1. Mikil útgjaldaaukning
Fjárfestingar munu vaxa umtalsvert á næsta ári, eða um 13 milljarða króna og ná hámarki á árinu 2021. Alls er gert ráð fyrir að fjárfestingar á árunum 2019 til 2023 nemi 338 milljörðum króna.
2. Allskyns keypt
Á meðal þeirra verkefna sem ráðist verður í samkvæmt áætluninni eru bygging nýs Landsspítala, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, uppbyggingu hjúkrunarheimila, fé til byggingu Hús íslenskunnar og hámarksgreiðslur foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar og orlofstíminn lengdur. Alls er gert ráð fyrir tæplega 75 milljörðum króna í fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Framkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna hefjast á árinu 2018 en meginþungi framkvæmda verður á árunum 2020-2023. Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir að ráðist verði í uppbyggingu á innviðum og önnur verkefni á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum.
3. Virðisaukaskattur á bækur
Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun árs 2019 og ári síðar verða höfundaréttargreiðslur, sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta, skattlagðar sem eign en ekki tekjur.
4. Umhverfisskattar
Í upphafi árs var kolefnisgjald á eldsneyti hækkað um 50 prósent og er fyrirhugað að hækka gjaldið um tíu prósent árið 2019 og aftur 2020. Skoðaðar verða leiðir til gjaldtöku af ferðamönnum. Miðað er við að gjaldið verði lagt á frá og með árinu 2020.
5. Bankaskattur lækkaður
Ríkisstjórnin stefnir á að lækka fleiri skatta á næstu árum, og verður meðal annars bankaskattur lækkaður. Hann fer úr 0,376 prósent í 0,165 prósent, en forsvarsmenn allra fjármálafyrirtækja landsins hafa gagnrýnt skattinn lengi.
6. Blessað tryggingagjaldið
Gert er ráð fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósent á árinu 2019, úr 6,85 prósent í 6,6 prósent. Frekari lækkun ræðst m.a. af niðurstöðu samráðs við aðila vinnumarkaðarins um útfærslu réttinda, sem fjármögnuð eru með tryggingagjaldi, og afkomu ríkissjóðs. Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun árs 2019 og ári síðar verða höfundaréttargreiðslur, sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta, skattlagðar sem eign en ekki tekjur.
7. Flöt tekjuskattslækkun fyrirhuguð
Tekjuskattur einstaklinga á líka að lækka. Í áætluninni er gengið út frá að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi og geti lækkað um eitt prósentustig í áföngum á áætlunartímanum. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti myndu minnka um 14 milljarða króna við þá lækkun. Í krónum talið myndu skattar þeirra sem eru með hærri tekjur lækka meira en þeirra sem eru með lægri tekjur.
8. Þakið afnumið
Skattaívilnun vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verður aukin á árinu 2019 og stefnt er að afnámi þaksins síðar á kjörtímabilinu. Skattstofn fjármagnstekjuskatts verður endurskoðaður með það að markmiði að skattleggja raunávöxtun, en áhrif þeirra breytinga koma fram árið 2020.
9. Skuldir lækkaðar
Frá 2013 hafa skuldir ríkissjóðs verið lækkaðar um 600 milljarða króna. Í áætluninni segir að aukin efnahagsleg umsvif og lægri vaxtagjöld í kjölfar skuldalækkunar hafi skapað nauðsynlegt svigrúm í ríkisrekstrinum. Stefnt sé að því að heildarskuldir hins opinbera samkvæmt viðmiðum laga um opinber fjármál fari undir lögboðið 30 prósent viðmið í árslok 2019, eða ári fyrr en fjármálastefnan gerir ráð fyrir og verði um 22 prósent í árslok 2023.
10. Gagnrýnt úr öllum áttum
Áætlunin hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og fyrrverandi varaþingmaður VG, spurði hvers stöðugleika sé verið að vernda með áætluninni, í ljósi þess að ekki eigi að nýta skattkerfið til tekjujöfnuðar heldur þvert á móti eigi að ýkja misskiptingu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, sagði að boðað stórátak í uppbyggingu vegakerfisins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist ekki skoðun. Ásdís Kristjánsdóttir aðalhagfræðingur Samtaka atvinnulífsins hefur sagt að fjarmálaáætlunin einkennist af bjartsýni.