Persóna Donald Trumps kemur oft fyrir í fréttatímum sjónvarpsstöða þessa dagana og eru skoðanir skiptar um ágæti forsetans. Hins vegar er mikilvægt að geta aðreint persónu hans og aðgerðir. Hvað hefur breyst með hinum nýja forseta og hverjar eru líklegar afleiðingar gerða hans? Í viðtali við Financial Times fyrir nokkrum vikum lýsti Henry Kissenger því yfir að Trump væri holdgervingur breyttra tíma en ekki meðvituð orsök. Svo hvernig hefur heimurinn breyst og af hverju er persóna Trump holdgervinugur þessara breytinga?
Orsakir vinsælda forsetans
Stjórnmál á Vestulöndum hafa þróast á óvæntan hátt undanfarin ár. Bretland á í deilum við önnur ríki Evrópusambandsins um skilmála brotthvarfs úr Evrópusambandinu. Í Póllandi og Ungverjalandi eru þjóðernissinnaðir hægriflokkar við völd og á Ítalíu er komin ríkisstjórn sem hefur efasemdir um ágæti Evrópusamstarfsins og evrunnar. Hægrisinnaðir þjóðernisflokkar eru einnig vinsælir í Hollandi, Frakklandi, Svíþjóð og Þýskalandi og þótt þeir séu ekki við völd í þessum síðastnefndu löndum þá setja vinsældir þeirra stjórnvöldum skorður.
Stjórnmálahreyfing Trumps og sambærilegar hreyfingar í Evrópu eiga sameiginleg þrenn einkenni. Í fyrsta lagi eru þau undir stjórn einstaklings og sækja fylgi til persónu hans. Þessi einstaklingur ákvarðar stefnuna og það er dómgreind hans sem ræður en ekki samþykktir flokksþinga. Í öðru lagi sýna stjórnmálahreyfingarnar innlendum stofnunu, alþjóðasamvinnu og alþjóðasamtökum litla virðingu. Hreyfingarnar fara þannig á móti fjölmiðlum, háskólum, fjármálastofnunum og alþjóðasamtökum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Evrópusambandið verður oft fyrir gagnrýni og árásum þessara aðila enda byggist það á samvinnu þjóða og sameiginlegu regluverki. Í þriðja lagi leggja þessir aðilar áherslu á hagsmuni „innfæddra“ og þá ógn sem að þeim steðjar frá innflytjendum og fólki sem hefur annað húðlit, trúarbrögð eða venjur. Slíkar hreyfingar sem byggja á sterkum leiðtoga, þjóðernishyggju og andófi gegn ríkjandi viðhorfum og stofnunum hafa verið kallaðar „populískar“ af stjórnmálafræðingum.
Orsakir vinsælda þjóðernishreyfinganna hafa verið rannsakaðar undanfarin ár og hefur komið í ljós að fylgi þeirra má rekja til hópa kjósenda sem vantreysta hinum hefbundnu flokkum og hræðast breytingar. Þessir kjósendur eru yfirleitt eldri, búsettir í stjálbýli, minna menntaðir og telja hagsmunum sínum ógnað af innflutningi vinnuafls og alþjóðaviðskiptum. Þetta á einnig við í Bandaríkjunum. Hlutskipti hvíta minnihlutans í Bandaríkjunum sem ekki hefur háskólapróf er ekki gott. Dánartíðni innan hópsins hefur farið hækkandi um nokkurt skeið, þannig eru dánarlíkur fimmtugs hvíts manns sem ekki hefur háskólapróf nú hærri en föður hans þegar hann var á sama aldri. Ástæðuna má rekja til lyfjanoktunar, misnotkunar á áfengi og sjálfsmorða. Þannig hafa hvítir Bandaríkjamenn sem ekki hafa háskólapróf það að jafnaði slæmt og verra en kynslóð foreldra hafði það. Á meðan foreldrar, afar og ömmur höfðu betur launuð störk í iðnaði þá þarf núlifandi kynslóð að láta sér nægja lágt launuð störf í þjónustugeiranum. Heilsukvillar er algengir, t.d. er tíðni krónískra verkja há, og lyfjum er þá beitt til þess að bæta líðan, t.d. opiodar og heróín. Lyfjamisnotkun fylgir oft í kjölfarið.
Áhyggjur af vaxandi veldi Kína hafa einnig aukið vinsældir Trumps. Sú von að frjáls alþjóðaviðskipti auki frelsi og mannréttindi í Kína hefur ekki ræst og vaxandi herveldi Kína er farið að ógna alþjóðlegum skipaleiðum. Viðskiptahalli Bandaríkjanna gagnvart Kína nam 375 milljörðum dollara árið 2017 en þá fluttu Bandaríkin út vörur og þjónustu til Kína fyrir 130 milljaraða á meðan Kínverjar flutti vörur til Bandaríkjanna fyrir 506 milljarða dollara. Unnt er að reikna út hversu mörg störf hafa tapast í Bandarískum iðnaði vegna innflutnings á iðnvarningi frá Kína og skipta þau nokkrum milljónum.
Aðgerðir Trumps
Hingað til hafa ákvarðanir og stefna Trumps haft áhrif á sviði dómsmála, alþjóðaviðskipta, skatta og regluverks.
Ríkisstjórn Trump hefur skipað fjölda hægrisinnaðra dómara í embætti. Nú stendur til að skipa nýjan hæstaréttardómara en skipan Brett Kavinaugh gæti, m.a., orðið til þess að afnema rétt kvenna til fóstureyðinga. Áhrifa embættisveitinganna mun gæta um langa framtíð.
Skattar á fyrirtæki og hátekjufólk hafa verið lækkaðir, einkum á fyrirtæki sem eiga í fasteignaviðskiptum. Þessi skattalækkun magnar uppsveiflu efnahagslífsins þegar til skamms tíma er litið en eykur skuldir ríkissjóðs mikið þegar lengri tíma er litið. Skattalækkanirnar hafa aukið hagvöxt og skýra að hluta af hverju efnahagslífinu gengur vel um þessar mundir.
En skattalækkanirnar hafa sína skuggahlið. Skuldastaða ríkissjóðs er bág og fer ört versnandi. Skuldirnar eru nú rúmlega ein landsframleiðsla og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að ríkisskuldir muni vaxa meira í Bandaríkjunum en í öðrum þróuðum ríkjum næstu árin, aukast um 8.9% af vergri landsframleiðslu fram til ársins 2023. Á næstu þremur árum mun halli á ríkissjóði Bandaríkjann nema einni trilljón dollara. Þessi hallarekstur hefur tvenns konar áhrif. Í fyrsta lagi verður meiri spenna í hagkerfinu þegar til skemmri tíma er litið sem kallar á hærri vexti og sterkari dollar. Þetta mun engan veginn hjálpa hvítum Bandaríkjamönnum vegna þess að útflutningur iðnaðarvara verður erfiðari, samkeppnisstaða verri. Í öðru lagi verða skuldir ríkissins hærri þegar hagkerfið fer í næstu kreppu og þá erfiðara að bregðast við kreppunni með því að slaka á aðhaldi í ríkisfjármálum eins og gert var árin 2008 og 2009.
Ríkisstjórn Trump hefur lagt á tolla á innflutning frá Kína, Kanada og Evrópusambandinu. Nú í vikunni voru lagðir tollar á 200 milljarða dollara innflutning frá Kína. Þessi lönd hafa síðan svarað í sömu mynt. Með tollunum á að minnka viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína og flytja störf frá Kína til Bandaríkjanna. Ekki er líklegt að tollarnir bæti hag Bandaríkjanna. Í fyrsta lagi er verulegur hluti af innflultningi frá Kína framleiddur af bandarískum fyrirtækjum í Kína sem þá nota ódýrt vinnuafl. Farsímar Apple fyrirtækisins eru framleiddir í Kína og verða þá tollar til þess að hækka verð á þeim fyrir bandaríska neytendur. Í öðru lagi geta bandarísk fyrirtæki brugðist við tollunum með því að flytja framleiðslu til þriðja ríkis, t.d. Víetnam. Í þriðja lagi gætu þau flutt framleiðsluna til Bandaríkjanna en látið vélar og tölvur um framleiðsluna en ekki innlent vinnuafl.
Það sem mestu máli skiptir er þó að viðskiptahalli þjóðar felur í sér að hún eyðir um efni fram, þjóðarútgjöld eru meiri en þjóðarframleiðsla. Tollar breyta hér engu um. Viðskiptahalli Bandaríkjanna minnkar einungis ef Bandaríkjamenn fara að spara meira, opinber sparnaður er aukinn eða fjárfesting minnkar. Minni sparnaður í viðskiptalöndum hefur sömu áhrif, aukin útgjöld í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, myndi minnka viðskiptaafgang þess lands og þá einng viðskiptahalla Bandaríkjanna, sparnaður í síðarnefnda landinu myndi aukast. Skattalækkanir Trumps minnka opinberan sparnað sem að öðru óbreyttu eykur á viðskiptahallann.
Höfundur er prófessor í hagfræði. Lengri og ítarlegri útgáfa af greininni birtist í Vísbendingu sem kom til áskrifenda í dag, 28. september. Hér er hægt að gerast áskrifandi.