Bára Huld Beck

Hvernig ætla þingflokkarnir að bregðast við metoo-byltingunni?

Í kjölfar þúsunda undirskrifta kvenna – þar sem kynbundnu ofbeldi og áreitni var mótmælt – og hundraða frásagna sem fylgdu, hafa spurningar vaknað hvernig verkferlum sé háttað eftir metoo-byltinguna hjá fyrirtækjum og stofnunum. Kjarninn kannaði viðbrögð þingflokkanna við þessum vatnaskilum.

Konur úr öllum heims­hornum hafa greint frá og lýst reynslu sinni af kyn­bundnu ofbeldi, áreitni og mis­munun sem á sér stað. Íslenskar konur hafa gert slíkt hið sama en konur í stjórn­málum riðu á vaðið og mót­mæltu þess­ari menn­ingu þann 24. nóv­em­ber á síð­asta ári.

Síðan þá hefur fjöldi starfs­stétta og sam­fé­lags­hópa gefið út yfir­lýs­ingar þar sem kyn­ferð­is­legu áreiti, ofbeldi og mis­munun er mót­mælt. Krafan er skýr: Konur vilja breyt­ing­ar, að sam­fé­lagið við­ur­kenni vand­ann og hafna núver­andi ástandi. Þær krefj­ast þess að sam­verka­menn þeirra taki ábyrgð á gjörðum sínum og að verk­ferlar og við­bragðs­á­ætl­anir verði gang­sett­ar.

En hvernig hafa þing­flokkar á Alþingi brugð­ist við þessum umræð­um? Er allt við það sama eða hafa verk­ferlar og við­bragðs­á­ætl­anir verið settar í gagn­ið? Kjarn­inn sendi fyr­ir­spurn á alla flokk­ana og kom í ljós að mis­jafn­lega mikil vinna hafði verið lögð í breyt­ingar eftir metoo-um­ræðu síð­ustu miss­era.

Bættar siða­reglur á Alþingi

Sam­þykkt var þings­á­lykt­un­ar­til­laga í byrjun júní þar sem tvær breyt­ingar voru gerðar á siða­reglum alþing­is­manna og má draga þá ályktun að áhrif metoo-um­ræðna hafi átt þar stóran þátt. Þverpóli­tísk sátt var um málið þar sem flutn­ings­menn voru úr öllum flokk­um.

Í fyrsta lagi var lögð fram breyt­ing­ar­til­laga sem kveður á um að alþing­is­menn verði að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heil­brigt starfs­um­hverfi innan þings sem utan og hvar­vetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kyn­ferð­is­legri eða kyn­bund­inni áreitni, ein­elti eða annarri van­virð­andi fram­komu.

Í öðru lagi var lagt til að á eftir sjö­undu grein siða­regln­anna kæmi ný grein sem hljóðar svo: „Þing­menn skulu ekki sýna öðrum þing­mönn­um, starfs­mönnum þings­ins eða gestum kyn­ferð­is­lega eða kyn­bundna áreitni, leggja þá í ein­elti eða koma fram við þá á annan van­virð­andi hátt.“

Þing­flokkur Vinstri grænna seg­ist í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans að sjálf­sögðu fylgja almennum siða­reglum þing­manna og svo sé stjórn VG að vinna að verk­lags­reglum sem full­trúi þing­flokks tekur þátt í.

Nýjar verk­lags­reglur

Sam­kvæmt svari Pírata við fyr­ir­spurn Kjarn­ans hefur gras­rót flokks­ins ásamt ábyrgð­ar­að­ilum hans unnið að verk­lags­reglum um bann við áreitni frá því í jan­ú­ar, þar á meðal kyn­ferð­is­legu og kyn­bundnu áreitni og ofbeldi. Þær skil­greina brot­lega hegð­un, leiðir til að til­kynna um hana, rétt­láta máls­með­ferð fyrir bæði þolendur og meinta ger­end­ur, og við­ur­lög við brot­um.

Sú vinna er langt kom­in, segir í svar­inu, og er öllum boðið að taka þátt í þeirri vinnu. Þing­flokkur Pírata muni falla undir þær regl­ur. Í til­lög­unum sem í vinnslu eru segir meðal ann­ars: „Ein­stak­lingar sem telja sig þolendur ólög­mæts fram­ferðis eru hvattir til að bregð­ast við eins fljótt og auðið er. Þol­andi getur valið óform­legt eða form­legt ferli … Allar til­kynn­ingar og ásak­anir um ólög­mætt fram­ferði skulu með­höndl­aðar með var­færni til að vernda frið­helgi við­kom­andi ein­stak­linga og tryggja trúnað eins og auðið verð­ur.“

Einnig kemur fram að bregð­ast skuli taf­ar­laust og rögg­sam­lega við til­kynn­ingum og ásök­unum um ólög­mætt fram­ferði.

Misjafnlega mikil vinna hefur verið lögð í vinnureglur hjá þingflokkunum eftir metoo-umræður síðustu missera.
Bára Huld Beck

Sér­stök trún­að­ar­nefnd sett á fót

Sam­kvæmt þing­flokks­for­manni Sam­fylk­ing­ar­innar fer flokk­ur­inn eftir stefnu og verk­lags­reglum sem unnar hafa verið innan flokks­ins.

„Í kjöl­far metoo-­bylt­ing­ar­innar setti fram­kvæmda­stjórn Sam­fylk­ing­ar­innar á fót nefnd sem falið var að fara yfir verk­lag flokks­ins þegar upp koma áreitn­is-, ofbeld­is- eða ein­elt­is­mál. Reyndar hafði sú vinna farið af stað árið 2016 en þá var leitað til sér­fræð­inga um mál­efn­ið. Afrakst­ur­inn af vinnu nefnd­ar­innar var upp­færðar siða­reglur flokks­ins, stefna gegn ein­elti og áreitni og verk­lags­reglur um með­ferð mála. Þessi skjöl voru sam­þykkt ein­róma á lands­fundi flokks­ins í mar­s,“ segir í svari þing­flokks­ins. Með sam­þykkt lands­fundar og inn­leið­ing­ar­vinnu fram­kvæmda­stjórnar séu þessi þrjú skjöl nú í fullu gildi.

Meðal þess sem inn­leið­ing þessa nýja verk­lags felur í sér er að til starfa tekur trún­að­ar­nefnd Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Trún­að­ar­nefnd­inni ber skylda til að taka til umfjöll­unar öll áreit­is-, ofbeld­is- eða ein­elt­is­mál sem inn á borð hennar koma, óháð umfangi eða aldri erind­is­ins. Nefndin fjallar um erindi á trún­að­ar­fundum sín­um, og grípur til við­eig­andi ráð­staf­ana í sam­ræmi við verk­lagið og lög og reglur flokks­ins. Jafn­framt kemur fram að tölvu­póstur sem sendur er á net­fangið truna­dur@­sam­fylk­ing.is muni sjálf­virkt ber­ast öllum þremur nefnd­ar­mönn­um, sem taki erindið í kjöl­farið til umfjöll­un­ar.

Enn fremur segir í svari Sam­fylk­ing­ar­innar að til starfa taki tveir trún­að­ar­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Hægt sé að hafa sam­band við trún­að­ar­menn vilji fólk ekki senda erindi sitt beint til trún­að­ar­nefnd­ar­innar eða vilji ráð­færa sig við ein­hvern í trún­aði um næstu skref.

Trún­að­ar­ráð tekur við málum

Í svari frá Við­reisn segir að flokk­ur­inn standi heils­hugar að baki þeim konum sem rofið hafa þögn­ina um kyn­ferð­is­legt áreiti, ofbeldi og vald­beit­ingu.

„Í tengslum við metoo-um­ræð­una var ákveðið á Lands­þingi Við­reisnar í mars sl. að setja á lagg­irnar sér­stakt trún­að­ar­ráð innan flokks­ins. Mark­miðið er að tryggja að komi sú staða upp að félags­fólk Við­reisnar verði fyrir beinni eða óbeinni mis­mun­un, kyn­bund­inni áreitni, kyn­ferð­is­legri áreitni, kyn­bundnu ofbeldi eða ein­elti í tengslum við störf sín í flokknum verði tekið á því af festu af óháðum og til þess bærum aðil­u­m,“ segir í svar­inu.

Trún­að­ar­ráð taki þannig við mál­um, meti, komi í við­eig­andi far­veg og fylgi eftir til­kynn­ingum sem ráð­inu ber­ast og tryggi að þær fái við­eig­andi með­ferð sam­kvæmt verk­lags­reglum ráðs­ins. Þeir ein­stak­lingar sem sitja í trún­að­ar­ráð­inu eru – ásamt fram­kvæmda­stjóra Við­reisnar – full­trúar í sam­starfs­hópi allra stjórn­mála­flokka sem eiga full­trúa á Alþingi, þar sem stefnt er að því að vinna sam­eig­in­lega að hand­bók og vinnu­lagi um mál sem geta fallið undir slík ráð. Þá er hóp­ur­inn að vinna að siða­reglum fyrir flokk­ana.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn tekur þátt í starfi stjórn­mála­flokk­anna og er með full­trúa í vinnu sem fer fram á þeim vett­vangi, segir í svari þing­flokks­ins. Auk þess hafi fram­kvæmda­stjórn og þing­flokkur fundað um þessi mál og umræða um þessi mál farið fram á Flokks­þingi.

Birgir Þór Harðarson

Trún­að­ar­ráðs­menn skip­aðir í haust

Mið­flokk­ur­inn sam­þykkti á sínu fyrsta lands­þingi sem haldið var nú í vor að í lögum flokks­ins skyldi vera ákvæði um sam­skipti flokks­manna. Í lög­unum er fjallað meðal ann­ars um skipan trún­að­ar­ráðs­manna en það mun verða gert í haust á fyrsta fundi flokks­ráðs, sam­kvæmt svörum frá Mið­flokkn­um.

„Flokks­ráð Mið­flokks­ins skipar tvo trún­að­ar­menn, ekki sam­kynja, í trún­að­ar­ráð. Full­trúar í trún­að­ar­ráði geta verið úr sama kjör­dæmi en skulu ekki tengj­ast að öðru leyti. Trún­að­ar­ráð skal setja sér verk­lags­reglur og leggja fyrir stjórn flokks­ins til sam­þykkt­ar. Verk­lags­regl­urnar skulu birtar á heima­síðu flokks­ins,“ segir í lögum Mið­flokks­ins.

Segir enn fremur að trún­að­ar­ráð taki við ábend­ingum frá félags­mönnum vegna sam­skipta­vanda innan Mið­flokks­ins, svo sem ein­elti, áreitni, ofbeldi eða mis­mun­un. Trún­að­ar­ráði beri að gera stjórn flokks­ins við­vart þegar ábend­ing berst frá félags­manni og taka mál við­kom­andi fyr­ir, leita lausna eða og koma því í réttan far­veg til úrlausnar hjá við­eig­andi sér­fróðum aðilum eftir því sem við á. Trún­að­ar­ráð, stjórn eða máls­að­ilar geti óskað eftir því að sér­fróður aðili sé kall­aður til sem odda­maður trún­að­ar­ráðs ger­ist þess þörf.

Trún­að­ar­menn skuli gæta fyllsta trún­aðar við störf sín. Þeir skuli upp­lýsa þann sem kvartað er yfir um eðli kvört­un­ar­innar og gefa við­kom­andi færi til and­mæla. Kom­ist trún­að­ar­menn að þeirri nið­ur­stöðu að flokks­maður hafi brotið gegn reglum þessum skuli honum umsvifa­laust vikið úr flokkn­um.

Tóku þátt í umræðu­degi

Í svari þing­flokks Flokks fólks­ins segir að þau hafi rætt málið í sínum hópi síð­asta vetur og tekið þátt í umræðum á Alþingi. Þing­flokk­ur­inn hafi jafn­framt tekið þátt í umræðu­degi sem efnt var til af þessu til­efni á Alþingi.

„Þing­flokk­ur­inn hafnar allri mis­munum og áreitni í garð ann­ars fólks og virðir rétt beggja kynja til að lifa sínu lífi án áreit­is,“ segir í svar­inu en þar kemur enn fremur fram að á vett­vangi þing­flokks­ins hafi verk­lags­reglur um þetta efni ekki verið samd­ar.

Þing­flokkur sjálf­stæð­is­manna hefur sem slíkur ekki sett sér neinar reglur að þessu leyti en full­trúar þing­flokks­ins hafa hins vegar tekið þátt í þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum Alþingis á þessu sviði, bæði varð­andi breyt­ingar á siða­reglum og hvernig brugð­ist skuli við innan þings­ins þegar til­felli af þessu tagi koma upp, segir í svari Sjálf­stæð­is­flokks­ins við fyr­ir­spurn­inni.

„Þá skip­aði mið­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks­ins nefnd fyrr á árinu til að fara yfir stöðu þess­ara mála í flokks­starf­inu og til að und­ir­búa til­lögur um verk­ferla, við­bragðs­á­ætl­anir og aðrar aðgerðir að þessu leyti innan flokks­ins. Sú vinna nær auð­vitað til þing­flokks­ins eins og ann­arra stofn­ana flokks­ins. Loks hefur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn að sjálf­sögðu tekið þátt í sam­starfi stjórn­mála­flokk­anna á þessu sviði, sem meðal ann­ars hefur birst í funda- og ráð­stefnu­haldi um þessi mál.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar