panamaskjölin

Framlag Kjarnans á árinu 2016

Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2016.

Fátt benti til þess að í upp­hafi árs 2016 að íslenskt sam­fé­lag væri á leið­inni á hlið­ina. Rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks hafði ein­hvern vegin verið í ólgu­sjó allt kjör­tíma­bilið þrátt fyrir nán­ast for­dæma­lausa efna­hags­lega upp­sveiflu. Evr­ópu­mál, veiði­gjöld, til­raunir til að breyta skipu­lagi Seðla­bank­ans, vinnu­mark­aðs­deil­ur, svelt heil­brigð­is­kerfi og enda­lausar deilur um fjár­fram­lög til RÚV höfðu sett mark sitt á kjör­tíma­bil­ið.

En rík­is­stjórnin hafði lokið sínu stærsta máli, að semja við kröfu­hafa föllnu bank­anna um að þeir gæfu eftir hluta af eignum sín­um, og fram undan átti að vera ár þar sem auknar vin­sældir yrðu tryggðar með notkun stöð­ug­leika­fram­laga upp á mörg hund­ruð millj­arða króna. Það hefði átt að duga til að hífa fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna upp og skapa aðstæður til áfram­hald­andi setu.

Þetta átti þó eftir að verða árið sem allt breytt­ist. Mesta fréttaár í Íslands­sög­unni.

Panama­skjölin skekja heims­byggð­ina

Borg­un­ar­mál­ið, sem Kjarn­inn hóf umfjöllun um í nóv­em­ber 2014, hélt áfram. Í jan­úar var greint frá því að kaup VIsa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun millj­örðum króna sem ekki var tekið til­lit til þegar rík­is­bank­inn Lands­bank­inn seldi hlut sinn í félag­inu á lágu verði bak við luktar dyr. Málið varð til þess fimm af sjö banka­ráðs­mönnum Lands­bank­ans sögðu af sér í mars en stuðn­ingi var lýst við banka­stjór­ann Stein­þór Páls­son. Í nóv­em­ber birti Rík­is­end­ur­skoðun svo svarta skýrslu um eigna­sölu Lands­bank­ans á árunum 2010-2016. Stein­þór sagð­ist ekki að segja af sér. Viku síðar var hann hætt­ur.

Umfangs­mesti gagna­leki sög­unnar átti sér stað þegar ótil­greindur aðili komst yfir gögn frá panömsku lög­fræði­stof­unni Mossack Fon­seca, sem sér­hæfir sig í stofnun og umsýslu aflands­fé­laga í skattak­sjól­um. Í byrjun apríl hófu fjöl­miðlar út um allan heim, í sam­starfi við alþjóða­sam­tök rann­sókn­ar­blaða­manna (ICI­J), að birta umfangs­miklar umfjall­anir úr lek­an­um. Ísland lék stórt hlut­verk þar, enda sýndu gögnin að um 600 Íslend­ingar ættu um 800 félög hjá Mossack Fon­seca.

Hinn 3. apríl var sýndur sér­stakur Kast­ljós­þáttur þar sem greint var frá eign­ar­haldi Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar, þá for­sæt­is­ráð­herra, á aflands­fé­lag­inu Wintr­is. Í félag­inu eru geymdar millj­arða­eignir og opin­berað var að Wintris væri kröfu­hafi í bú bank­anna. Við­tal við Sig­mund Dav­íð, sem hann gekk út úr, varð heims­frétt. Dag­inn eftir þátt­inn fóru fram fjöl­menn­ustu mót­mæli Íslands­sög­unnar þar sem afsagna og nýrra kosn­inga var kraf­ist. Sig­mundur Davíð sagði af sér sem for­sæt­is­ráð­herra 5. apríl 2016 og ný rík­is­stjórn undir for­sæti Sig­urðar Inga Jóhanns­sonar lof­aði kosn­ingum síðar á árinu.

Mestu mótmæli Íslandssögunnar fóru fram daginn eftir að viðtalið við Sigmund Davíð var sýnt í sjónvarpi.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Kjarn­inn lék lyk­il­hlut­verk bæði í umfjöllun um Panama­skjölin, þar sem hann vann úttektir um umfangs­mikla við­skipta­menn á borð við Bakka­var­ar­bræð­urna Ágúst og Lýð Guð­munds­syni og hjónin Jón Ásgeir Jóhann­es­son og Ingi­björgu Pálma­dóttur, og um póli­tískar afleið­ingar birt­ingu þeirra. Þá opin­ber­aði Kjarn­inn að aflands­fé­lag í eigu fjöl­skyldu þáver­andi for­seta­frúar Íslands, Dor­ritar Moussai­eff væri í Panama­skjöl­un­um, þrátt fyrir að for­et­inn, Ólafur Ragnar Gríms­son, hefði neitað því opin­ber­lega að hann eða ein­hver í fjöl­skyldu hans tengd­ist aflands­fé­lög­um. Ísland var skyndi­lega heims­frétt og allra augu voru á litlu eld­fjalla­eyj­unni.

Nýr for­seti

Guðni Th. Jóhann­es­son sagn­fræð­ingur var kjör­inn for­seti Íslands í for­seta­kosn­ingum í júní. Hann hlaut 39,1 pró­sent atkvæða sem var öllu minna en hann hafði mælst með í skoð­ana­könn­un­um. Alls kynntu 22 um að þau hygð­ust bjóða sig fram; þeirra á meðal Ólafur Ragnar Gríms­son, sitj­andi for­seti, eftir að hafa hætt við að hætta sem for­seti. Hann hætti svo aftur við. Níu voru á end­anum í fram­boði. Aldrei hafa fleiri verið í for­seta­fram­boði á Íslandi. Einn þeirra sem kom inn með miklum krafti, og eyddi miklum fjár­munum í að reyna að ná kjöri, var Davíð Odds­son, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra og núver­andi rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins. Þrátt fyrir að Davíð hafi náð að draga til sín mikla athygli á meðan að á kosn­inga­bar­átt­unni stóð hafði hann ekki erindi sem erf­iði og end­aði með ein­ungis 13,7 pró­sent atkvæða, sem skil­aði honum í fjórða sæti á eftir Guðna Th., Höllu Tóm­as­dóttur og Andra Snæ Magna­syni.

Ísland vann EM 2016 án þess að vinna það.
Mynd: EPA

Íslenska karla­lands­liðið í knatt­spyrnu tók fyrsta sinn þátt á stór­móti þegar „strák­arn­ir“ kepptu á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu í Frakk­landi í sum­ar. Ísland keppti í riðli með Portú­gal (sem varð að lokum Evr­ópu­meist­ari) og gerði jafn­tefli við Ron­aldo og félaga í fyrsta leik sínum á stór­móti. Okkar menn komust alla leið í átta liða úrslit eftir að hafa nið­ur­lægt Eng­land í Nice. Þar mætti Ísland Frakk­landi sem reynd­ist á end­anum of stór biti fyrir nýliða Íslands. Eftir stóð frá­bær árangur íslenska lands­liðs­ins. Kjarn­inn var á staðnum og skrif­aði ein­stæðar frétta­skýr­ingar af því sem átti sér stað þar sem áherslan var oft á tíðum á aðra hluti en endi­lega knatt­spyrn­una sem spiluð var.

Stjórn­völd kynntu áætlun sína um losun fjár­magns­hafta sum­arið 2015. Lyk­il­at­riði í þeirri áætlun voru samn­ingar við kröfu­hafa um að slíta þrota­búum föllnu bank­anna og og aðgerðir til að taka á hinni svoköll­uðu aflandskrónu­hengju. Í ágúst 2016 var lagt fram lang­þráð frum­varp um breyt­ingar á lögum um gjald­eyr­is­mál. Í þeim fólust stærstu skref sem stigin höfðu verið í átt að losun fjár­magns­hafta frá því að þeim var komið á haustið 2008. Frum­varpið varð að lögum 11. októ­ber og fækk­aði und­an­þágum frá höftum um 50-65 pró­sent.

Annus horri­bilis hjá Sig­mundi Davíð

Sig­mundur Davíð til­kynnti síð­sum­ars um að hann ætl­aði að snúa aft­ur. Hann var enn for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins og taldi sig eiga að geta gengið að því vísu að leiða rík­is­stjórn að nýju. Flokks­fé­lagar hans voru ekki allir sam­mála. 10. sept­em­ber var hald­inn mið­stjórn­ar­fundur Fram­sókn­ar­flokks­ins í Hofi á Akur­eyri. Þar flutti Sig­mundur Davíð rúm­lega klukku­tíma langa ræðu studdur glærum með sterku mynd­máli þar sem hann fór yfir stöðu stjórn­mála, árangur sinn og það sem hann telur vera þaul­skipu­lagða aðför að sér. Þátt­tak­endur í þeirri meintu aðför eru stórir leik­endur í alþjóða­fjár­mála­kerf­inu og fjöl­miðlar víða um heim.

Sig­urður Ingi hélt líka þar sem hann greindi frá því að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem vara­for­maður flokks­ins eftir kom­andi flokks­þing vegna sam­skipta­örð­ug­leika í for­ystu Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Árið 2016 var ekki gjöfult fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ákveðið hafði verið að halda flokks­þing Fram­sóknar í byrjun októ­ber, nokkrum vikum fyrir kosn­ing­ar. Átta dögum fyrir það og tæpum mán­uði fyrir kosn­ingar var sprengju kastað inn í starf Fram­sókn­ar­flokks­ins þegar Sig­urður Ingi til­kynnti að hann myndi bjóða sig fram til for­manns gegn Sig­mundi Dav­íð. Í stað þess að stilla saman strengi fyrir kosn­inga­bar­áttu var flokk­ur­inn klof­inn í herðar nið­ur.  2. októ­ber fór for­manns­kosn­ing fram á flokks­þingi Fram­sókn­ar­flokks­ins. Spennan var áþreif­an­leg og ljóst að mjótt yrði á mun­un­um. Sig­urður Ingi sigr­aði á end­anum með 370 atkvæðum gegn 329 atkvæðum Sig­mundar Dav­íðs. Á meðan að Sig­urður Ingi hélt sig­ur­ræðu sína og kall­aði eftir því að flokk­ur­inn þjapp­aði sér saman sat Sig­mundur Davíð sem fast­ast í sæti sínu í Háskóla­bíói, þar sem flokks­þingið fór fram. Þegar á leið stóð hann skyndi­lega upp og rauk út úr bíó­inu með frétta­manna­hjörð á eftir sér.

Afleit ár Sig­mundar Dav­íðs varð sífellt verra.

Alþing­is­kosn­ingar fyrir tím­ann og gjör­breytt lands­lag

Kosið var til Alþingis 29. októ­ber 2016, rúmu hálfu ári áður en að kjör­tíma­bil­inu átti að ljúka. Kosn­ing­arnar voru merki­legar fyrir margar sak­ir. Sjö flokkar náðu mönnum inn, þar á meðal nýi flokk­ur­inn Við­reisn, sem fékk sjö þing­menn kjörna, sem var einn besti árangur nýs flokks frá upp­hafi. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hélt velli á meðan Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn minnk­aði niður í átta þing­manna flokk. Píratar náðu tíu þing­mönn­um, minna en spáð hafði ver­ið, VG fengu tíu og Björt fram­tíð og Sam­fylk­ingin 4 og 3 eftir að hafa um tíma báðir verið utan þings sam­kvæmt könn­un­um. Aldrei höfðu fleiri nýir þing­menn tekið sæti og aldrei höfðu kynja­hlut­föll verið eins jöfn.

Það gekk hins vegar erf­ið­lega að mynda rík­is­stjórn og þrátt fyrir að öll mögu­leg mynstur hefðu verið mátuð, jafn opin­ber­lega sem bak­við luktar dyr. Og þegar árið var liðið var enn ekki búið að mynda rík­is­stjórn. En hún var í kort­unum og var á lokum mynduð snemma árs 2017. Sú átti eftir að verða óvin­sælasta rík­is­stjórn Íslands­sög­unnar og sitja í skemmri tíma en nokkur gat ímyndað sér. Kjarn­inn fjall­aði ítar­lega um allar þessar póli­tísku hrær­ing­ar.

Kjarn­inn hélt áfram að greina sam­fé­lags­breyt­ingar út frá hag­tölum og sagði frá því í des­em­ber að  mun fleiri Íslend­ingar hefðu flutt burt frá land­inu á und­an­förnum þremur árum en aftur til þess.

Ástæð­urnar væru nokkr­ar. Hér væru ekki að verða til „réttu“ störf­in, lífs­gæði sem mæl­ast ekki í tekju­öflun stæð­ust ekki sam­an­burð og það ríkti neyð­ar­á­stand á hús­næð­is­mark­aði.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar