Dymbilvika – Hvað er það?

Nú er dymbilvikan gengin í garð og páskar framundan. Að gefnu tilefni kannaði Kjarninn hvaðan orðið „dymbilvika“ kemur og hvað það þýðir.

Dymbill gæti hafa verið klukkukólfur sem var vafinn tuskum í því skyni að dempa hljóminn.
Dymbill gæti hafa verið klukkukólfur sem var vafinn tuskum í því skyni að dempa hljóminn.
Auglýsing

Páskar eru á næsta leiti og margir Íslend­ingar þegar farnir í páska­frí enda skólakrakkar komnir í frí. Páska­eggjaát og öll her­leg­heitin eru framund­an. Sunnu­dag­ur­inn fyrir páska er nefndur pálma­sunnu­dagur og markar hann upp­haf dymbil­vik­unn­ar. Jesús er sagður hafa komið til Jer­úsalem á pálma­sunnu­degi, ríð­andi á asna. Mann­fjöld­inn fagn­aði með pálma­greinum og stráum af ökrum og breiddi auk þess yfir­hafnir sínar á veg­inn. En af hverju er þessi síð­asta vika fyrir páska kölluð dymbil­vika?

Þessi vika hefur gengið undir ýmsum nöfn­um, þar á meðal dymbil­dag­ar, dymbil­daga­vika, dymbil­dæg­ur, dymbil­vika, efsta vika, helga vika, helgu dag­ar, kyrra­vika, pín­ing­ar­vika og páska­vika.

Á Vís­inda­vefnum kemur fram að orðið dymbil­dagar finn­ist í rit­uðu máli frá því laust eftir 1300 en jafn­framt segir að orðið geti að sjálf­sögðu verið mun eldra. „Merki­legt er að það kemur ekki fyrir í íslenskum lög­bók­um, hvorki í Krist­inna laga þætti Grá­gás­ar, sem var lög­tek­inn á Alþingi um 1130, né Krist­in­rétti hinum nýja (1275), og ekki heldur í Jóns­bók (1281). Gæti það bent til þess að þetta hafi í upp­hafi verið alþýðu­orð sem ekki komst í opin­ber skjöl fyrr en til­tölu­lega seint. Orðið dymbil­vika sést ekki í íslensku fyrr en í kirkju­or­din­ansíu Krist­jáns 3. frá 1537, sem Gissur biskup Ein­ars­son þýddi árið 1541,“ segir á vefn­um.

Auglýsing

Margar til­gátur um orðið „dymb­ill“

Erfitt reyn­ist að finna skýr­ingar á því af hverju dymbil­vika er kölluð þessu sér­staka nafni. Hvaðan kemur nafn­ið? Á Vís­inda­vefnum segir að talið sé að nafn­giftin sé dregin af ein­hverju áhaldi, sem kallað var dymb­ill, og notað var í kaþ­ólskum sið við guðs­þjón­ustur undir lok sjövikna­föstu, enda finn­ist hlutir með þessu heiti í upp­taln­ingu kirkju­gripa í mál­dög­um.

Þessi dymbil­orð þekkj­ast einnig í gömlum norskum og sænskum text­um, sem og í hjalt­lensku, en eiga sér enga ein­hlíta hlið­stæðu í öðrum mál­um. Í umræddri viku deyfðu menn öll ljós og hringdu ekki klukk­um.

Nokkrar til­gátur hafa komið fram um hvað þessi dymb­ill var. Í fyrsta lagi gæti verið um að ræða klukku­kólf sem var vaf­inn tuskum í því skyni að dempa hljóm­inn. Í öðru lagi tré­kólf sem settur var í kirkju­klukku í stað málm­kólfs. Í þriðja lagi bar­efli til að lemja kirkju­klukk­urnar utan og í fjórða lagi ljósa­stjaka sem stóð á kirkju­gólfi og var not­aður í stað ljósa­hjálms. Í fimmta lagi áhald til að slökkva á kert­um, sam­an­ber þýska orðið Dümp­fel og í sjötta lagi ein­hvers konar hand­skellu úr tré sem notuð var í stað málm­bjöllu við guðs­þjón­ustur á umræddum dög­um.

Dymb­ill=trétól?

Grein­ar­höf­undur Vís­inda­vefs­ins bendir enn fremur á að Hall­dór Lax­ness hafi talið dymbil vera hljóð­deyfi á strengja­hljóð­færi. Ásgeir Blön­dal Magn­ús­son greinir frá í Orð­sifja­bók sinni að orðið dymb­ill sé oft­ast talið skylt orð­inu dumbur, sem þýðir að vera þög­ull, mál­laus, hljóð­dauf­ur, en gæti eins verið í ætt við demba og dumpa, og eig­in­leg merk­ing sé þá slag­kólf­ur.

Árni Björns­son þjóð­hátta­fræð­ing­ur, sem skrifar um málið í bók sinni Sögu dag­anna, full­yrðir að afskrifa megi þrjár fyrstu hug­mynd­irnar sem nefndar eru hér að ofan. Hann skrifar að ekki hafi verið eins ill­fram­kvæm­an­legt að vefja kólfinn og skipta um kólf, en báðar þessar til­gátur eru út í hött þegar af þeirri ástæðu að klukk­urnar áttu að stein­þegja á þessum dög­um. Sama hafi verið að segja um þá aðferð að berja klukkur utan eins og alþekkt er til dæmis á Gotlandi. Slíkt hafi víðar verið gert við jarð­ar­far­ir, en ekki í dymbil­viku, alltjent ekki á mið­öld­um. Auk þess sé ekki vitað til þess að neitt sér­stakt áhald hafi verið notað til þess arna, heldur venju­leg bar­efli úr tré eða hnöttóttir steinar sem tuskum var stundum vafið um til að deyfa hljóð­ið.

Hann ritar jafn­framt að hvort sem orðið dymb­ill sé hljóð­lík­ing við lat­neska orðið tinni­bulum eða skylt orð­inu dumbur, verður að telj­ast lík­leg­ast að það eigi upp­haf­lega við um tré­tól þau sem notuð voru í stað­inn fyrir klukkur og málm­bjöllur á sorg­ar­dögum kirkj­unnar vegna písl­ar­sögu Jesú Krists. Hin hljóm­rænu umskipti í guðs­þjón­ust­unni á þessum dögum hafi ætíð þótt mjög áhrifa­mikil og eft­ir­minni­leg og hefðu hæg­lega getað gefið dög­unum alþýð­legt nafn.

„Ef­laust hefur einnig þótt eft­ir­minni­legt í guðs­þjón­ust­unni á dymbil­dögum þegar slökkt var á stórum kerta­stjökum með sér­stakri við­höfn. Við siða­skiptin hurfu tré­skell­urnar vita­skuld með öllu, en ljósa­stjak­arnir hljóta að hafa verið nýttir eftir sem áður, hvort sem haldið var áfram að slökkva á þeim eftir gömlum kúnst­ar­innar reglum eður ei. Það er því engan veg­inn úti­lokað að nafnið dymb­ill hafi færst af tré­skellum yfir á ljósa­stjaka,“ skrifar Árni.

Páskaegg

En hvert sem svarið er þá halda Íslend­ingar áfram að kalla vik­una fyrir páska dymbil­viku. Við tökum þannig við nýjum siðum og sam­lögum við þá eldri – og borðum súkkulaði.

Gleði­lega páska!

Heim­ild­ir: Vís­inda­vef­ur­inn

Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hugmynd að útliti smáhýsa eða íbúðarhúsa við Svínhóla.
Sjötíu herbergja lúxushótel í Lóni þarf ekki í umhverfismat
Stefnt er að opnun heilsulindar og hótels í landi Svínhóla á milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs árið 2022. Hótelkeðjan Six Senses mun sjá um reksturinn. Hótelið yrði í nágrenni Lónsfjarðar og byggingarmagn er áætlað 20 þúsund fermetrar.
Kjarninn 22. febrúar 2020
Matthildur Björnsdóttir
Að vera útlendingur – Víðara hugtak en við höldum
Kjarninn 22. febrúar 2020
Sönnun þess að hægt er að skrifa um myndlist á lifandi og áhrifaríkan hátt
Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir skrifar um bókina Vetrargulrætur.
Kjarninn 22. febrúar 2020
Gylfi Sigurðsson er stærsta íslenska stjarnan í enska boltanum, sem Síminn keypti sýningarréttinn að í fyrra. Hann leikur með Everton.
Tekjur Símans af sjónvarpsþjónustu jukust um 818 milljónir í fyrra
Áhrif kaupanna á sýningarrétti enska boltans, og þeirra breytinga sem Síminn réðst í samhliða innleiðingu hans í sjónvarpsþjónustu sína, eru afar áberandi í uppgjöri félagsins fyrir síðasta ár.
Kjarninn 22. febrúar 2020
Algjörlega tilbúinn í hið pólitíska at sem fylgir því að stýra RÚV
Stefán Eiríksson segist að sjálfsögðu hafa sínar pólitísku skoðanir og lífsviðhorf, en sé ekki tengdur neinum stjórnmálaflokkum og með góða reynslu af því að takast á við stjórnmálamenn.
Kjarninn 22. febrúar 2020
Svandís Svavarsdóttir
Sjúklingar borga minna
Kjarninn 22. febrúar 2020
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður segir Samtök iðnaðarins í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum
Forstjóri Landsvirkjunar spyr hvort meirihluta aðildarfélaga Samtaka iðnaðarins sé samþykkur því að íslenska þjóðin gefi 20-30 milljarða króna til nokkurra alþjóðlegra stórfyrirtækja með því að hætta að selja upprunaábyrgðir.
Kjarninn 22. febrúar 2020
Kórónaveiran breiðist út – Viðbúnaður aukinn í Bandaríkjunum
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur lýst því yfir, að nauðsynlegt sé að auka viðbúnað til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.
Kjarninn 21. febrúar 2020
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar