Bára Huld Beck

Hvernig ætla þingflokkarnir að bregðast við metoo-byltingunni?

Í kjölfar þúsunda undirskrifta kvenna – þar sem kynbundnu ofbeldi og áreitni var mótmælt – og hundraða frásagna sem fylgdu, hafa spurningar vaknað hvernig verkferlum sé háttað eftir metoo-byltinguna hjá fyrirtækjum og stofnunum. Kjarninn kannaði viðbrögð þingflokkanna við þessum vatnaskilum.

Konur úr öllum heims­hornum hafa greint frá og lýst reynslu sinni af kyn­bundnu ofbeldi, áreitni og mis­munun sem á sér stað. Íslenskar konur hafa gert slíkt hið sama en konur í stjórn­málum riðu á vaðið og mót­mæltu þess­ari menn­ingu þann 24. nóv­em­ber á síð­asta ári.

Síðan þá hefur fjöldi starfs­stétta og sam­fé­lags­hópa gefið út yfir­lýs­ingar þar sem kyn­ferð­is­legu áreiti, ofbeldi og mis­munun er mót­mælt. Krafan er skýr: Konur vilja breyt­ing­ar, að sam­fé­lagið við­ur­kenni vand­ann og hafna núver­andi ástandi. Þær krefj­ast þess að sam­verka­menn þeirra taki ábyrgð á gjörðum sínum og að verk­ferlar og við­bragðs­á­ætl­anir verði gang­sett­ar.

En hvernig hafa þing­flokkar á Alþingi brugð­ist við þessum umræð­um? Er allt við það sama eða hafa verk­ferlar og við­bragðs­á­ætl­anir verið settar í gagn­ið? Kjarn­inn sendi fyr­ir­spurn á alla flokk­ana og kom í ljós að mis­jafn­lega mikil vinna hafði verið lögð í breyt­ingar eftir metoo-um­ræðu síð­ustu miss­era.

Bættar siða­reglur á Alþingi

Sam­þykkt var þings­á­lykt­un­ar­til­laga í byrjun júní þar sem tvær breyt­ingar voru gerðar á siða­reglum alþing­is­manna og má draga þá ályktun að áhrif metoo-um­ræðna hafi átt þar stóran þátt. Þverpóli­tísk sátt var um málið þar sem flutn­ings­menn voru úr öllum flokk­um.

Í fyrsta lagi var lögð fram breyt­ing­ar­til­laga sem kveður á um að alþing­is­menn verði að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heil­brigt starfs­um­hverfi innan þings sem utan og hvar­vetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kyn­ferð­is­legri eða kyn­bund­inni áreitni, ein­elti eða annarri van­virð­andi fram­komu.

Í öðru lagi var lagt til að á eftir sjö­undu grein siða­regln­anna kæmi ný grein sem hljóðar svo: „Þing­menn skulu ekki sýna öðrum þing­mönn­um, starfs­mönnum þings­ins eða gestum kyn­ferð­is­lega eða kyn­bundna áreitni, leggja þá í ein­elti eða koma fram við þá á annan van­virð­andi hátt.“

Þing­flokkur Vinstri grænna seg­ist í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans að sjálf­sögðu fylgja almennum siða­reglum þing­manna og svo sé stjórn VG að vinna að verk­lags­reglum sem full­trúi þing­flokks tekur þátt í.

Nýjar verk­lags­reglur

Sam­kvæmt svari Pírata við fyr­ir­spurn Kjarn­ans hefur gras­rót flokks­ins ásamt ábyrgð­ar­að­ilum hans unnið að verk­lags­reglum um bann við áreitni frá því í jan­ú­ar, þar á meðal kyn­ferð­is­legu og kyn­bundnu áreitni og ofbeldi. Þær skil­greina brot­lega hegð­un, leiðir til að til­kynna um hana, rétt­láta máls­með­ferð fyrir bæði þolendur og meinta ger­end­ur, og við­ur­lög við brot­um.

Sú vinna er langt kom­in, segir í svar­inu, og er öllum boðið að taka þátt í þeirri vinnu. Þing­flokkur Pírata muni falla undir þær regl­ur. Í til­lög­unum sem í vinnslu eru segir meðal ann­ars: „Ein­stak­lingar sem telja sig þolendur ólög­mæts fram­ferðis eru hvattir til að bregð­ast við eins fljótt og auðið er. Þol­andi getur valið óform­legt eða form­legt ferli … Allar til­kynn­ingar og ásak­anir um ólög­mætt fram­ferði skulu með­höndl­aðar með var­færni til að vernda frið­helgi við­kom­andi ein­stak­linga og tryggja trúnað eins og auðið verð­ur.“

Einnig kemur fram að bregð­ast skuli taf­ar­laust og rögg­sam­lega við til­kynn­ingum og ásök­unum um ólög­mætt fram­ferði.

Misjafnlega mikil vinna hefur verið lögð í vinnureglur hjá þingflokkunum eftir metoo-umræður síðustu missera.
Bára Huld Beck

Sér­stök trún­að­ar­nefnd sett á fót

Sam­kvæmt þing­flokks­for­manni Sam­fylk­ing­ar­innar fer flokk­ur­inn eftir stefnu og verk­lags­reglum sem unnar hafa verið innan flokks­ins.

„Í kjöl­far metoo-­bylt­ing­ar­innar setti fram­kvæmda­stjórn Sam­fylk­ing­ar­innar á fót nefnd sem falið var að fara yfir verk­lag flokks­ins þegar upp koma áreitn­is-, ofbeld­is- eða ein­elt­is­mál. Reyndar hafði sú vinna farið af stað árið 2016 en þá var leitað til sér­fræð­inga um mál­efn­ið. Afrakst­ur­inn af vinnu nefnd­ar­innar var upp­færðar siða­reglur flokks­ins, stefna gegn ein­elti og áreitni og verk­lags­reglur um með­ferð mála. Þessi skjöl voru sam­þykkt ein­róma á lands­fundi flokks­ins í mar­s,“ segir í svari þing­flokks­ins. Með sam­þykkt lands­fundar og inn­leið­ing­ar­vinnu fram­kvæmda­stjórnar séu þessi þrjú skjöl nú í fullu gildi.

Meðal þess sem inn­leið­ing þessa nýja verk­lags felur í sér er að til starfa tekur trún­að­ar­nefnd Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Trún­að­ar­nefnd­inni ber skylda til að taka til umfjöll­unar öll áreit­is-, ofbeld­is- eða ein­elt­is­mál sem inn á borð hennar koma, óháð umfangi eða aldri erind­is­ins. Nefndin fjallar um erindi á trún­að­ar­fundum sín­um, og grípur til við­eig­andi ráð­staf­ana í sam­ræmi við verk­lagið og lög og reglur flokks­ins. Jafn­framt kemur fram að tölvu­póstur sem sendur er á net­fangið truna­dur@­sam­fylk­ing.is muni sjálf­virkt ber­ast öllum þremur nefnd­ar­mönn­um, sem taki erindið í kjöl­farið til umfjöll­un­ar.

Enn fremur segir í svari Sam­fylk­ing­ar­innar að til starfa taki tveir trún­að­ar­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Hægt sé að hafa sam­band við trún­að­ar­menn vilji fólk ekki senda erindi sitt beint til trún­að­ar­nefnd­ar­innar eða vilji ráð­færa sig við ein­hvern í trún­aði um næstu skref.

Trún­að­ar­ráð tekur við málum

Í svari frá Við­reisn segir að flokk­ur­inn standi heils­hugar að baki þeim konum sem rofið hafa þögn­ina um kyn­ferð­is­legt áreiti, ofbeldi og vald­beit­ingu.

„Í tengslum við metoo-um­ræð­una var ákveðið á Lands­þingi Við­reisnar í mars sl. að setja á lagg­irnar sér­stakt trún­að­ar­ráð innan flokks­ins. Mark­miðið er að tryggja að komi sú staða upp að félags­fólk Við­reisnar verði fyrir beinni eða óbeinni mis­mun­un, kyn­bund­inni áreitni, kyn­ferð­is­legri áreitni, kyn­bundnu ofbeldi eða ein­elti í tengslum við störf sín í flokknum verði tekið á því af festu af óháðum og til þess bærum aðil­u­m,“ segir í svar­inu.

Trún­að­ar­ráð taki þannig við mál­um, meti, komi í við­eig­andi far­veg og fylgi eftir til­kynn­ingum sem ráð­inu ber­ast og tryggi að þær fái við­eig­andi með­ferð sam­kvæmt verk­lags­reglum ráðs­ins. Þeir ein­stak­lingar sem sitja í trún­að­ar­ráð­inu eru – ásamt fram­kvæmda­stjóra Við­reisnar – full­trúar í sam­starfs­hópi allra stjórn­mála­flokka sem eiga full­trúa á Alþingi, þar sem stefnt er að því að vinna sam­eig­in­lega að hand­bók og vinnu­lagi um mál sem geta fallið undir slík ráð. Þá er hóp­ur­inn að vinna að siða­reglum fyrir flokk­ana.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn tekur þátt í starfi stjórn­mála­flokk­anna og er með full­trúa í vinnu sem fer fram á þeim vett­vangi, segir í svari þing­flokks­ins. Auk þess hafi fram­kvæmda­stjórn og þing­flokkur fundað um þessi mál og umræða um þessi mál farið fram á Flokks­þingi.

Birgir Þór Harðarson

Trún­að­ar­ráðs­menn skip­aðir í haust

Mið­flokk­ur­inn sam­þykkti á sínu fyrsta lands­þingi sem haldið var nú í vor að í lögum flokks­ins skyldi vera ákvæði um sam­skipti flokks­manna. Í lög­unum er fjallað meðal ann­ars um skipan trún­að­ar­ráðs­manna en það mun verða gert í haust á fyrsta fundi flokks­ráðs, sam­kvæmt svörum frá Mið­flokkn­um.

„Flokks­ráð Mið­flokks­ins skipar tvo trún­að­ar­menn, ekki sam­kynja, í trún­að­ar­ráð. Full­trúar í trún­að­ar­ráði geta verið úr sama kjör­dæmi en skulu ekki tengj­ast að öðru leyti. Trún­að­ar­ráð skal setja sér verk­lags­reglur og leggja fyrir stjórn flokks­ins til sam­þykkt­ar. Verk­lags­regl­urnar skulu birtar á heima­síðu flokks­ins,“ segir í lögum Mið­flokks­ins.

Segir enn fremur að trún­að­ar­ráð taki við ábend­ingum frá félags­mönnum vegna sam­skipta­vanda innan Mið­flokks­ins, svo sem ein­elti, áreitni, ofbeldi eða mis­mun­un. Trún­að­ar­ráði beri að gera stjórn flokks­ins við­vart þegar ábend­ing berst frá félags­manni og taka mál við­kom­andi fyr­ir, leita lausna eða og koma því í réttan far­veg til úrlausnar hjá við­eig­andi sér­fróðum aðilum eftir því sem við á. Trún­að­ar­ráð, stjórn eða máls­að­ilar geti óskað eftir því að sér­fróður aðili sé kall­aður til sem odda­maður trún­að­ar­ráðs ger­ist þess þörf.

Trún­að­ar­menn skuli gæta fyllsta trún­aðar við störf sín. Þeir skuli upp­lýsa þann sem kvartað er yfir um eðli kvört­un­ar­innar og gefa við­kom­andi færi til and­mæla. Kom­ist trún­að­ar­menn að þeirri nið­ur­stöðu að flokks­maður hafi brotið gegn reglum þessum skuli honum umsvifa­laust vikið úr flokkn­um.

Tóku þátt í umræðu­degi

Í svari þing­flokks Flokks fólks­ins segir að þau hafi rætt málið í sínum hópi síð­asta vetur og tekið þátt í umræðum á Alþingi. Þing­flokk­ur­inn hafi jafn­framt tekið þátt í umræðu­degi sem efnt var til af þessu til­efni á Alþingi.

„Þing­flokk­ur­inn hafnar allri mis­munum og áreitni í garð ann­ars fólks og virðir rétt beggja kynja til að lifa sínu lífi án áreit­is,“ segir í svar­inu en þar kemur enn fremur fram að á vett­vangi þing­flokks­ins hafi verk­lags­reglur um þetta efni ekki verið samd­ar.

Þing­flokkur sjálf­stæð­is­manna hefur sem slíkur ekki sett sér neinar reglur að þessu leyti en full­trúar þing­flokks­ins hafa hins vegar tekið þátt í þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum Alþingis á þessu sviði, bæði varð­andi breyt­ingar á siða­reglum og hvernig brugð­ist skuli við innan þings­ins þegar til­felli af þessu tagi koma upp, segir í svari Sjálf­stæð­is­flokks­ins við fyr­ir­spurn­inni.

„Þá skip­aði mið­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks­ins nefnd fyrr á árinu til að fara yfir stöðu þess­ara mála í flokks­starf­inu og til að und­ir­búa til­lögur um verk­ferla, við­bragðs­á­ætl­anir og aðrar aðgerðir að þessu leyti innan flokks­ins. Sú vinna nær auð­vitað til þing­flokks­ins eins og ann­arra stofn­ana flokks­ins. Loks hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn að sjálf­sögðu tekið þátt í sam­starfi stjórn­mála­flokk­anna á þessu sviði, sem meðal ann­ars hefur birst í funda- og ráð­stefnu­haldi um þessi mál.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar