Fílaeigendur í fýlu

Fyrir nokkrum dögum náðu dönsku stjórnarflokkarnir ásamt Sósíaldemókrötum og Danska þjóðarflokknum samkomulagi um að fílar, sæljón og sebrahestar verði bönnuð í dönskum fjölleikahúsum. Fjórir fílar sem tvö fjölleikahús eiga fá þó tímabundið „starfsleyfi“.

Fílar í sirkús Mynd: Wiki Commons
Auglýsing

Upphaf sirkusanna er rakið til þess að árið 1768 auglýsti breski reiðskólakennarinn Philip Astley sýningu sem hann kallaði „Kúnstir á hestbaki“. Philip Astley var fyrrverandi hermaður og þekkti vel til hesta. Sýningarnar fóru fram í suðurhluta Lundúna. Astley hafði reiknað út að heppilegast væri að hafa svæðið hringlaga, um það bil þrettán metra í þvermál. 

Þegar hestarnir væru látnir hlaupa í hring nýttist miðflóttaaflið knapanum best til að sýna „kúnstirnar“. Astley kallaði sýningarsvæðið Amphitheatre en Charles Hughes, keppinautur hans í sýningarhaldinu, nefndi sitt svæði, sem hann opnaði 1782, Royal Circus, með tilvísun í hinn forna leikvang í Róm, Circus Maximus (Circo Massimo). 

Orðið circus (á dönsku cirkus, sirkus eða fjölleikahús á íslensku) festist fljótt í sessi. Sýningar Astley og síðar Hughes og annarra urðu mjög vinsælar og einskorðuðust ekki við „kúnstir á hestbaki“. Hundar, fuglar, fílar, sæljón, ljón og tígrisdýr, áðurnefndir hestar og fleiri dýrategundir (ekki þó kettir sem láta lítt að stjórn) hafa lengstum þótt ómissandi hluti sýninganna ásamt fimleikafólki, töframönnum og trúðum.

Auglýsing

Fyrstu sirkussýningar í Danmörku

Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um fyrstu sirkussýningar í Danmörku en vitað er að árið 1799 kom þangað breskur sirkusflokkur og sýndi listir sínar. Tívolíið í Kaupmannahöfn var opnað árið 1843 og tólf árum síðar var reist þar „sirkustjald“. Nokkru fyrr hófust sirkussýningar á Dyrehavsbakken (Bakken) sem er elsti skemmtigarður í heimi, opnaður 1583. Danir hafa lengstum verið miklir áhugamenn um sirkus og Sirkusbyggingin í Kaupmannahöfn er sögð sú elsta í heimi, byggð 1886 en síðar endurbyggð eftir bruna. Byggingin er friðuð, var lengst af eingöngu notuð til sirkussýninga en er í dag notuð til margs konar sýninga- og skemmtanahalds.

Dyrehavsbakken sirka árið 1825.

Sirkusum fækkar

Á nítjándu öld og langt fram eftir þeirri tuttugustu nutu sirkusar mikilla vinsælda víða um heim. Sirkusflokka, sem ferðuðust um, var beðið með spenningi enda úrval afþreyingarefnis minna en síðar varð. Á allra síðustu áratugum hefur sirkusflokkum í flestum löndum fækkað, nokkrir af elstu og þekktustu sirkusum í Danmörku hafa lagt upp laupana, Cirkus Benneweis þeirra þekktastur. 

Ástæður þess að sirkusum hefur fækkað eru fyrst og fremst þær að allur tilkostnaður hefur aukist mjög en aðsóknin á sama tíma dalað. Aðdráttaraflið er ekki það sama og áður var. Í dag eru sex sirkusar í Danmörku, þeir eiga það sameiginlegt að starfa einungis á sumrin og ferðast þá um landið þvert og endilangt. Cirkus Arena er langstærstur, hefur sæti fyrir 1750 áhorfendur í tjaldinu.

Breytt viðhorf gagnvart dýrunum

Áratugum saman voru dýrin eitt helsta aðdráttarafl sirkusanna. Að sjá tígrisdýr stökkva gegnum logandi hring, sæljónin dansa með stóran bolta á trýninu, fílana leika þunglamalegar listir sínar og hundana með sínar hundakúnstir. Allt þetta og margt fleira var það sem mörgum, einkum yngri kynslóðinni þótti mest spennandi við sirkusheimsóknina. Lengi vel veltu fáir fyrir sér hlutskipti dýranna sem máttu búa við ófrelsi og oft á tíðum lakar aðstæður, allt þeirra líf langt frá því sem eðlilegt gæti talist. 

Um og upp úr miðri síðustu öld óx dýraverndarsamtökum víða um heim fiskur um hrygg og þau beindu sjónum sínum meðal annars að sirkusum. Árið 1962 tóku gildi breytingar á dönskum dýraverndarlögum, með þeim var lagt bann við að rándýr og flest villt dýr skyldu bönnuð í sirkusum. Fílar voru undanskildir og sömuleiðis sæljón og sebrahestar. Þetta hafði í för með sér miklar breytingar á starfsemi sirkusanna sem nú lögðu æ meiri áherslu á skemmtiatriði þar sem dýr komu ekki við sögu.

Sebrahestar í sirkús Mynd: Wiki Commons

Húsdýr áfram leyfð og fjórir fílar á undanþágu

Samkvæmt samkomulagi danskra þingmanna, og minnst var á í upphafi þessa pistils verða dýr, önnur en húsdýr nú bönnuð í sirkusum í Danmörku. Þetta kom sirkushöldurum ekki beinlínis á óvart, hafði legið í loftinu. Tveir danskir sirkusar eru með fíla sem taka þátt í sýningunum, þeir fá ótímabundna undanþágu til ,,starfa“. Cirkus Arena er með þrjá fíla, allt kýr. Þær heita Djungla, Jenny og Lara og eru í kringum þrítugt en fílar geta náð að minnsta kosti 70 ára aldri. Fjórði sirkusfíllinn í Danmörku er í eigu Cirkuz Trapez. Það er líka kýr, hún er 35 ára gömul og heitir Ramboline, skírð eftir kvikmyndapersónunni Rambo sem, eins og margir vita, var leikinn af Sylvester Stallone. Þótt þessar fjórar fílafrúr eigi, ef allt verður með felldu, enn langt líf fyrir höndum er ekki þar með sagt að þær verði áfram um áratugaskeið í „sirkusbransanum“.

Talsmaður Cirkus Arena sagði í blaðaviðtali að þær Djungla, Jenny og Lara ættu ekki mörg ár eftir í sirkusnum „kannski fimm til sex“. Þær hafa yfir vetrarmánuðina verið leigðar til sirkuss á Ítalíu og eru því „í vinnu“ allt árið. Þegar Cirkus Arena fékk undanþáguna til að hafa fílana áfram fylgdu því skilyrði um betri umhirðu og aðbúnað og talsmaður sirkussins sagði blaðamönnum að þeir Arena menn væru fúlir yfir þessari aðfinnslu, fílarnir hefðu það gott „fyrir hönd fílanna erum við í fýlu“. 

Ramboline hjá Cirkus Trapez er hinsvegar í fríi allan veturinn, þá dvelur hún á bændabýli við Sommersted á Jótlandi þar sem hún unir sér vel og eigendur sirkussins sjá um að hún stundi nauðsynlega líkamsrækt, haldi sér í formi. Ramboline sjálf hefur takmarkaðan áhuga á ræktinni en veit að alltaf leggst líkn með þraut, eftir ræktina fær hún nefnilega stórt bananaknippi. Hún hefur verið í sirkus í þrjá áratugi. Eigandinn, Bernhard Kaselowsky segir að þegar daginn fari að lengja á vorin og fuglasöngurinn eykst viti Ramboline að nú fari „vertíðin“ að byrja. 

Að þessu sinni verður fyrsta sýning Cirkus Trapez 12. apríl.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar