn. Eini flokkurinn sem er í heild sinni fylgjandi breytingunni á kosningaaldrinum sem nýtur meira fylgis hjá eldri kjósendum en yngri er Samfylkingin. Það er þó þannig að 12 prósent kjósenda undir þrítugu ætluðu að kjósa þann flokk sem er meira fylgi en hann naut hjá fólki á fertugsaldri.
Flokkarnir sem eru mest á móti breytingunni, eða að minnsta kosti mótfallnir því að hún taki gildi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, eiga það allir sameiginlegt að njóta umtalsverðs meira fylgis hjá eldri kjósendum en þeim sem yngri eru. Munurinn er sýnilegastur hjá Sjálfstæðisflokki. Í könnun Gallup kom fram að 18 prósent kjósenda undir þrítugu ætluðu að kjósa flokkinn, sem er langt undir kjörfylgi hans. Að sama skapi naut hann stuðnings 28-30 prósent þeirra sem voru eldri en 40 ára. Miðflokkurinn naut stuðnings sjö prósents kjósenda undir þrítugu og Framsóknarflokkurinn naut stuðnings átta prósent ungra kjósenda. Í báðum tilvikum er það fylgi töluvert undir kjörfylgi. Í tilviki Flokks fólksins mældist stuðningur við hann hjá fólki yngra en 30 ára einungis eitt prósent í könnun Gallup.