Gamla Reykjavík gegn úthverfunum
Sitjandi meirihluti í borginni ásamt Viðreisn nýtur fylgis um 60 prósent kjósenda og sækir miklu meira fylgi í gömlu hverfi borgarinnar en til þeirra nýju. Flokkarnir í minnihluta og aðrir með sambærilegar áherslur mælast með tæplega 40 prósent fylgi og njóta mest stuðnings í efri byggðunum.
Sitjandi meirihluti í borginni ásamt Viðreisn nýtur fylgis um 60 prósent kjósenda og sækir miklu meira fylgi í gömlu hverfi borgarinnar en til þeirra nýju. Flokkarnir í minnihluta og aðrir með sambærilegar áherslur mælast með tæplega 40 prósent fylgi og njóta mest stuðnings í efri byggðunum.
Ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Morgunblaðið um fylgi flokka í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar staðfestir mjög skýra víglínu sem dregist hefur upp í höfuðborginni. Og hefur verið nær óhreyfð til staðar frá því í kosningunum 2014. Sú víglína er dregin á milli úthverfa borgarinnar, hinna svokölluðu efri byggða, og þéttari hluta hennar, því sem kalla má eldri hverfi Reykjavíkurborgar. Tvær fylkingar stjórnmálaflokka hafa orðið til sem sækja aðallega fylgi sitt til sitt hvorar hliðar þeirrar víglínu.
Fylgið færist á milli flokka sem tilheyra fylkingum með sambærilegar áherslur í borgarmálum en lítið sem engin færsla er á fylgi milli fylkinga. Þannig er Samfylking nú orðin stærsti flokkurinn í Reykjavík og mælist með nánast sama fylgi og hún fékk í kosningunum 2014, eða 31,7 prósent. Það viðbótarfylgi virðist vera að færa sig frá þeim flokkum sem sitja með Samfylkingunni í meirihluta í borginni í dag. Hún hefur til að mynda tekið til sín um helming þeirra sem kusu Bjarta framtíð fyrir fjórum árum, þegar sá flokkur fékk 15,6 prósent atkvæða, og fylgi sem verið hefur hjá Vinstri grænum undanfarin misseri.
Í hinni fylkingunni er turninn Sjálfstæðisflokkur. Hann mælist með 27,4 prósent fylgi og samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar er einfaldlega um kjarnafylgi flokksins að ræða. Hann missir lítinn hluta kjósenda frá síðustu kosningum yfir til Viðreisnar annars vegar og Miðflokksins hins vegar en að öðru leyti virðast flestir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn 2014 ætla að gera það aftur.
Undanfarin fjögur ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í minnihluta með Framsóknarflokknum sem bætti óvænt við sig töluverðu fylgi á lokametrum síðustu kosninga og náði inn tveimur borgarfulltrúum. Samkvæmt könnunum nú bendir fátt til þess að Framsókn nái inn manni og að þeir sem kusu flokkinn síðast munu að mestu kjósa Miðflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum.
Þá er ljóst að langstærstur hluti kjósenda vill fá annan hvorn leiðtoga turnanna tveggja í Reykjavík, Samfylkingar eða Sjálfstæðisflokks, sem næsta borgarstjóra. Í könnun Félagsvísindastofnunar kom fram að 464 prósent aðspurðra sem tók afstöðu vildu Dag. B. Eggertsson áfram í embætti borgarstjóra en tæplega 29,5 prósent aðspurðra vildu Eyþór Arnalds í borgarstjórastólinn. Næsti oddviti á lista var Vigdís Hauksdóttir, sem leiðir Miðflokkinn, með 7,1 prósent stuðning í embættið.
Snjókornin bæta við sig
Líkt og kom fram í fréttaskýringu Kjarnans í febrúar þá má segja að önnur fylkingin, sú sem er nú við völd, samanstandi af flokkum sem skilgreina sig annað hvort sem frjálslynda eða til vinstri. Þeir hafa lagt hafa áherslu á þéttingu byggðar, auknar almenningssamgöngur á borð við Borgarlínu og greiðari umferð fyrir hjólandi vegfarendur, jafnt út frá lífsgæðasjónarmiðum sem umhverfislegum. Innan þessa hóps er það nokkuð almenn skoðun að Reykjavíkurflugvöllur eigi að víkja úr Vatnsmýrinni fyrir byggð. Fylkingin er með sterkar félagslegar áherslur sem endurspeglast meðal annars í útþenslu stjórnkerfisins og uppkaupum á félagslegu húsnæði langt umfram það sem þekkist í nágrannasveitafélögunum.
Þessi fylking samanstendur nú af Samfylkingu, Vinstri grænum, Pírötum og Viðreisn, sem hefur fyllt inn að hluta í það tómarúm sem Björt framtíð skildi eftir sig. Þannig segjast 23,5 prósent þeirra sem kusu Bjarta framtíð síðast nú ætla að kjósa Viðreisn en einungis 5,2 prósent þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn 2014 ætla að kjósa Viðreisn, þrátt fyrir að um klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum sé að ræða. Það sýnir að áherslur Viðreisnar eru að höfða mun betur til annarra en þeirra sem hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.
Þegar pólitískir andstæðingar þessa hóps vilja alhæfa um hann þá kalla þeir hann „góða fólkið“. Í Bandaríkjunum er sami hópur ítrekað kallaður „snjókorn“ (e. snowflakes) vegna meintrar viðkvæmni hans. Orðatiltækið er tekið úr skáldsögunni Fight Club eftir Chuck Palahniuk og er notað á niðrandi hátt um þá sem móðgast fyrir hönd annarra, telja sig sérstakari en aðrir og eru ekki jafn harðgerir og fyrri kynslóðir.
Í könnun Félagsvísindastofnunar sem birt var fyrir helgi mælist samanlagt fylgi „snjókorna-flokkanna“ 59,5 prósent. Það er nánast saman fylgi og þeir flokkar sem nú mynda meirihluta í Reykjavík: Samfylking, Píratar, Björt framtíð og Vinstri græn, fengu í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2014. Þá fengu þeir flokkar 61,7 prósent atkvæða.
Ef gert er ráð fyrir því að Viðreisn muni taka stöðu Bjartrar framtíðar í stjórnmálamynstri borgarinnar, sem verður að teljast líklegt í ljósi líkra pólitískra áherslna flokkanna tveggja og þeirri staðreynd að fólk sem áður bauð fram undir merkjum Bjartrar framtíðar er nú á framboðslista Viðreisnar, þá virðist því mikill stöðugleiki í fylginu. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið gerði sumarið 2017 mældist það 61,4 prósent. Í könnun sem Gallup gerði fyrir sama miðil í byrjun febrúar 2018 mældist fylgið 61,1 prósent. Í mars var það 59,9 prósent Og nú, líkt og áður sagði, tæplega 59,5 prósent.
Í dag er sitjandi meirihluti í Reykjavíkurborg með níu af 15 borgarfulltrúum. Þeim verður fjölgað í 23 eftir næstu kosningar og samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar munu Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn fá 15 þeirra. Raunar er staðan þannig að Samfylking gæti myndað þriggja flokka meirihluta með einhverjum hinna tveggja flokkanna ef vilji væri fyrir því.
Fylking föst með undir 40 prósent fylgi
Hin fylkingin, sem samanstendur af íhaldssamari flokkum og nýjum flokkum sem náðu inn á þing í síðustu þingkosningum, hefur lagt megináherslu á betra umferðarflæði þar sem einkabíllinn er í fyrirrúmi, byggingu stórtækra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót, frekari uppbyggingu húsnæðis í útjaðri borgarinnar, straumlínulögun rekstrar, lækkun skulda og skatta. Þar er nokkuð almenn andstaða við það að Reykjavíkurflugvöllur víki og Borgarlínuverkefnið er verulega tortryggt. Henni finnst að megináherslan eigi að vera á að bæta grunnþjónustu á borð við dagvistun barna og betri umhirðu í borgarlandinu.
Sjálfstæðisflokkurinn er óumdeilanlega stóra stoðin í þessari fylkingu. Henni tilheyra þó líka Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn. Samanlagt fylgi þeirra flokka úr þessu mengi sem náðu inn manni í kosningunum 2014 var 36,4 prósent. Í könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið í mars mældist það 39 prósent og í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem birt var fyrir helgi mældist það 38,2 prósent.
Það að flokkarnir sem skipta á milli sín fylginu séu nú fjórir í stað tveggja, og að nær algjör endurnýjun hafi orðið á lista Sjálfstæðisflokks með kjöri m.a. Eyþórs Arnalds sem leiðtoga og uppstillingu Hildar Björnsdóttur í annað sæti listans, hefur litlu sem engu breytt um hverju flokkarnir sópa til sín. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist t.d. nú 27,4 prósent sem er 1,7 prósentustigi meira en hann fékk í kosningunum 2014.
Samtals mælist þessi fylking með átta borgarfulltrúa í könnun Félagsvísindastofnunar. Þar af myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá sjö en Miðflokkurinn, með Vigdísi Hauksdóttur í broddi fylkingar, einn. Hvorki Framsókn né Flokkur fólksins næði inn fulltrúa.
Vert er að taka fram að þegar hefur verið tilkynnt um framboð sem eru ekki farin að mælast í könnunum sem neinu skiptir. Það gæti þó breyst þegar líður að kosningum. Annað þeirra er framboð Sósíalistaflokks Íslands, sem verður að teljast líklegt að muni taka fylgi fram vinstriflokkum ef vel gengur, og hitt er Höfuðborgarlistann sem tilkynnti um framboð seint í mars og erfiðara er að staðsetja innan fylkinga.
Mikill munur milli austurs og vesturs
Könnun Félagsvísindastofnunar staðfestir einnig tilfinningu sem hefur verið mjög sterk á meðal þeirra sem rýna í borgarmálin: að fylking frjálslyndu miðjuflokkanna og vinstriflokka sæki fylgi sitt í „gömlu Reykjavík“ en að íhaldssamari flokkar njóti mun meiri stuðnings í úthverfunum.
Í könnuninni kemur til að mynda fram að Samfylkingin njóti stuðnings 36-42,6 prósent kjósenda í Vesturbæ, Hlíðarhverfi, Laugardal og Miðborg. Í Grafarholti, Úlfarsárdal og Kjalarnes mælist stuðningur við flokkinn hins vegar 20- 22,3 prósent.
Að sama skapi nýtur Sjálfstæðisflokkurinn yfirburðarstuðnings á meðal íbúa í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi og Árbæ. Þar segjast 36-42,1 prósent ætla að kjósa flokkinn. Í Vesturbæ ætla hins vegar einungis 12,1 prósent að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 17,9 prósent í Hlíðarhverfi.
Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn mælist líka með mun meiri stuðning í efri byggðunum en í þéttari byggðum borgarinnar. Sem dæmi segjast 1,1 prósent íbúa Miðborgarinnar ætla að kjósa Framsókn og 3,4 prósent Miðflokkinn. Í Grafarholti, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi er fylgi Framsóknar hins vegar 6,8 prósent og Miðflokksins 9,5 prósent.