Mynd: Birgir Þór Harðarson

Réði menn í vinnu til gera varnarsíður og safna upplýsingum um blaðamenn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson réð tvo menn til að setja á fót varnarsíður fyrir sig og til að safna upplýsingum um hvaða blaðamenn væru að skrifa hvað og hverjir þeirra væru Sigmundi Davíð erfiðastir. Framsóknarflokkurinn neitaði að borga fyrir vinnuna.

Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra í end­ur­komu­hug réð almanna­tengil sem rekur líka skráðan fjöl­miðil til að setja á fót tvær varn­ar­vef­síður fyrir sig. Auk þess var annar maður ráð­inn til þess að vinna ákveðna grein­ing­ar­vinnu um hvaða blaða­menn voru að skrifa hvað og hvaða blaða­menn hefðu verið for­sæt­is­ráð­herr­anum fyrr­ver­andi erf­ið­ast­ir. Fyrir þessa vinnu átti þáver­andi flokkur hans, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, að greiða.

Hann neit­aði að gera slíkt og því höfð­aði fjöl­miðla­fyr­ir­tæki almanna­teng­ils­ins mál á hendur flokkn­um. Það mál tap­að­ist í dag í hér­aðs­dómi. Og í dómnum er rakin mjög áhuga­verð saga.

Söfn­uðu upp­lýs­ingum um blaða­menn

Vorið 2016 var Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra og for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins, erfitt. Hann var neyddur til að segja af sér sem for­sæt­is­ráð­herra snemma í apríl það ár eftir að Pana­ma-skjölin höfðu opin­berað að Sig­mundur Davíð og eig­in­kona hans áttu aflands­fé­lagið Wintris, sem í voru eignir upp á annan millj­arð króna og félagið var auk þess kröfu­hafi í bú föllnu bank­anna sem Sig­mundur Davíð hafði unnið að því að slíta án þess að gera grein fyrir þeim hags­muna­tengsl­um. Afsögn hans kom eftir að 26 þús­und manns mót­mæltu hon­um, rík­is­stjórn hans og öðrum stjórn­mála­mönnum sem komu fyrir í Panama­skjöl­un­um. Um var að ræða fjöl­menn­ustu mót­mæli Íslands­sög­unn­ar. Síðar var opin­berað að Wintris hefði ekki greitt skatta í sam­ræmi við lög og reglur árum sam­an.

Í júní 2016 réð Sig­mundur Davíð for­svars­mann fjöl­miðla­fyr­ir­tæk­is­ins For­ystu ehf., sem rekur m.a. fjöl­miðil sem skráður er hjá Fjöl­miðla­nefnd, sem almanna­tengil til að setja á fót tvær heima­síður til stuðn­ings sér. Ætl­unin var meðal ann­ars sú að „setja strik í sand­inn og taka til varna“.

Mað­ur­inn, Viðar Garð­ars­son, var einnig ráð­inn til að taka nýjar myndir af Sig­mundi Davíð sem sýndu hann í jákvæð­ari ljósi en þær myndir sem hefðu birst í fjöl­miðlum vegna Pana­ma-skjal­anna. Þá var Svanur Guð­munds­son, sem síðar varð kosn­inga­stjóri Mið­flokks­ins fyrir Alþing­is­kosn­ing­arnar 2017, ráð­inn til þess að vinna „ákveðna grein­ing­ar­vinnu, hvaða blaða­menn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sig­mundi Davíð erf­ið­ast­ir.“

„Akkúrat mað­ur­inn sem þyrfti“

Svanur er eig­in­maður Guð­finnu Jóhönnu Guð­munds­dótt­ur, þáver­andi borg­ar­full­trúa Fram­sókn­ar­flokks­ins. Guð­finna hafði sjálf leitað til Við­ars skömmu áður vegna þess að tölu­verð vinna hafði farið í það hjá henni að svara fyrir aflands­fé­laga­mál þáver­andi félaga hennar í borg­ar­stjórn, Svein­bjargar Birnu Svein­björns­dótt­ur, sem var í fæð­ing­ar­or­lofi. Í dómi hér­aðs­dóms segir að mál Sig­mundar Dav­íðs hafi „verið í hámæli á sama tíma og sagð­ist Guð­finna hafa nefnt það við Sig­mund Davíð að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ætti að hug­leiða fá sér almanna­tengil og það væri þá sjálf­sagt að kynna Viðar fyrir Sig­mundi. Guð­finna mun síðan hafa kynnt Sig­mund Davíð og Viðar hvorn fyrir öðrum á fundi í júní 2016 en með þeim á fund­inum var eig­in­maður henn­ar, Svanur Guð­munds­son. Lýsti Guð­finna því fyrir dóm­inum að hana minnti að Sig­mundur Davíð hefði sagt á fund­inum að Viðar „væri akkúrat mað­ur­inn sem þyrfti“.

Vildi 100 millj­óna kosn­inga­bar­áttu

Í kjöl­farið fund­aði Viðar aftur með Sig­mundi Davíð og þunga­vigt­ar­fólki innan Fram­sókn­ar­flokks­ins á þeim tíma, þeim Lilju Alfreðs­dótt­ur, núver­andi mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra og vara­for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins, og Sig­urði Hann­essyni, einum helsta trún­að­ar­manni Sig­mundar Dav­íðs á und­an­förnum árum og í dag fram­kvæmda­stjóra Sam­taka iðn­að­ar­ins. Auk þess hafi hann hitt fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra Fram­sókn­ar­flokks­ins, Hrólf Ölv­is­son, á Kaffi Mílanó í Skeif­unni á fundi til að ræða hugs­an­lega aðkomu Við­ars að kosn­inga­bar­áttu Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Hrólfur hafði sjálfur verið í Pana­ma-skjöl­unum og neyðst til að segja af sér sem fram­kvæmda­stjóri Fram­sókn­ar­flokks­ins í lok apríl 2016. Þegar Hrólfur sagði af sér kom m.a. fram í til­kynn­ingu frá honum að drægi sig í hlé „til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Fram­­sókn­­ar­­flokk­inn og þau góðu störf sem hann hefur unnið að í tíð þess­­arar rík­­is­­stjórn­­­ar.  Ég er ekki kjör­inn full­­trúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörð­un."

Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra eftir fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Vitn­is­burðir sem raktir eru í dómi hér­aðs­dóms sýna þó að hann var enn mjög virkur í stýr­ingu flokks­ins á þessum tíma þrátt fyrir afsögn. Þar rekur Viðar til að mynda að hann hafi sagt að sú kosn­inga­bar­átta sem hann hefði í huga gæti kostað um 100 millj­ón­ir. „Lýsti Viðar því fyrir dómi að Hrólfur hafi fengið ,,á­fall“ við að heyra töl­una sem hefði þó verið sett fram í hálf­kær­ingi. Í vitn­is­burði sínum fyrir dómi kvaðst Hrólfur hafa upp­lýst Viðar um það á fund­inum að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ætti ekki slíka fjár­mun­i.“

Tóku upp ræð­una á mið­stjórn­ar­fund­inum

Viðar og Sig­mundur Dav­íðs hitt­ust skömmu síðar og ákváðu að gera eft­ir­far­andi: að taka betri myndir af Sig­mundi Davíð förð­uðum og reyna að koma þeim að á fjöl­miðlum og að setja á fót tvær heima­síður sem vörðu og/eða studdu Sig­mund Davíð per­sónu­lega.

Viðar skrif­aði í kjöl­farið bréf til fram­kvæmda­stjórnar Fram­sókn­ar­flokks­ins þar sem fyr­ir­huguð störf hans fyrir flokk­inn voru útli­st­uð. Bréfið afhenti hann Sig­mundi Dav­íð, þáver­andi for­manni flokks­ins sem var í nokk­urs konar leyfi frá störf­um, og Hrólfi Ölvis­syni, sem gegndi ekki lengur form­legu starfi hjá Fram­sókn­ar­flokkn­um. Það bréf barst aldrei til fram­kvæmda­stjórnar flokks­ins.

Síðar bætt­ist eitt verk­efni við hjá Við­ari. Það verk­efni sner­ist um mynda­töku á mið­stjórn­ar­fundi Fram­sókn­ar­flokks­ins á Akur­eyri í byrjun sept­em­ber 2016. Maður á vegum Við­ars tók upp ræður sem þar fóru fram og klippti úr efn­inu mynd­bönd sem voru notuð á Face­book-­síðu Fram­sókn­ar­flokks­ins. Sig­mundur Davíð flutti rúm­lega klukku­tíma langa ræðu á umræddum fundi studdur glærum með sterku mynd­máli þar sem hann fór yfir stöðu stjórn­mála, árangur sinn og það sem hann taldi vera þaul­skipu­lagða aðför að sér. Þátt­tak­endur í þeirri meintu aðför voru stórir leik­endur í alþjóða­fjár­mála­kerf­inu og fjöl­miðlar víða um heim. Hægt er að sjá brot úr ræð­unni hér að neð­an: 

Sá sem tók upp myndefnið og klippti sagði í vitn­is­burði sínum að efnið em hann hafi útbúið hafi aðeins verið fyrir „kosn­inga­her­ferð Sig­mund­ar“. Hann hafi ein­ungis tekið myndir af Sig­mundi Davíð á þing­inu, engum öðr­um.

Í kjöl­far fund­ar­ins til­kynnti Sig­urður Ingi Jóhanns­son, sem var þá vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins og for­sæt­is­ráð­herra, að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem vara­for­maður vegna sam­skipta­örð­ug­leika í for­ystu flokks­ins. Á flokks­þingi í byrjun októ­ber 2016 felldi Sig­urður Ingi Sig­mund Davíð síðan naum­lega í for­manns­kosn­ingu.

Taldi áætl­un­ina geta orðið árang­urs­ríka

Sig­mundur Davíð var einn þeirra sem bar vitni í mál­inu. Í vitn­is­burði hans kom fram að hann hafi talið að sú áætlun sem Viðar hafði sett fram gæti orðið „ár­ang­urs­rík“.

Í sept­em­ber 2016, eftir mið­stjórn­ar­fund­inn örlaga­ríka, sendi Viðar reikn­ing til Fram­sókn­ar­flokks­ins og fór fram á að fá greitt fyrir vinnu sína, vinnu Svans Guð­munds­son­ar, húsa­leigu og keyptar þjón­ustu af þriðja aðila.

Þegar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, sem kann­að­ist ekki við að hafa keypt umrædda þjón­ustu, greiddi ekki reikn­ing­inn hafði Viðar sam­band við Sig­mund Davíð sem lagði þá út fyrir stefnda þann hluta reikn­ings­ins sem var vegna útlagðs kostn­aðar í sam­ræmi við gefið ábyrgð­ar­lof­orð sitt gagn­vart stefn­anda. Um var að ræða rúm­lega eina milljón króna. Í tölvu­pósti sem Sig­mundur Davíð sendi Við­ari vegna þessa, og er birtur í dómn­um, segir m.a. að þrátt fyrir að fram­kvæmda­stjórar Fram­sókn­ar­flokks­ins, og fleira fólk sem hafi komið að und­ir­bún­ingi kosn­ing­anna 2016, hafi verið „með­vit­aðir um hversu mik­il­vægt for­maður flokks­ins taldi að hefja kosn­inga­und­ir­bún­ing í tæka tíð dróst tals­vert að ganga frá fyr­ir­komu­lagi vinn­unn­ar. Auk þess hafði fundur þinn með Hrólfi leitt í ljós að Hrólfur taldi þær hug­myndir sem þar voru kynntar of umfangs­miklar og kostn­að­inn of mik­inn. Brugð­ist var við því með því að laga umfang verk­efn­isins að athuga­semd­un­um[...]Mér er ekki ljóst að hversu miklu leyti flokk­ur­inn hefur gert upp við ykkur en skilst að enn eigi eftir að gera upp útlagðan kostn­að. Í sam­ræmi við það sem ég nefndi á sínum tíma um að ég skyldi taka ábyrgð á útlögðum kostn­aði svo að verk­efnið gæti haldið áfram milli­færi ég nú á reikn­ing þinn 1.090.000 kr. en það er sam­eig­in­legur skiln­ingur okkar að eftir sem áður sé gert ráð fyrir að flokk­ur­inn standi straum af þeim kostn­aði eins og öðrum kostn­aði við und­ir­bún­ing kosn­inga.“

Viðar hélt áfram að reyna að inn­heimta kröfu sína hjá Fram­sókn­ar­flokknum og sendi m.a. bréf 20. jan­úar 2017. Í því sagði að auk ofan­greindrar vinnu hefði verið gerðar „grein­ing­ar, skrif­aðar blaða­grein­ar, unnin stefnu­mót­un­ar­vinna og áætl­anir um hvernig helst væri hægt að ná árangri í vænt­an­legri kosn­inga­bar­áttu, tekið var á leigu við­bót­ar­hús­næði sem notað var undir hina ýmsu aðila innan flokks í þess­ari vinnu.

Vinnan var kynnt fyrir fram­má­fólki í flokknum á ýmsum tímum og mis­mikið unn­in. Meðal þeirra aðila sem mættu til fundar og kynntu sér hvaða vinnu var verið að inna af hendi má nefna fólk eins og Lilju Alfreðs­dótt­ur, þá utan­rík­is­ráð­herra, núver­andi vara­for­mann flokks­ins, Sig­urð Hann­es­son, for­mann mál­efna­nefndar flokks­ins, Sveinn Hjört Guð­finns­son for­mann FR [Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur], Guð­finnu Jóhönnu Guð­munds­dótt­ur, borg­ar­full­trúa, Jóhannes Þór Skúla­son, aðstoð­ar­mann SDG, SDG sjálfan og marga fleiri.“

Alls taldi Viðar sig eiga inni um 5,5 millj­ónir króna. Þegar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafn­aði því að greiða þá upp­hæð höfð­aði hann mál. Því máli tap­aði hann í hér­aði í dag.

Fjöl­miðli stýrt af greiddum verk­taka

For­ysta ehf., fyr­ir­tækið sem Viðar stýrir og er stefn­andi í mál­inu, er skráð fjöl­miðla­fyr­ir­tæki hjá Fjöl­miðla­nefnd. Það rekur m.a. fjöl­mið­il­inn Vegg­ur­inn.is. Viðar hefur sjálfur rit­stýrt þeim vef og er einnig skráður ábyrgð­ar­maður For­ystu á vef fjöl­miðla­nefnd­ar. Félagið er his vegar í eigu Ólafar Sig­ur­geirs­dótt­ur, eig­in­konu Við­ars. Það efni sem birt hefur verið sem „frétt­ir“ á Vegg­ur­inn.is á und­an­förnum árum er að mestu tvenns kon­ar. Ann­ars vegar jákvæðar fréttir um Sig­mund Davíð og hins vegar gagn­rýni á fjöl­miðla sem fjallað hafa um Sig­mund Dav­íð.

Í pistli sem birt­ist þar haustið 2016 spurt hvers vegna kjós­­endur ættu að verð­­launa Fram­­sókn­­ar­­flokk­inn fyrir að fella Sig­­mund Dav­­íð. Þeirri spurn­ingu var svarað með eft­ir­far­andi hætti: „And­­skotar Sig­­mundar Dav­­íðs innan flokks vilja nefn­i­­lega eiga heið­­ur­inn af öllum afrekum hans und­an­farin ár en drepa hann sjálf­­an. Þeir vilja eiga gróð­ann af afl­­anum en fleygja skip­­stjór­­anum sem veiddi fyrir borð.“

Viðar Garðarsson.

Síð­asta „frétt“ sem birt­ist á Vegg­ur­inn.is var gagn­rýni á pistil í Stund­inni þar sem slag­orð byggða­stefnu Mið­flokks­ins, sem Sig­mundur Davíð stofn­aði í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2017, var til umfjöll­un­ar. Hvergi á Vegg­ur­inn.is er til­greint að ábyrgð­ar­maður og fyr­ir­svars­maður fjöl­mið­ils­ins sé greiddur verk­taki fyrir Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son.

Þær tvær síður sem Viðar setti á fót sér­stak­lega fyrir Sig­mund Davíð hétu ann­ars vegar Islandi­allt.is og hins vegar Panama­skjol­in.is. Báðar voru skráðar síð­sum­ars 2016.

Önn­­ur, Islandi­allt.is, birti jákvæðar færslur um stjórn­­­mála­­mann­inn Sig­­mund Dav­­íð. Þar kom fram að síðan hafi verið „settur saman og rek­inn af hópi ein­stak­l­inga úr ýmsum áttum með ólíkar stjórn­­­mála­­skoð­­anir sem eiga það sam­eig­in­­legt að vera stuðn­­ings­­menn Sig­­mundar Dav­­íðs Gunn­laugs­­son­­ar“.

Hin, Panama­skjol­in.is, fjall­aði um skýr­ingar Sig­­mundar Dav­­íðs og eig­in­­konu hans, Önnu Sig­­ur­laugu Páls­dótt­­ur, á Wintris-­­mál­inu svo­­kall­aða. Á und­ir­­síðu vefs­ins sagði að um stað­­reyndir um aðkomu Sig­­mundar Dav­­íðs að mál­inu sé að ræða. „Efni síð­­unnar er unnið upp úr þeim upp­­lýs­ingum sem fram hafa komið um málið und­an­farna mán­uði, bæði frá Sig­­mundi og Önnu sjálf­um, frá skatt­yf­­ir­völd­um, umboðs­­manni Alþing­is, end­­ur­­skoð­end­um, fjöl­miðlum og fleiri aðil­­um.

Efnið er sett fram í formi svara við algengum spurn­ingum í þeirri við­­leitni að það reyn­ist ein­fald­­ara aflestr­­ar. Vefnum er við­haldið af stuðn­­ings­­mönnum Sig­­mundar og Önn­u“.

For­ysta ehf. var tekið til gjald­þrota­skipta 21. mars síð­ast­lið­inn. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar