Grafík

Heimilum sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fækkar enn

5.142 heimili þurftu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda í fyrra. Þeim hefur fækkað á hverju ári síðan 2013. Skattgreiðendur í Reykjavík greiða 74 prósent kostnaðar vegna slíkrar sem veitt er á höfuðborgarsvæðinu.

Fimmta árið í röð þá fækkar þeim sem sem fengu fjár­hags­að­stoð sveit­ar­fé­laga. Árið 2013 þáðu 8.042 heim­ili á land­inu slíka fjár­hags­að­stoð en í fyrra voru þau 5.142. Þeim hefur því fækkað um 2.900 alls á tíma­bil­inu, eða um rúman þriðj­ung. Kostn­aður allra sveit­ar­fé­laga á land­inu vegna greiðslna var 3,2 millj­arðar króna á síð­asta ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hag­stofa Íslands birti í morg­un. Um er að ræða t.d. félags­lega fram­færslu, húsa­leigu­bæt­ur, félags­lega aðstoð eða styrki ýmiss konar til þeirra sem á þurfa að halda.

Rúmur helm­ingur allra sem þiggja fjár­hags­að­stoð, eða 2.756 heim­ili, eru í Reykja­vík. Hin sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu veita 967 heim­ilum slíka aðstoð. Það búa 126.100 manns í Reykja­vík en 96.490 sam­tals í öðrum sveit­­ar­­fé­lögum höf­uð­­borg­­ar­­svæð­is­ins. Ef að félags­legum stuðn­ingi væri dreift jafnt á sveit­ar­fé­lög svæð­is­ins myndi Reykja­vík greiða 57 pró­sent af kostn­að­inum vegna henn­ar. Raun­veru­leik­inn er hins vegar sá að höf­uð­borg­in, og skatt­greið­endur henn­ar, greiða 74 pró­sent hans.

Kostn­aður Reykja­vík­ur­borgar vegna fjár­hags­að­stoðar var 2.137 millj­ónir króna í fyrra. Á sama tíma greiddu hin sveit­ar­fé­lögin á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, þar sem 43 pró­sent íbúa svæð­is­ins búa, 497,8 millj­ónir króna í slíka aðstoð.

Sú fækkun sem orðið hefur í hópnum sem þiggur fjár­hags­að­stoð hefur hald­ist í hendur við bætt atvinnu- og efna­hags­á­stand í land­inu. Sam­hliða því að atvinnu­leysi hefur fallið hratt hefur þeim sem þiggja aðstoð sveit­ar­fé­lag­anna hríð­fækk­að.

Þorri félags­legs hús­næðis í Reykja­vík

Byrð­unum vegna félags­legs hús­næðis er einnig mjög mis­skipt milli sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Um síð­­­­­ustu ára­­­mót átti Reykja­vík­­­­­ur­­­borg 2.445 félags­­­­­legar íbúð­­­ir. Þeim var fjölgað um á annað hund­rað í fyrra. Til sam­an­­­burðar áttu þau nágranna­sveita­­­fé­lög höf­uð­­­borg­­­ar­innar sem koma þar næst, Kópa­vogur (436 félags­­­­­legar íbúð­ir) og Hafn­­­ar­­­fjörður (245 félags­­­­­legar íbúð­ir) sam­tals 681 félags­­­­­lega íbúð í lok árs 2016. Í Garðabæ voru á þeim tíma 35 slík­­­­­ar, 30 í Mos­­­fellsbæ og 16 á Sel­tjarn­­­ar­­­nesi.

Í Reykja­vík voru 19,7 félags­­­legar íbúðir á hverja þús­und íbúa í lok árs 2016 á meðan að þær voru 2,3 á hverja þús­und íbúa í Garða­bæ, 3,6 á hverja þús­und íbúa Sel­tjarn­­ar­­ness og 4,5 á hverja þús­und íbúa í Mos­­fells­bæ. Þessar tölur komu fram í könnun sem vara­­sjóður hús­næð­is­­mála lét gera á stöð­unni. Nið­­ur­­stöður hennar voru birtar í ágúst í fyrra. Þar sagði einnig að ef fram­­­boð ná­granna­sveit­­­ar­­­fé­lag­anna fimm ætti að vera sam­­bæri­­legt og það er í Reykja­vík, miðað við stöð­una í lok árs 2016, þyrfti að fjölga félags­­­legum leig­u­í­­búðum þeirra um 1.080.

Miklar svipt­ingar á Suð­ur­nesjum

Á árunum eftir hrun fjölg­aði þeim sem þurftu á fjár­hags­að­stoð sveit­ar­fé­laga að halda mik­ið. Sú fjölgun náði hámarki árið 2013 þegar rúm­lega átta þús­und heim­ili fengu slíka.

Ásbrú við Keflavíkurflugvöll.
Mynd: Aðsend.

Utan Reykja­víkur var það svæði sem mest fann fyrir þessu aukna álagi Suð­ur­nes. Þar fjölg­aði þeim heim­ilum sem þáðu fjár­hags­að­stoð sveit­ar­fé­lags­ins úr 357 árið 2008 í 730 árið 2013. Það er rúm­lega tvö­földun á fjölda heim­ila.

Kostn­aður sveit­ar­fé­laga á Suð­ur­nesjum vegna fjár­hags­að­stoðar við íbúa jókst hlut­falls­lega enn meira á þessu tíma­bili. Á hru­nár­inu námu útgjöldin 62 millj­ónum króna en 2014, þegar þau voru hæst, voru þau 366,3 millj­ónir króna. Útgjöldin sex­föld­uð­ust því á nokkrum árum. Á sama tíma glímdi stærsta sveit­ar­fé­lagið á Suð­ur­nesjum, Reykja­nes­bær, við mikla fjár­hags­erf­ið­leika og við­bót­ar­kostn­að­ur­inn vegna fjár­hags­að­stoðar við fólk sem flutti í sveit­ar­fé­lag­ið, meðal ann­ars vegna mik­ils fram­boðs af þá ódýru leigu­hús­næði á Ásbrú, bætt­ist við þá erf­ið­leika. Mik­ill við­snún­ingur hefur hins vegar orðið á stöð­unni á Suð­ur­nesjum á und­an­förnum árum sam­hliða vexti í ferða­þjón­ustu, en alþjóða­flug­völlur Íslend­inga er stað­settur á svæð­inu.

Sam­hliða hefur þeim sem þiggja fjár­hags­að­stoð sveit­ar­fé­laga þess fækkað mik­ið. Í fyrra voru þau heim­ili sem þáðu slíka 366 tals­ins, eða um helm­ingi færri en árið 2013. Kostn­aður vegna aðstoð­ar­innar var 184,4 millj­ónir króna á árinu 2017.

Færri börn þurftu á aðstoð að halda

Fjöldi þeirra ein­stak­linga sem bjuggu á heim­ilum sem þurftu á fjár­hags­að­stoð að halda var mestur 13.130 árið 2013. Í fyrra var hann 8.223 og því hefur ein­stak­ling­unum sem þurftu á fjár­hags­að­stoð sveit­ar­fé­laga að halda fækkað um 4.907 á fimm árum.

Árið 2013 bjuggu 4.421 börn 17 ára og yngri við aðstæður þar sem heim­ili þeirra þurfti á fjár­hags­að­stoð sveit­ar­fé­lags að halda. Þeim hefur fækkað ár frá ári og í fyrra voru þau 2.887 tals­ins, eða þriðj­ungi færri en fyrir fimm árum. Það eru 3,6 pró­sent allra barna á þeim aldri. Tæpur helm­ingur þeirra barna sem búa við slíkar aðstæður búa í Reykja­vík.

Af þeim heim­ilum sem fengu mesta fjár­hags­að­stoð árið 2017 voru heim­ili ein­stæðra barn­lausra karla 43,5 pró­sent og heim­ili, ein­stæðra kvenna með börn 23,4 pró­sent og heim­ili ein­stæðra barn­lausra kvenna 22,1 pró­sent. Heim­ili hjóna/­sam­búð­ar­fólks voru 8,6 pró­sent.  Árið 2017 voru 31,4 pró­sent við­tak­enda fjár­hags­að­stoðar atvinnu­lausir og af þeim 84 pró­sent án bóta­rétt­ar, alls 1.359 ein­stak­ling­ar.

Erlendum rík­is­borg­urum fjölgar mikið

Á sama tíma og kostn­aður sveit­ar­fé­laga á Íslandi vegna fjár­hags­að­stoðar hefur dreg­ist veru­lega saman þá hefur erlendum rík­is­borg­urum sem flutt hafa til lands­ins fjölgað veru­lega.

Á árinu 2017 voru aðfluttir erlendir rík­­is­­borg­­arar sem fluttu til Íslands 7.910 fleiri en brott­­flutt­­ir. Alls fjölg­aði erlendum rík­­is­­borg­­urum á Íslandi um 25 pró­­sent á síð­­asta ári. Þeim hefur fjölgað um 81 pró­­sent frá byrjun árs 2011 og eru nú 37.950 tals­ins. Þá eru ekki taldir með þeir sem koma hingað á vegum t.d. starfs­manna­leiga.

Lands­­mönnum fjölg­aði um 10.130 á árinu 2017 og eru nú 348.580. Það þýðir að 78 pró­­sent þeirrar fjölg­unar er vegna erlendra rík­­is­­borg­­ara sem fluttu til lands­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar