Bára Huld Beck ESTA-umsókn

Greiða sexfalt fyrir umsókn um ESTA-ferðaheimild

Margir hafa lent í því undanfarið að greiða margfalt verð fyrir svokallaðar ESTA-umsóknir sem sækja þarf um fyrir dvöl í Bandaríkjunum. Sendiráðið hvetur fólk til að sækja um leyfið á opinberum síðum bandarískra stjórnvalda.

Íslendingar hafa margir hverjir borgað margfalt verð fyrir ESTA-ferðaheimild til Bandaríkjanna en sérstakar vefsíður á netinu sérhæfa sig í að vera milliliðir varðandi þjónustuna. Þessar síður rukka tugi bandarískra dollara fyrir þjónustuna á meðan heimildin sjálf kostar 14 dollara eða 1.500 krónur. Sumar þessara síðna rukka allt að 88 dollara eða 9.500 krónur, samkvæmt athugunum Kjarnans.

Ísland er aðili að rafræna vegabréfskerfinu Visa Waiver Program sem gerir íslenskum ríkisborgurum kleift að ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar. Frá og með 12. janúar árið 2009 varð rafræna kerfið fyrir ferðaheimildir (e. Electronic System for Travel Authorization) áskilin hluti rafræna vegabréfskerfisins. Rafræn ferðaheimild er umsóknarkerfi fyrir alla farþega frá aðildarlöndum rafræna vegabréfskerfisins, þar með talið Ísland.

Vegna aukinna öryggisráðstafana þurfa farþegar nú að sækja fyrirfram um ferðaheimildina. Sem og áður þarf enn að hafa tölvulesanlegt vegabréf frá aðildarlandi rafræna vegabréfskerfisins. ESTA-umsóknarferlið fer fram á netinu og er á vegum Heimavarnarráðs Bandaríkjanna.

Þess ber að geta að ferðaheimildin er ekki vegabréfsáritun. Tilgangur ferðaheimildarinnar er að gefa Heimavarnarráði Bandaríkjanna tækifæri á að rannsaka alla farþega frá aðildarlöndum rafræna vegabréfskerfisins áður en þeir ferðast frá sínu heimalandi. Íslenskir farþegar sem ferðast til Bandaríkjanna þurfa að sækja um ferðaheimild að minnsta kosti 72 tímum fyrir brottför. Samþykkt ferðaheimild tryggir ekki landgöngu en er forkrafa um að ferðast til Bandaríkjanna með flugi eða skipi.

Tæpar 50.000 kr. fyrir fimm manna fjölskyldu

Íslensku flugfélögin benda viðskiptavinum sínum á hvar hægt sé að sækja um ESTA-ferðaleyfi í gegnum réttmæta síðu á netinu. Margir virðast þó ákveða að leita að síðunni á netinu í gegnum leitarvélar og eru þá frekari líkur á að lenda á síðum sem rukka sérstaklega fyrir þjónustuna.

Kjarninn talaði við fólk sem keypt hefur þjónustu af vefsíðum sem sjá um þessa milligöngu. Í flestum tilfellum var nóg að senda tölvupóst til baka og þá var aukaþjónustan endurgreidd. Þó eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því að þessi viðbótarkostnaður sé óþarfur og greiða gjaldið án athugasemda.

Einn viðmælandi Kjarnans greinir frá því að kortafyrirtækið, sem viðkomandi er hjá, hafi ekki viljað gera endurgreiðslukröfu þegar hann gerði sér grein fyrir hvað gerst hafði. Skýringarnar sem fyrirtækið gaf hefðu verið þær að þá gæti fólk lent í því að fá ekki áritunina þegar á hólminn væri komið.

Annar einstaklingur sem hafði samband við Kjarnann segir að hann hafi borgað tæpar 50.000 krónur fyrir ferðaleyfi fyrir fimm manna fjölskyldu þegar hann hafi einungis þurft að borga 7.500 krónur fyrir leyfin fimm.

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík
ja.is

Opinberar síður stjórnvalda enda á „.gov“

Í svari bandaríska sendiráðsins við fyrirspurn Kjarnans segir að þau séu meðvituð um vefsíður sem selja slíka þjónustu. Sendiráðið bendir á að þjónustan sé lögleg, þ.e. leyfilegt sé fyrir þriðja aðila að sækja um ESTA-ferðaleyfi fyrir einstaklinga og séu fyrirtæki sem veita slíka þjónustu. Ekki sé þó hægt að ábyrgjast þessi fyrirtæki.

Bandaríska sendiráðið tekur það fram að ef fólk sé í einhverjum vafa hvar eigi að sækja um ESTA-ferðaleyfi eða hvort vefsíða sé opinber síða bandarískra stjórnvalda þá sé hægt að þekkja þær á því að þær enda allt á „.gov“.

Vefsíða bandarískra stjórnvalda.
Skjáskot

Þurfa að skoða hvert mál fyrir sig

Kjarninn hafði samband við tvö kortafyrirtæki, Valitor og Borgun. Borgun svaraði ekki fyrirspurnum Kjarnans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá svör. Samkvæmt Valitor ráðleggur fyrirtækið korthöfum að forðast vefsíður aðila sem veita þjónustu við umsókn ESTA-leyfis og nota frekar opinbera skráningarsíðu ESTA. Í svari Valitor segir að þegar korthafar leiti eftir ESTA á Google sé að finna vefsíður milliliða sem að bæta þóknun við ESTA gjaldið.

Valitor hefur fengið kvartanir sem snúa að því að korthafar eru rukkaðir um hærra verð fyrir ESTA-leyfi en þeir telja sig eiga að greiða. „ESTA-leyfi til Bandaríkjanna kostar 14 USD ef sótt er um leyfið beint til yfirvalda en vefsíður milliliða taka auka gjald fyrir að sjá um ESTA-umsókn. Þeir leggja sína þóknun ofan á ESTA gjaldið, væntanlega með samþykki korthafa sem fyllir út umsókn á þeirra síðu,“ segir í svarinu.

Jafnframt segir að það þurfi að skoða hvert mál fyrir sig, því korthafar þurfi ávallt að ganga úr skugga um að þeir hafi gilt ESTA-leyfi ef þeir óska eftir bakfærslu, þar sem bakfærsla geti haft þau áhrif að ESTA-leyfið verði afturkallað.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar