Megrunarkúr danska útvarpsins

Á næstu árum minnka fjárveitingar til danska útvarpsins, DR, um samtals 20% prósent. Fjármálaráðherrann kallar þetta megrunarkúr, stjórnarandastaðan aðför.

Höfuðstöðvar DR í Kaupmannahöfn.
Höfuðstöðvar DR í Kaupmannahöfn.
Auglýsing

Þegar nýr rekstrarsamningur dönsku ljósvakamiðlanna tekur gildi í ársbyrjun 2019 verður hann talsvert breyttur frá núverandi samningi. Rekstrarsamningar þessir hafa verið til fjögurra ára í senn, núverandi samningur var gerður í stjórnartíð Helle Thorning-Schmidt, árið 2014. Sá samningur var gerður með svonefndu „breiðu samkomulagi“ sem þýðir að meirihluti stjórnarandstöðunnar studdi hann.

Danska ríkisútvarpið hóf útsendingar 1. apríl 1925, og hét þá Statsradiofonien. Sjónvarpsútsendingar hófust árið 1951 og í upphafi var sent út þrisvar í viku. Árið 1959 var nafninu breytt í Danmarks Radio, DR. Frá upphafi hefur DR verið fjármagnað með afnotagjaldi, sem var í byrjun 10 krónur á hvert heimili í landinu og var óbreytt til ársins 1949. Þessu verður nú breytt, afnotagjaldið hverfur en þess í stað tekinn upp svonefndur nefskattur. Hann er, einsog heitið gefur til kynna, einstaklingsskattur sem allir er náð hafa 18 ára aldri greiða, með ákveðnum undantekningum fyrir aldraða. Breytingin hefur í för með sér að einstaklingur sem býr einn borgar lægra gjald en á meðan afnotagjaldið (sem miðaðist við heimili) var við lýði. Tveir sem búa saman borga svipað og heimilið gerði áður, ef þrír, eldri en 18 ára, eru í heimili verður samanlagður nefskattur þeirra hærri en afnotagjaldið var. Nefskatturinn á að koma í veg fyrir að einstaklingar geti komið sér hjá að borga en allstór hópur fólks, skiptir tugum þúsunda, hefur ekki greitt afnotagjaldið. Afnotagjaldið, sem ekki rennur óskipt til DR, verður á þessu ári dkr. 2.527. – (ca 42 þús. íslenskar), af þessari upphæð er söluskatturinn kr. 505.- (8.340.-). Til DR fara kr. 1.684.- (27.820.-), afgangur  rennur til svæðisstöðva, kvikmyndasjóðs og afmarkaðra verkefna.

Nefskattur og niðurskurður

Deilur um DR eru ekki nýjar af nálinni. Árið 2007 var niðurskurði og uppsögnum harðlega mótmælt. Mynd: EPA.Breytingin úr afnotagjaldi í nefskatt á ekki að breyta miklu varðandi tekjurnar ríkisins. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður nefskatturinn hjá einstaklingi dkr. 1.285.- ( 21.160.- ). Framlagið til DR minnkar, einsog áður sagði um 700 milljónir (20%) á næstu fimm árum, framlög til annarrar fjölmiðlastarfsemi, sem áður komu frá afnotagjaldinu haldast nær óbreytt. Mismunurinn (niðurskurðurinn hjá DR) gengur að stærstum hluta móti horfnum söluskatti (enginn söluskattur á nefskattinum) en afgangurinn á að gagnast ellilífeyrisþegum og einnig verður hluta upphæðarinnar varið í að styrkja aðra fjölmiðlastarfsemi, einsog það var orðað í tilkynningu ríkisstjórnarinnar. Dönskum fjölmiðlamönnum þótti athyglisvert að það var Kristian Jensen fjármálaráðherra sem kynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar (með stuðningi Danska þjóðarflokksins DF) en ekki Mette Bock menningarmálaráðherra en málefni fjölmiðla heyra undir hana. Ráðherrarnir sögðu að DR ætti að verða hnitmiðaðra en það er í dag og menningarmálaráðherrann sagði að DR ætti að vera viti, bara minni en núna. Nefndi ekki að minni viti lýsir skemmra út á alþjóðahaf fjölmiðlunarinnar. Blaðamaður Information sagði að erlendir fjölmiðlarisar væru ugglaust mjög ánægðir með þau sóknarfæri sem þeir sæju framundan.

Auglýsing

Vildi skera meira

Danski þjóðarflokkurinn, vildi skera framlög til DR niður um 25%. Þar á bæ vissu menn að þá kröfu myndu stjórnarflokkarnir (sem reiða sig á stuðning DF) ekki samþykkja og Peter Skaarup þingflokksformaður DF gat ekki leynt ánægju sinni þegar ákvörðun ríkisstjórnarinnar var kynnt. DF hefur lengi haft horn í síðu DR og margoft sakað stofnunina um að vera flokknum andsnúið í fréttaflutningi.

Skattalækkanir – Skattahækkanir

Þegar fjármálaráðherrann kynnti breytingarnar og fyrirhugaðan niðurskurð á framlagi til DR lagði hann mikla áherslu á að breytingin væri líka skattalækkun. Skattalækkun sem kæmi mörgum til góða. Ráðherrann nefndi þar tölur máli sínu til stuðnings.  Síðastliðinn föstudag, nokkrum dögum eftir að ráðherrann kynnti breytingarnar, sendi Rannsóknarstofnunin Cepos (sjálfstæð stofnun, tænketank) frá sér álitsgerð þar sem niðurstaðan er þveröfug. Breytingin leiði, þegar litið er til lengri tíma, til skattahækkana. Cepos er virt stofnun og þegar greint var frá niðurstöðum hennar brugðust talsmenn Danska Þjóðarflokksins og Frjálsræðisbandalagsins (eins ríkisstjórnarflokkanna) strax við og sögðu að líklegast væri rétt að fara betur í saumana á þessu máli öllu. Þeir sögðu jafnframt að ef í ljós kæmi að niðurstaða Cepos væri rétt yrði að skoða allt varðandi nefskattsbreytinguna upp á nýtt.

Stjórnarandstaðan

Innan stjórnarandstöðuflokkanna eru skoðanir skiptar. Sósíaldemókratar, stærsti flokkurinn á þingi, höfðu lýst sig hlynnta því að dregið yrði úr umfangi DR, en ekkert í líkingu við það sem nú virðist blasa við. Ríkisstjórnin hefur boðið stjórnarandstöðuflokkunum að taka þátt í samstarfi um nýja rekstrarsamninginn, með því skilyrði að þeir samþykki 20% niðurskurðinn. Fyrir stjórnina er mikilvægt að stjórnarandstaðan standi að samningnum því það þýðir að ekki verður hróflað við samningnum út gildistímann, fram til ársins 2023. Ef stjórnarandstaðan stendur ekki að samningnum er hún óbundin af honum ef stjórnarskipti verða eftir næstu kosningar sem að óbreyttu verða á næsta ári. Svo skammt er um liðið síðan ákvörðunin um niðurskurðinn var tilkynnt að ekki er ljóst hvað stjórnarandstaðan gerir. Stjórnmálaskýrandi dagblaðsins Berlingske sagði að nú færi kannski tími pólitískra hrossakaupa í hönd og þá gæti það til dæmis gerst að samið yrði um minni niðurskurð gegn stuðningi Sósíaldemókrata við samninginn.

Hvað gerir DR?

Þessari spurningu er auðsvarað: það veit enginn. Á þessu ári hefur DR til ráðstöfunar um það bil 3.8 milljarða danskra króna (62.6 milljarðar íslenskir) en sú upphæð lækkar semsagt, í áföngum niður í 3.1 milljarð (51 milljarð íslenskan) á næstu árum. Þetta eru miklir peningar en rétt er að geta þess í leiðinni að DR hefur engar tekjur af auglýsingum.

Fyrir þessa peninga rekur DR sex sjónvarpsrásir, átta útvarpsrásir og auk þess margverðlaunaðar hljómsveitir og kóra. Tvær sjónvarpsrásanna eru ætlaðar börnum upp að tólf ára aldri og Danski Þjóðarflokkurinn gerði að skilyrði varðandi niðurskurðinn að ekki yrði hróflað við barnaefninu, þar yrði ekki skorið.

Mynd: Wiki CommonsMestu útgjöldin tengjast aðalsjónvarpsrásinni, DR1. Þar er daglegur úsendingartími lengstur, þar eru „stóru“ dönsku þáttaraðirnar sýndar. Í stuttu máli sú rás sem mest er lagt í, enda sú sem lang flestir horfa á.  

Í viðtölum hefur útvarpsstjórinn, Marie Rørbye Rønn, sagt óhjákvæmilegt að jafn mikill niðurskurður og ríkisstjórnin stefnir að komi niður á dagskránni. Ein af röksemdum Danska þjóðarflokksins fyrir niðurskurðinum er að DR eigi ekki að eyða miklu fé í skemmtiefni, það geti aðrir fjölmiðlar gert jafn vel. Útvarpsstjórinn segir að þjóðarsjónvarp eigi að vera fyrir alla, þar eigi að vera frétta- og fræðsluefni af öllu tagi, þjóðfélagsumræða, innlendar og erlendar kvikmyndir og skemmtiefni. ,,Þessa blöndu kalla ég almannaþjónustu“ sagði útvarpsstjórinn.  

DR er hornsteinn í samfélaginu  

Í dönskum fjölmiðlum hefur undanfarna daga mikið verið fjallað um DR og hvernig stofnunin muni takast á við þessar miklu breytingar sem í vændum eru. Margir hafa bent á að þeir sjónvarpsmyndaflokkar sem hafi orðið vinsælir víða um heim hafi nær allir orðið til fyrir tilstilli DR. Hafi komið Danmörku á sjónvarpsheimskortið eins og margir hafa nefnt. Per Stig Møller fyrrverandi menningarmála- og utanríkisráðherra Íhaldsflokksins  sagði í blaðaviðtali að DR væri ekki gallalaust. Þar mætti ýmislegt betur fara En stofnunin væri, og hefði alla tíð verið, einn af hornsteinunum í dönsku samfélagi og ætti að vera það áfram. Í skoðanakönnunum hafa Danir árum saman tekið undir það viðhorf.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar