Heimilum sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fækkar enn
5.142 heimili þurftu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda í fyrra. Þeim hefur fækkað á hverju ári síðan 2013. Skattgreiðendur í Reykjavík greiða 74 prósent kostnaðar vegna slíkrar sem veitt er á höfuðborgarsvæðinu.
Fimmta árið í röð þá fækkar þeim sem sem fengu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Árið 2013 þáðu 8.042 heimili á landinu slíka fjárhagsaðstoð en í fyrra voru þau 5.142. Þeim hefur því fækkað um 2.900 alls á tímabilinu, eða um rúman þriðjung. Kostnaður allra sveitarfélaga á landinu vegna greiðslna var 3,2 milljarðar króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Um er að ræða t.d. félagslega framfærslu, húsaleigubætur, félagslega aðstoð eða styrki ýmiss konar til þeirra sem á þurfa að halda.
Rúmur helmingur allra sem þiggja fjárhagsaðstoð, eða 2.756 heimili, eru í Reykjavík. Hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu veita 967 heimilum slíka aðstoð. Það búa 126.100 manns í Reykjavík en 96.490 samtals í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Ef að félagslegum stuðningi væri dreift jafnt á sveitarfélög svæðisins myndi Reykjavík greiða 57 prósent af kostnaðinum vegna hennar. Raunveruleikinn er hins vegar sá að höfuðborgin, og skattgreiðendur hennar, greiða 74 prósent hans.
Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna fjárhagsaðstoðar var 2.137 milljónir króna í fyrra. Á sama tíma greiddu hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 43 prósent íbúa svæðisins búa, 497,8 milljónir króna í slíka aðstoð.
Sú fækkun sem orðið hefur í hópnum sem þiggur fjárhagsaðstoð hefur haldist í hendur við bætt atvinnu- og efnahagsástand í landinu. Samhliða því að atvinnuleysi hefur fallið hratt hefur þeim sem þiggja aðstoð sveitarfélaganna hríðfækkað.
Þorri félagslegs húsnæðis í Reykjavík
Byrðunum vegna félagslegs húsnæðis er einnig mjög misskipt milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Um síðustu áramót átti Reykjavíkurborg 2.445 félagslegar íbúðir. Þeim var fjölgað um á annað hundrað í fyrra. Til samanburðar áttu þau nágrannasveitafélög höfuðborgarinnar sem koma þar næst, Kópavogur (436 félagslegar íbúðir) og Hafnarfjörður (245 félagslegar íbúðir) samtals 681 félagslega íbúð í lok árs 2016. Í Garðabæ voru á þeim tíma 35 slíkar, 30 í Mosfellsbæ og 16 á Seltjarnarnesi.
Í Reykjavík voru 19,7 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa í lok árs 2016 á meðan að þær voru 2,3 á hverja þúsund íbúa í Garðabæ, 3,6 á hverja þúsund íbúa Seltjarnarness og 4,5 á hverja þúsund íbúa í Mosfellsbæ. Þessar tölur komu fram í könnun sem varasjóður húsnæðismála lét gera á stöðunni. Niðurstöður hennar voru birtar í ágúst í fyrra. Þar sagði einnig að ef framboð nágrannasveitarfélaganna fimm ætti að vera sambærilegt og það er í Reykjavík, miðað við stöðuna í lok árs 2016, þyrfti að fjölga félagslegum leiguíbúðum þeirra um 1.080.
Miklar sviptingar á Suðurnesjum
Á árunum eftir hrun fjölgaði þeim sem þurftu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda mikið. Sú fjölgun náði hámarki árið 2013 þegar rúmlega átta þúsund heimili fengu slíka.
Utan Reykjavíkur var það svæði sem mest fann fyrir þessu aukna álagi Suðurnes. Þar fjölgaði þeim heimilum sem þáðu fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins úr 357 árið 2008 í 730 árið 2013. Það er rúmlega tvöföldun á fjölda heimila.
Kostnaður sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna fjárhagsaðstoðar við íbúa jókst hlutfallslega enn meira á þessu tímabili. Á hrunárinu námu útgjöldin 62 milljónum króna en 2014, þegar þau voru hæst, voru þau 366,3 milljónir króna. Útgjöldin sexfölduðust því á nokkrum árum. Á sama tíma glímdi stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum, Reykjanesbær, við mikla fjárhagserfiðleika og viðbótarkostnaðurinn vegna fjárhagsaðstoðar við fólk sem flutti í sveitarfélagið, meðal annars vegna mikils framboðs af þá ódýru leiguhúsnæði á Ásbrú, bættist við þá erfiðleika. Mikill viðsnúningur hefur hins vegar orðið á stöðunni á Suðurnesjum á undanförnum árum samhliða vexti í ferðaþjónustu, en alþjóðaflugvöllur Íslendinga er staðsettur á svæðinu.
Samhliða hefur þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þess fækkað mikið. Í fyrra voru þau heimili sem þáðu slíka 366 talsins, eða um helmingi færri en árið 2013. Kostnaður vegna aðstoðarinnar var 184,4 milljónir króna á árinu 2017.
Færri börn þurftu á aðstoð að halda
Fjöldi þeirra einstaklinga sem bjuggu á heimilum sem þurftu á fjárhagsaðstoð að halda var mestur 13.130 árið 2013. Í fyrra var hann 8.223 og því hefur einstaklingunum sem þurftu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda fækkað um 4.907 á fimm árum.
Árið 2013 bjuggu 4.421 börn 17 ára og yngri við aðstæður þar sem heimili þeirra þurfti á fjárhagsaðstoð sveitarfélags að halda. Þeim hefur fækkað ár frá ári og í fyrra voru þau 2.887 talsins, eða þriðjungi færri en fyrir fimm árum. Það eru 3,6 prósent allra barna á þeim aldri. Tæpur helmingur þeirra barna sem búa við slíkar aðstæður búa í Reykjavík.
Af þeim heimilum sem fengu mesta fjárhagsaðstoð árið 2017 voru heimili einstæðra barnlausra karla 43,5 prósent og heimili, einstæðra kvenna með börn 23,4 prósent og heimili einstæðra barnlausra kvenna 22,1 prósent. Heimili hjóna/sambúðarfólks voru 8,6 prósent. Árið 2017 voru 31,4 prósent viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og af þeim 84 prósent án bótaréttar, alls 1.359 einstaklingar.
Erlendum ríkisborgurum fjölgar mikið
Á sama tíma og kostnaður sveitarfélaga á Íslandi vegna fjárhagsaðstoðar hefur dregist verulega saman þá hefur erlendum ríkisborgurum sem flutt hafa til landsins fjölgað verulega.
Á árinu 2017 voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar sem fluttu til Íslands 7.910 fleiri en brottfluttir. Alls fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi um 25 prósent á síðasta ári. Þeim hefur fjölgað um 81 prósent frá byrjun árs 2011 og eru nú 37.950 talsins. Þá eru ekki taldir með þeir sem koma hingað á vegum t.d. starfsmannaleiga.
Landsmönnum fjölgaði um 10.130 á árinu 2017 og eru nú 348.580. Það þýðir að 78 prósent þeirrar fjölgunar er vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til landsins.