Pexels - Open source myndasöfn

Hættuástand: Of stór til að falla

Íslensku flugfélögin tvö, WOW air og Icelandair, eru of stór til að falla. Stjórnvöld hafa fylgst náið með stöðu þeirra, sérstaklega WOW air mánuðum saman, þótt það hafi ekki farið hátt. WOW air reynir nú að fá allt að 12 milljarða króna að láni til að koma sér fyrir vind. Gangi það ekki gætu stjórnvöld, með einhverjum hætti, gripið inn í.

Efna­hags­upp­gangur Íslands und­an­farin ár er fyrst og síð­ast til­komin vegna þeirrar tekju­aukn­ingar sem ferða­þjón­usta hefur skilað þjóð­ar­bú­inu. Og þar leika tvö íslensk flug­fé­lög, Icelandair og WOW air, algjört lyk­il­hlut­verk þar sem þau flytja 80-85 pró­sent þeirra far­þega sem hingað koma til lands­ins. Til að setja mik­il­vægið í annað sam­hengi þá er það flug­fé­lag sem kemur á eftir þeim íslensku í mark­aðs­hlut­deild Wizz Air, með 3,8 pró­sent hlut­deild.

Haustið 2017 var ljóst að aðstæður voru að breyt­ast. Hægja myndi veru­lega á þeirri fjölgun ferða­manna sem hafði verið frá árinu 2010, styrk­ing krón­unnar gerði íslenskum fyr­ir­tækjum í alþjóð­legri starf­semi erf­ið­ara fyrir og hækk­andi heims­mark­aðs­verð á olíu jók allan kostnað þar sem flug­fé­lög í milli­landa­flugi eru stærstu not­endur elds­neytis á Íslandi.

Á sama tíma gekk yfir gjald­þrota­hrina flug­fé­laga í Evr­ópu. Air­Berl­in, næst stærsta flug­fé­lag Þýska­lands, fór í þrot ásamt sýst­ur­fé­lagi sínu, FlyNiki. Það gerði breska lág­far­gjalda­fé­lagið Mon­arch einnig.

Flaggað haustið 2017

Hér­lendis virt­ist umræðan ansi lengi að taka við sér. Fyrsta alvöru flaggið var þó sett upp í sept­em­ber 2017 þegar Lands­bank­inn birti ítar­lega grein­ingu um ferða­þjón­ust­una þar sem því var velt upp hvort að íslensku flug­fé­lögin tvö væru ein­fald­lega svo kerf­is­lega mik­il­væg, að áhrifin af því að annað þeirra eða bæði færu af mark­aðnum væru svo mik­il, að stjórn­völd þyrftu að útbúa við­bragðs­á­ætl­anir sem hægt yrði að grípa til ef þau lentu í vanda.

For­stöðu­maður hag­fræði­deildar Lands­bank­ans er Dan­íel Svav­ars­son. Hann hefur áður vakið athygli fyrir að skrifa greinar þar sem hættu­merkjum var flaggað í aðdrag­anda hörm­unga. Það gerð­ist árið 2007 þegar Dan­íel og Pétur Örn Sig­urðs­son, þá hag­fræð­ingar hjá Seðla­banka Íslands, skrif­uðu grein í Pen­inga­mál bank­ans þar sem birtar voru tölur sem sýndu að útrás íslenskra fyr­ir­tækja hefði að veru­legu leyti verið fjár­mögnuð með erlendu láns­fé. Í sam­tali við 24 Stundir snemma árs 2008 sagði hann: „Bank­­arn­ir taka er­­lend lán til að end­­ur­lána m.a. á Íslandi bæði til fjár­­­fest­inga og neyslu. Við í Seðla­bank­an­um höf­um verið að vekja at­hygli á og vara við mikl­um við­skipta­halla og mik­illi er­­lendri skulda­­söfn­un. En hingað til virð­ist það ekki hafa vakið mikla at­hygl­i.“ Nokkrum mán­uðum síðar var íslenska banka­kerfið hrun­ið.

Stjórn­völd hófu vinnu í lok síð­asta árs

WOW air brást við sífellt hávær­ari orðrómi um vanda­mál í rekstri félags­ins með því að senda frá sér frétta­til­kynn­ingu um miðjan nóv­em­ber þar sem því var haldið fram að rekstur félags­ins væri full­fjár­magn­aður út árið 2019.

Skúli Mogensen leitar nú að fjármagni til að brúa rekstur WOW air þar til að félagið verður skráð á markað. Það á að gerast innan 18 mánaða.
Mynd: WOW air

Undir lok árs­ins 2017 hófu stjórn­völd þrátt fyrir það vinnu við að und­ir­búa við­bragðs­á­ætlun vegna flug­fé­lag­anna, en þó þannig að lítið bar á. Fjögur ráðu­neyti (sam­göng­u-, fjár­mála- og efna­hags­mála-, for­sæt­is- og iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyti) komu að verk­efn­inu.

Þegar leið á árið 2018 varð staðan þó sífellt alvar­legri. Verð á flug­véla­elds­neyti hækk­aði um 36 pró­sent á fyrri hluta árs­ins og vegna sam­keppn­is­að­stæðna gátu íslensku flug­fé­lögin ekki mætt þessum mikla aukna kostn­aði með hækkun flug­far­gjalda. Þá gera flestar spár fyrir því að verðið á olíu haldi áfram að hækka út árið. Frá því í apríl hefur verið fylgst mjög náið með stöðu flug­fé­lag­anna.

Staða Icelandair er þó mun sterk­ari en WOW air. Félagið er skráð markað og upp­lýs­ingar um fjár­hags­stöðu þess opin­ber­ar. Þannig er hægt að sjá að Icelandair varði sig að ein­hverju leyti fyrir verð­hækk­unum þannig að hækk­an­irnar höfðu ekki jafn mikil skamm­tíma­á­hrif á félag­ið. Auk þess á Icelandair 530 millj­ónir dali, um 57 millj­arða króna, í eigið fé, sem gerir félag­inu kleift að takast á við umtals­verðar sveiflur til lengri tíma.

Markaðsvirði Icelandair lægra en eigið féð

Icelandair hefur ekki farið varhluta af þrengingum í fluggeiranum. Markaðsvirði félagins var um 189 milljarðar króna fimmtudaginn 28. apríl 2016, þegar það var sem mest. Nú er það um 42 milljarðar króna. Tæplega 150 milljarðar króna af markaðsgenginu hefur þurrkast út á rúmum tveimur árum. Markaðsvirði Icelandair er nú umtalsvert lægra en eigið fé félagsins, sem var um 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.

Félagið sendi frá sér tvær afkomuviðvaranir í fyrra þar sem greint var frá því að rekstrarniðurstaða þess yrði lakari en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum. Í uppfærðri afkomuspá sem birt var 8. júlí í sumar, var hún lækkuð um 30 prósent. við­vör­un­inni sagði Björgólfur Jóhann­sson, for­stjóri félags­ins, töl­urnar einnig vera „tals­verð von­brigði“ og nefndi þar hækkun á olíu­verði síð­ustu mán­aða og enga hækkun á flug­far­gjöldum sem helstu ástæður verri afkomu en áður var spáð. Í kjöl­farið lækk­aði hluta­bréfa­verð félags­ins um fjórð­ung á einum degi.

Stærstu eigendur fyrirtækisins eru íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir eiga rúmlega helming af öllu hlutafé í Icelandair. Stærsti eigandinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna. Hann keypti stærstan hluta af 13,99 prósent hlut sínum á árinu 2010 á genginu 2,5 krónur á hlut. Vegið kaupgengi eignarhlutar sjóðsins í Icelandair er 3,7 krónur á hlut og því er þessi næst stærsti lífeyrissjóður landsins enn í plús með fjárfestingu sína, en gengi bréfa í Icelandair er nú um 8,5 krónur á hlut.

Sömu sögu var ekki að segja um WOW air. Félagið varði sig ekki með neinum hætti fyrir hækk­unum á elds­neyt­is­verði og þar sem WOW air er ekki skráð á markað hafa opin­berar fjár­hags­upp­lýs­ingar um það verið tak­mark­að­ar. Félagið er svo­kallað „black box“ og birtir litlar upp­lýs­ingar um stöðu sína utan þess að skila inn hefð­bundnum árs­reikn­ingi. Þegar það ger­ist eru þær vana­lega tak­mark­aðar og settar fram með þeim hætti að þær lítið sem best út fyrir WOW air. Félagið hefur enn ekki birt árs­reikn­ing fyrir árið 2017.

Ljóst var þó að stjórn­völd höfðu áhyggj­ur. Frá því í vor hafa þau fylgst mjög náið með stöðu félags­ins, og óform­leg sam­staða er um það að það verði að grípa inn í riði WOW air til falls. Þar sem félagið flytur 37 pró­sent allra far­þegar sem fara um Kefla­vík­ur­flug­völl yrðu áhrifin á Ísland í heild svo mikið að það megi ein­fald­lega ekki ger­ast. Þar er sér­stak­lega horft á áhrifin á greiðslu­jöfn­uð.

Hluta­fjár­aukn­ing og hlutir aug­lýstir til sölu

Skúli Mog­en­sen, stofn­andi, eig­andi og for­stjóri WOW air, mætti í við­tal við Bloomberg 27. apríl síð­ast­lið­inn. Þar sagði hann að til greina gæti komið að selja hlut í félag­inu fyrir árs­lok í gegnum hluta­fjár­aukn­ingu. Sá orðrómur komst á flot að Luft­hansa væri áhuga­samt og Skúli sagð­ist í við­tal­inu að nokkur stór flug­fé­lög hefðu sýnt áhuga.

Þann 13. júlí sendi WOW air frá sér til­kynn­ingu. Í henni kom fram að félagið hefði tapað um 2,4 millj­örðum króna á árinu 2017. Þar var einnig sagt að eig­in­fjár­hlut­fall WOW air hefði verið 10,9 pró­sent um ára­mót. Allar við­vör­un­ar­bjöllur fóru á fullt, sér­stak­lega í ljósi þess að fyrir lá hversu mikið erf­ið­ari aðstæður væru orðnar á árinu 2018. Átti WOW air nægi­lega mikið eigið fé til að takast á við þær? Var það þegar búið?

Í ágúst varð síðan ljóst að stóru flug­fé­lögin úti í heimi voru ekki, að minnsta kosti eins og er, að fara að kaupa hlut í WOW air. Mán­uð­ur­inn byrj­aði á því að greint var frá því að Skúli Mog­en­sen hefði aukið hlutafé sitt í félag­inu með því að leggja 60 eign­ar­hlut sinn í frakt­flutn­ing­ar­fé­lag­inu Cargo Express inn í WOW air og breyta um tveggja millj­arða króna kröfu sem hann átti á félagið í nýtt hluta­fé. Við þessa breyt­ingu jókst hluta­féð í WOW air um 51 pró­sent. Ein eig­in­legt lausafé jókst ekk­ert, skuldir lækk­uðu bara.

Hótun um afleið­ingar

Þann 15. ágúst birt­ist svo for­síðu­frétt á Frétta­blað­inu þess efnis að WOW air ætl­aði að sækja sér allt að 12 millj­arða króna í gegnum skulda­bréfa­út­boð. WOW hafði þá samið við norska ráð­gjaf­ar­fyr­ir­tækið Par­eto Securities um að hafa umsjón með útboð­inu og fyrir liggur að það þarf að klár­ast á næstu vik­um.

Upp­lýs­ing­arnar byggðu á ítar­legri fjár­festa­kynn­ingu sem Par­eto hafði, lík­ast til óvart, birt á heima­síðu sinni. Í henni var að finna ítar­legri upp­lýs­ingar um fjár­mál og fram­tíð­arplön WOW air. Kjarn­inn birti síðan kynn­ing­una í heild sinni á vef sínum síðar sama dag.

Sú birt­ing fór ekki vel ofan í starfs­menn Par­eto. Einn þeirra sendi tölvu­póst þar sem hann hót­aði ótil­greindum aðgerð­um, og afleið­ing­um, ef kynn­ingin yrði ekki fjar­lægð af vef Kjarn­ans. Starfs­mann­inum var gert ljóst að fyr­ir­tækið hans hefði sjálft birt kynn­ing­una á inter­net­inu og að hún væri enn aðgengi­leg á heima­síðu þess. Ábyrgðin á birt­ingu efn­is­ins væri því Par­eto, ekki Kjarn­ans, og í ljósi kerf­is­legs mik­il­vægis WOW air fyrir Ísland væri sann­ar­lega um efni að ræða sem ætti erindi við almenn­ing. Því yrði kynn­ingin ekki fjar­lægð.

Par­eto hefur enn sem komið er ekki gripið til neinna aðgerða gagn­vart Kjarn­anum vegna birt­ing­ar­inn­ar.

Áform og staða WOW air opin­beruð

Í kynn­ing­unni kemur meðal ann­ars fram að eig­in­fjár­hlut­fall WOW air hafi verið komið niður í 4,5 pró­sent í júní, þrátt fyrir hluta­fjár­aukn­ing­una sem fram­kvæmd var fyrr á árinu og að það hafi fengið 28 millj­ónir dala í end­ur­greiðslu vegna inn­borg­anna á vélar sem WOW air ætl­aði að kaupa. Rekstr­ar­tap félags­ins fyrir afskrift­ir, fjár­magns­gjöld og tekju­skatt frá miðju ári 2017 og til júníloka 2018 var 26 millj­ónir dala, um 2,8 millj­arðar króna.  Þorri skulda WOW air er vegna leigu félags­ins á flug­vél­um, en WOW air á engar þeirra 20 véla sem félagið gerir út. Á meðal ann­arra kröfu­hafa þess er Arion banki, sem WOW air skuldar um 750 millj­ónir króna.

Sam­kvæmt kynn­ing­unni á skulda­bréfa­út­boðið að vera brú­ar­fjár­mögnun þar til að WOW air verði skráð á mark­að, en það á að ger­ast innan 18 mán­aða. Að þeim tíma liðnum ætlar WOW air að vera orðið mark­aðs­ráð­andi á Íslandi, þ.e. að vera búið að taka fram úr Icelandair þegar kemur að far­þega­fjölda og flytja þá alls 3,9 millj­ónir far­þega. Til að átta sig á því hversu hraður vöxtur WOW air hefur verið þá er hægt að benda á að félagið flutti um hálfa milljón far­þega árið 2014.

Formenn stjórnarflokkanna þriggja eru allir, ásamt Þordísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, hluti af af starfshópnum sem vinnur að viðbragðsáætlun vegna kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Þar eru flugfélögin tvö efst á blaði.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Skúli Mog­en­sen er sjálfur bjart­sýnn á að fjár­hags­staða WOW air styrk­ist og sagði í við­tali við Frétta­blaðið á mið­viku­dag, að eig­in­fjár­staða félags­ins myndi styrkj­ast á seinni helm­ingi árs­ins og að hagn­að­ur­inn á því tíma­bili myndi lík­lega fara yfir 20 millj­ónir Banda­ríkja­dala, eða meira en tvo millj­arða króna.

Flug­rekstur er oft sveiflu­bund­inn eftir árs­tíðum og sagði Skúli í við­tal­inu að WOW air myndi vaxa áfram og sinna sínu hlut­verki.

Áhyggjur en von­ast til að allt fari vel

Við­mæl­endur Kjarn­ans í fjár­mála­geir­anum segja að þeir vextir sem WOW air muni þurfa að sætta sig við ef að salan á skulda­bréf­unum eigi að ganga eftir verði mjög háir. Mik­ill þrýst­ingur er auk þess á ráð­gjaf­anum Par­eto Securities um að sigla mál­inu í höfn, vegna þess að ekki er ljóst hvert plan B eigi að vera gangi það ekki eft­ir.

Margir við­mæl­enda Kjarn­ans í ferða­þjón­ustu sögð­ust ugg­andi yfir stöðu WOW Air, en von­uðu samt að félagið myndi ná að rétta úr kútn­um, skipu­leggja fjár­mögn­un­ina betur fram í tím­ann og halda áfram vext­in­um.

Þegar öllu væri á botn­inn hvolft þá þyrfti að halda fólks­flutn­ingum til lands­ins stöð­ugum og opna á flug­leiðir til lands­ins. WOW Air hefði haft jákvæð áhrif, hjálpað til við að nema ný lönd og þannig leggja grunn­inn að sterk­ari rekstr­ar­grunni fjöl­margra fyr­ir­tækja í ferða­þjón­ustu um land allt.

Þess vegna eru stjórn­völd að fylgj­ast með þróun mála dag frá degi. Starfs­hópur á vegum stjórn­valda, sem metur við­brögð við erf­ið­leikum sem mynd­ast geta í atvinnu­líf­inu hjá fyr­ir­tækjum sem hafa kerf­is­lægt mik­il­vægi, hefur tekið saman upp­lýs­ingar og hafa for­sæt­is­ráðu­neyt­ið, fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­ið, sam­göngu­ráðu­neytið og iðn­að­ar-, ferða­mála- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­ið, fylgst náið með þeirri vinnu og fengið upp­færslur um stöðu mála.

Katrín Jak­obs­dótt­ir, Sig­urður Ingi Jóhanns­son, Bjarni Bene­dikts­son og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir eru því með þræð­ina í hendi sér af hálfu stjórn­valda.

Strangar kröfur gerðar til þeirra sem stunda flugrekstur

Flugrekstrarleyfi eru gefin út af Samgöngustofu og hefur hún eftirlit með þeim félögum sem hafa leyfi til að starfa sem flugfélög. Eftirlitshlutverkið miðar að því að tryggja öryggi, fyrst og fremst, samkvæmt svörum frá Samgöngustofu við fyrirspurn Kjarnans. Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, vildi ekki upplýsa um það í nákvæmisatriðum hvernig eftirliti væri háttað með flugfélögum, sem hafa flugrekstrarleyfi, en einn þeirra þátta sem fylgjast á náið með er efnahagsleg staða flugfélaga. .

Sérstaklega var spurt hvernig eftirlit Samgöngustofu með efnahagslegri stöðu WOW Air og Icelandair hefði verið háttað, en í svari stofunnar kom fram að upplýsingar um einstaka eftirlitsskylda aðila yrðu ekki gefnar upp, né heldur yrði upplýst um eftirlitshlutverkið. Ramminn í eftirliti með flugrekstri liggur í lögum og reglum á EES svæðinu. Í 5. grein reglugerðarinnar, þar sem eftirlitshlutverkið er skýrt, er fjallað um fjárhagsleg skilyrði fyrir veitingu flugrekstrarleyfis. Mikið er í húfi í flugrekstri enda fáir geirar atvinnulífsins sem eru undir strangara eftirliti, þegar kemur að daglegri starfsemi, og fluggeirinn. Ástæðan er augljós; mikil ábyrgð fylgir því að sinna flutningum með fólk og vörur milli landa í flugi, og mikilvægt að ábyrgir aðilar sinni því, ekki síst fyrir lítið eyríki - sem á mikið undir ferðaþjónustu - eins og Ísland.

Í 5. greininni er fjallað um tvö meginatriði, þegar kemur að útgáfu flugrekstrarleyfis og til hvaða þátta skuli horft þegar flugrekstraraðili fær leyfi til að hefja rekstur. Annars vegar er það að flugfélagið hafa fjárhagslegt bolmagn til að sinna öllum þáttum rekstrar í tvö ár frá stofnun. Er sérstaklega fjallað um að allar skuldbindingar - „raunverulegar og mögulegar“ - séu örugglega fjármagnaðar á þessum fyrstu tveimur árum. Þá er einnig fjallað um nýr rekstraraðili sé með nægilegt fjármagn til að standa undir öllum útgjöldum í þrjá mánuði. Einnig er fjallað um að viðskiptaáætlanir séu afhentar eftirlitsaðila, það er Samgöngustofu, og að þar komi fram upplýsingar sem gefi glögga mynd af rekstri og áformum.

Reglurnar og lögin sem eftirlitshlutverkið tekur mið af eru þannig orðuð, að það er sett í hendur eftirlitsaðila að meta stöðuna hjá flugfélögunum á hverjum tímapunkti. Einn af áhættuþáttunum snýr að því hvernig bregðast skuli við, ef það er komið í óefni.

Í flugi er það ekki tekið neinum vettlingatökum ef flugfélög standa illa. Ef þau geta ekki staðið við skuldbindingar sínar, þá einfaldlega stöðvast öll starfsemi. Flugvélar eru frystar á flugvöllum og farþegar verða strandaglópar. Slík staða myndaðist ekki fyrir svo löngu þegar breska flugfélagið Monarch varð gjaldþrota. Þá stöðvaðist áætlun félagsins og 110 þúsund farþegar urðu strandaglópar, víðsvegar um heiminn. Breskir skattgreiðendur þurftu þá að greiða fyrir því að koma farþegum félagsins á leiðarenda og greiddi breska ríkið fyrir leigu á flugvélum til að klára þá vinnu. Síðan var félagið einfaldlega úr sögunni.

Frétta­skýr­ingin birt­ist einnig í Mann­lífi sem kom út í dag, 24. ágúst.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar