Viðmiðunarverð á bensíni á Íslandi um miðjan ágúst 2018 var 217,8 krónur á lítra og hélst óbreytt frá júlímánuði. Verðið hefur hækkað skarpt það sem af er ári og náði sú hækkunarhrina hámarki í júní síðastliðnum þegar verðið var 219,9 krónur á lítra. Verðið hafði ekki verið í þeim hæðum frá því í júlí 2015, eða í þrjú ár. Þetta kemur fram í ný birtri Bensínvakt Kjarnans sem unnin er í samvinnu við Bensínverð.is.
Frá áramótum hefur bensínverðið hækkað um 21,9 krónur á lítra, eða um rúm ellefu prósent. Á sama tíma hefur gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar, sem innkaup á bensíni fara fram í, styrkst um rétt rúmlega eitt prósent. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hins vegar hækkað um 20 prósent á sama tíma. Flestir sérfræðingar virðast sammála um að eldsneytisverð eigi eftir að halda áfram að hækka á næstu mánuðum.
Ríkið tekur rúmlega helming
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 20,25 prósent af verði hans um miðjan ágúst í sérstakt bensíngjald, 12,56 prósent í almennt bensíngjald og 3,8 prósent í kolefnisgjald. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur. Samanlagt fór því 121,88 krónur af hverjum seldum lítra til ríkisins, eða 55,96 prósent. Hæstur fór hlutur ríkisins í 60,26 prósent í júlí 2017.
Bensínvakt Kjarnans reiknar einnig út líklegt innkaupsverð á bensíni út frá verði á lítra til afhendingar í New York í upphafi hvers mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands.
Líklegt innkaupsverð í síðustu birtu Bensínvakt var 59,59 krónur á lítra og hefur hækkað um 21,3 prósent frá því um miðjan desember 2017.
Olíufélögin fá minna en oft áður
Bensínvaktin reiknar loks út hlut olíufélags í hverjum seldum lítra sem afgangsstærð þegar búið er að greina aðra kostnaðarliði, líkt og farið er yfir hér að ofan. Hlutur olíufélaga, þ.e. álagningin sem fer í þeirra vasa, er nú að minnsta kosti 36,35 krónur á hvern seldan bensínlítra. Hún hefur lækkað umtalsvert á síðastliðnu ári. Í maí 2017 fengu olíufélögin 41,74 krónur í sinn hlut af hverjum seldum lítra, eða um 15 prósent meira en þau gera í dag.
Olíufélögin taka nú að minnsta kosti 16,69 prósent af hverjum seldum olíulítra. Það hlutfall náði lægsta punkti sínum í september 2017 þegar olíufélögin fengu 11,38 prósent í sinn hlut.
Til samanburðar þá fengu þau 21,3 prósent af hverjum seldum lítra í maí 2017.