Mynd: Skjáskot dekhill

Skattrannsóknarstjóri fær ekki upplýsingar um eigendur Dekhill Advisors

Embætti skattrannsóknarstjóra telur sig hafa „trúverðugar vísbendingar“ um hver sé eigandi aflandsfélagsins Dekhill Advisors, sem fékk milljarða króna til sín í fléttu þegar Búnaðarbankinn var seldur fyrir rúmum 15 árum. Yfirvöld í Sviss vilja hins vegar ekki staðfesta hver, eða hverjir, eigendurnir eru.

Skattrannsóknarstjóri fær ekki upplýsingar um hver eigandi aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sé frá svissneskum skattyfirvöldum. Ástæðan er sú að eigendur félagsins lögðu fram vottorð þess efnis að þeir væru ekki skattskyldir á Íslandi, og þar af leiðandi töldu yfirvöld í Sviss sig ekki geta veitt embættinu upplýsingarnar.

Í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn Kjarnans segir:„Skattrannsóknarstjóri telur sig hafa trúverðugar vísbendingar um það hvaða aðili/aðilar þarna er um ræða og hefur upplýst skattyfirvöld viðkomandi ríkis um málið. Eftir atvikum geta þau þá fylgt málinu eftir telja þau ástæðu til.“

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaup­unum á 45,8 pró­sent hlut í Bún­að­ar­bank­anum í jan­úar 2003, sem birt var í fyrra, kom fram að aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited, skráð á Tortóla, hafi hagnast um 46,5 milljónir Bandaríkjadala, 2,9 milljarða króna á þávirði, á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á bankanum. Á núvirði er upphæðin um 4,7 milljarðar króna.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ítarleg gögn styðji að Hauck & Aufhäuser, Kaup­þing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafs­sonar fjár­festis hafi not­að leyni­lega samn­inga til að fela raun­veru­legt eign­ar­hald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Bún­að­ar­bank­anum í orði kveðnu.  

Rannsóknarnefndin komst ekki að því hver væri eigandi Dekhill Advisors með óyggjandi hætti né hverjir hafi haft aðgang að þeim fjármunum sem fóru til félagsins í gegnum baksamninga. Nefndin ályktaði hins vegar að aðilar tengdir Kaupþingi hafi verið eigendur þess. Síðan þá hefur verið reynt að sannreyna hverjir þeir eru, en án árangurs.

Það er enn verið að nota félagið

Kjarninn greindi frá því í maí 2017 að Dekhill Advisors væri virkt félag. Í desember 2009 gerði félagið handveðssamning við svissneska bankann Julius Bäer vegna fjármálagjörnings sem það var að taka þátt í. Gögn sem Kjarninn hefur undir höndum sýna þetta. Þau gögn innihéldu einnig skjal sem staðfesti að Dekhill Advisors var enn til og í virkni í lok september 2016.

Það er því skýrt að einhverjir hafa haft aðgang að og notað fjármunina sem greiddir voru inn í Dekhill Advisors í janúar 2006, á árunum eftir hrun. Og félagið var enn í starfsemi haustið 2016.

Mögulegt var talið að þeir fjármunir sem runnu til Dekhill Advisors hafi átt að skattleggjast hérlendis. Þess vegna var embætti skattrannsóknarstjóra að rannsaka málefni félagsins.

Ólafur Ólafsson átti annað félagið sem hagnaðist á baksamningum sem gerðir voru vegna kaupanna á Búnaðarbankanum.
Mynd: Kjarninn

Embættið óskaði eftir upplýsingum og gögnum  frá svissneskum yfirvöldum í júní á síðasta ári um Dekhill Advisors. Svar hefur nú borist, þess eðlis að ekki sé hægt að upplýsa íslensk stjórnvöld um hver eigandinn sé.

Græddi milljarða á því að blekkja stjórnvöld og almenning

Í mars 2017 var birt skýrsla rannsóknarnefndar um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í henni var opinberað að stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur hafi verið blekkt til að halda að þýski bankinn hafi raunverulega verið að kaupa hlut í Búnaðarbankanum fyrir eigin reikning. Svo var ekki.

Með vísun í ítarleg gögn sýndi rannsóknarnefndin fram á að íslenski bankinn Kaupþing, sem sameinaðist Búnaðarbankanum skömmu eftir söluna, hafi fjármagnað kaup Hauck& Aufhäuser að hluta í bankanum að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár.

Til viðbótar lá fyrir í fléttunni, sem var kölluð „Puffin“ (sem þýðir lundi á íslensku), að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni.

Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu og fékk þá fjármuni greidda inn á reikning sinn á árinu 2006. Á núvirði er sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja um 11 milljarðar króna.

Enginn sagðist vita nokkuð um hver eigandinn væri

Þau gögn sem rannsóknarnefndin var með undir höndum í vinnu sinni sýndu ekki fram á það með óyggjandi hætti hver eigandi, eða eigendur, Dekhill Advisors, væru. Þau sýndu heldur ekki hvort einhverjir aðrir en skráðir eigendur félagsins væru með aðgang að þeim fjármunum sem runnu inn í það.

Rannsóknarnefndin ályktaði að aðilar tengdir Kaupþingi hafi verið eigendur þess. Þar er átt við að mögulega hafi stjórnendur Kaupþings átt það, eða að minnsta kosti notið þeirra fjármuna sem flæddu inn í félagið. En það hefur líka öðrum möguleikum verið velt upp. Í samningsdrögum sem birt eru í skýrslunni kom á einum tíma til greina að Ágúst og Lýður Guðmundssynir myndu eiga hlut í Welling & Partners.

Lundafléttan var opinberuð í mars 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Allir þeir sem komu að „Lundafléttunni“ og voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina gátu ekki svarað því hverjir eigendur Dekhill væru. Þeim var síðan sent bréf frá nefndinni þann 13. mars þar sem þeim bauðst að svara spurningum nefndarinnar í ljósi þeirra gagna sem hún hafði aflað sér og þeirrar niðurstöðu sem hún hafði komist að. Svörin bárust flest 20. og 21. mars en skýrsla nefndarinnar var ekki birt fyrr en 29. mars.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sagði í svarbréfi sínu við spurningum nefndarinnar að hann teldi „óhætt að fullyrða að ég hafi aldrei heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited fyrr en í bréfi nefndarinnar“. Ólafur Ólafsson sagðist í svarbréfi sínu til nefndarinnar ekki minnast þess „að hafa heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited.“ Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagðist í sínu bréfi ekki geta „aðstoðað nefndina við að svara þeim spurningum sem að mér er beint“. Bræðurnir Ágúst og Lýður sögðu í samhljóma svarbréfum að þeim reki ekki minni til þeirra atriða sem nefnd voru í bréfi rannsóknarnefndarinnar.

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, forstjóri VÍS, ráðherra og seðlabankastjóri, var hluti af S-hópnum. Hann sendi frá sér yfirlýsingu 31. mars þar sem hann sagði að „hvorki ég né nokkur sem mér tengist er eigandi að félaginu Dekhill Advisors“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar