Hvað?
Lokakaflinn í fléttunni um framtíð Arion banka, eina stóra viðskiptabankans á Íslandi sem er ekki að meirihluta í ríkiseigu, stendur nú yfir.
Hann hófst þegar lífeyrissjóðum landsins var boðið að kaupa allt að fimm prósent hlut í bankanum. Sjóðirnir höfðu til 12. febrúar að svara tilboðinu. Þeir sögðu pass hver á fætur öðrum.
Í kjölfarið var þeim skilaboðum komið til Bankasýslu ríkisins að vilji væri hjá Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðir eru stærstu hluthafarnir, að virkja kauprétt á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka og greiða um 23 milljarða króna fyrir 13 prósent hlut ríkisins.
Samhliða fór fram stjórnarfundur hjá Kaupþingi sem, samkvæmt heimildum Kjarnans, stóð fram á nótt. Niðurstaða hans var meðal annars sú að tveir af erlendum hluthöfum bæði Kaupþings og Arion banka, Attestor Capital og fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, myndu kaupa 2,8 prósent hlut í Arion af Kaupþingi til viðbótar við það sem þeir áttu. Auk þess keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna.
Af hverju?
Ástæða þess að salan á hlutnum var keyrð í gegn þennan dag var einföld: þá var hægt að miða kaupverðið við níu mánaða uppgjör Arion banka. Miðað við það er verðið sem greitt var fyrir 0,805 krónur á hverja krónu af eigin fé sem bankinn á. Ef verðið hefði farið niður fyrir 0,8 krónur hefði forkaupsréttur ríkisins á hlutnum virkjast. Ef viðskiptin hefðu farið fram 14. febrúar hefði það gerst.
15. febrúar var samþykkt að Arion banki myndi kaupa 9,5 prósent hlut í sjálfum sér af Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings, stærsta eiganda bankans. Um er að kaup á eigin bréfum í samræmi við ákvörðun hluthafafundar. Til viðbótar var greidd arðgreiðsla upp á 7,9 milljarða króna.
Hver var niðurstaðan?
Mikil pólitísk átök urðu um ofangreindar vendingar. Hluti þingmanna vildi að stjórnvöld myndu grípa inn í ferlið með einhverjum hætti, annað hvort með því að nýta forkaupsrétt sinn á hlutum í Arion banka eða með því að hafna nýtingu Kaupþings á kaupréttinum á hlut ríkisins. Stjórnvöld töldu hvorugt gerlegt, enda engar forsendur til staðar til nýtingar á forkaupsréttinum og nýting kaupréttar í samræmi við gerða samninga. Auk þess er það skoðun margra ráðamanna að æskilegt sé að ríkið selji að minnsta kosti hluta þeirra bankaeigna sem það á.
Allt er þetta hluti af skráningarferli Arion banka. Fram undan er nefnilega tvíhliðaskráning Arion banka á markað, hérlendis og í Svíþjóð. Enn er stefnt að því að sú skráning fari fram í apríl. Í aðdraganda hennar mun fara fram hlutafjárútboð þar sem Kaupþing mun bjóða til sölu hluta af eign sinni í bankanum.
Í aðdraganda skráningar er eignarhald Arion banka nú mjög breytt frá því sem það var í upphafi árs. Kaupþing, vogunarsjóðir sem eru ráðandi innan þess félags og Goldman Sachs eiga nú 87,95 prósent í Arion banka. Bankinn á sjálfur 9,5 prósent hlut sem væntanlega verður færður niður á næstunni og íslenskir fjárfestingasjóðir eiga 2,54 prósent.