Mynd: Birgir Þór Harðarson

Leiðréttingin átti að skila 150 milljörðum – Hefur skilað 106 milljörðum

Þegar Leiðréttingin var kynnt sögðu ábyrgðarmenn hennar að heildarávinningur hennar yrði 150 milljarðar og að hann myndi skila sér á þremur árum. Það hefur ekki gengið eftir fjórum árum síðar, fyrst og fremst vegna þess að nýting á séreignarsparnaðarúrræðis er mun minni en lagt var upp með.

Þegar næstum fjögur ár eru liðin frá því að landsmönnum var heimilað, sem hluti af Leiðréttingunni, að nota séreignarsparnað sinn til að niðurgreiða höfuðstól húsnæðislána sinna hafa rétt tæplega 45 þúsund einstaklingar kosið að gera það. Alls hafa þeir ráðstafað 44 milljörðum króna inn á húsnæðislán sín.

Í kynningu á Leiðréttingunni, stærsta máli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem fram fór í Hörpu í mars 2014 kom fram að heildarumfang hennar yrði 150 milljarðar króna. Þar af áttu 70 milljarðar króna að koma til vegna þess að landsmönnum yrði gert kleift að nota séreignasparnað sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán sín í þrjú ár, frá miðju ári 2015 og fram til 30. júní 2017.

Heimildin til að nota séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislán var framlengd í október 2016, í aðdraganda kosninga þess árs, fram á mitt sumar 2019. Þrátt fyrir að upprunalega tímabilið sé liðið og að næstum helmingur framlengingartímabilsins sé liðinn hefur einungis 62 prósent þeirrar upphæðar sem þáverandi ráðamenn þjóðarinnar sögðu að yrði ráðstafað inn á húsnæðislán með séreignarsparnaði ratað þangað.

150 milljarðar urðu 106 milljarðar

Stærri hluti upphæðarinnar, 80 milljarðar króna, átti að koma úr ríkissjóði sem millifærsla til hluta þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 til að lækka höfuðstól lána þeirra. Þegar upprunalega tímabilinu lauk var það hlutfall um 48 prósent.

Þegar liggur fyrir að nið­ur­greiðslu­upp­hæðin sem kom úr rík­is­sjóði varð ekki 80 millj­arðar heldur 72,2 millj­arðar króna. Og hún fór að að mestu til tekju­hærri og eign­ar­meiri hópa sam­fé­lags­ins.

Þeir 150 milljarðar króna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson lofuðu í Hörpu í mars 2014 urðu því að 105,8 milljörðum króna.

„Mun færri hafa kosið að nýta sér þennan möguleika“

Þegar úrræðið um að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán var kynnt var metið hversu margir gætu nýtt sér það. Niðurstaðan var sú að alls hefðu rúmlega 62.800 fjölskyldur getað nýtt sér það og þaðan er talan 70 milljarðar króna komin. 

Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og spurði hversu margir hefðu kosið að ráðstafa séreignasparnaði sínum inn á lán frá miðju ári 2014 og fram til dagsins í dag á grundvelli ofangreinds úrræðis.

Úr glærukynningu um niðurstöður Leiðréttingarinnar. Þegar þessi glæra var sýnd í nóvember 2014 lá þegar fyrir að engin sviðsmynd gerði ráð fyrir að 70 milljarðar myndu greiðast inn á höfuðstól vegna nýtingu séreignarsparnaðar.
Mynd: Skjáskot.

Í svari þess kom fram að 45 þúsund einstaklingar, ekki fjölskyldur, hafi ákveðið að ráðstafa séreignarsparnaði sínum inn á húsnæðislán með þessum hætti frá miðju ári 2014. Heildarumfang þeirrar upphæðar sem hópurinn hafi ráðstafað inn með þessum hætti væri 44 milljarðar króna. Í svari ráðuneytisins segir að ljóst sé að „mun færri hafa kosið að nýta sér þennan möguleika“ en lagt var upp með.

Tvöfaldur ávinningur

Séreignasparnaður virkar þannig að ein­stak­ling­ur­inn greiðir sjálfur hluta hans en fær við­bót­ar­fram­lag frá atvinnu­rek­anda á móti, sem félli ann­ars ekki til. Það er að meðaltali um þriðjungur þeirrar upphæðar sem ráðstafað er inn á lánið. Því felst launahækkun í söfnun séreignasparnaðar.

Auk þess felst umtalsverður skattaafsláttur í því að nýta úrræðið. Þegar Leiðréttingin var kynnt kom fram að skattafslátturinn sem ríkið myndi gefa þeim sem nýttu séreignasparnað sinn með þessum hætti myndu fá 20 milljarða króna allt í allt í skattaafslátt.

Því er um tvöfaldan ávinning að ræða: ann­ars vegar fullan skatta­af­slátt af nýt­ingu fjár­muna sem ann­ars yrðu skatt­lagðir og hins vegar launa­hækkun sem kæmi ekki til nema við­kom­andi safni sér í sér­eign­ar­sparn­að.

Skattgreiðslur sem ríkissjóður hefur gefið eftir til þess hóps sem getur og vill nýta sér séreignarsparnaðarleiðina er á bilinu 12 til 13 milljarðar króna.

Áætla má að mótframlag atvinnurekenda sem ráðstafað hefur verið inn á húsnæðislán með þessum hætti sé á milli 15 og 16 milljarðar króna. Skattgreiðslur sem ríkissjóður hefur gefið eftir til þess hóps sem getur og vill nýta sér séreignarsparnaðarleiðina er á bilinu 12 til 13 milljarðar króna.

Tekjuhærri mun líklegri til að spara séreign

Af hverju er þá ekki fleiri að nýta sér þessa leið? Lík­leg­asta skýr­ingin er sú að ansi margir telja sig ekki hafa svig­rúm til þess. Sér­eigna­sparn­aður fer nefni­lega mjög eftir tekj­um.

Í skýrslu sér­fræð­inga­hóps um höf­uð­stólslækk­un, sem skil­aði af sér í nóv­em­ber 2013 og var stýrt af Sig­urði Hann­essyni, kom fram að með­al­launa­tekjur fjöl­skyldna sem spör­uðu í sér­eign og skuld­uðu í fast­eign væri miklu hærri en með­al­launa­tekjur þeirra sem spara ekki. „Al­mennt eru tekjur þeirra sem spara í sér­eigna­líf­eyr­is­sparn­aði mun hærri en hinna sem ekki gera það,“ segir orð­rétt í skýrsl­unni. Og þar er bætt við að „tekju­mis­munur þeirra sem spara og gera það ekki er mik­ill á öllum aldri. Hér er alls staðar átt við fast­eigna­eig­endur sem skulda eitt­hvað í fast­eign­inn­i.“

Af þessu má ráða að nýt­ing sér­eign­ar­sparn­aðar til nið­ur­greiðslu hús­næð­is­lána nýtist fyrst og síðast þeim sem tilheyra tekjuhærri hópum samfélagsins. Þeir sem eru með lægri tekjur eru mun ólíklegri til að telja sig í stakk búna til að leggja fyrir séreignarsparnað, og þar af leiðandi fá þeir hvorki skattafsláttinn né viðbótarframlag atvinnurekenda sem nýtendum býðst.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar