„Breiðfylking kvenna hittist í dag og ákvað að bjóða fram í borginni í vor. Markmið framboðsins er að setja femínísk málefni á oddinn í Reykjavík. Kvennaframboðið er umfaðmandi afl sem mun styðja við öll þau mikilvægu réttlætismál sem teljast femínísk.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kvennaframboðinu, en framboðið er innblásið af #MeToo og þeim miklum samfélagslegu áhrifum sem það hefur haft. „Innblásnar af kraftmiklum hreyfingum eins og #MeToo, #karlmennskan, hræringum í stéttarbaráttunni og eigin reynsluheimi ætlum við að bjóða fram afl sem boðar aðgerðir í málefnum sem tryggja öryggi, aðgengi og áhrif allskonar kvenna og jaðarsettra hópa í samfélaginu,“ segir í tilkynningunni.
Kvennaframboð er ávöxtur uppbyggingarvinnu sem farið hefur fram í kjölfar baráttufundar kvenna á Hótel Sögu í október síðastliðnum, en einn skipuleggjenda þess fundar var Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Á fundinum hittist stór hópur kvenna í „réttlátri reiði yfir því bakslagi sem varð í jafnrétti eftir Alþingiskosningarnar í október síðastliðnum“ eins og segir í tilkynningu.
„Þrátt fyrir að kynferðisofbeldismál hafi sprengt síðustu ríkisstjórn og kosningarnar farið fram í miðri #MeeToo byltingu, einni áhrifamestu kvennabyltingu okkar tíma, komust femínísk málefni varla á dagskrá í kosningabaráttunni. Við erum hér til að sjá til þess að slíkt gerist ekki aftur. Við erum hér til að sýna fram á að það er ekki áhugaleysi kvenna á stjórnmálum sem veldur því að konum fækkaði á Alþingi í vor. Byltingar eru undanfari breytinga. Þær hafa fært okkur ógrynnin öll af upplýsingum um reynsluheim allskonar fólks en það skiptir öllu hvernig við nýtum þessar upplýsingar til að skapa öruggara og betra samfélag. Við lýsum okkur reiðubúnar til að leiða þá vinnu,“ segir í tilkynningunni.
Laugardaginn 14. apríl verður boðað til framhaldsstofnfundar þar sem konur með áhuga á þátttöku í sveitarstjórnarmálum eru hvattar til að mæta. Kosið verður 26. maí.