Fyrrverandi borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti
Frá árinu 2016 hafa yfirvöld rannsakað hvort að Júlíus Vífill Ingvarsson hafi gerst brotlegur við skattalög eða sekur um peningþvætti, vegna eigna sem hann geymir í aflandsfélagi. Júlíus Vífill hefur ávallt neitað sök en nú liggur ákæra fyrir í málinu. Hann er fyrsti stjórnmálamaðurinn sem var opinberaður í Panamaskjölunum til að vera ákærður.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara. Sakarefni ákærunnar, sem er dagsett 28. júní, er peningaþvætti. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá embætti héraðssaksóknara.
Júlíus Vífil var einn þeirra stjórnmálamanna sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og greint var frá í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félagsins að nafn Júlíusar Vífils kæmi hvergi fram í tengslum við félagið, samkvæmt umfjölluninni.
Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að þátturinn var sýndur.
Sakaðir um að koma ættarauð undan
Systkini Júlíusar Vífils og erfingjar foreldra hans hafa sakað hann og bróður hans, Guðmund Ágúst Ingvarsson, um að komið ættarauð foreldra þeirra undan og geymt hann á aflandsreikningum. Það gerðu þau meðal annars í Kastljósþætti sem sýndur var í maí 2016. Meintur ættarauður eru sjóðir sem urðu til vegna starfsemi Ingvars Helgasonar hf., sem um árabil var eitt stærsta bílaumboð landsins.
Þessum ávirðingum hefur Júlíus Vífill ávallt hafnað með öllu. Í viðtali við Morgunblaðið í maí 2016 sagði hann þvert á móti að systkini hans hefðu dregið af sér tugi milljóna króna af bankareikningi móður þeirra og í yfirlýsingu sem Júlíus Vífill sendi frá sér sagði hann að ásakanir systkina sinna væru algjör ósannindi og ómerkileg illmælgi.
Þann 5. janúar 2017 kærði skattrannsóknarstjóri Júlíus Vífil til embætti héraðssaksóknara vegna meintra brota á skattalögum og vegna gruns um peningaþvætti. Við síðara brotinu getur legið allt að sex ára fangelsisdómur.
Í kærunni kom fram að Júlíus Vífill hafi átt fjármuni á erlendum bankareikningum að minnsta kosti frá árinu 2005. Frá árinu 2014 hafi þeir verið hjá svissneska bankanum Julius Bär í nafni aflandsfélags Júlíusar Vífils.
Ráðleggingar „svo þetta endi ekki allt í skatti“
Héraðssaksóknara barst hljóðupptaka frá embætti skattrannsóknarstjóra þann 27. mars 2017. Um svipað leyti var sama upptaka send á fjölmiðla.
Í aðalhlutverki í einum stærsta gagnaleka sögunnar
Panamaskjölin voru stærsti gagnaleki sögunnar. Alls var um að ræða nálægt 11 milljón gögn sem lekið var frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem var með heimilisfesti í Panama. Hún sérhæfði sig í því að setja upp reikninga fyrir viðskiptavini á þekktum aflandseyjum og skattaskjólum.
Ísland lék stórt hlutverk í Panamaskjölunum, enda fundust um 800 aflandsfélög sem tengdust 600 Íslendingum í þeim. Það var langhæsta hlutfall félaga miðað við höfðatölu, og raunar voru mun fleiri félög og einstaklingar frá Íslandi í heild en flestum stærri löndum. Á meðal þeirra sem var að finna í gögnunum voru íslenskir stjórnmálamenn. Þar bar hæst nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, sem var eigandi aflandsfélagsins Wintris. Sigmundur Davíð sagði af sér embætti tveimur dögum eftir að hann var opinberaður, en hefur síðan haldið því statt og stöðugt fram að um samsæri gegn sér hafi verið að ræða. Félag Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans sætti endurálagningu skatta eftir að hafa upplýst skattayfirvöld um að það hefði ekki greitt slíka í samræmi við lög og reglur.
Bjarni Benediktsson, þá sem nú formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og Ólöf Norðdal heitin, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, voru líka í skjölunum. Sveitastjórnarmenn var þar að finna líka. Af þeim vakti mál Júlíusar Vífils Ingvarssonar mesta athygli en Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, var einnig til umfjöllunar. Sveinbjörg hafði átt hlutdeild í aflandsfélagi sem var í fasteignaþróunarverkefni í Panama. Sveinbjörg óskaði eftir því að fara tímabundið leyfi eftir að skjölin voru birt. Hún snéri síðan aftur eftir að innri endurskoðun borgarinnar komst að þeirri niðurstöðu að Sveinbjörgu hefði ekki borið að skrá tengsl sín við aflandsfélög í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. Júlíus Vífill er fyrsta stjórnmálamaðurinn sem sætir ákæru./p>
Áður en að gögnin voru birt höfðu íslensk stjórnvöld keypt hluta þeirra af huldumanni. Skattrannsóknarstjóri hefur því verið að rannsaka aflandseignir Íslendinga og möguleg skattsvik þeirra sem eiga slíkar eignir frá árinu 2015. Í sumar voru birtar upplýsingar um að alls hafi 57 málum verið vísað til héraðssaksóknara í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á gögnunum sem keypt voru með upplýsigum um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Í þeim málum leiddi rannsókn í ljós stórfelld undanskot.
Rannsókn skattrannsóknarstjóra er lokið á 89 málum en 14 eru enn í rannsókn. Vantaldir undandregnir skattstofnar nema alls um 15 milljörðum króna. Í 18 málum hefur skattrannsóknarstjóri farið fram með sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd og einu máli hefur verið lokið með sektargerð. Í níu málum hefur ákvörðun verið tekin um að fella niður refsimeðferð. Til viðbótar liggur fyrir ákvörðun um að vísa einu máli til héraðssaksóknara og þremur til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar.
Á upptökunni, sem er af fundi sem fór fram þremur dögum eftir birtingu Panamaskjalanna, mátti heyra Júlíus Vífill og lögmann hans, Sigurð G. Guðjónsson, ræða um þá fjármuni sem vistaðir voru í svissneska bankanum við ættingja Júlíusar Vífils, sem höfðu ásakað hann um að hafa komið ættarauð foreldra sinna undan og geymt á aflandsreikningum. Júlíus Vífill vildi að Sigurður G. Guðjónsson myndi verja sig í málinu sem héraðssaksóknari hefur rannsakað á hendur honum. Á það vildi héraðssaksóknari ekki fallast þar sem embættið vildi kalla Sigurð til skýrslutöku í málinu og það útilokaði ekki að Sigurður fái stöðu sakbornings í því. Ástæðan eru þær ráðleggingar sem Sigurður veitir á hljóðupptökunni, um hvernig sé hægt að komast hjá því að greiða fjármunina til systkina Júlíusar Vífils án þess að „þetta endi ekki allt í skatti.“
Nánar er fjallað um innihald hljóðupptökunnar í hliðarefni.
Sigurður G. ekki sakborningur
Júlíus Vífill var ósáttur við að Sigurður fengi ekki að verja sig og fór með það fyrir dóm.Héraðsdómur staðfesti synjun embættis héraðssaksóknara um að Sigurður mætti ekki verja Júlíus Vífill 25. ágúst 2017.
Dómari málsins, Lárentsínus Kristjánsson, sagði í niðurstöðu sinni að það yrði „ekki betur séð en að lögmaður sóknaraðila hafi á fundinum fyrst og fremst lagt áherslu á að skoða þyrfti ofan í kjölinn hvernig best væri að standa að slíkri millifærslu í skattalegu tilliti. Af endurritinu má ráða að með þessari áherslu hafi lögmaðurinn verið að gæta með réttmætum hætti hagsmuna sóknaraðila með sem bestu móti, eins og honum var skylt.“ Það var því mat hans að ráðleggingar Sigurðar hafi verið eðlilegar. Hann hafnaði þó kröfu Júlíusar Vífils, í ljósi þess að kalla ætti Sigurð fyrir til skýrslutöku.
Þeirri ákvörðun var skotið til Hæstaréttar sem var mjög afdráttarlaus í sinni niðurstöðu sem féll í lok ágúst 2017: Sigurður gæti ekki varið Júlíus Vífil. Rétturinn staðfesti því úrskurð héraðsdóms. Ekkert lægi fyrir um að tilefni héraðsaksóknara um að kalla Sigurð til skýrslutöku við rannsókn málsins væri tilefnislaus.
Samkvæmt ákæru er Sigurður ekki sakborningur í málinu. Einungis Júlíus Vífill er ákærður.Hljóðupptaka af fundi ættingjanna og lögmanna þeirra
Hljóðupptaka var tekin upp á fundi sem fram fór miðvikudaginn 6. apríl 2016, þremur dögum eftir að Kastljós hafði afhjúpað að Júlíus Vífi Ingvarsson ætti aflandsfélög sem geymdu fjármuni í svissneska bankanum Julius Bär. Fundinn sátu Júlíus Vífill, lögmaður hans Sigurður G. Guðjónsson, ættingjar Júlíusar Vífils og lögmenn á þeirra vegum. Fundurinn fór fram á lögmannsstofu Sigurðar.
Á upptökunni talar Júlíus Vífill um safnreikninga og jánkar því að hafa kennt látnum bróður sínum um að hafa gengið í sjóðina. Af samtalinu er ekki að skilja annað en að Júlíus Vífill viðurkenni að fullu tilvist þeirra fjármuna sem systkini hans hafa gert kröfu til og að verið sé að ræða um hvernig sé hægt að koma þeim til þeirra. Síðar hefur Júlíus Vífill hins vegar þrætt fyrir að umræddir sjóðir séu yfirhöfuð til. Á upptökunni heyrist Sigurður, lögmaður Júlíusar Vífils, tala um hvernig best væri að koma þeim peningum sem geymdir eru utan Íslands til systkina Júlíusar Vífils. Þar segir hann m.a.: „Peningar ganga ekki á milli manna nema að það séu greiddir af þeim skattar. Við skulum hafa það hugfast. Á þetta að fara inn í dánarbúið og greiðast þar út sem arður með öðrum skatti? Það getur verið. Og það eru þessar leiðir sem þarf að skoða og finna. Er hægt að færa þessa fjármuni á nöfn einstakra aðila í þeim banka þar sem þeir eru í? Þannig að viðkomandi aðili bara gerir grein fyrir því á skattaframtali sínu á næsta ári að hann eigi þessa fjármuni og komi með þá heim og borgi af þeim skatta. Þetta er bara issue, issuið hlýtur að vera það fyrir ykkur, erfingja Ingvars Helgasonar að þið fáið þá sem mest af þessum peningum og minnst af þeim fari í ríkissjóð. Þetta liggur fyrir, ég meina Júlíus Vífill er búinn að segja það við ykkur að hann vill koma þessum peningum til systkina sinna en það þarf auðvitað að finna einhverja þá leið sem getur leitt til þess að þetta endi ekki allt í skatti.“
Síðan virðist hafa orðið breyting á. Þ.e. hætt var við að reyna að koma fjármunum til systkinanna og við tók heiftúðleg barátta þeirra við Júlíus Vífil. Fóru systkinin meðal annars fram á að skiptastjóri í dánarbúi foreldra þeirra, Ingvars Helgasonar sem lést árið 1999 og Sigríðar Guðmundsdóttur sem lést árið 2015, fengi heimild til að láta breska rannsóknarfyrirtækið K2 Intelligence limited leita að þeim týndu sjóðum sem kynnu að vera í réttmætri eigu dánarbúsins, og þar með erfingja þess. Áætlaður kostnaður við slíka rannsókn var 35 þúsund pund, um 4,9 milljónir króna. Héraðsdómur hafði fallist á kröfu dánarbúsins um að könnunin yrði framkvæmd en Júlíus Vífill og Guðmundur Ágúst lögðust gegn því og var úrskurði héraðsdóms þar af leiðandi áfrýjað til Hæstaréttar.
Hæstiréttur snéri við úrskurðinum. Í rökstuðningi hans sagði að ekki yrði af gögnum málsins ráðið að nokkuð annað lægi fyrir en orðrómur um að Ingvar Helgason hefði átt bankareikninga erlendis þegar hann lést árið 1999. Ekkert hafi verið upplýst um í hvaða löndum né bönkum meintir reikningar væru eða hversu háar innstæður væru geymdar á þeim..
Fréttaskýringin birtist einnig í Mannlífi sem kom út í dag, 17. ágúst.